Leita í fréttum mbl.is

Tveggja hækju stjórn !

 

Margt breytist í veröldinni bæði hérlendis og erlendis. Allt að því 25% af kjörfylgi í þingkosningum hér virðist hætt að vera fast flokksfylgi og sveiflast til eftir því hver best býður. Jafnaðarmennska virðist eiga undir högg að sækja í íslensku samfélagi, enda er harðsoðinn sérgæskuháttur vaxandi meinsemd í viðhorfum landsmanna og vandséð hvernig samfélagsleg velferð getur skilað sér vel við slík skilyrði.

 

Í nýafstaðinni kosningabaráttu talaði forusta íhaldsins mjög um stöðugleika sem átti víst að vera eitthvað fyrirbæri sem aðeins gat þróast fyrir tilverknað bláa aðalsins. En flestir vita hvað stöðugleiki þýðir í raun í munni íhaldsforustunnar, það er að almannahagsmunum verði stöðuglega fórnað á sérhagsmunaaltari hinna ríku !

 

Íhaldið hefur löngum haft það fylgi í þessu landi, að það hefur sem flokkur haft mestan fjölda manna á þingi. Ég hef reyndar aldrei getað skilið hvers vegna svo er.

Gamlir verkamenn sem aldrei gátu lyft höfði á lífsleiðinni vegna fátæktar kusu það margir hverjir, ef til vill vegna þess að með því héldu þeir að þeir væru að sanna að þeir væru sjálfstæðir menn. En auðvitað var sá gjörningur þeirra grundvallarsönnun þess að þeir voru það ekki. Sá sem kýs það alltaf yfir sig sem níðir niður af honum skóinn er hvorki frjáls né sjálfstæður. Hann er miklu frekar þræll sinnar eigin blekkingar !

 

Og víða hefur borið á því að ungt fólk á vegamótum sem er ekki mjög hugsjónaríkt en vill hinsvegar mjög gjarnan verða ríkt og helst vinna sem minnst til þess, hefur sterka tilhneigingu til að ganga í þennan alræmda sérhagsmunaklúbb sem íhaldið er. Einkum vegna þess að þar telur það að verði best hlynnt að því í nafni samtryggingar sérgæskunnar. Í því skjóli verði auðveldast að eignast peninga, sem vafalaust gæti þá gerst með einhverjum spunagangi spillingarvaldsins frá herkastala Mammonshyggjunnar !

 

Vegna þingmannafjölda síns gat íhaldið alltaf hér áður fyrr myndað tveggja flokka stjórn sem varð til með því móti að það fékk annan flokk til liðs við sig sem gerðist hækja þess. Menn geta rétt ímyndað sér samningana á bak við slíka gjörninga. Oftast voru það Framsóknarmenn eða kratar sem gáfu kost á sér til hækjuhlutverksins og yfirleitt var sú þjónusta þeirra lítt metin af kjósendum í næstu kosningum. Það töpuðu skiljanlega allir flokkar á því til lengdar að leggjast undir íhaldið !

 

Á þessum tíma var eitt af slagorðum íhaldsins – festa til hægri – glundroði til vinstri. Minnir það ekki á stöðugleikatalið nýafstaðna ? Þá sagði íhaldið að þriggja flokka stjórn væri veik stjórn, enda var ekki hægt að mynda vinstri stjórn nema með aðkomu þriggja flokka. Nú í dag er eitt af því sem breyst hefur, sú óhagganlega staðreynd mála, að íhaldið getur ekki lengur myndað stjórn með einni hækju, það þarf tvær !

 

Það dugir ekki að kippa Framsókn með sér núna eða Samfylkingunni, jafnvel ekki Vinstri grænum ef þeir glæptust á slíkt. Íhaldið þarf nú í fyrsta skipti að verða sér úti um tvær hjálparhækjur við myndun ríkisstjórnar. Og svo tala þeir um sigur og fagurt flokksgengi þegar þeir eru komnir undir 30% kjörfylgi, en höfðu lengi vel í kringum 40% !

 

Og ef að hækjurnar verða – ef af verður, Viðreisn og Björt framtíð, hvernig skyldi þá semjast á milli Íhalds I og Íhalds II og Bjartrar framtíðar sem á að verða litla hækjan í samstarfinu ? Verður slíkt stjórnarsamstarf ávísun á bjarta framtíð fyrir landslýðinn ? Er það ekki óttarrs -leg vitleysa að halda það ?

Ég er ekki hissa þótt íhald II vilji þjóna undir íhald I með þeim samningum sem þar verða sjálfsagt gerðir, en ég er hissa á að sjá Bjarta framtíð taka þátt í þeim leik og tel það frekar ávísun á Svarta framtíð fyrir íslenska kjósendur - sem voru áreiðanlega ekki að sá fyrir slíkum ríkisstjórnar-bastarði í nýafstöðnum kosningum !

 

Vegakerfið er að grotna niður meðan Bjarni Ben II segist vera að borga niður skuldir og hið opinbera menntakerfi rýrnar stöðugt að gæðum og brátt verður ríkisheilbrigðiskerfið okkar þjóðarskömm ef ekkert verður að gert. Þar hafa það engir gott nema læknar og sérfræðingar sem - taxtann háa tvöfalda - og eru með gróðastofur úti í bæ !

 

Já, margt breytist í veröldinni hér sem annarsstaðar. Donald Trump er búinn að yfirtrompa Hillary Clinton og á leiðinni í Hvíta húsið. Bill Clinton tekur því ekki við hlutverki “The First Lady !“

Þótt Hillary beri brattgengt nafn tókst henni ekki að ná hinum mjög svo eftirsótta frama, að verða forseti Bandaríkjanna og fyrsta konan í því embætti. Hún hefur haft margan drauginn í fylgd með sér og þótt mótherji hennar sé slíkur sem hann er, tókst henni samt ekki að nýta sér það til sigurs.

Og á Íslandi er sama stjórnleysið og verið hefur, nógir peningar fyrir þingmenn, dómara og ráðherra en engir fyrir sjómenn landsins eða aðra almenna launþega !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 256
  • Sl. sólarhring: 284
  • Sl. viku: 1513
  • Frá upphafi: 316514

Annað

  • Innlit í dag: 221
  • Innlit sl. viku: 1225
  • Gestir í dag: 214
  • IP-tölur í dag: 211

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband