Leita í fréttum mbl.is

Siðferðisstaða Framsóknarflokksins ?

 

Það hendir víst margan manninn að ætla sér ýmislegt sem svo reynist óframkvæmanlegt. Það var meining mín að skrifa pistil um það sem felst í fyrirsögninni, en svo áttaði ég mig á að í því sambandi virðist lítið sem ekkert efni til.

Það er einfaldlega ekki hægt að skrifa um eitthvað sem virðist ekki lengur vera fyrir hendi eða finnast áþreifanlega í umræðu dagsins !

 

Það sýnist þó blasa við að Framsóknarmenn í Norðausturkjördæmi hafi tapað einhverju frá sér sem öllum mönnum hefur hingað til verið nokkuð annt um að hafa í sínum fórum. Þetta nauðsynlega fararefni á lífsleiðinni virðist hafa orðið alveg viðskila við hugarfar manna þeirra sem funduðu nýlega á flokksins vegum í Mývatnssveit og vonandi er það ekki ávísun á meira af slíkum ófögnuði !

 

Manni sem ekki var stætt á því að vera forsætisráðherra, vegna þess að orð og gerðir fóru ekki saman hjá honum, og neyddist til að segja af sér, er gefin traustsyfirlýsing og þeir sem það gerðu virðast telja allt í lagi fyrir Framsóknarflokkinn að ganga til kosninga undir forustu hans.

Það segir ljóslega sitt um ýmislegt sem áður var bara óljós grunur manna og margir vildu ekki trúa og opinberar jafnframt óvenju kaldrifjaðan og tækifærissinnaðan tvískinnung !

 

Ef Framsóknarflokkurinn fær góða útkomu í væntanlegum kosningum mun það líklega gefa sterkar vísbendingar um það að nokkur hluti kjósenda sé ekki betur staddur í vissum efnum en meirihluti Framsóknarmanna í áðurnefndu kjördæmi, og vissulega væri það dapurlegt í andlegum skilningi hvað þjóðina varðar ef það kæmi á daginn. Ef Framsóknarflokkurinn fer hinsvegar illa út úr komandi kosningum, undir óbreyttri forustu, þurfa menn ekki að fara í grafgötur með ástæðuna !

 

Það skiptir auðvitað heilmiklu hvaða kröfur við gerum sem kjósendur í þessu landi til kjörinna fulltrúa okkar á þingi sem og þeirra sem starfa fyrir okkur annarsstaðar í ríkiskerfinu. Ef viðmið okkar í siðferðilegum efnum ganga til baka skapar það óhjákvæmilega gildisfall sem skaðar samfélagið allt – ekki síst til lengri tíma litið.

 

Framsóknarflokkurinn getur ekki fremur en aðrir flokkar – þó ekki væri nema sjálfs sín vegna – haldið áfram með sama formann við stýrið eftir það sem á undan er gengið, því það mun kalla á viðvarandi innanskömm í flokknum. Þetta er sumum flokksmönnum ljóst, einkum þeim sem annt er um flokkinn í raun og veru !

 

En menn sem eru í flokknum sem 99,9% innanklúbbsmenn og horfa á öll mál í gegnum þröngt skráargat flokkslegra eiginhagsmuna og sérhyggju, sjá þetta ekki. Þeir virðast ekki skilja að Framsóknarflokkurinn er og á að vera hluti af íslensku samfélagi og hefur siðferðilegar skyldur í því sambandi. Ef siðagildi flokksins eru verðfelld mun það hafa sín áhrif á samfélagið í heild og ekki til góðs !

Flokkurinn hefur síðustu mánuðina verið undir forustu tveggja manna, annar virðist hafa alla burði til að veita flokknum þá forustu sem eðlileg þörf er á, en hinn er persónulega laskaður vegna trúnaðarbrests og sú löskun getur auðveldlega færst yfir á flokkinn ef flokksmenn ætla sér með hrokafullum hætti að lúta forustu hans áfram !

 

Annaðhvort stíga menn til hliðar eða ekki !!!

 


Bloggfærslur 18. september 2016

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 169
  • Sl. sólarhring: 355
  • Sl. viku: 1190
  • Frá upphafi: 309884

Annað

  • Innlit í dag: 156
  • Innlit sl. viku: 1022
  • Gestir í dag: 156
  • IP-tölur í dag: 155

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband