Leita í fréttum mbl.is

Að vera fræðingur í Guði !

 

Margt læra menn á lífsleiðinni og skóli lífsins sem svo er kallaður er þar líklega reynslubestur, en þar fyrir utan eru skólarnir margir og námsefnið misjafnlega gildisríkt eins og gengur. Menn læra og taka sín próf og verða svo skilgreindir sem fræðingar í þessu og hinu og eru það kannski sumir hverjir. En það sem hlýtur að toppa allt í fræðilegu hroka-tilliti hlýtur að vera sú menntunarlega kerfisniðurstaða að menn geti orðið fræðingar í Guði !

 

Guð er sú ofurstærð hins lifandi alheims sem enginn maður nær að höndla með sjálfum sér eða öðrum, hvað þá að menn geti orðið fræðingar á sviði þekkingar á Guði. Mikilleiki Guðs er slíkur og hlýtur að vera slíkur, að það er ógjörningur fyrir manninn í smæð sinni að skilja hann og meðtaka. Þeir sem telja sig gera það í gegnum einhverja skólafræði eru bara að búa til mannasetninga-guðfræði sem á ekkert skylt við þá opinberun sem sumum hefur verið gefin af Almættinu og felst í því meðal annars að fá guðlega innsýn til æðri sviða !

 

Það er einkar athyglisvert hvernig Guð fer að þegar hann leitar sérstaks sambands við mennina. Hann finnur boðbera sína alltaf meðal hinna auðmjúku og lítillátu og á vissulega margan þann gimstein sem glóir í mannsorpinu. Við getum rakið það ferli allt frá guðsmönnum og spámönnum gamla Testamentisins til fiskimannanna í Galíleu og allar götur áfram til Bernadettu í Lourdes og annarra sem fengið hafa guðlegar opinberanir. Guð leitar aldrei til guðfræðinga !

 

Ef svo ólíklega vildi til að hann myndi setja sig í samband við guðfræðing varðandi eitthvert mál, er næsta víst að sá hinn sami myndi undireins vilja hafa hlutina einhvernveginn öðruvísi. Hann væri ekki tilbúinn að hlaupa af stað með eitthvað bara vegna þess að Guð hefði sagt það, hann myndi vilja rökræða hlutina út frá sínum lærdómi og sinni menntun. Slík afstaða sýnir meðal annars hversvegna guðfræðingar geta ekki orðið boðberar guðlegra sanninda. Þeir eru allir í mannasetningunum eins og Farísearnir á dögum Krists !

 

Guðfræði er leið misviturra manna til að koma böndum á það óbindanlega. Það virðist vera svo að hin lærða skólaspeki þoli það ekki að það skuli ekki vera í raun nein goggunarröð varðandi þann aðgang sem menn geta haft að Guði.

Hvað eftir annað hefur Guð í útvalningu gengið framhjá skóluðum fræðimönnum og kerfislegum vitringum – guðfræðingum allra alda, hann hefur aldrei getað notað þetta lið fyrir sitt málefni því það er allt forritað og saumað í gegn af menntahroka og mannasetningum og snýst um ás sjálfhverfunnar og goggunarröð mannvirðinga !

 

Allar kirkjudeildir hafa smitast af kerfisbundnu guðleysi. Eftir því sem guðfræðin eykur vald sitt í huga mannsins eftir því minnkar trúin þar á sjálfstæði guðdómsins.

Ef við til dæmis lítum á kaþólsku kirkjuna, á hún lengsta sögu að baki og sú saga er - því miður og vægast sagt - ljót á köflum. Enn virðast þó margir kjósa að líta framhjá þeim veraldar viðbjóði og falla þess í stað fyrir ytri búnaði valds og tignar !

 

Sú var tíðin að forsvarsmenn Rómarkirkjunnar töldu allt leyfilegt til að efla vald kirkjunnar og má þar vísa til ummæla Dietrichs von Nieheim biskups sem segir á einum stað í ritum sínum: “ Þegar tilveru kirkjunnar er háski búinn er hún ekki bundin af siðgæðiskröfum.” Þar segir í raun að páfavaldinu leyfist allt !

 

Þannig töluðu pápistar um aldamótin 1400 og virtust ekki hafa neina hugmynd um kærleikskenningar Jesú Krists. Þeim virtist bara umhugað um að varðveita vald kirkjunnar sem var á þeim tíma ekkert nema andlegt og efnislegt harðstjórnarvald.

Þegar stofnunar-andinn tekur yfir í hugum manna er þar ekki lengur trúar að vænta, öll lífsmörk verða þar  efnishyggjuleg og sálarvana - andlega talað - frosin !

 

Það er í hæsta máta umhugsunarvert hvernig kirkjukreddur og prestaskólakenningar hafa oft leikið illa fólk sem var í upphafi innilega trúað og kaþólsk uppfræðsla í þeim efnum á sér þar auðvitað lengstu söguna. Þar var alltaf hamrað á því að menn ættu að hlýða páfanum umfram allt og sú hlýðnisskylda átti að gilda meira en samviska manna og réttlætistilfinning !

 

Siðbótin kom ekki vegna þess að hún væri ástæðulaus. Hún kom vegna knýjandi þarfar. Fólki leið illa undir ofurvaldi Rómarkirkjunnar sem lagði alla frjálsa hugsun í bönd. En jafnvel forustumenn siðbótarinnar voru fyrrverandi pápistar og flestir þeirra gátu ekki stigið skrefið nema til hálfs. Því var siðbótarverkið aldrei klárað !

 

Og nú er kaþólska kirkjan að reyna í gegnum samkirkjuleg tengsl að þurrka siðbótina út og færa allt á ný undir sitt gamla vald sem á rætur sínar í myrkviðum miðaldanna. Þar er hættulegt ferli farið af stað og full þörf að standa vörð um það litla ljós sem vannst þó á sínum tíma fyrir tilverknað siðbótarmannanna.

 

Verum minnug þess - og vakandi fyrir þeirri staðreynd, að innankirkju guðleysingjar eru alltaf mun hættulegri en utankirkju guðleysingjar. Samviska manna verður ætíð að fá að eiga sitt frelsi og hún á að vera ábyrg gagnvart Guði einum !

 


Bloggfærslur 19. ágúst 2017

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 155
  • Sl. sólarhring: 341
  • Sl. viku: 1176
  • Frá upphafi: 309870

Annað

  • Innlit í dag: 142
  • Innlit sl. viku: 1008
  • Gestir í dag: 142
  • IP-tölur í dag: 141

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband