Leita í fréttum mbl.is

Hverjir eiga að aðlagast hverjum ?

 

Fyrir skömmu var greint frá því í fréttum sjónvarps að íslenskur kvikmynda-gerðarmaður hefði fylgst með lífi innflytjenda-fjölskyldu hér síðastliðin 15 ár. Fjölskyldan sem er austan úr heimi ætti að vera orðin sæmilega hagvön hér eftir allan þennan tíma og þannig nokkuð samgróin þjóðfélagsháttum !

 

Í ljós kom hinsvegar í viðtalinu að tala þurfti við fjölskylduföðurinn á ensku. Þegar spurt var út í það, var kvikmyndagerðarmaðurinn með skýringuna á hreinu. “Við höfum verið svo léleg í því að kenna þeim íslensku !”

 

Já, við erum víst alltaf sek um að vanrækja þetta og hitt gagnvart innflytjendum. Við eigum nefnilega samkvæmt fjölmenningar-forskriftinni að aðlagast þeim og þeirra siðum, kynnast matarmenningu þeirra og öllum lífsháttum, taka við þessu og hinu úr þeirra fyrra umhverfi. Annars erum við bara ekki almennilegt fólk !!!

 

Í slíku viðhorfi felst fjölmenningarkenningin, sá mikli vágestur Vesturlanda, með sitt óþjóðlega inntak. Það er sem sagt ætlast til þess að við Íslands börn meðtökum það sem staðreynd, að okkar íslenska menningarframlag sé í raun einskisvirði á móti öllu því sem að okkur sé rétt í hinum umfangsmikla hrærigraut allra menningarstrauma !

 

Og það fólk sem vill sér í lagi auglýsa að það sé besta fólk í heimi, fordómalaust, víðsýnt og velhugsandi, það knúsar fjölmenninguna í draumsærri veruleikafirringu !

 

En hin raunsæja spurning er, hverjir eru að flytja til hverra ? Er þetta fólk ekki að koma hingað til að verða þátttakendur í okkar samfélagi ? Af hverju þurfum við að aðlagast siðum þess samfélags sem það hefur kosið að yfirgefa eða flýja frá ? Af hverju eigum við stöðugt að stíga fleiri og fleiri skref til móts við þarfir þess, þegar fyrir liggur að það virðist margt hvert hafa sáralítinn áhuga á því að aðlagast okkur - til dæmis – með því að læra málið okkar, þetta ástkæra, ylhýra ?

 

Það liggur ljóst fyrir að sá innflytjandi sem byrjar á því að læra málið okkar, tekur á því lykilatriði aðlögunar sem opnar honum flestar leiðir í samfélagslegu tilliti. Margt hefur því verið í boði til að auðvelda þá leið. Ég veit ekki betur en það hafi verið haldin fjölmörg námskeið á okkar kostnað til að kenna þessu aðkomna fólki íslensku. Meðal annars hefur verkalýðshreyfingin komið þar að málum !

 

En á sama tíma er verið að gera ýmislegt sem mælir beinlínis gegn því að fólk leggi sig fram við að læra málið. Því hvaða þörf er á því fyrir þetta fólk, nefnum til dæmis Pólverja, að læra íslensku, þegar ASÍ sendir varla frá sér bækling öðruvísi en þar fylgi með fullur texti á pólsku !

 

Svo þegar spurt er varðandi fólk sem hefur verið hér í fimmtán ár, af hverju það tali ekki íslensku, þá er svarið, “ við höfum verið svo léleg í því að kenna því íslensku ?

 

Þegar þetta fólk kemur til landsins, er Rauði krossinn og ýmsir aðrir á eilífum handahlaupum í kringum það, að útvega allt sem vantar, húsnæði, innanstokksmuni, atvinnu og annað. Það er víst ekki vandamál með húsnæði nú til dags á Íslandi, að minnsta kosti ekki í svona tilfellum. En af hverju er þessi hundrað prósent skeining alltaf viðhöfð og alltaf í fullum gangi ?

 

Á þetta fólk ekki að verða aðilar að samfélaginu á jöfnum forsendum við okkur hin ?

Á það að njóta forréttinda og eigum við að gera okkar besta í því um alla framtíð að því líði þannig hér að því finnist það aldrei hafa farið að heiman ?

 

Og hvað þá um okkar þjóðarheim, eigum við kannski engan rétt til þess að vilja rækta hér áfram íslenskt samfélag á okkar eigin forsendum, að eiga hér okkar líf í íslensku menningarumhverfi, á íslenskum heimilum, þar sem íslenskt mál er virt og talað ?

 

Snýst þessi fjölmenningar-árátta um það fyrst og fremst að afþjóða fólk, að láta það vanrækja sinn garð og sækja í aðra garða eftir öllu því sem gefa á lífinu gildi ?

Og hverjum er slíkt í hag og hvað hefur komið út úr því annað en þjóðfélagslegur glundroði og stefnuleysi, með tilheyrandi vöntun á borgaralegu öryggi ?

 

Það er vissulega fagnaðarefni, að nú er að koma í ljós að fólk um alla Evrópu er að átta sig á hlutunum og hið þjóðlega viðhorf er aftur á uppleið. Fjölmenningarfarsóttin er að missa tökin og heilbrigð sjónarmið eflast nú með degi hverjum. Við allar eðlilegar aðstæður má nefnilega ganga út frá því að þjóðmenning sé góð menning !

 

Í mínum huga er það ljóst mál, að þeir sem gerast innflytjendur hér eiga að samlagast íslensku þjóðfélagi. Þeir geta engar réttmætar kröfur gert um að allt hér samlagist þeim og eltist við þeirra siði. Það hlýtur að vera hvers og eins Íslendings að meta það fyrir sig hvað hann vill gera og hvað hann vill ganga langt í þeim efnum !

 

Valdboð og þrýstingur að ofan, frá stjórnvöldum, varðandi slíkt er ekkert nema lögleysa gagnvart öllu lýðræði og bein skerðing á frelsi manna til að taka eigin ákvarðanir. Yfirvöld hér hafa margsýnt að þau eru af lakasta tagi hvað þetta snertir, enda virðist sem þeim sé í raun lítið annt um gott jarðsamband við þjóðarviljann !

 

Almennt talað er traust til ráðamanna hér svo lítið að það er í sjálfu sér mikið áhyggjuefni í þjóðlegum skilningi. Það er vont fyrir alla þegar slík staða er uppi !

 

Það skal af þessum og öðrum ástæðum undirstrikað hér, að stjórnvöld okkar hafa engan rétt til að ausa út fjármunum skattborgara þessa lands í sífelldan stuðning og endalausa aðstoð við innflytjendur, án beinnar heimildar frá almenningi í kosningalegu tilliti. Í því felst ekkert nema umboðslaus skattheimta !

 

Innflytjendur til landsins eiga að aðlagast íslensku samfélagi fyrir eigið framtak og vilja, í stað þess að vera stöðugt - í einu og öllu - þiggjendur allskyns fyrirgreiðslu, á kostnað okkar – borgara þessa lands !

 

Við Íslendingar höfum aldrei samþykkt að hér skuli fjölmenning leysa af hólmi þjóðmenningu okkar, enda værum við ekki lengur Íslendingar ef við hefðum gert það, heldur það sem aumast er –  sjálfskapaðir þjóðleysingjar í þjóðleysulandi !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 195
  • Sl. sólarhring: 289
  • Sl. viku: 1216
  • Frá upphafi: 309910

Annað

  • Innlit í dag: 182
  • Innlit sl. viku: 1048
  • Gestir í dag: 182
  • IP-tölur í dag: 180

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband