Leita í fréttum mbl.is

“Ekki benda á mig !”


Launahækkunin sem Kjararáð skenkti ríkisaðlinum nýlega, er þegar orðin alræmd og verður áreiðanlega sagnfræðilega bókuð í siðleysukafla þjóðarsögunnar !

Enginn sem kemur til með að fá þessa hækkun vill þó taka ábyrgð á henni. Forsetinn segir að hann þurfi hennar ekki með, ráðherrar virðast hneykslaðir og margir þingmenn mótmæla henni, en svo nær það sjálfsagt ekki lengra. Á endanum fá allir þessir sérvernduðu yfirsamfélagsþegnar sína dúsu og gjáin milli kjara almennings og opinberra þjónustumanna þjóðarinnar breikkar enn sem því nemur !


Það er gömul varnarhefð varðandi svona ferli, að segja “ ekki benda á mig “ og gera málið jafnframt sem ópersónulegast. Láta eins og náttúrulögmálin hafi talað en ekki vallgróin embættismannaklíka hjá Ríkinu. En kerfisdraugurinn Sir Humphrey Appleby gengur líka - og ekki síður - í ljósum logum um litla ríkiskerfið á Íslandi og er þar síst fyrirferðarminni en í stórkerfum milljónaþjóðanna !


Embættismannakerfið og hin staðlaða valdaklíka þess er nánast alls staðar eins og reynist oftast til bölvunar fyrir almannaheill þegar á allt er litið. Eðli hvers manns, sem ekkert vill af Meistara sannleikans vita, spillist fljótt, og það gerist ekki síst þar sem hlynnt er einna mest að sjálfselsku mannsins og sérhyggju – í siðvilltum ríkiskerfum nútímans !


Svo hvað verður með hina alræmdu launahækkun ? Gerir forsetinn eitthvað í málinu, nei ! Gera ráðherrarnir eitthvað í málinu, nei ! Gera þingmennirnir eitthvað í málinu, nei ! Hvað gerist þá ? Umrædd blóðsuguhækkun verður vísast að veruleika og allir útvöldu alikálfarnir fá það sem embættismannakerfið vill veita þeim svo þeir verði þægir og viðráðanlegir við Humphrey gamla og hans sívolduga setulið !


Ein rökleysan við umrædda launahækkun er að ráðamenn þurfi að vera á svo góðum launum að ekki verði hægt að múta þeim ! Hafa menn heyrt annað eins ? Er nokkur maður á svo háum launum að hann vilji ekki meira í raun og veru ? Hafa menn aldrei heyrt um græðgisvæðingu hins íslenska þjóðfélags sem gengur út á það eitt að mikið vill meira. Vita menn ekki að hin öfugsnúna siðfræði íslenskrar yfirklíku og alls verslunarauðvalds kemst fyrir í einni setningu – ÉG, um MIG, frá MÉR, til MÍN !


Íslenskir háembættismenn eru eiginlega orðnir eins og rómversku munaðarseggirnir sem Seneca sagði að ætu til að æla og ældu til að éta. Ofgnótt nautnalífsins er að fara með þá. Þeir þjóna nefnilega ekki fólkinu heldur arðræna það og aféta, Þeir segjast að vísu þjóna kerfinu en sjá aðallega til þess að kerfið þjóni þeim. Þeir fylgja ekki neinni þjóðlegri hugsjón í einu eða neinu. Hver getur haldið því fram eftir það sem á undan er gengið ? Þeir hafa fallið - allir sem einn - á öllum manngildisprófum varðandi þá hluti síðasta aldarfjórðunginn !


Af hverju skyldi það yfir höfuð vera talið álitamál hvort umrædd kauphækkun eigi að standa ? Auðvitað vegna þess að siðferðileg undirstaða er ekki fyrir hendi hjá svo mörgum. Menn horfa skakkt á réttlætið og vita ekki fremur en Pílatus hvað sannleikur er. Ef það kemur spurning í Útsvari, annaðhvort úr Biblíunni eða Íslendingasögunum, standa hin gráðum prýddu lið á gati og vita ekki neitt. En ef það er spurt úr efni kvikmyndarinnar Sódóma Reykjavík, eru keppendur aldeilis með á nótunum !

 

 

Afstaða til réttlætismála tekur auðvitað mið af siðferðisþroska. Gangi siðferðisstaða manna til baka, gerir réttlætisvitundin það líka. Maður sem gengur fyrir lygum í lífi sínu á ekki til mikla ást á sannleikanum. Þjóðin er farin að dýrka falsguði í svo stórum stíl að siðagrundvöllur hennar er farinn að skekkjast meira en lítið.


Siðlaus kauphækkun til útvalinna alikálfa virkar eðlileg í augum þeirra sem hafa skekkt öll sín viðmið vegna þess að einsýn hagsmunagæsla ræður hugsun þeirra. Það er hvorki þeim né þjóðinni til ávinnings að þeir hegði sér þannig. Það kemur alltaf að skuldadögunum varðandi öll rangindi. Efnislegur hagnaður verður oftar en ekki andlegt tap !


Íslenska þjóðin býr við sárgrætilega litla og lélega forustu. Sjöföld óhamingja er nú sest að í þingsölum hennar og sundrungin vex að sama skapi. Tvær þjóðir eru vissulega nú þegar fyrir í landinu hvað öll kjör og aðbúnað snertir !

Skyldu þær eiga eftir að verða sjö ?



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 171
  • Sl. sólarhring: 303
  • Sl. viku: 1580
  • Frá upphafi: 315561

Annað

  • Innlit í dag: 158
  • Innlit sl. viku: 1284
  • Gestir í dag: 157
  • IP-tölur í dag: 156

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband