Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

RÍKISÓMAGAKERFIÐ

Svokallað kvótakerfi hefur verið bölvun fyrir íslensku þjóðina, og einkum þá sem búa á landsbyggðinni, allar götur frá því það var sett á laggirnar. Ég kalla að þar hafi verið sett á fót ríkisómagakerfi og tel fullar forsendur fyrir þeirri nafngift. Í gamla daga var talað um þá sem hreppsómaga sem höfnuðu á sveitarframfæri og þótti það ekki virðingarverð staða. Margir urðu að lúta því helsi og gátu ekkert við því gert. Vildu þó flestir fegnir geta unnið fyrir sér og sínum.

Nútíminn er að flestu leyti ólíkur fyrri tíma. Nú eru þeir sem eru helstu ómagarnir á framfæri hins opinbera, stoltir af því og taka fagnandi við framlögunum ár hvert úr sameignarsjóði þjóðarinnar. Þeir eru kallaðir sægreifar en eru þó ekkert nema ómagar á þjóðarframfæri. Þeir eiga ekki mikið skylt við sjómenn fyrri ára sem þurftu að veiða fiskinn til þess að eignast hann. Þeir eru sumir hverjir algjörir hvítflibbar bak við skrifborð, menn sem aldrei hafa migið í saltan sjó, en geta samt átt hundruðir tonna af fiski í sjó – vegna kerfisvitleysunnar.

Við Íslendingar börðumst ekki  fyrir sigri í landhelgismálunum til þess að fá yfir okkur bölvun eins og kvótakerfið. Það var aldrei ætlun þjóðarinnar að auðlindinni yrði ráðstafað með þvílíkum hætti. En sérgæskan vann þar sitt óþurftarstarf og pólitískir lubbar gengu í þann klúbb sem þarna myndaðist, í reykfylltu bakherbergjunum, eins og aðalverktaki að auðlindinni okkar. Einkavasarnir skyldu njóta ávaxtanna en ekki þjóðin öll eða almenningur. Og brátt fóru ótal útgerðir að blómstra sem alltaf höfðu verið í basli. Ávísanir úr ríkissjóði gerðu þar gæfumuninn og brátt fóru menn að versla á fullu með óveiddan fisk sem -  jú - var auðvitað ekkert nema peningur.

Og það var byggð upp auðstétt í landinu, með tilkomu þessa ríkisfram-færslukerfis, en ekki bara það, heldur var séð til þess að þrælastétt yrði líka til í kringum útgerðina. Það hlutverk varð þeirra sem fengu ekkert í sinn hlut og urðu að neyðast til að ganga á mála hjá hinum forríku ríkisómögum. Þegar aðalsstétt er sköpuð verður að hafa þræla, nóg af þrælum í kringum forréttindahyskið.

Landhelgisbaráttan var því til lítils háð því afrakstur hennar er fyrir tilverknað kvótakerfisins orðinn verri en enginn í mannlegum skilningi. Ég sem almennur Íslendingur á meira sameiginlegt með enskum sjómönnum eins og þeim sem sóttu á Íslandsmið til að framfleyta fjölskyldum sínum, en íslenskum sægreifum sem hafa myndað spillta auðstétt í landinu fyrir tilverknað rotinna stjórnunarmála. Þeir eru ekkert nema rangstæðir ríkisómagar - afætur í auðlind þjóðarinnar.

Saga kvótakerfisins er eitt blóðsuguferli. Lengi framan af var reynt að þagga niður alla andstöðu við kerfið með þeim röksemdum að þarna væri um verndarkerfi að ræða. Fiskistofnunum væri í gegnum þetta kerfi tryggð hámarksgeta til vaxtar. Margir gleyptu við þessari blekkingarbeitu og  hættu að deila á fyrirkomulagið. En hvað hefur komið á daginn. Kvótakerfið er á engan hátt verndarkerfi og hefur aldrei verið. Nú er tíminn búinn að sýna það svo ekki verður á móti mælt.

Landsbyggðin byggðist öll upp á frjálsri fiskisókn. Þorpin urðu til í kringum veiðifrelsið. Danir sviptu okkur aldrei frjálsum veiðirétti en það gerðu íslensk stjórnvöld til að hygla sérvalinni auðklíku. Íslandssagan mun, að minni hyggju, setja eilíft brennimark á þá sem það gerðu.

Kvótakerfi ríkisómaganna er glæpsamlegt. Það er hrein og bein svívirða og öllum þeim til skammar sem hafa fitnað eins og púkar á því. Kvótakerfið hefur skapað meiri sundrungu, óeiningu og hatur milli Íslendinga en nokkuð annað síðastliðin tuttugu ár. Og það mun halda áfram að naga og eitra, spilla og umsnúa öllum ærlegum hlutum hérlendis, þar til þjóðin verður búin að fá svo nóg af því að hún mun rísa upp til að koma því út úr heiminum.

Siðvillingin í kringum þetta kerfi hefur verið hryllileg og gert marga, að því er virðist, ónæma fyrir eigin réttlætiskennd. Margir hafa farið að verja þessa óþverraskipun í bak og fyrir vegna þess að þeir hafa fengið svo stórar ómagadúsur í sinn hlut. Þar virðist buddunnar lífæð hafa slegið svo ákaft í brjóstum manna að samviskan hefur brunnið upp til agna.

Það er dapurlegt upp á að horfa hvað djöfullegt fyrirkomulag getur valdið mikilli bölvun og við Íslendingar þurftum sannarlega á öllu öðru að halda frekar en þessu kvótakerfi andskotans.
Sturla Böðvarsson hefur nú opinberlega bæst í hóp þeirra sem hafa gagnrýnt harkalega þetta skipulag skrattans og víst er gott þegar menn sem hafa virst vera blindir eru farnir að sjá. Megi þeir verða sem flestir.

En kvótamafían hefur ráðist sem sturluð að Sturlu fyrir vikið. Hann er jafnvel vændur um að vita ekki hvað hann sé að segja vegna þess að hann sé húsasmiður en ekki fagaðili í sjávarútvegi. Heyr á endemi !

Þarna er ekki um það að ræða að menn þurfi að vera einhverjir fagaðilar. Nóg réttindi eiga að fylgja því að vera íslenskir ríkisborgarar til að menn megi tjá sig um lífshagsmunamál af þessu tagi. Menn snúast gegn ríkisómagakerfinu vegna þess að þeir vilja fylgja réttlætinu og finna í hjarta sínu að þetta kerfi er bölvun fyrir allt sem miðar að heilbrigðu réttarfari og eðlilegri hagsmunaþróun í þágu lands og þjóðar.

Ríkisómagasveitin sést
saðningu heimta í öllu.
Gráðug er hún í málum mest,
minnir á veiðibjöllu.

Til hennar streymir fæðan full,
fjarlægð úr eigu þjóðar.
Komast þar enn í kvótagull
krumlurnar græðgisóðar.

Landhelgisfrelsið fjötrað var,
fjandinn þar gekk í spilið.
Hvernig sá glæpur gerðist þar
getur víst enginn skilið !


Þriggja punkta þenkingar

Það getur vissulega verið margt spaugilegt í tilverunni þegar að er gáð. Stundum fara hlutirnir alveg þvert á það sem væntingar manna hafa staðið til. Athafnir sem hafa miðað að því að gera tilteknum manni óleik geta því snúist upp í það að verða þeim hinum sama til ávinnings.

Þannig var það til dæmis með ádeilu Jóhannesar Bónuskaupmanns á Björn Bjarnason. Jóhannes sem þarf ekki að horfa neitt sérstaklega í peninginn, spreðaði a.m.k. nokkrum hundraðþúsundköllum í auglýsingar eins og kunnugt er, trúlega til að valda Birni pólitískum ófarnaði.

En allar líkur eru hinsvegar á því að þetta útspil Jóhannesar hafi orðið Birni til framdráttar. Sennilega hefði Björn orðið að víkja sem ráðherra núna við stjórnarskiptin, en vegna inngrips Jóhannesar gat Geir Haarde auðvitað ekki fargað Birni. Það hefði komið út eins og það hefði verið gert eftir beinni pöntun frá Baugi.

Jóhannes skapaði því Birni Bjarnasyni hreina ráðherra-líftryggingu með  auglýsingunum og var það þó áreiðanlega ekki ætlun hans eða vilji.

Skemmtilegt er að sjá að þessi útgjöld Jóhannesar virðast þannig hafa komið Birni beint til góða. Ég segi skemmtilegt, því niðurstaðan er mátuleg á Jóhannes. Hann notaði auð sinn til að reyna að klekkja á manni sem embættislega er í þjónustu þjóðarinnar og sú aðferð er ekki geðfelld. Jafnvel þó Jóhannes kunni að hafa ýmsar málsbætur, voru þessar auglýsingar mistök af hans hendi og útkoman eftir því. Vopnin geta stundum snúist illilega í höndum færustu manna.

Trúlega hefur glöggskyggni Jóhannesar verið talsvert meiri þegar hann var að koma Bónusveldinu á stofn á sínum tíma, en þetta sýnir líklega að öllum förlast með aldrinum.

***

George W. Bush var nýverið á einhverjum flækingi um heimsbyggðina og skiljanlega fáum til skemmtunar. Hann kom við í Albaníu til að hressa sjálfsálitið, en þar virðast ótrúlega margir líta á hann sem stórmenni. Sennilega byggist sú afstaða manna  alfarið á því að Bushinn virðist inn á því að leggja Kosovohérað, órjúfanlegan hluta Serbíu, undir Albani og þar með Albaníu síðar meir. Það segir vafalaust ýmsum hvernig þeir eiga að fara að því að leggja undir sig annarra arfleifð. Þegar nýbúar eru orðnir í meirihluta í tilteknum landshluta, er krafist sjálfstæðis og síðan er hægt með tíð og tíma að sameinast heimalandinu hinum megin landamæranna.

Bandaríkin hafa alltaf verið andvíg því sem þau nú virðast vilja koma á í Kosovo. Hefðu þau fylgt þessari nýju stefnu árið 1861, hefðu Suðurríkin væntanlega átt framtíð fyrir sér sem sjálfstætt ríki.Er Bush þá að segja að  Norðurríkin og Abraham Lincoln hafi haft rangt fyrir sér í deilu þeirri sem leiddi til amerísku borgarastyrjaldarinnar ?

En sleppum því, snúum að núinu. Bush var þarna í Albaníu innan um vini sína og banda og vandamenn, en þá uppgötvast allt í einu að úrið hans er horfið. Já horfið með öllu sínu Stars and Stripes skrauti.

Jafnvel þarna –  í hópi albanskra aðdáenda forsetans heillum horfna, - virðist hafa verið til staðar manneskja sem vildi sýna Bush að það væri kominn tími á hann !

Því hvað undirstrikaði það betur en einmitt þessi gjörningur, að taka af honum úrið ?

***

Það dylst ekki neinum, að ýmsir þungavigtarmenn tengdir Framsóknarflokknum eru ekki sérlega hressir yfir því að Guðni Ágústsson sé orðinn formaður flokksins. Það er talað um að það þurfi að yngja upp og endurnýja og látið í það skína að Guðni greyið sé nátttröll frá fyrri tíð eða risaeðla sem eigi bara að vera á safni og skemmta þeim sem þangað koma.

En hver veit nema Guðni reynist bara skaplegasti formaður ? Hann hefur margháttaða pólitíska reynslu og er þjóðmálasviðinu vanur.

Ég er ekki að segja að ég hafi álit á honum, nei, nei, því fer fjarri, en mig grunar að þessir menn sem hafa verið, svona undir rós og allavega, að höggva í Guðna, hafi annarlegar ástæður fyrir breytni sinni. Ef til vill óttast þeir frekar að hann kunni að standa sig sem formaður og efli þannig þær málaáherslur í flokknum sem hann hefur talið sig standa fyrir – og þær áherslur eru trúlega það sem þessir menn vilja ekki upp á borðið.

Það eru nýkapitalistarnir í Framsóknarflokknum, peningafurstarnir og arftakar samvinnuforstjóranna, þeir sem hafa blómstrað undanfarin ár í samvörðu skjóli stjórnarþátttöku flokksins, sem hræðast það nú að Framsókn fari að halla sér aftur að þjóðlegum samfélagsáherslum eftir tólf ára frjálshyggjufyllerí með Sjálfstæðisflokknum !

Og vissulega er Guðni þegar farinn að tala með þeim hætti að aumingja mennirnir búa nú við þessar áhyggjur, en hvort hann meinar nokkuð með því sem hann segir – það er svo önnur saga.


ÞJÓÐMENNINGIN OG FJÖLMENNINGIN

Þjóðmenningin stóð niður á Austurvelli hjá styttu Jóns Sigurðssonar, klædd í sinn hátíðabúning og skautaði fullri fegurð, þegar Fjölmenningin kom þar askvaðandi, eins og henni lægi reiðinnar ósköp á.

Þjóðmenningunni varð fyrst í stað starsýnt á klæðaburð hennar, því segja mátti að hún tjaldaði tuskum úr öllum áttum. Það var eins og ekkert í þeim efnum væri samstætt. Ekki féll þetta Þjóðmenningunni alls kostar í geð en hún ákvað samt að vera kurteis sem venja hennar var og sagði því við Fjölmenninguna:

“ Komdu sæl og blessuð “. Fjölmenningin svaraði með einhverri kveðju sem virtist flutt fram á mörgum tungumálum. “ Fyrirgefðu “, sagði Þjóðmenningin, “ en getum við ekki talað íslensku ?” “ Hversvegna ættum við að gera það ? “ svaraði Fjölmenningin önug og leit tortryggnisaugum á Þjóðmenninguna. “ Nú, af því að við erum á Íslandi og þetta er landið okkar, “ svaraði Þjóðmenningin vinsamlega.

“ Landið tilheyrir íbúum sínum ,” svaraði Fjölmenningin hvöss á svip, “ og þeir tilheyra mörgum þjóðum, við eigum því ekkert fremur að vera íslensk en hvað annað “. Þjóðmenningunni varð hálf hverft við þegar hún heyrði þetta svar. Það var engum blöðum um það að fletta að þarna var talað gegn því þjóðlega einingarbandi sem hún hafði alla tíð staðið fyrir. “ Mér þykir leitt að heyra þetta “, sagði hún samt kyrrlátlega, “ ég hef alltaf verið íslensk og talið þetta land tilheyra mér og öllu því sem vill vera íslenskt. “

Fjölmenningin hló við og sagði: “ Það eru komnir nýir tímar og þú verður að skilja það. Það er allt orðið breytt. Það klæðir sig til dæmis enginn nú til dags eins og þú gerir. Það er afskaplega sveitalegt. Þú ættir að sjá sjálfa þig í spegli, það er hörmung að sjá þig, þú ert sjáanlega gömul og þröngsýn, fordómafull og óupplýst. Það er auðséð að það er ekki mikið í þig varið ! “

Þjóðmenningin roðnaði ofurlítið við þessa ádrepu en svaraði þó hlýlega sem fyrr: “ Mér þykir leitt að ég skuli vera svona ómöguleg í alla staði að þínu mati, en ég hef þó alltaf reynt af fremsta megni að standa ærlega að öllu því sem mér hefur verið trúað fyrir .” Fjölmenningin hló nú háðslega og sagði: “ Jæja, jæja, og fyrir hvað þykist þú svo sem standa, það getur nú varla verið merkilegt. “

Þjóðmenningin fann nú að það fór aðeins að síga í hana, en hún vildi samt halda friðinn í lengstu lög og svaraði því ekki eins og hana helst langaði til að gera, þess í stað sagði hún fastmælt: “ Ég stend fyrir mitt fólk, það fólk sem vill heyra mér til. Ég hef aldrei brugðist því og mun aldrei bregðast því. En fyrst þú spyrð mig að þessu, vil ég spyrja þig þess sama, fyrir hvað stendur þú ?”

Fjölmenningin leit með lítilsvirðingu á Þjóðmenninguna og svaraði yfirlætislega: “ Ég , - ég stend fyrir allt mögulegt, eiginlega alla skapaða hluti sem byggjast á víðsýni og fordómaleysi. Allt verður nefnilega að fjölbreyttu mynstri við það eitt að komast í snertingu við mig, svo þú sérð að ég er hátt yfir þig hafin. Þú hefur alltaf forpokast á einum stað eins og þínir líkar, en eftir að ég komst á legg hef ég farið sigurför um allan heiminn.”

Þjóðmenningin stóð um stund þögul og hugsi, svo hóf hún upp höfuð sitt og leit á styttu Jóns Sigurðssonar, horfði á hana stundarkorn og sagði svo: “ Þú segir það, látum þetta útrætt að sinni, en víkjum að öðru, geturðu  sagt mér af hverjum þessi stytta er sem stendur hérna hjá okkur ?” Fjölmenningin rak augun upp á styttuna og glápti á hana eitt andartak, en sagði svo drambslega : “ Nei, ég hef ekki hugmynd um það og fæ heldur ekki séð að hún sé neitt merkileg og ekki væri hún hérna ef ég réði einhverju um það.”

Þjóðmenningin leit beint framan í Fjölmenninguna og sagði: “ Ég átti ekki von á því að þú myndir kannast við Jón Sigurðsson, sem kallaður var sómi lands vors, sverð og skjöldur. Hann var nefnilega íslenskur í eðli og anda eins og ég. Ég fæ ekki séð að við getum átt neina samleið. Að svo mæltu gekk Þjóðmenningin sína leið, en tók sjáanlega stóran sveig framhjá alþingishúsinu þegar hún gekk þar hjá.

Fjölmenningin stóð ein eftir um stund og gapti, svo leit hún  aftur upp á styttuna og það hnussaði í henni. Svo vafði hún að sér allar sínar tuskur og gekk rakleitt að dyrum alþingishússins og hvarf inn um þær.

( Þjóðhátíðardagspistill – ritaður 17. júní 2006. )


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 162
  • Sl. viku: 1435
  • Frá upphafi: 315605

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 1156
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband