Leita í fréttum mbl.is

Nokkur orð um forsetakjör !

Það fer ekki leynt að það virðast ýmsir vilja taka að sér að gegna embætti forseta Íslands. Sumir hafa þegar gefið kost á sér og aðrir segjast vera að hugsa málið. Eftir því sem frambjóðendum fjölgar kemur alltaf betur og betur í ljós hvað sú aðferð að kjósa forseta landsins í einni umferð er vitlaus og lýðræðislega skökk. Auðvitað þurfa að vera tvær umferðir og kjósa í þeirri seinni milli þeirra tveggja sem hæsta atkvæðatölu fá í fyrri umferðinni. Þá er það nánast tryggt að forsetinn verður kosinn með meirihluta atkvæða á bak við sig og lýðræðislegu valdi hans gefinn traustur bakgrunnur.

Það ættu allir sæmilega skynsamir menn að geta séð að ein umferð þar sem margir frambjóðendur eru í kjöri, getur leitt til þess að forsetinn verði kosinn með algjörum minnihluta atkvæða og það jafnvel þessvegna allt niður í 15%, svo valdsumboð hans frá þjóðinni verður afskaplega veikt. Og þá er eðlilegt að spurt sé hverjum það sé eiginlega í hag að hafa svona heimskulegar kosningareglur við forsetakjör ? Hverjir vilja hafa hér forseta sem fær svo veikt umboð að hann mun ekki geta staðið í lappirnar ?

Ef það væri einhver bakfiskur í löggjafarsamkundunni væri auðvitað búið að breyta reglunum til samræmis við eðlilegt lýðræðislegt kjör. En alþingismenn virðast yfirleitt vera með hugann annars staðar en hann ætti að vera. Þeir pæla helst í einhverjum smámálum tengdum tískumenningar-uppátækjum, en geta hvorki tekið á heilbrigðismálum þjóðarinnar sem eru í ólestri eða flugvallarstaðsetningu svo eitthvað sé nefnt. Stóru málin bíða og staðan versnar varðandi lausn þeirra meðan röflað er fram og aftur um ómerkileg auka-atriði og snobbmenningar-tengdan tittlingaskít !

Það er hinsvegar frómt frá sagt fullkominn vansi að þessari brotalöm lýðræðisins hjá okkur sem felst í núverandi reglum um forsetakjör og eins því að menn sem verða ráðherrar sitji líka sem þingmenn og séu þannig bæði fulltrúar framkvæmdavaldsins og löggjafarvaldsins. Það undrar mann eiginlega mest að þeir skuli ekki líka vera gerðir að hæstaréttardómurum svo þeir geti verið með allt kerfisklabbið í eigin höndum. Sjálfsagt eru þeir til sem myndu vilja flokka slíkt fyrirkomulag undir kerfislega hagræðingu og einföldun valdsins, en lýðræðislegt verður það aldrei !

Það er líka að mínu mati úrelt regla að gera alla kjörgenga til embættis forseta Íslands 35 ára gamla. Hækka þarf umsvifalaust þann aldur upp í 50 ár. Við þurfum að hafa reynslubolta í þessu embætti, ekki einhvern nýskriðinn út úr háskóla með gráðu í farteskinu og lítið annað. Við þurfum helst að vita einhver deili á þeim sem býður sig fram, þekkja hann af góðum verkum o.s.frv. Sá sem orðinn er 50 ára ætti að geta átt einhvern marktækan feril að baki sem segir væntanlega sitt um kosti hans og hæfileika. Enginn hefur heldur verið kosinn forseti til þessa yngri en fimmtugur !

Það er líka atriði í því að hækka kjöraldur forsetans, að það ætti líklega að geta komið í veg fyrir að við séum hugsanlega með þrjá til fjóra forseta á eftirlaunum. Við getum ekki verið með slíka kostnaðarliði gangandi á meðal okkar til fleiri ára í margföldum mæli. Það hefur nefnilega verið séð til þess að eftirlaun háttsettra embættismanna ríkisins séu rífleg svo ekki sé meira sagt !

Einnig tel ég að það þurfi að hækka tölu meðmælenda með forsetaframboði úr 1500 undirskriftum í 5000. Slíkar tölur þarf auðvitað að uppfæra eftir því sem þjóðfélagið breytist varðandi mannfjölda og annað. Það er augljóst að einhver sprellikarl gæti sem best safnað 1500 undirskriftum í Reykjavík 101 bara til að „gera at“ eins og sumir kalla það. Það má ekki gera það allt of auðvelt fyrir slíka aðila að leika sér með það að gera lýðræðinu óleik. Kosningar eru almannaréttindi sem ber að umgangast með tilhlýðilegri virðingu.

Forsetinn er æðsti þjónustumaður þjóðarinnar í þessu landi og almenningur borgar laun hans sem og annarra vakthafandi embættismanna. Reglur varðandi kjör hans eiga að ríma við ráðdeild og eðlilegt lýðræðislegt skipulag eins og best verður séð á hverjum tíma. Við eigum aldrei að festa okkur við úrelt skipulag þegar ljóst er að betri kostir bjóðast til áframhaldandi þroskaleiðar.

Við Íslendingar þurfum umfram allt að eiga raunhæft val við forsetakjör þegar sú skylda hvílir á okkur. Forsetakjör er lýðræðislegur skyldugjörningur en ekki skemmtiþáttur. Það er leitt til þess að vita að sumir virðast gefa kost á sér til kjörs eingöngu til að auglýsa sjálfa sig og vekja athygli. Þar getur verið um að ræða einstaklinga sem eiga ekki nokkra möguleika á því að verða kjörnir í embættið. Við ættum öll að vera farin að þekkja þá sögu.

En það er óhjákvæmileg fylgja lýðræðisins að sá réttur hvers einstaklings sem í boði er gegnum það, er líka gefinn þeim sem kunna kannski ekki með hann að fara. Við verðum að búa við það, en jafnframt hafa þá dómgreind til að bera - að kjósa forseta hverju sinni af ábyrgð og hollustu gagnvart heilbrigðum gildum og framtíðarhagsmunum lands og þjóðar !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 25
  • Sl. sólarhring: 269
  • Sl. viku: 1275
  • Frá upphafi: 316665

Annað

  • Innlit í dag: 24
  • Innlit sl. viku: 1003
  • Gestir í dag: 24
  • IP-tölur í dag: 24

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband