Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Davíðssálmur 151 - Sálmur flokksins.

 

Davíð - við dýrkum þig öll,

slík dásemd er atgervi þitt.

Þú ert burgeis í bankahöll

og bendir á þetta og hitt !

 

Sem véfrétt í voldugum stíl

þú valdið þitt auglýsir hér.

Það sér ekki á dökkan díl

á drifhvítum skildi hjá þér !

 

Þín hugsun er háleit og snjöll,

þú hræðist ei neina raun.

Svo Geir og við elskum þig öll,

þú átt okkar hollustulaun !

 

Í þjóðmálum leikur þú laus

við línur á bak við tjöld.

Það fær enginn haldið haus

sem hundsar þín alræðisvöld !

 

Menn finna það sífellt og sjá

með sanni að hlýða þér ber.

Því flokkist þér einhver frá,

sá fær nú á baukinn hjá þér !

 

Þín Valhallar vegsemd er slík

að víða hún kallar á fórn.

Þú ræður í Reykjavík

og ræður á þingi og í stjórn !

 

Þar vald þitt svo æðislegt er

og orkan í kringum það römm,

- að seint mun þinn " sjálfstæði her "

sálast úr innherja skömm !

 

Þó asnar við Austurvöll

séu að ergjast við mótmælapuð,

ó, Davíð - við dýrkum þig öll,

þú ert dýrlingur flokksins og guð !!!

  

                                              


Nýir bankar - en hvað svo ?

  Hinir föllnu bankar frjálshyggjumannanna, sem félagar þeirra í landsstjórninni töldu sig tilneydda að yfirtaka í nafni ríkisins, gátu ekki rekið sig þar sem lítið sem ekkert var eftir í þeim af peningum, meðal annars, vegna sjálftökuliðsins sem drottnaði þar og þeirra himinhæðar viðskiptahátta sem ábyrgðarleysið bauð upp á.

Og nú eru bankarnir sem sagt komnir í þjóðareign aftur og eiga að hlaða sig upp hjá ríkinu, þangað til reynt verður að einkavæða þá á nýjan leik.

En það verður auðvitað ekki fyrr en búið er að leysa úr skuldamálunum og velta 95% af byrðinni yfir á landslýðinn !

Hvar skyldu nú allir þessir peningar vera sem töpuðust ?

Hvað skyldu þeir nú vera orðnir margir Íslendingarnir sem hafa í gegnum allt frjálshyggjusukkið, orðið stórríkir á óhamingju saklausra samlanda sinna ?

Og hverjir skyldu stjórnendur hinna endurreistu banka vera og hver skyldi fortíð þeirra vera ?

Ég fæ ekki betur séð en þar séu mörg gamalkunn andlit úr yfirbankaliðinu sem horfði á allt fara til fjandans og vissi ekki neitt og gerði ekki neitt.

Mér heyrist líka að Edda Rós Karlsdóttir, sem var toppstykkið á greiningardeild Landsbankans og ein af ofurlaunamanneskjunum í bankakerfinu, með yfir 7 millur á mánuði, sé enn að skilgreina ástand mála og flytja lærða fyrirlestra um hvað beri og eigi að gera, en hvaða gagni skilaði hennar framganga þegar stefndi í að allt væri að hrynja ?

Margir hafa bendlað hana við hina " tæru snilld " Ice Save reikninganna, þar sem menn áttu bara að vera í því að taka á móti peningum, eins og Sigurjón Þ. Árnason orðaði það á sínum tíma.

Manneskjan hefur að vísu borið það til baka að hún hafi komið nálægt þeim gjörningi, en trúverðugleiki þessa fólks hefur beðið svo mikinn hnekki, að maður tekur lítið mark á orðum þess og síst þegar það er að fría sig ábyrgð á hlutunum.

Það ætti því kannski betur við að sumir færu sér hægar nú um stundir í sínum hálærðu fyrirlestrum og athuguðu frekar með gagnrýnum hætti eigin framgang !

Tryggvi Þór Herbertsson kom fram í feikna viðtali í Mbl. um daginn og ræddi þar fjálglega um ástand mála og skellti auðvitað allri skuldinni á alþjóðlega kreppu sem enginn hefði séð fyrir....... !

Er Tryggvi þessi ekki alkunnur frjálshyggjugaur og tók hann ekki fullan þátt í að spila frjálshyggjuna upp á sínum tíma ?

Svo er hann stikkfrí núna og kannast ekki við að hafa gert nokkuð rangt !

Lilja Mósesdóttir veit nú ráð til alls, en hvar var hún þegar hömlulaus græðgin reið hér húsum ? Hvað hafði hún til málanna að leggja þá ? 

Við fáum yfir okkur lærðar niðurstöður lektora, dósenta og allra handa páfugla á hverjum degi í útvarpi, sjónvarpi og blöðum. Allt er þetta fólk meira og minna hámenntað í hagfræði, viðskiptafræði og fjármálavísindum -  nákvæmlega eins og fólkið sem steypti hér öllu um koll !

En þrátt fyrir þetta er ennþá sami lofsöngurinn í gangi um þessa dýrmætu menntun sem öllu á að bjarga, en það er lítið rætt um reynsluna sem þarf að koma til og styðja við menntunina svo að hún skili sér með heilbrigðum hætti til samfélagsins.

Háskólafólk talar um finnsku leiðina út úr kreppu og fullyrðir að þar hafi menntunin bjargað, en það er hvergi nærri séð fyrir endann á þeim hörmungum sem  dunið hafa yfir almenning í Finnlandi. Af hagsmunaástæðum virðast þó sumir bara vilja horfa á einhverjar gyllingarútgáfur þaðan og neita staðreyndum mála !

Ragnheiður Ríkarðsdóttir skrifaði fyrir nokkru grein í Mbl. og þó að hún segðist vilja að skipt yrði um stjórn í Seðlabankanum, var með ólíkindum hvernig hún fór í málin að öðru leyti.

Hún sagði t.d. að það virtist sem hlakkaði í "kommum " yfir ástandinu !

Þegar fólk af hennar tagi talar um komma, er það yfirleitt að tala um harða vinstri menn, til dæmis menn eins og mig. Heldur hún að það hlakki í mér yfir því að þjóðin mín sé skuldsett upp fyrir haus og öllu eljuverki fyrri kynslóða stefnt hér í voða ?

Heldur þessi manneskja, sem situr víst því miður á þingi, að menn gleðjist yfir því að fjárglæframenn hafi fengið að leika hér lausum hala um langa hríð, landi og þjóð til skaða og vansæmdar ? Skilur hún ekki að við erum Íslendingar umfram allt og allt sem særir þjóð okkar særir okkur ?

Það er þá líkast til ljóst af því sem hún ætlar okkur hvernig hún sjálf myndi hafa brugðist við ef vinstri öfl stjórnmálanna hefðu keyrt efnahagsmál okkar svona í kaf ! Hún hefði sem sagt bara glaðst yfir því að geta komið höggi á pólitíska andstæðinga !

Svona sjónarmið eru forkastanleg og hverri manneskju til skammar.

Ég hef alla tíð, af ærinni ástæðu, verið andstæðingur Sjálfstæðisflokksins, en ég fagna auðvitað engan veginn yfir ástandinu, þó íhaldið eigi þar mestu sökina, því stjórnarhættir flokksins hafa komið Íslandi, landi mínu og þjóð, í hrikalegan vanda og það svíður undan því.

Ég fæ þó ekki séð að iðrun sé mikið ástunduð í Valhöll. Þar er sjáanlega forherðingin ein við völd og ekki er hrokinn minni í Seðlabankagoðinu.

Ég vil hikstalaust að Sjálfstæðisflokkurinn beri ábyrgð á gjörðum sínum og tel mig hafa undirstrikað það rækilega undanfarið í pistlum mínum.

Það er engum sjálfstæðismanni til heiðurs að verja Valhallarklíkuna eins og sakir standa, því hún hefur reynst þjóðarhagsmunum Íslands verri en flest annað.

Að slá skjaldborg um svínarí er engum manni til sæmdar og þaðan af síður því varnarþingi sem hann vill aðhyllast. Það ætti öllum að vera ljóst.

Það er lýðræðisleg höfuðnauðsyn fyrir þjóðina að losna sem fyrst við þennan valdhrokaflokk úr landsstjórninni, svo hægt sé í alvöru að hefja baráttu gegn þeirri spillingu sem viðgengist hefur.

 

En fullt af liði er einmitt nú að skrifa í Mbl. og afsaka Sjálfstæðisflokkinn í bak og fyrir og kenna öðru og öðrum um, jafnvel Samfylkingunni sem er tiltölulega nýlega komin að landsstjórninni, en frjálshyggja Davíðs og félaga er búin að ráða hér lögum og lofum í meira en hálfan annan áratug !

Ekki er ég hrifinn af Samfylkingunni og hef aldrei verið, en í mínum augum ber hún ekki stóra sök í þessum efnum miðað við Sjálfstæðisflokkinn sem ég vil bara leyfa mér að kalla Þjóðarógæfuflokkinn !

Einn sjálfstæðismaður skrifaði nýlega grein í Mbl. og úthúðaði útrásarmönnum, þotuliði og bankagreifum með mjög hörðum orðum, en sagðist svo vera stoltur sem sjálfstæðismaður af Geir Haarde og björgunarstörfum hans fyrir íslenska þjóð............ !!!

Kona ein, trúlega komin vel til aldurs, hringdi í útvarp nýlega og kvartaði hástöfum yfir eineltinu á hendur Davíð Oddssyni, sem væri á fullu í því að bjarga þjóðinni...........!!!

Þvílík afstaða til mála, þvílík blinda og persónudýrkun  - allt þetta útrásarhyski, þotuliðið og bankaaðallinn, allt er þetta meira og minna í Sjálfstæðisflokknum og fékk allt á silfurfati þaðan.

En svo á að reyna að hvítþvo flokkinn og kenna öðrum um og halda síðan áfram á sömu vitleysisbrautinni, með sömu heilaþvottarhagfræðina við stýrið.

Miklu meiri ábyrgð liggur hjá valdstjórnarmönnunum sem voru með umboð kjósenda til að gæta þjóðarhagsmuna, en hjá græðgisvæðingar-alikálfunum, sem þeir komu sér upp á kostnað almennings í þessu landi, og létu svo ekki að stjórn.

Til að fólk geri sér betur grein fyrir sýn sinni á stöðu mála, gæti það sett á blað 10 nöfn, nöfn þeirra sem það telur bera mesta ábyrgð á því hrikalega ástandi sem skapast hefur í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Það er mín skoðun, að hver sá sem sér ekki ástæðu til að hafa nafn Davíðs Oddssonar meðal þeirra fimm efstu, hljóti að þurfa að leita sér hjálpar vegna átakanlegs skorts á veruleikaskyni og réttsýni !

 

 


Um undur bláan eðalkrata

 

 

" Margur snatinn miður klár

margt nú glatað hyggur.

En eðalkrati undur blár

aldrei flatur liggur ! "

Einn ágætur samborgari minn hér á Skagaströnd verður seint sakaður um það að vera litlaus. Þar á ég við Steindór Rúniberg Haraldsson, en hann kemur víða við sögu í málum og hefur um alllangt skeið gegnt ýmsum störfum fyrir samfélagið undir Borginni. Steindór er líflegur maður, með kvikasilfur í öllum taugum og á það til að fara á kostum þegar sá gállinn er á honum. Hann er opinn fyrir húmor, glettinn og spaugsamur og yfirleitt aldrei til leiðinda þar sem hann er á ferð.

Mér þykir vænt um Steindór og einkum þó vegna þess að í brjósti hans býr hlýr strengur sem einna best sýnir sig þegar einhver ratar í raunir eða á bágt. Þá er Steindór manna líklegastur til að bjóða fram aðstoð sína og mæla af munni fram uppörvunarorð. Það kemur alltaf í ljós með einum eða öðrum hætti hvað í mönnum býr og innréttingin í Steindóri er að mörgu leyti ágæt þó kannski mætti pússa og laga eitthvað smáræði hér og þar.

Steindór er sérfræðingur í mörgu og það er hægt að fletta upp í honum varðandi allskyns matargerðarefni því hann veit allt um þá hluti sem hægt er að vita. Ég man ekki betur en hann segði við mig einu sinni þegar hann kom sem oftar í loftköstum inn í verslunina hér á staðnum: " Það er til í heiminum 21 tegund af pipar og ég þekki þær allar !

Og þetta var sagt með svo miklum sannfæringarkrafti að mér datt ekki í hug að rengja manninn, enda Steindór þekktur að öðru en ósannindum.

Eins og mörgum er kunnugt hefur Steindór lengi reynt að róa sínu hugarpólitíska fleyi undir fána Samfylkingarinnar, en oft hefur mér þó virst sem rætur hans séu nokkuð bláar og það svo að iðulega grisji þar í gegn. Stundum hefur mér fundist á mæli hans, er við höfum átt tal saman, sem útrásarvíkingar og ofurlaunamenn væru menn að hans skapi, en líklega hefur mér skjátlast í þeim efnum, enda veðrabrigði mörg í manninum og erfitt að henda reiður þar á öllu.

En nú fyrir skömmu sendi Steindór frá sér fundarboð, þar sem hann reifaði hugmynd sína um stofnun Samfylkingarfélags á Skagaströnd. Stillti hann svo til að stofnfundurinn yrði þann 1. nóvember, en Steindór sem vafalaust er vel að sér í kirkjusögu, veit áreiðanlega að þann dag hóf Marteinn Lúther siðbótarsókn sína gegn kaþólsku kirkjunni árið 1517.

Þar sem Steindór hyggst greinilega hefja siðbótarstarf í pólitískum skilningi á Skagaströnd, var dagurinn því ekki svo illa valinn. Þar við bætist að 1. nóvember er messudagur allra heilagra og mun sú nafngift eflaust hafa átt vel við þá sem mættu á þessum fundi, sem verður hugsanlega síðar meir bókaður í sögu Skagastrandar sem upphafspunktur nýrra tíma.

Býst ég því alveg eins við því að Steindór negli brátt skjal upp á 95 siðbótaratriði á aðaldyr Kántrýbæjar og verður fróðlegt að yfirlíta þá efnispunkta þegar þar að kemur. Aflátsbréf Mammons hafa sem kunnugt er gengið kaupum og sölum um allt Ísland undanfarin ár og Tetzelar þeirrar skurðgoðadýrkunar hafa sannarlega verið margir.

Og nú er svo komið, að Steindór Rúniberg Haraldsson er að eigin sögn orðinn pólitískur siðbótarmaður gegn frjálshyggju-fasisma og sótsvörtum sósíalisma !

Í umræddu fundarboði notaði Steindór nefnilega tækifærið til að vara við framangreindum stefnum sem slæmum valkostum fyrir framtíðar-samfélag okkar Íslendinga og fannst mér satt að segja einkennilegt að hnýtt væri þarna í sósíalismann um leið og frjálshyggjuna, sem nú hefur þó gert mestu skömm af sér sem framin hefur verið í Íslandssögunni.

Reyndar flögraði það að mér sem snöggvast, að kannski væri fundarboðið vottur um pínulitla tækifærismennsku af hálfu Steindórs, en ég sló þeirri hugsun snarlega frá mér því auðvitað vita allir að Steindór er enginn tækifærissinni !

Ég las fundarboðið nokkrum sinnum yfir og þótti mér textinn verða því skemmtilegri sem ég las hann oftar. Þó ætla ég ekki að úttala mig sérstaklega um það hvað skemmti mér mest, heldur vil ég aðeins velta því fyrir mér hvað átt er við með sótsvörtum sósíalisma ?

Oft var hér á árum áður talað um kommúnisma eða bolsévisma og skorti þá ekki neikvæð lýsingarorð, en sósíalismi þótti nú vægari kenning og yfirleitt var hvorki talað þar um eldrautt eða sótsvart. Ég veit heldur ekki betur en jafnaðarstefnan sé grein af hinum sósíalíska kenningameiði og er því ekki alveg með á hvað Steindór vinur minn er að fara þegar hann talar um sótsvartan sósíalisma.

Þó vil ég ekki útiloka að eitthvað slíkt geti verið til - í líkingu við svartan pipar !

Ég veit þó ekki til þess að sósíalisminn hafi unnið hér nokkur slík hervirki á efnahag manna sem kapitalisminn hefur gert að undanförnu í nafni  Sjálfstæðisflokksins og frjálshyggjunnar  -  eða að nokkur hætta sé eða hafi verið á því að hann gerði það sem eitthvert sótsvart andfélagslegt fyrirbæri.

Sumir halda því fram að ríkissósíalismi hafi verið hér við lýði frá 1917 til 1989, og hafi svo verið, hefur sósíalismi gegnt lykilhlutverki í því að byggja upp íslenska ríkið, allt þar til frjálshyggjan tók yfir og spillti stöðu mála.

Sósíalismi er félagsleg stefna sem tekur sérstakt mið af heildarhagsmunum og eins og ég gat um áðan, er jafnaðarstefnan, sósíaldemókratisminn, afkvæmi sósíalískrar hugmyndafræði. Ef Steindór er, með því að tala um sótsvartan sósíalisma, að vara við því að menn gangi of langt í sósíalískum þjóðfélagsaðgerðum, svona svipað og jafnaðarmenn gerðu að lokum í Svíþjóð, þá get ég alveg verið honum sammála í því að margt geti verið að varast í þeim efnum sem öðrum.

Það á að hjálpa þeim sem þess þurfa, en ekki að ala ómennsku upp í fólki.

Ég er hinsvegar ekki hlynntur Samfylkingunni og verð það seint, en ef til vill er þó einhver von um vilja til góðra verka frá þeim flokki, meðan menn eins og Steindór Rúniberg Haraldsson telja sig þar innanborðs, þó mér finnist sem rætur þeirra margra séu fullbláar fyrir minn smekk -  og það að Steindóri meðtöldum !

En nú liggur fyrir að Steindór Rúniberg Haraldsson hefur svarið af sér alla samúð með frjálshyggju og tekið það skýrt fram um leið, að sótsvartur sósíalismi sé ekki heldur valkostur að hans mati.

Þá vitum við það - þó þessi hugtök séu annars sennilega nokkuð á reiki í óstýrilátum og sveiflukenndum kolli okkar ágæta samborgara.

En litríkur er Steindór og viss er ég um að mörgum þætti Skagaströnd mannlífslega snauðari ef hann tæki allt í einu upp á því að marséra út af bæjarsviðinu og fara að sinna sínum pólitísku piparfræðum annarsstaðar !

Röskur er hann Rúniberg,

rær á kratafleyi.

Bráðlátur í blóð og merg,

brunar fram um vegi.

 

Öryggið í svipnum sést,

sæll hann málum skipar.

Þekkir inn á efni flest,

eins og salt og pipar.

 

Þó ég ekki á árum þar

iðki fingratöku,

bið ég honum blessunar,

bæði í svefni og vöku !

 


Um önnur efni

 

Ég ætla að gera smáhlé á pistlum mínum um þjóðfélagsmálin og rita um eitthvað annað í millitíðinni. Hér kemur -

Pistill um forsögu jólanna

Enn einu sinni eru að koma jól ! Hvað felst í því - til hvers höldum við slíka hátíð ?  Gerum við það til að gleðja börnin okkar eða kaupmennina ? Erum við að halda í hefð eða viðhalda ævintýri ?

Um hvað snýst þessi stórkostlega árlega uppákoma, sem er sennilega mikilvægur þáttur í lífi okkar flestra ?

Aftur í ósögulegan tíma hefur sú venja ríkt í mannheimi, að halda hátíð hækkandi sólar eða sóldýrkunarhátíð. Sú venja er frá heiðni komin og var hugsanlega fyrst við lýði í Egyptalandi Faraóanna. Á þessari hátíð var ýmislegt iðkað sem ekki þætti til fyrirmyndar samkvæmt kristnum skilningi og mætti margt um þau mál segja. En sem sagt - jólin koma upprunalega úr heiðnum tíma.

En hvernig urðu þau að fæðingarhátíð Frelsarans, hvernig þróuðust mál þannig, gætu margir viljað spyrja ?

Staðreyndin er sú að þessi heiðna hátíð var endurvakin undir kristnum formerkjum á fjórðu öld og Vesturkirkjan fyrirskipaði á fimmtu öld að jól skyldu haldin framvegis á degi hinnar gömlu rómversku sóldýrkunarhátíðar. Rómversk-kaþólska kirkjan tók þennan sið þannig sem málamiðlun upp úr heiðni.

Hann var ekki innleiddur af Kristi eða postulum Hans eða með Biblíulegu valdi. Frumkirkjan, hreinasta kirkja jarðar, hélt engin jól.

Órígenes kirkjufaðir segir sjálfur, " að engin hátíð hafi verið haldin á fæðingardegi Krists, aðeins syndarar eins og Faraó og Heródes viðhafi mikil hátíðahöld á þeim degi sem þeir fæddust."

Kaþólska kirkjan fór þarna pólitíska málamiðlunarleið í viðkvæmu máli. Svo að hátíðin færi ekki forgörðum eða breyttist í annað verra, var hún endurreist í kristinni mynd eða svo átti það að heita. Sólardýrkunarhátíð heiðingja varð sem sagt að tilbúinni fæðingarhátíð Frelsarans.

Jesús Kristur fæddist auðvitað ekki á jólunum. Flest rök hníga að því að Hann hafi fæðst snemma að hausti, í september eða í öllu falli fyrir miðjan október. Biblían nefnir engan dag í því sambandi og hefði Guð ætlað okkur að halda sérstaklega upp á fæðingardag Krists, hefði þessi dagsetning áreiðanlega ekki fallið í gleymsku.

Guðspjallamennirnir sáu enga ástæðu til að halda á lofti fæðingardegi Frelsarans sem slíkum. Prédikun og útbreiðsla fagnaðarerindisins var þeim hinsvegar höfuðmál og hjartans þrá, enda voru þeir í einu og öllu leiddir af Andanum til þeirrar boðunar.

En með tilkomu kristninnar sem viðurkennds valds var sem sagt breytt um formerki varðandi ýmsa heiðna siði.  Sóldýrkunarhátíðin forna varð skilgreind upp á nýtt sem hátíð ljóss og friðar í kristnum skilningi.

En hver er uppruni jólanna ef við förum enn lengra aftur í tímann ? Ef við höfum fengið þau frá Rómversk-kaþólsku kirkjunni og hún hefur fengið þau úr heiðindómi, frá hvaða uppsprettu komu þau þá til heiðingjanna ?

Talið er víst að upprunans sé að leita í hinni ævafornu Babylon, en 25. desember er sagður hafa verið fæðingardagur Nimrods sem stofnaði fyrsta konungsríki jarðarinnar. Nafn hans í hebreskum skilningi er dregið af orðinu Marad, sem þýðir " hann gerði uppreisn".  

Nimrod var svo illur og siðlaus, að hann giftist sinni eigin móður, Semiramis. Hún lýsti því svo yfir eftir dauða Nimrods, að sígrænt tré sprytti yfir nótt út af dauðum stofni, og það undirstrikaði nýtt líf Nimrods. Hann myndi síðan heimsækja þetta tré á afmælisdaginn sinn og skilja eftir gjafir, hengdar á greinar þess. Kannast einhver við samlíkinguna ?

Þessi goðsögn barst út og þannig varð Semiramis dýrkuð sem hin babylonska himnadrottning og Nimrod sem hinn guðlegi sonur himinsins. Og þessi skurðgoðadýrkun breiddist víðar og varð að Isis og Ósíris í Egyptalandi,  í Asíu að Cybele og Deoius,  í Róm  að Fortuna og Júpiter.

Jafnvel í Grikklandi, Kína, Japan og Tíbet er að finna hliðstæður þessarar uppstillingar með móður og son, löngu fyrir fæðingu Krists.

Og hinn mikli atburður kristninnar, fæðing Frelsarans í heiminn, var síðan af hinni mannskipulögðu kirkju tengdur þessari goðsagnahátíð með beinum hætti. Hin heiðna sóldýrkunarhátíð var gerð að minningarhátíð þess að ljósið kom í heiminn í persónu Jesúbarnsins.

Og við þá breytingu gerðist það síðan að jólin urðu smám saman samviskutengdur tími mannlegrar hugsunar við það barnslega í mannssálinni. Það gerðist í raun án atbeina mannlegra yfirvalda.

Og þannig hefur það verið allar götur síðan, þó margt hafi löngum spilað inn í þessi mál. Ótalmörgum tekst nefnilega að finna barnið í sjálfum sér á jólunum, ná sterkari samkennd með börnum sínum fyrir vikið og þannig tengist inntak jólanna fjölskyldulegri samstillingu í friðhelgi heimilisins.

En við kristnir menn sem höfum játað því að Jesú sé Ljós Heimsins, eins og Ritningin segir, erum í nokkrum vanda varðandi þessi mál. Við vitum mörg að jólin eru arfur frá heiðnu upphafi, en teljum kannski að breytt formerki hafi endurskapað þau að fullu með kristnu innihaldi. En reynslan sýnir þó að ýmislegt vantar á í þeim efnum.

Hin ytri tákn, hefðir og siðir, hafa nefnilega löngum haft yfirhöndina í þeirri umsköpun sem fylgt hefur jólahátíðinni. Minna hefur verið lagt upp úr breytingu hið innra enda virðist gullkálfurinn mörgum manninum löngum hugstæðari en Jesúbarnið.

Í Jeremía 10:2-5 stendur: " Svo segir Drottinn: Venjið yður ekki á sið heiðingjanna og hræðist ekki himintáknin, þótt heiðingjarnir hræðist þau.

Siðir þjóðanna eru hégómi. Menn höggva tré í skógi og trésmiðurinn lagar það til með öxinni, hann prýðir það silfri og gulli, hann festir það með nöglum og hömrum, svo það riði ekki. Skurðgoðin eru eins og hræða í melónugarði og geta ekki talað, bera verður þau því að gengið geta þau ekki.

Óttist þau því ekki, því að þau geta ekki gjört mein, en þau eru ekki heldur þess umkomin að gjöra gott ". Tilvitnun lýkur.

Maðurinn vill hafa sínar hátíðir, hvort sem þær eru samkvæmar því sem þær eru helgaðar eða ekki. Hann er ekki að pæla mikið í því að vita um orsakir eða afleiðingar, hann heldur bara fast í hefðina sem slíka.

Og margir segja sem svo: " Fyrst við gerðum nú jólin að kristinni hátíð og það meira að segja fæðingarhátíð Jesú Krists, hlýtur það að vera hið besta mál að halda hátíðina nú og framvegis."

Og á allsherjarfundi hins nafnkristna mannfélags, taka svo til allir undir þá skoðun og kaupmenn ekki síst.

Niðurstaðan er því sú að jólahátíðin er föst í sessi hvað sem líður öllum kristindómi !

 

 


Smá innlegg í íslenska efnahagsmálasögu

 

 

 

 

Hér á árum áður var það löngum viðkvæði sjálfstæðismanna að vinstri menn kynnu ekkert fyrir sér í efnahagsmálum. " Látið okkur um peningamálin " sögðu þeir jafnan við kjósendur og börðu sér á brjóst með steigurlæti miklu.

Það mun reyndar satt vera, að þeir voru og eru ekkert óvanir að höndla með peninga og tölur, enda var flokkur þeirra á þeim tíma sem ég er að vísa til stundum kallaður heildsalaflokkurinn. Þar voru nefnilega heildsalar æði fyrirferðarmiklir sem og kaupmenn yfirleitt. Sumum nægði nú reyndar ekki að vera réttir og sléttir kaupmenn og vildu heita stórkaupmenn, svona eins og tíðkaðist hjá evrópskum aðli i den tid, t.d. stórhertogi o.s.frv.

En allt er breytingum undiropið og að því kom að heildsalarnir urðu tilneyddir að víkja nokkuð fyrir lögfræðingunum sem gerðust smám saman frekastir til mannvirðinganna í " flokki allra stétta ". Ég man ekki betur en að einu sinni hafi í sex efstu sætum framboðslista Sjálfstæðismanna í Reykjavík til alþingiskosninga setið tómir lögfræðingar.

Þegar ég segi tómir, meina ég bara eða aðeins, en ekki að þar hafi setið heilalausir menn, þó stundum hefði mátt ætla að svo væri eftir vinnubrögðum þeirra á þingi. En þar sinntu þeir náttúrulega því aðalhlutverki flokksins að hlynna að sérhagsmunum en létu yfirleitt heildarhagsmuni þjóðarinnar mæta afgangi.

Í Sjálfstæðisflokknum er og hefur alltaf verið mikið af mönnum sem hugsa út frá lífsmottóinu " Ég um mig frá mér til mín ", enda flokkurinn byggður upp frá öndverðu sem sérstakur griðastaður eiginhagsmunaseminnar.

Þykir mér ekki fjarri lagi að ætla að hugsanir margra flokksmanna snúist yfirleitt svona í kringum 90% um peninga og eitthvað sem tengist því að græða og eignast fleiri krónur.

Iðulega gengur sú auraleit mest út á það að hafa eitthvað út úr kerfinu og finna þar einhverjar girnilegar matarholur.

Ég tel mig þekkja til sjálfstæðismanna sem ég hygg að nái því að tengja hugsanir sínar allt að 98% við peninga, en ég ætla ekki að fara nánar út í þá sálma hér.

En sem sagt, þessar forsendur gera það að mörgu leyti skiljanlegt, að dæmigerðir sjálfstæðismenn hafi löngum talið að enginn kynni með fé að fara nema þeir. Þeir hafa jú jafnan átt mest af því og leiðandi í þeirra hagsmunafylkingu hafa jafnan verið menn af þeim ættum sem frekast hafa státað hérlendis af auði og velsæld um áratugaskeið.

En sá auður hefur þó oftar en ekki byggst á arðráni og vinnu annarra og þannig  síður en svo verið í ærlegum skilningi eitthvað til að státa af.

Sú velmegun sem þjóðin var búin að skapa sér, vannst nefnilega ekki fyrir tilverknað Sjálfstæðisflokksins heldur þrátt fyrir hann. Félagshyggjuflokkarnir unnu að mestu hið þjóðlega framfaraverk, en íhaldið drattaðist með vegna þess að það mátti til.

Sjálfstæðismenn hafa eins og flestum er kunnugt horft blóðugum augum á eftir hverri krónu sem farið hefur til félagslegra verkefna á vegum ríkisins og talað þá sem oftar um þörfina á einkavæðingu. Það á nefnilega eftir þeirra forskriftum alltaf að einkavæða gróða en ríkisvæða tap.

Lengi vel gátu þeir samt ekki komið sínum stórkapítalísku draumum fram vegna þess að félagshyggjuöflin voru það vel á verði að það var ekki hægt og jafnframt voru framan af fyrir í flokknum borgaralega frjálslyndir menn sem höfðu nokkurn hemil á vitleysingunum sem vildu vaða þar uppi.

En loks kom að því að hin svörtu öfl Sjálfstæðisflokksins fengu í hendur vopnið sem þau höfðu lengi þráð að eignast.

Það birtist í frjálshyggjunni um og upp úr 1980. Þegar hinni borgaralegu frjálslyndisstefnu var úthýst úr Sjálfstæðisflokknum eftir ríkisstjórnarmyndun Gunnars Thoroddsen, myndaðist þar tómarúm sem veitti stórkapítalískum frjálshyggju-sjónarmiðum mikið svigrúm. Á tiltölulega stuttum tíma lagði frjálshyggjan flokkinn algerlega undir sig.

Fyrstu árin fékk þó flokkurinn ekki verulegt tækifæri til að beita þessu nýja stefnuvopni í þágu einkahagsmuna gegn þjóðarhagsmunum, því til þess vantaði meirihluta á alþingi. En upptaka kvótakerfisins var þó fyrsta meiriháttar ógæfusporið og það varð svo meginforsenda þeirrar bölvuðu framvindu sem síðan tók við. Þegar svo Framsóknarflokkurinn gaf sig í það Íslands ógæfuhlutverk að tryggja íhaldinu 12 ára ofurvöld á Íslandi var óspart farið að beita  frjálshyggjuvopninu og bestu mjólkurkýr þjóðarinnar voru leiddar út úr ríkisfjósinu og skornar frá heildarhagsmunum okkar og færðar yfir á sérhagsmuna-brennimörkin.

Bankarnir, síminn, allt var þetta látið fara fyrir slikk í einkavæðingu með persónulegri hagsmunablessun Davíðs og Halldórs, íhalds og Framsóknar, og þjóðin þekkir þá syndasögu undir nafninu  - einkavinavæðingin mikla !

Og nú höfum við fengið uppskeruna af því sem sáð var til með 12 ára frjálshyggjustjórn íhalds og Framsóknar -  raunverulegt þjóðargjaldþrot !

Flokkurinn sem kennir sig við sjálfstæðið hefur skapað gífurlega hættu á því að við glötum sjálfstæði okkar. Það hefur hann gert með ábyrgðarlausri stefnu sinni og vítaverðri sérhagsmunablindu.

Öll áföllin sem hafa verið að hellast  yfir okkur að undanförnu eru beinar afleiðingar stjórnarhátta þessara tveggja fyrrnefndu flokka undir viðvarandi alræðisforustu Sjálfstæðisflokksins. Því getur enginn neitað og það ber að hafa í minni.

 

Og nú er gamla kenningin um efnahagsmála-dómgreind sjálfstæðismanna gjörsamlega hrunin og meira öfugmæli varla til í íslenskri sögu.  Raunar er sárgrætilegt að hugsa til þess hvað lengi umrædd kenning gekk í fólk til skaða fyrir allt sem íslenskt er.

 

Sjálfstæðismenn !!!  þeir einu sem þóttust kunna á efnahagsmálin í þessu landi !

Sjálfstæðismenn !!!  þeir einu sem þóttust kunna með fé að fara í þessu landi !

Sjálfstæðismenn !!! þeir einu sem þóttust eiga stórvini í öllum nágrannalöndum okkar !

Nú hver er staðan eftir samfelldan stjórnarforustuferil þeirra í 17 ár :

Þeir hafa haldið þannig á málum, að þeir hafa rústað efnahag þjóðarinnar, rúið okkur trausti og farið svo með góðan orðstír okkar að seint verður þar um bætt.

 

Og enn eru þeir margir hverjir kokhraustir og reyna að skella skuldinni á alþjóðlega kreppu í stað þess að þegja og skammast sín !

 

Eftir þetta skipbrot hlýtur leiðin að liggja til vinstri, til félagshyggjunnar, til þeirra sameiginlegu hagsmuna sem byggt var á áður en frjálshyggjan eyðilagði það skásta sem til var í Sjálfstæðisflokknum - hina borgaralegu frjálslyndisstefnu - og gerði flokkinn að algeru skaðræði þjóðarsögunnar.

Hver Íslendingur ætti nú að vita að slíkum öflum sem frjálshyggjunni, ætti enginn maður með óspillta þjóðlega vitund, að veita brautargengi.

Hún hefur reynst verri en hinar plágurnar sem gengið hafa yfir þjóðina, Svartidauði, Stóra bóla, Móðuharðindin og Spánska veikin, -  því hún getur ekkert gott vakið upp í mannssálinni -  !

Aldrei framar verði menn svo skyni skroppnir að styðja mannfjandsamlegan kapítalisma frjálshyggjunnar  til valda á Fróni.

Hremmingarnar sem við höfum fengið yfir okkur fyrir svefngengils-efnahagspólitík Sjálfstæðisflokksins, með ógeðslegum undirlægjustuðningi Framsóknarflokksins, mun skrifuð verða í þjóðarsöguna sem svörtustu mistök sem gerð hafa verið af íslenskum stjórnvöldum og fjármálayfirvöldum og Sjálfstæðisflokkurinn mun aldrei geta fríað sig við það að hann ber meginábyrgðina á því sem gerðist.

 

 

 

 


Um guðfeður útrásarinnar og fleira

  Hvað lengi skyldi þjóðin þurfa að bera ábyrgð á Davíð Oddssyni og öllu því sérhagsmunafylleríi sem viðgengist hefur í kringum hans þjóðarbús- ráðsmennsku ?

Er maðurinn ekki búinn að vera þessari þjóð nógu þungur í skauti ?

Er ekki kominn tími til þess að hann skilji að flestir telja þjóðina betur komna án hans afskipta af málum ?

Einu sinni var heilt þjóðþing sent heim með orðunum:  " You have sat too long for any good you have been doing !"

Þau orð eru að öllu leyti tímabær varðandi brottför Davíðs Oddssonar úr stóli seðlabankastjóra. Í þann stól átti hann aldrei að setjast frekar en nokkur annar afdankaður pólitíkus. Þar á að sitja maður sem nýtur trausts til að taka á málum með faglegum hætti og er ekki vafinn í neinar pólitískar siðblinduflækjur.

Afleiðingar stjórnarhátta Davíðs Oddssonar, sem forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, hafa leitt til gífurlegrar ógæfu í efnahagslegu tilliti fyrir þjóðina, ógæfu sem hefur skaðað nánast alla íbúa landsins fyrir utan gullkálfana, sem hlupu strax með halann milli fótanna til útlanda.

Þetta voru gullkálfarnir hans Davíðs, efnahagsmálaundrið hans, einkavæðingar-vinirnir, útrásarvíkingarnir, snillingarnir sem allt áttu að kunna og geta, og Davíð sjálfur lagði vopnin til verkanna í hendur þeirra. Vopnin sem nú hafa höggvið efnahag þjóðarinnar niður í smátt.

Þó að Davíð og Ólafur Ragnar hafi sjaldan verið sammála í málum, þá voru þeir sammála í því að dásama útrásina og monta sig yfir henni. Nú virðist sem hvorugur þeirra vilji kannast við eigin orð og framgöngu í því sambandi.

En þeir voru hvor með sínum hætti taldir af mörgum nokkurskonar guðfeður

" hinnar stóríslensku fjármálasóknar " inn á hið alþjóðlega samkeppnissvið.

Þar áttu hin íslensku " séní "  að leggja undir sig heiminn með snilli sinni !

Nú er hinsvegar að renna upp fyrir mörgum hve yfirgengileg vitleysa var þarna á ferðinni og nú eru margir í miklum önnum við að reyna að fela gengna slóð.

Fyrir skömmu var bókarhandriti um forsetann kippt úr prentsmiðju á síðustu stund, að sögn til að umrita texta sem þótti ekki lengur frambærilegur. Sagnfræðileg heilindi virðast þar hafa orðið að víkja fyrir umhyggju viðkomandi höfundar fyrir glansímynd forsetaembættisins. En þó að reynt verði að breyta þar um varðandi aðkomu forsetans að útrásinni, vita allir að hann var á hjólum í kringum auðmennina og var þar algjörlega í andlegu kompaníi við gullkálfagengi Davíðs og Có !

Verða slíkir ráðamenn ekki að axla ábyrgð gagnvart þjóðinni ?

Þungavigtarmenn í ógæfuflokknum segja í sífellu að ekki megi persónugera vandann ! Hvað þýðir það á mannamáli ?

Það þýðir að Davíð eigi ekki að bera neina ábyrgð, það þýðir að gullkálfarnir eigi ekki að bera neina ábyrgð, það þýðir að sofandi yfirvöld og steindauðar eftirlitsstofnanir eigi ekki að bera neina ábyrgð !

Getum við sætt okkur við það ?

Af hverju hafa Reykvíkingar ekki hópast í þúsundatali niður á Austurvöll og heimtað Davíð burt úr Seðlabankanum og allt þetta lið frá völdum sem hefur splundrað lífskjörum okkar eins illa og raun ber vitni ?

Hvað er að fólki, hefur það orðið að andlegum aumingjum við áfallið ?

Það þyrfti að setja á fót utanþingsstjórn í landinu - nokkurskonar " brain trust stjórn " og afsegja núverandi framkvæmdavald sem og þingið.

Boða þyrfti svo til kosninga innan hæfilegs tíma þegar óháð rannsókn af hálfu tilkallaðra erlendra sérfræðinga hefði farið fram. Þá ætti fólk að geta kosið á grundvelli þeirra niðurstaðna sem fyrir lægju.

Í millitíðinni þyrftu svo menn með sæmilega hreinar hendur að vinna fyrir okkur í stjórn og stofnunum - við eigum nefnilega að eiga samkvæmt endalausum yfirlýsingum völ á svo mörgu vel menntuðu og hæfu fólki til allra hluta !

Við getum auðvitað aldrei byrjað aftur að byggja upp á eðlilegum grunni ef Davíðsvinaklúbburinn á að vera rannsóknaraðilinn að eigin afglöpum !

 

En því miður, sennilega er ekkert af þessu hægt - vegna þess að öll ráðamannaklíkan er samsek í þessari efnahagsmálaspillingu sem nú liggur fyrir og stjórnkerfið sem slíkt þolir engin hreinsunarefni. Það er með kapítalískt ofnæmi fyrir þeim !

Óværan er þar til staðar og verður þar og spillingin mun halda áfram að grafa um sig, ekki síst vegna þess að stór hluti þeirra 40% landsmanna sem hafa stutt Sjálfstæðisflokkinn, er í bullandi afneitun gagnvart staðreyndum og styður áfram flokkinn eins og ekkert hafi í skorist og sú afstaða undirstrikar með geigvænlegum hætti hina gamalkunnu umsögn -  " allt verður Íslands óhamingju að vopni " !

 

 

 


Davíðsvinafélagið

 

Það hefur flogið fyrir að í bígerð sé af hálfu nokkurra útvalinna frjálshyggju-postula og menningarskríbenta í höfuðstaðnum, að stofna og byggja upp á næstunni svonefnt Davíðsvinafélag.

Sennilega er hugmyndin sú að tryggja að alveg einstöku mannlegu eintaki verði ekki stefnt í voða á nokkurn hátt. Minnir þetta nokkuð á stofnun Tófuvina-félagsins, sem sett var á fót á sínum tíma, til að verja tilvist villidýrs nokkurs sem löngum hafði skaðlegt verið fyrir bændur og búalið. En þó minnst sé á þetta verða menn að hafa í huga að með því er aðeins verið að benda á samlíkinguna með nöfnunum á þessum tveim umræddu vinafélögum.

Óstaðfestar heimildir herma, að hugsað sé til þess að formaður Davíðsvina-félagsins verði Hannes Hólmsteinn Gissurarson en Kolbrún Bergþórsdóttir hafi fallist á að taka að sér varaformannsstöðuna. Bæði þykja þau Hannes og Kolbrún frambærileg til þessara embætta og uppfylla trúlega öll skilyrði til að gegna þeim sem best.

Heyrst hefur að aðrir í stjórn muni verða Kjartan Gunnarsson, Baldur Hermannsson og Illugi Gunnarsson. Þykir líklegt að sá orðrómur hafi við rök að styðjast, því allir hafa þessir menn hin bestu meðmæli sem Davíðsvinir.

Talið er víst að sérstök lög verði samin sem rammi fyrir starfsemi félagsins og hefur því verið fleygt að Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorsteinn Davíðsson muni sjá um þá hlið mála, enda allra manna best til þess fallnir sökum ótvíræðrar kunnáttu sinnar á hverskyns lagabálkum.

Annars á starfsemi Davíðsvinafélagsins að byggjast á einni grundvallar-reglu sem endurspeglast einna best í eftirfarandi stöku sem sumir vilja meina, en sennilega með röngu, að sé eftir Halldór Blöndal :

Fræðilega og faglega

sé félags þráin sterk,

að verja Davíð daglega,

og dýrka hvert hans verk !

Það er ástæða til að fagna því að nú á einna mestu niðurlægingartímum Íslandssögunnar varðandi félagsþroska og samfélagsvitund, skuli vera hugsað til þess að stofna félag og það með eins göfugan tilgang að leiðarljósi og raun virðist vitni bera í þessu tilfelli.

Nýlega heyrðist vísa kveðin í Bókavörðunni hjá Braga Kristjónssyni af einhverjum ókenndum úlpumanni og er ekki ólíklegt að sá hinn sami hafi verið og sé í einhverjum tengslum við hið upprennandi Davíðsvinafélag.

Telja nú margir að vísa þessi hafi verið einhverskonar byrjunar-áróður af hálfu félagsins og megi vænta mikillar sóknar á næstunni fyrir endurheimtum orðstír hins mikla foringja. 

Viðstaddir kúnnar í Bókavörðunni gripu vísuna á lofti og hljóðaði hún svo að þeirra sögn :

Davíð menn ei mega hata,

mann er sýnir gát.

Hann gerir alla Golíata

gjörsamlega mát !

                                         Eða þannig !!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

 

 

 

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 4
  • Sl. sólarhring: 178
  • Sl. viku: 1034
  • Frá upphafi: 309926

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 907
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband