Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Þríhryssingar Þjóðarógæfuaflanna

Það hefur á seinni árum verið talað í vaxandi mæli um að Íslendingar væru ekki lengur ein þjóð í eigin landi. Og það er sannarlega talsvert til í því.

Með tilkomu kvótakerfisins var þjóðinni skipt í tvær andstæðar fylkingar, þá sem nutu sérgæða af hálfu stjórnvalda, voru efnaðir margir hverjir fyrir, en gerðir stórauðugir með tilkomu þessarar mismununar; og þá sem voru settir úti í kuldann, voru efnalitlir fyrir og gerðir enn fátækari. Þannig var deilt og drottnað og þannig er það jafnan þegar óþokkamenni komust til valda.

Með þessu mannréttindabrotakerfi var allstór hópur útvalinna manna gerður að árlegum áskrifendum að milljónatugum úr ríkissjóði og þeir látnir fá helftina af þjóðarauðlindinni til arðráns og eignasöfnunar prívat og persónulega.

Verri stjórnvaldsaðgerð hefur tæpast verið framkvæmd á öllum tíma íslenska lýðveldisins og ekki batnaði það þegar framsalið var gefið frjálst í hendur sömu aðila.

Öll ógæfusaga seinni ára, allur frjálshyggju-hryllingur Davíðstímans, á rætur að rekja til kvótakerfisins. Ákveðnir aðilar fengu svo mikla peninga út úr kerfinu að innan fárra ára voru þeir svo til búnir að leggja undir sig þjóðfélagið.

Og þeim gjörningi fylgdi græðgin hömlulausa, síhungruð ágirnd í meiri auð og meira meðlæti. Peningarnir streymdu úr fullum fjármagnsvösum sægreifanna í alls kyns fjárfestingar í öðrum atvinnugreinum og hverju því sem talið var að hægt væri að græða á. Einkavæðing bankanna og Símans á rætur sínar líka í þessu. Einnig það siðleysi sem reyndi að gera ranglæti að réttlæti og sneri öllum góðum gildum á hvolf. Það voru vaktar upp óseðjandi blóðsugur í þessu landi sem drukku blóð annarra og vildu stöðugt meira blóð.

Og sama klíkan réði öllu, þríhryssingar auðs og valds voru á hverju strái, jafnt í útgerðum, viðskiptalífi og stjórnkerfi. Þeir voru bræður og samherjar í arðráni á gæðum lands og þjóðar, en sátu þó jafnan á svikráðum við allt og alla.

Þeir voru skuggabaldrar í stjórnkerfinu og svo til allir höfuðmarkaðir sama flokksstimplinum, ef ekki stóra Þjóðarógæfuflokknum þá þeim litla.

Og þessir þríhryssingar græðginnar fóru sínum þjófshöndum um þjóðarbúið !

Nánast allt ríkiseignabatteríið var sett á útsölu fyrir þá og hver kerfiseining glennt upp á gátt fyrir þá og spurt hvort eitthvað væri þarna og þarna sem þá langaði í ? " Gerið svo vel, gerið svo vel, elsku vinir ! "

Og ránsskapurinn varð yfirgengilegur í þessum veisluhöldum varúlfanna og svikamylla spillingaraflanna jókst og margfaldaðist með sívaxandi siðvillu og ranglæti. Stjórnmálafífl  Þjóðarógæfuflokksins kunnu sér ekki læti við þessar óska-aðfarir og spurðu kampakátir fréttamenn hvort þeir sæju ekki veisluna ?

Það var eins og menn hefðu komist í þrefalt pólútasvarf úti í Miklagarði líkt og Haraldur harðráði forðum. Menn gengu klyfjaðir ránsfeng til herbúða sinna.

Stjórnvöld höfðu sýnilega gefið skotleyfi á alla hluti og siðferði var ekki lengur til í íslenskum veruleika. Málið var bara að hirða og hirða, draga undir sig allt sem gat verið einhvers virði í peningum talið.

Þríhryssingar frjálshyggjupestarinnar og Þjóðarógæfuflokksins voru komnir í sína óskastöðu og ógeðslegir eiginleikar þeirra komu fram í dagsljósið sem aldrei fyrr, þegar ekkert aðhald var til staðar. Pólitískir ábyrgðarmenn þeirra létu lítið fyrir sér fara, lokuðu værðarlega augunum, og pössuðu bara að hafa allar dyr opnar fyrir þessum alikálfum sínum. Borgaralegt öryggi var neglt niður í núllstöðu og lögmál frumskógarins var hyllt á Valhallarvísu.

Og svo eru menn hissa á því að íslenskt þjóðfélag skyldi hrynja við þessi ósköp,

að stoðir heilbrigðs samfélags skyldu bresta við þessar hamfarir græðginnar ?

Það er eitt sem almenningur á Íslandi þarf umfram allt að skilja, að hrunið var beinlínis sjálfvirk afleiðing verka og framferðis þessara þríhryssinga sem nutu sérkjara í sínu þjóðfélags-niðurrifi í boði og  skjóli Þjóðarógæfuflokksins.

Menn sáðu fyrir þessu hruni með græðgi sinni og gullþorsta, með óíslensku háttalagi sínu og umvaðandi fjármálaóreiðu. Valdatvíburar sáningartímans, Davíð - stóri tvíburi og Halldór - litli tvíburi, bera manna mest ábyrgðina á því sem var látið gerast. Það verður aldrei af þeim skafið.

Sú málning sem þeir skvettu á sig sjálfir á valdatíma sínum er og verður óafmáanleg og þjóðarsagan mun geyma þá skammarbletti um ókomna tíð.

Og það sama gildir um framferði allra þríhryssinganna sem léku sér í skjóli þeirra, en hafa nú margir hverjir forðað sér úr landi og skriðið inn í lúxusaðsetur sín erlendis, í þeirri von að íslensk þjóð gleymi brátt því sem þeir gerðu og taki þá í sátt.

En við eigum ekki og megum ekki taka slíka menn í sátt. Því hvað gerðu þeir ?

Þeir lítilsvirtu allt sem þjóðlegt er og gott til í þessu landi. Þeir misnotuðu Ísland og nauðguðu því af fullkomnu tillitsleysi gagnvart þjóðaröryggi !

Látum þá verða útlaga eins og hina afrísku einræðisherra sem flúið hafa lönd sín eftir þrjátíu ára þríhryssingskúgun og níðingsskap gagnvart þjóðum sínum.

Þar er félagsskapur við hæfi slíkra manna !

Það óska þess margir af heilum hug, að illa fenginn auður þeirra megi verða að ógæfusnörum um háls þeirra það sem þeir eiga ólifað.

Það ætti með réttu alltaf að verða örlagadómur þríhryssinga um allan heim !

 


Margt er skrítið málum í / margir hafa orð á því. Andann sem er óhollur / ekki bætir Glókollur !

Undarleg hafa vinnubrögð forustumanna sjálfstæðisflokksins verið undanfarnar vikur og þó enn undarlegri eftir að Ólafur Ragnar Grímsson reyndi að slá sig til höfuðriddara íslensks lýðræðis 5.janúar sl. Fyrst var barist gegn samningum við Breta og Hollendinga á þeim forsendum að við ættum ekki að borga neitt, sbr. orð leiðtogans mikla um skuldir óreiðumanna, svo var dregið í land með það, en sagt að við yrðum að ná mun betri samningum en ríkisstjórnin væri búin að semja um. Það ætti alveg að vera hægt ef sæmilega skynsamt fólk stæði að málum.

Sem sagt ríkisstjórnin og margt af okkar færasta fólki í milliríkjasamningum fékk þarna asnastimpilinn ríkulega útilátinn. Svo var þess krafist að viðhöfð yrði  þjóðaratkvæðagreiðsla um málið. Fólk með sérfræðikunnáttu í milliríkjamálum átti að vera að gera tóma vitleysu í þessu máli og allt í einu vildi sjálfstæðisflokkurinn að almenningur á Íslandi tæki ákvörðun þess í stað.

Það er sannarlega ný afstaða af hálfu þessa flokks sem aldrei hefur verið spenntur fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum hingað til en virðist nú dansa í dómgreindarlausa hringi með það eitt í huga að gera ríkisstjórn landsins allt til miska.

Ég hef alla tíð talið mig alþýðusinnaðan félagshyggjumann. Lýðræði er mér hugstætt en lýðskrum ekki. Það er álit mitt að þetta mál sem hér um ræðir eigi mjög takmarkað erindi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það mun líklegast fara svo að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem kjósa eiga þar, mun ekki geta kynnt sér málavexti til neinnar hlítar. Almennt fólk hefur einfaldlega ekkert svigrúm til að setja sig inn í þetta flókna mál. Milliríkjadeila af þessu tagi krefst mikils tíma og ástundunar og almenningur á Íslandi hefur sannarlega nóg með sín vandamál sem hafa nú margfaldast af völdum ábyrgðarlausra pólitíkusa og frjálshyggju-pestargemlinganna, þó þetta bætist ekki við.

Við höfum kosið okkur stjórnvöld til að leysa svona mál og ríkisstjórnin hefur verið að vinna í þessu fyrir þjóðina, þrátt fyrir erfiðleikana af völdum stjórnarandstöðunnar og nú síðast Ólafs Ragnars.

En nú á að fleygja hátt í 200 milljónum í þessa atkvæðagreiðslu og gera að litlu eða engu margra mánaða vinnu og spilla ýmsum möguleikum í málum endurreisnar og viðgangs þjóðarinnar.

Það er vonandi að sem flestir geri sér grein fyrir lýðskrums-kjaftæði stjórnarandstöðunnar og snúist gegn ábyrgðarlausu framferði hennar. Og það má minna á að það getur ýmislegt gerst á nokkrum vikum í pólitík.

Og það virðist nú sem sjálfstæðisflokkurinn sé orðinn eitthvað hræddur við verk sín og feril rétt einu sinni. Þjóðaratkvæðagreiðslan sem hann vildi er nú ekki neitt höfuðatriði lengur og svo er samhnýtingin við Ólaf Ragnar þeim sjálfstæðismönnum  hreint ekki geðfelld - mörgum hverjum.

Og spyrja má, hvar geta sjálfstæðismenn og hinn óvænti bandamaður þeirra á Bessastöðum hugsanlega staðið eftir nokkrar vikur ?  

Kannski í virðingarsnauðu tómarúmi ábyrgðarleysisins !

Við Íslendingar þurftum oft að finna fyrir Bessastaðavaldinu hér áður fyrr og sagan er því miður gjörn á að endurtaka sig, einkum með það sem miður fer.

Nú hamast sjálfstæðismenn í þeirri viðleitni sinni að komast inn í það björgunarstarf sem stjórnvöld hafa verið að vinna, svo þeir geti síðar haldið því á lofti að þeir hafi átt þátt í endurreisn Íslands.

Allt í orðum þeirra og athöfnum miðast við hagsmuni flokksins. Þeir eru enn komnir inn í öfuga hlutverkið, það sama og þeir léku í landhelgismálunum, að þykjast aldrei hafa verið á móti þegar mál eru að komast í höfn.

En fólk þarf og verður að muna hvernig menn og flokkar halda á málum. Það er ekki hægt að strika yfir orð og gerðir endalaust. Það er ekki hægt að afgreiða hrunið með því að nokkrir óreiðumenn hafi verið að verki.

Það voru sjálfstæðisflokkurinn og framsóknarflokkurinn sem gerðu þessa eftir á kölluðu óreiðumenn út. Þeir störfuðu á ábyrgð þessara flokka og komust svo langt sem raun ber vitni vegna þess að þessi stjórnmálaöfl héldu hlífiskildi yfir þeim fram í rauðan dauðann og gera jafnvel enn. Regluverkið virkaði ekki vegna þess að það var tekið úr sambandi gagnvart athöfnum þessara manna af pólitískum ábyrgðarmönnum þeirra. Það er hinn beiski sannleikur málsins.

Það virðist oft býsna stór fimmta herdeild vera fyrir hendi í þessu landi, önnum kafin í því verkefni að berjast gegn öllu sem flokkast undir almenna þjóðarhagsmuni. Þar fylkja sér flestir þeir sem sjá ekki Ísland og íslenska þjóð fyrir sérgæðingshætti og flokkslegum eiginhagsmunum og svo þeir amlóðar sem vilja draga okkur inn í Evrópusambandið.

Hætturnar eru sem sagt ekki bara fyrir hendi til hægri, það eru líka hættur til vinstri. Hin íslenska farsældarleið liggur í því að forðast þessar hættur og varast vítin á báða bóga - nóg ætti reynslan að hafa kennt okkur að undanförnu til þess að við föllum ekki í fleiri helvítisgryfjur að sinni.

 


Eru íslenskir hryðjuverkamenn til ? Hvað er einkavæðing ?

 

 

Það hefur margur spurt þeirrar spurningar eftir íslenska bankahrunið, hvað einkavæðing sé og hvað felist raunverulega í því að einkavæða ? Áður voru þeir hreint ekki svo fáir sem gáfu sér það bara umhugsunarlaust að einkavæðing hlyti að vera af því góða. Ef þeir hinir sömu væru nú spurðir af hverju þeir hefðu gefið sér það, myndi þeim trúlega nokkuð mörgum vefjast tunga um tönn.

Þeir gera sér varla grein fyrir því að þeir urðu nytsöm fórnarlömb hins gífurlega áróðurs sem gekk í þjóðfélaginu á gullkálfsárunum, þar sem stefnan gekk út á það að ekkert sem arðbært væri mætti vera í ríkisins eigu. Nú hafa þeir sumir hverjir fengið alvarlegar efasemdir um að einkavæðing sé eins góð og ýmsir hafa viljað vera láta og það er náttúrulega vegna þess að bankahrunið var afleiðing einkavæðingar sem fór algerlega úr böndunum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf verið einkavæðingarflokkur og barist fyrir því með oddi og egg að koma öllum hugsanlegum ágóðaeiningum í þjóðfélaginu í hendur útvalinna einstaklinga. Ríkið á bara að sitja uppi með óarðbæran rekstur.

Þessi arfavitlausa flokksstefna var í rauninni einkavædd sem ríkisstefna á hinum allt of langa valdatíma Sjálfstæðisflokksins frá 1991 til 2008, til mikillar ógæfu fyrir þjóðina. Félagshyggjuflokkarnir höfðu lengstum getað dregið talsvert úr því tjóni sem Sjálfstæðisflokkurinn reyndi hvenær sem færi gafst að vinna á velferðarkerfi þjóðarinnar, en þegar Framsóknarflokkurinn afklæddist sínum fyrri flíkum og klæddi sig í frjálshyggjubúning Halldórs-flokkstískunnar, var fjandinn laus og voðinn vís !

Byrjað var á því að verðmerkja allt sem einhvers virði var hjá ríkinu og setja á stofn einkavæðingarnefnd. Lögum var hagrætt með ýmsum hætti svo brottnám ríkiseigna yrði í samræmi við allt sem löglegt átti að teljast, en siðleysið var auðvitað það sama fyrir því.

Svo voru fjölmiðlarnir skrúfaðir upp í það að tala fyrir einkavæðingu og að ríkið eða sveitarfélögin ættu ekki að vera að vasast í rekstri sem skekkti samkeppnisstöðu og væri beinlínis óheilbrigður af þeim sökum. Heilir hópar af nytsömum sakleysingjum voru sendir út af örkinni til að básúna fagnaðarboðskapinn um hinn frjálsa markað sem myndi tryggja hina gullnu framtíð og samkeppni sem myndi skila sér til góðs fyrir almenning.

Og samtímis því var hafist handa við að leiða bestu mjólkurkýr þjóðarinnar út úr ríkisfjósinu og selja þær fyrir slikk í óhreinar hendur. Þvílíkur viðbjóður sem þar var á ferðinni og að hugsa sér hvað menn komust upp með að gera. Aldrei hefur ein þjóð verið rænd svo að segja aleigu sinni við jafn litla mótstöðu. Aðeins þeir sem voru heilshugar félagshyggjumenn sáu teiknin um ógæfuna frá fyrstu tíð, en það vildi enginn hlusta á þá, hvorki mig né aðra slíka. Við vorum sagðir sérvitringar, torfkofaþenkjandi fortíðarsinnar, einangrunarsinnar eða rómantískir draumóramenn. Enganveginn í takt við nýja tíma - tíma gulls og grænna skóga.

Við vildum ekki sjá veisluna sem Árni Matt talaði um og tókum ekki þátt í henni, en bárum kvíðboga fyrir framtíð þjóðarinnar, því eftir fyllirí koma yfirleitt timburmenn !

Og einkavæðing andskotans rændi okkur bönkunum okkar, rændi okkur Pósti og síma og hefði rænt okkur Íbúðalánasjóði líka, ef nokkrir skárri mannanna í Framsóknarflokknum hefðu ekki hysjað upp um sig betri brækurnar, sem reyndar höfðu nærri týnst fyrir heybrókarhátt flokksins, og neitað að ganga svo langt í íhaldsþjónkuninni. Það varð til þess að krafa hinna einkavæddu banka um slátrun Íbúðalánasjóðs náði ekki fram að ganga.

Einkavæðing er í rauninni ránskapur og hreinn og beinn þjófnaður í mörgum tilfellum. Þar er verið í krafti pólitískrar valda-aðstöðu að taka þjóðareigur, verðmiklar rekstrareiningar sem hafa verið byggðar upp, oft á löngum tíma, með skattpenings útlátum almennings, og koma þeim í hendur útvalinna gæðinga pólitískrar sérhagsmunagæslu.

Þetta vita margir og skilja og því hefur mikið verið talað um einka-vina-væðingu !

Við eigum mörg frétta-myndbönd af þeim manni sem mesta ábyrgð bar á einkavæðingarvitleysunni, þar sem hann fer hástemmdum lofsorðum um útrásarsnillingana sína. En það síðasta sem hann sagði um þá alikálfa sína, var hinsvegar, " að við Íslendingar ættum ekki að borga skuldir óreiðumanna " ! Þeir hinir sömu voru aldeilis ekki óreiðumenn í hans augum þegar hann afhenti þeim bankana okkar fyrir nokkrum árum á silfurfati frjálshyggjunnar..........!

En þjóðin virðist geta gleypt hvað sem er og hún er fljót að gleyma. Fjölmargir vilja ekki muna hvað gerðist, það virðist allt of sársaukafullt fyrir þá. Margir af þeim vilja kjósa sama ógæfuvaldið yfir okkur aftur. Þeir kjósendur virðast helst vilja treysta þeim til endurreisnar sem komu hér öllu á kalda kol. Enn ætla þeir að trúa á bláu höndina, enn ætla þeir að hylla einkavæðinguna og frjálshyggju-trúarbrögðin sem hafa þrýst okkur niður í helvíti hagleysunnar. Hvernig má reisa við efnahag landsins með slíkum ófagnaði ?

Og nú hefur sá maður sem kallast forseti Íslands, hellt olíu á alla ófriðarelda af fullkomnu ábyrgðarleysi. Hann átti sinn þátt í útrásinni eins og réttilega var bent á í skaupinu á gamlárskvöld og ýtti undir ábyrgðarlaus veisluhöldin. Hin lýðskrumsfulla yfirlýsing hans á sínum tíma um gjána milli þings og þjóðar, varð að orðtaki sem margir hömpuðu.

En það gæti farið svo að önnur gjá myndaðist í þessu landi og það jafnvel á næstunni,  gjá milli björgunarstarfsins í þjóðfélaginu, þeirra sem vilja lágmarka skaðann af Icesave, og Bessastaða, gjá milli þjóðarinnar og forsetans. Ef slík staða kæmi upp, ætti forsetinn skilyrðislaust að víkja, enda hefur hann orðið því lakari forseti sem hann hefur setið lengur.

Ólafur Ragnar Grímsson hefur sýnt að hann er enginn öryggisventill fyrir þjóðina í embætti forseta Íslands, hann er öllu fremur orðinn að vandamáli í þjóðlífinu !

 

 


Varðandi eitt stærsta óþurftarmálið

Það var athyglisvert að fylgjast með umræðunum á Alþingi 30. desember, varðandi Icesave-málið. Margt í máli þingmanna kom manni til að hugsa og spyrja, hvað margir skyldu vera á þingi sem virkilega hafa hjarta fyrir íslensku þjóðinni ?

Flestir þingmannanna tjáðu sig alfarið á flokkslegum nótum. Það var ekkert í máli þeirra sem benti til þess að þeir hefðu skilning á því að verið væri að glíma við mál sem skipti miklu fyrir örlög og afkomu heillar þjóðar. Þeirrar þjóðar sem þeir þóttust þó vera að starfa fyrir á alþingi. Margir voru í algjörri afneitun gagnvart þeirri staðreynd, að málið sem til umræðu var bjó ekki yfir neinum góðum valmöguleikum. Þeir þrástöguðust á því að leita þyrfti betri samninga, það væri til betri leið o.s.frv. En nánari skilgreining á slíkum möguleika var ekki sett fram með neinum hætti. Ég vildi sjá þann mann sem teldi t.d. Sigmund Davíð Gunnlaugsson líklegan til að leysa Icesavemálið á betri forsendum en náðst hafa ?

Hann er sá maður í öllu þessu vandræðamáli sem hefur yfirleitt notað stærst orð til að lýsa ódugnaði og ráðaleysi ríkisstjórnar Íslands varðandi allar leiðir til lausnar þess.

Af hverju er hann ekki í ríkisstjórn í dag ? Vegna þess að hann fékk ekki stuðning til þess. Þjóðin treysti ekki Framsóknarmönnum til frekari verka, jafnvel þótt þeir ættu að heita hvítskúraðir af syndum forvera sinna. Það er athyglisvert að Sigmundur hefur í mörgum tilfellum tekið mun harðar til orða í garð ríkisstjórnarinnar en Bjarni Ben II. Ég tel að munurinn liggi í því að Bjarni sé mun reyndari og klárari þingheili. Hann veit að þegar menn eru alltaf að kasta frá sér ábyrgðarlausum orðaleppum koma þeir gjarnan til baka eins og boomerang. Hann fer sér því hægar í þeim efnum þó hann hafi svipaða afstöðu til stjórnarinnar og vilji hana eflaust ekki síður feiga.

Sumir þingmenn lýstu því yfir að samningar þeir sem gerðir hefðu verið væru alfarið á ábyrgð vinstri stjórnarinnar og þeirra skömm sem að þeim hefðu staðið !

Því er til að svara, að ef hægra stjórnarfarið hér undanfarin ár hefði verið ábyrgt og eðlilegt, hefðu menn ekki verið að glíma við neina Icesave-samninga 30. des. sl. Þá hefði Icesave-vandamálið einfaldlega ekki verið til.

Icesaveklúðrið er skilgetið afkvæmi spilltra alikálfa spillts framkvæmdavalds. Ætterni þess er alfarið á ábyrgð foreldra og ættingja og þeirra verður að leita til hægri. Þar er þá að finna.

Vinstri stjórnin hefur ekki enn fengið ráðrúm til að koma fram með sína stefnu, sín ráð, því hún hefur alfarið staðið á haus í því að reyna að þrífa upp eftir spillingu og fjármálasukk frjálshyggjutímans. Það er ekki einu sinni víst að hún geti nokkurntíma komist fram úr þeim málum, enda er henni sannarlega ekki gert auðvelt fyrir af þeim sem síst ættu þar að standa í vegi. Einn þingmaður sagði í ræðu sinni " að brennuvargar ættu ekki að flækjast fyrir slökkviliðs-starfi ". Skyldi það ekki einmitt vera það sem hefur verið að gerast ?

Að þeir sem vita upp á sig sökina hafa verið að þvælast fyrir þeim sem eru þó að reyna að leysa málin. Á sama tíma eru þeir hinir sömu jafnvel að nefna að réttast hefði verið að mynda þjóðstjórn allra flokka til að bjarga Íslandi ! Síst af öllu hefur framkoma þeirra mælt með þeim möguleika. Þar stendur ekki steinn yfir steini.

Þjóðarógæfuflokksmenn vilja helst ekki tala um fortíðina og hvernig vandi sá sem við er að glíma varð til. Það er þeim viðkvæmt mál og kemur allt of mikið inn á  ábyrgð þeirra og sekt á ástandinu. En það er meira en skrítið að sjá menn eins og Pétur Blöndal og Tryggva Þór Herbertsson láta skína í tennurnar og fárast yfir röngum ákvörðunum. Var Pétur ekki einskonar guðfaðir frjálshyggjunnar, sumir segja að hann hafi prívat og persónulega uppgötvað " snillinginn " í Bjarna Ármannssyni ?

Og Tryggvi Þór, gaf hann ekki út heilsbrigðisvottorð fyrir íslenska fjármálakerfið í sérstakri skýrslu, þar sem það var lýst traust og gott, var hann ekki efnahagsráðgjafi Geirs Haarde, var hann ekki einn af leiðandi frjálshyggjupostulum í íslensku Friedmanshrollvekjunni ?

Sagði hann ekki eftir hrunið að þetta yrði aðeins dýfa og svo kæmu batnandi tímar ?

Hvað kemur kjósendum til að senda svona menn inn á þing ? Ekki virðist búa þar að baki nein  hugsun fyrir almannahagsmunum ? Gengin slóð hlýtur að mæla gegn því ?

Orð Róberts Marshall hljómuðu vel í mínum eyrum. Vonandi hefur hann meint það sem hann sagði, orð hans virtust nefnilega töluð í þeim anda sem hefði að mínu mati átt að einkenna öll ræðuhöld þingsins í þessu máli. En því miður var auðheyrt að það var annar og verri andi í nösum margra í þessum umræðum. Það var eiginlega bara synd og skömm að heyra hvernig sumir töluðu.

Ísland á betra skilið en það, að þjóðkjörnir fulltrúar á löggjafarþingi þess hendi stöðugt á milli sín fjöreggi þjóðarinnar í hráskinnaleik pólitískrar framabaráttu einstakra flokka og manna. Slíkt framferði gildir aðeins sem keyptur farmiði til glötunar.

Skyldum við Íslendingar aldrei ætla að bera gæfu til þess að eignast forustumenn sem hugsa af hjarta og sál, fyrst og fremst, fyrst og síðast, um hag íslensku þjóðarinnar, heill okkar allra ?

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 385
  • Sl. sólarhring: 392
  • Sl. viku: 1574
  • Frá upphafi: 314861

Annað

  • Innlit í dag: 315
  • Innlit sl. viku: 1229
  • Gestir í dag: 295
  • IP-tölur í dag: 294

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband