Leita í fréttum mbl.is

Ofbeldisvæðingin !

Byssuleikir virðast vera að komast aftur í tísku, jafnvel hér á Fróni. Það hefur víst alltaf verið til nóg af mönnum sem hafa gaman að því að bera vopn og augljóst er hvert slíkir hljóta að sækja til að fá útrás fyrir þá hneigð !

Það er ekki amalegt fyrir slíka víkinga að fá að ganga um gráir fyrir járnum, en því miður fyrir þá, hefur slíkt verið talið – að minnsta kosti hingað til – heldur óíslenskt háttalag !

 

En áhrifavald umheimsins og þess illa sem þar er og hefur verið að gerast er mikið. Jafnvel friðsömustu menn eins og ríkislögreglustjóri fara að sjá ógnir í hverju horni og segjast vilja bregðast við í tíma. Ein sekúnda geti skipt máli og sá sem er fljótari að skjóta hefur þá líklega vinninginn eins og var í vestrinu gamla !

Svo hefur nú svokölluð Herbjarnarstefna áður látið á sér kræla hér og allir vita að hún er blá í gegn. En af hverju skyldum við Íslendingar – eins og margt virðist benda til – vera að færast á þennan óskemmtilega stað með okkar þjóðlíf ?

 

Það er hreint ekki eingöngu sú hryðjuverkaógn sem leikur víða lausum hala, sem veldur breyttu hugarfari ráðamanna með tilheyrandi stríðsmannastælum !

Höfuðstaður Íslands hefur verið að breytast á undanförnum árum úr tiltölulega friðsömum bæ í borg sem er farin að hýsa ansi margt af því sem fylgir stórborgum úti í heimi. Og þá á ég við slæma hluti. Það er orðið varasamt að vera einn á ferð í miðborg Reykjavíkur, ekki síst á þeim tíma sólarhringsins, sem eitt sinn í gamalli fortíð var kallaður ókristilegur umgangstími, tími þegar allt ærlegt og vinnandi fólk var að hvíla sig !

 

Nú virðist orðið býsna margt af fólki í höfuðborginni sem þarf ekki að nota tímann til þess að hvíla sig, virðist ekki þreytt eftir vinnu og er greinilega að sinna einhverju öðru.

Það er komið til sögunnar dúndrandi næturlíf að erlendri fyrirmynd, og saman við það hverfist nokkuð margt sem getur búið yfir hættulegum hlutum. Blaðamenn hafa því á seinni árum farið að tala opinskátt um svokallaða undirheima Reykjavíkur, nokkuð sem áður var aldrei talað um og ekki talið vera til !

 

Nú virðist hinsvegar einhverskonar ofbeldisvæðing vera í fullum gangi í hinum fyrrum friðsæla höfuðstað Íslendinga. Grófir ruddar eru sagðir á ferð um borgina, líklega leigðir af einhverjum peningafurstum, til að lúskra á skuldugum viðskiptamönnum. Dæmi eru til um að menn hafi verið barðir til óbóta í slíkum tilfellum og jafnvel í fangelsum landsins virðast menn ekki óhultir fyrir slíkri meðferð. Við erum stöðugt að verða vitni af illum afleiðingum slíkra mála !

 

Þegar leigubílstjóri í Reykjavík var myrtur þar nokkru fyrir 1970, lá við að öll íslenska þjóðin væri í taugaáfalli dögum saman. En nú kippa menn sér ekki mikið upp við slíkar fréttir. Það sem fer að verða – eiginlega á næsta bæ við daglegt brauð, - vekur ekki mikla athygli. Og til að mæta ofbeldisvæðingu umræddra undirheima Reykjavíkur og hugsanlegri hryðjuverkaógn að utan ( eða innan ), virðist lögreglan nú telja sig nauðbeygða til að svara ofbeldisvæðingunni á sama veg – það er að segja – með því að vopnast !

 

Lögreglumenn eru auðvitað menn eins og aðrir, og líklegt er - að við stóraukið ofbeldi og harðsvíraða glæpamennsku af hálfu þeirra sem við er að etja, manna sem tilheyra þá ætluðu undirheimaliði höfuðborgarinnar, geti þeir orðið svo óttaslegnir um eigið öryggi, að það verði í sjálfu sér vandamál innan lögreglunnar !

Það getur því kannski ekkert unnið bug á þeim ótta meðal þeirra nema sú tilfinning að vera vel vopnaður ef í harðbakkann slær og geta skotið almennilega frá sér ?

 

Aðstæður hafa líka þótt sýna að það geti verið gott að geta hleypt af byssu þegar ógnin krefur. Það eru til dæmis til veikir menn sem fá hvergi inni í kerfinu og ekkert er gert fyrir, menn sem geta í örvæntingarfullri þörf sinni fyrir hjálp, orðið sjálfum sér og öðrum hættulegir. Það hefur að margra dómi sannast - í Hraunbæ og víðar !

 

En ef það að lögreglumenn séu vopnaðir frá toppi til táar tryggi öryggi þeirra og almennra borgara, ættu Bandaríkin að vera öruggasta land í heimi. En því er ekki að heilsa, þar eru morð daglegt brauð og lögreglan sjálf hreint ekki saklaus af slíku.

Getum við ekki lært neitt af því að hafa vítin til varnaðar beint fyrir augum okkar ?

 

Ástand mála hérlendis vekur auðvitað ýmsar spurningar. Fyrir utan hugsanlega hryðjuverkaógn, erum við sem sagt komin með höfuðborg sem á sína undirheima ; við erum komin þar með veruleika sem býr yfir mjög ofbeldisfullum viðskiptaháttum ; við erum komin þar með vissa viðurkenningu á því að ofbeldi sé nauðsynlegt til að menn nái sínu fram !

Og við vitum að það sem grasserar í höfuðborginni mun setja mark sitt á mannlíf annarsstaðar á Íslandi, svo sem á landsbyggðinni !

 

Á hvaða leið erum við ? Eigum við kannski eftir að heyra blaðamenn innan fárra ára tala um Reykjavík sem glæpaborg ?

Á íslenskt mannlíf að fara að að lifa og hrærast með glæpum, eins og það eigi bara að vera hluti af menningu okkar og dagfari ? Af hverju er þessi sjúklega löngun hjá svo mörgum að lesa glæpasögur, lesa um ofbeldi og morð ? Af hverju er svona mikil nautn fólgin í því fyrir svo marga að lesa um dráp á fólki ? Ekki vill neinn láta myrða sig, en ofbeldi gagnvart öðrum virðist bara vera álitið spennandi afþreyingarefni !

 

Er sú afstaða kannski liður í því að vaxandi ofbeldi í samfélaginu virðist farið að njóta umburðarlyndis langt umfram það sem eðlilegt getur talist ? Að fólk hugsi bara : “Þetta er allt í lagi meðan það snertir ekki mig og mína !”

 

En aukning á ofbeldi í samfélaginu er að sjálfsögðu mál sem snertir alla. Hvort sem ofbeldisvæðing og aukinn vopnaburður er meðal afbrotamanna eða lögreglu, er það vitnisburður sem ekki er vænlegur og hann sýnir að við erum ekki að ganga veginn til góðs. Það eru verri viðhorf farin að stjórna málum en áður og þar sem aukning verður á vopnaburði, þar verður aukning á ofbeldi. Það mun haldast í hendur !

 

Ef það er það sem koma skal, getum við kvatt það Ísland sem við öll höfum elskað, því það er þá farið eða á förum – með þeim friði sem það bjó yfir !

 

Hryðjuverkasamtök umheimsins hafa þá náð þeim árangri með ógn sinni að breyta íslensku samfélagi í eitthvað sem er miklu nær þeirra eðli og art en því sem var aðalsmerki okkar í eina tíð !

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 360
  • Sl. sólarhring: 360
  • Sl. viku: 1456
  • Frá upphafi: 315361

Annað

  • Innlit í dag: 321
  • Innlit sl. viku: 1142
  • Gestir í dag: 307
  • IP-tölur í dag: 307

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband