Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

LÍÚ er ekki þjóðin

Jóhanna Sigurðardóttir sagði fyrir skömmu, að það væri ekki hægt að stjórna landinu og fara jafnframt eftir duttlungum LÍÚ. Þetta er athyglisverð umsögn frá forsætisráðherra Íslands. Ef horft er til baka, fer ekki hjá því að maður sér að sagan kennir, að forsætisráðherrar landsins hafa býsna lengi farið eftir duttlungum LÍÚ og þá yfirleitt á kostnað þjóðarinnar.

LÍÚ, stjórnarmiðstöð kvótakerfisins eða hvað við köllum þessa kaldhömruðu sérhagsmunaklíku, er fyrir löngu orðið að átumeini í íslensku samfélagi.

Býsna margir muna sjálfsagt grátklökka rödd Kristjáns Ragnarssonar hér á árum áður, þegar hann var að kvarta og kveina yfir því hvað illa væri farið með útgerðarmenn. Friðrik Arngrímsson er arftaki hans á því sviði og ekki er eftirmaðurinn betri í sínum siðum. Þessir hagsmunagæslumenn hafa báðir, að mínu mati, þjónað valdi sem innifelur í sér einhverja hættulegustu sérhagsmuni sem komið hafa fram hérlendis og ég tel þá sérhagsmuni tvímælalaust standa gegn þjóðarvelferð.

Það er löngu orðið tímabært að þjóðin taki til sinna ráða gegn þessu sérhagsmunaveldi LÍÚ. Kvótakerfið er og hefur virkað til margra ára sem óþverralegt krabbamein sem hefur tært íslensku þjóðarsálina og skapað sundrungu og ófrið þar sem þörf er samstöðu og friðar. Örfámenn klíka hefur fyrir atbeina pólitískra hyglingarvina fengið auðlind þjóðarinnar í sínar hendur til að arðræna fólkið í landinu. Sú sjötíumenninga siðleysa verður að taka enda ef íslensk þjóð á að hafa eðlilegar forsendur til að lifa og fá að ávaxta sitt  náttúrulega pund.

Gífurlegir fjármunir hafa verið teknir út úr sjávarútvegnum á undanförnum árum til einkaneyslu og fjárfestinga á öðrum sviðum. Á sama tíma og sumir þingmenn kvótaflokkanna halda því fram og það í fjölmiðlum, að íslenska kvótakerfið sé besta fiskveiðistjórnunarkerfi heims, tala forsvarsmenn LÍÚ fyrir því að afskrifa þurfi þar 100 milljarða skuldir !

Eru það rökin fyrir því að við séum með besta fiskveiðistjórnunarkerfi heims, að afskrifa þurfi 100 milljarða skuldir eftir aldarfjórðungs reynslu af þessu kerfi ?

Og í heild munu skuldirnar af rekstri þessa yfirlýsta afburðakerfis vera taldar á sjötta hundrað milljarða króna. En einstakir útgerðarmenn eiga stórfé og til dæmis er kona ein í Vestmannaeyjum talin eiga í það minnsta 10 milljarða prívat og persónulega. Hvaðan skyldi það fé vera fengið ?

Varla úr svo skuldugri atvinnugrein ?

Og í framhaldi mætti spyrja, ef kvótasinnar og LÍÚ klíkan hafa raunverulega sannfæringu fyrir gæðum og gildi þessa kerfis, af hverju vill þetta lið þá ekki láta reyna á fylgi fólksins í landinu við þetta meinta hágæðakerfi með almennri þjóðaratkvæðagreiðslu ?

Er þetta fólk ekki lýðræðislega sinnað eða skyldi það vera á móti lýðræði ?

Sagan kennir okkur að þeir sem njóta sérréttinda eru yfirleitt andvígir lýðræði og það virðist sannast á kvótasinnum og LÍÚ.

Aðallinn í gamla daga út um allan heim var ekki spenntur fyrir almennum mannréttindum, enda fór fljótt að draga úr óhófslífi hans þegar kröfur almennings um mannsæmandi líf fóru að vaxa með auknu lýðræði.

Það þurfti baráttu til að afnema yfirganginn og viðbjóðinn sem tíðkast hafði svo lengi, en bastillur blóðsugukerfisins voru þó víða rifnar niður með sameiginlegu átaki þjóða sem voru búnar að fá miklu meira en nóg af misrétti og kúgun.

Það er í beintengingu við forréttindastéttir liðinna tíma sem talað er um þá aðila  hérlendis sem kvótagreifa og kvótaaðal sem hafa fengið að valsa um með auðlind þjóðarinnar í einkaneyslu ofgnóttanna og sú samlíking á sér fullar stoðir í veruleikanum. Mál er að linni.

Kvótakerfið er ekki til að styrkja íslenskt samfélag og ef það á að verða friður á Íslandi verður að senda þetta djöfullega sérhagsmunakerfi sem fyrst beint ofan í helvíti, því þaðan var hugsunin fengin sem kom því á.

LÍU er ekki þjóðin og hagsmunir þjóðarinnar fara sannarlega ekki saman við hagsmuni eða duttlunga LÍÚ - það er margreynt mál.

Sýnum lýðræðið í verki og göngum til þjóðaratkvæðagreiðslu um kvótakerfið !

 


Lífið er af Guði gefið

Ég vil að þessu sinni birta hér á síðunni litla sögu, sem ég las fyrir mörgum árum, og hefur aldrei horfið úr huga mínum síðan. Þessi saga felur í sér sígildan boðskap sem mannkynið hefur á seinni árum lagt æ minni rækt við, að lífið sé heilagt og okkur beri að umgangast það og virða sem slíkt.

 Fósturdeyðing

 Ung kona með bjarthærðan hnokka í fangi, gekk inn á biðstofu heimilislæknis síns. Þegar hún var kölluð inn til hans og sest með barnið í kjöltu sér, sagði hún við hann: " Ég er hér komin til að biðja þig að hjálpa mér, því að ég er í vanda stödd. Þetta barn mitt er aðeins ársgamalt og nú er ég orðin barnshafandi á ný, en ég vil ekki að börnin mín komi svona ört. "

" Hvað ætlast þú til að ég geri ? ", spurði læknirinn með hægð.

" O, bara að losa mig við fóstrið, " svaraði hún og leit undan föstu augnaráði hans. Læknirinn sat nokkra stund í þungum þönkum, en sagði síðan með ró :

" Ég held að ég geti bent þér á heppilegri leið út úr þessum vanda. Ef þú getur ekki hugsað þér svo skammt á milli barneigna, væri skásti kosturinn sá, að deyða barnið sem þú heldur á og lofa hinu að fæðast. Það er miklum mun auðveldara að komast að barninu í kjöltu þér, heldur en því, sem þú berð undir belti, og auk þess sé ég svo sem engan mun á því hvort barnið ég drep.

Svo er líka á það að líta, að heilsu þinni og jafnvel lífi væri hætta búin, yrði yngra barninu fargað. "

Að svo mæltu rétti læknirinn hönd sína eftir hnífi og sagði móður barnsins að leggja það á kné sér og snúa sér undan.

Það var sem konan riðaði við, er hún rauk upp úr sæti sínu og hreytti út úr sér milli samanbitinna tanna: " Morðingi !"

Einmitt !

En nú var komið að lækninum að segja nokkur vel valin orð í fullri alvöru.

" Sestu, " sagði hann, " og taktu eftir orðum mínum. Á sínum tíma var þetta fallega barn, sem þú hampar, á sama þroskastigi og það, sem þú berð nú undir belti. Þú kemur til mín með myrka áætlun í huga og reiðist mér svo, þegar ég reyni að sýna þér fram á með álíka skammarlegri tillögu, hve óguðleg beiðni þín er. Ég veit að þú elskar þetta yndislega barn og getur eðlilega ekki hugsað þér að láta vinna því mein. En hver er í raun munur á því og hinu óborna annar en aldurinn ? Og er einhver mismunur á því að myrða barn, sem séð verður, eða það, sem byrgt er í móðurkviði ? Eða hvað ertu að biðja mig um að gera ?

Á ég að deyða verðandi þjóðskörung, skáld eða listamann, Guðs þjón, vísindamann eða afreksmenni, ástríka verðandi móður eða umhyggjusaman föður - yndislegt barn, sem þráir ást og umhyggju eins og blómið ljós og yl ?

Nei ! Biddu mig ekki um að drýgja svo stóra synd. Þú ert hraust og heilbrigð og hefur því alla burði til að takast á við vandann, sem þú kallar svo. Og raunar veit ég, að þegar barnið er í heiminn komið, mun þig aldrei iðra þess, að hafa gengið með það og gefið því líf. "

Nú varð stundar þögn, en síðan rétti læknirinn konunni hönd sína, og er þau kvöddust, voru augu beggja tárvot.

Að lokum má geta þess, að á sínum tíma fæddist fallegur drengur, sem varð stolt og gleði bæði móður og föður.

                                                        ( S.V. / H. M.  )

 

Margt er tekið skammar skrefið,

skráð er allt á vísum stað.

Lífið er af Guði gefið,

gleymum ekki að virða það !

 


Bandalag réttlætisins

Í bókinni Maðurinn með stálhnefana er glæpalýður búinn að yfirtaka allt valdakerfi í tiltekinni borg og spilling allsráðandi. Við þær aðstæður lætur höfundurinn nokkra sómakæra borgara stofna leynileg baráttusamtök gegn óværunni og eru þau nefnd Bandalag réttlætisins. Það endar svo með því að réttlætið sigrar og sigur er unninn á glæpamönnunum.

Í bókinni Morðstöðin hf fer Jack London mjög merkilega leið í svipuðum efnum varðandi hreinsun á spilltu þjóðfélagi. Hann lætur mann stofna fyrirtæki sem sérhæfir sig í því að taka þá menn endanlega úr umferð sem hafa unnið sér dauðasök með því að níðast á þjóðfélaginu í krafti valdastöðu og sérréttinda.

Það er stofnað til réttarhalds í hverju tilviki og ferill viðkomandi manns yfirfarinn af stökustu nákvæmni, sótt og varið. Ef líflátsdómur er kveðinn upp er tilteknum manni í þjónustu fyrirtækisins falið að sjá um framkvæmd verksins. Þeir sem taka verkin að sér eru háskólaprófessorar og aðrir hámenntaðir menn, sem hafa ákveðið að verja borgaralegt öryggi og þjóðfélagslegt réttlæti með því að hreinsa illgresið burt úr mannlífsgarðinum með valdbeitingu af þessu tagi !

Þessi bók Londons er að sjálfsögðu mikið umhugsunarefni, en að mínu mati skemmir hann athyglisverða hugmynd sína með því að láta forustumann og stofnanda fyrirtækisins eyðileggja það innan frá með því að fella dauðadóm yfir sjálfum sér og krefjast síðan sjálfsvarnarréttar síns. Í framhaldinu tekur hann svo sína eigin starfsmenn af lífi. Kannski hefur London haft þar til viðmiðunar hið fornkveðna spekimál, að þeir sem beita sverði muni fyrir sverði falla.

En það er hinsvegar spurning hvenær og við hvaða aðstæður almennir borgarar eigi að stofna einhverskonar Bandalag réttlætisins og hvort sú staða geti komið upp að þörf verði talin á því að stofna fyrirtæki af því tagi sem Jack London hugsaði sér  ?

Það gæti í fyrsta lagi verið tímabært þegar trú manna á réttlæti yfirvalda er ekki lengur til staðar og búið að drepa niður nánast allt traust í þeim efnum. Sú staða virðist t.d. þegar uppi hér á landi !

Það gæti verið tímabært þegar enginn jafnréttisstuðull er viðhafður í úrlausnarmálum gagnvart borgurum þjóðfélagsins. Sú staða virðist líka uppi í málum af hálfu stjórnvalda hérlendis !

Það gæti verið tímabært þegar misréttiskerfi hefur verið sett upp á sérgæskuforsendum í einhverju þjóðfélagi. Það var t.d. ótvírætt gert hér með bölvuðu kvótakerfinu !

Það gæti líka verið tímabært þegar bankar einhvers lands eru gerðir að bastillum ranglætisins gagnvart mannréttindum almennra borgara og hverju höfum við staðið frammi fyrir, - almennir borgarar þessa lands  -  að undanförnu ?

Lýðræðislegt heróp hefur hrópað það út um alla Evrópu í marga áratugi, að allar bastillur beri að rífa niður. Þar eigi ekki að standa steinn yfir steini !

Hvernig stendur þá á því að slíkar bastillur ranglætisins hafa verið reistar bæði hérlendis og erlendis á þeim hinum sama tíma, helgaðar Mammon og öllum ígildum andskotans ?

Það er lítið lýðræði fólgið í því að hafa hugsjónina alltaf í orði en ekki á borði.

Íslensk stjórnvöld hafa ekki heiðrað lýðræðið í verki með þeim hætti að það hafi samræmst fjálglegum yfirlýsingum þeirra fyrr og síðar.

Það er vont að vera Íslendingur þegar búið er að eyðileggja forsendur okkar til þess að geta alið með okkur heilbrigt þjóðarstolt. Mér finnst það afskaplega vont, en vonandi kemur að því að við heimtum þær forsendur aftur og þá verðum við að sýna þá ábyrgð að ganga framvegis vel um okkar þjóðargarð.

Ég hef alltaf verið yfirlýstur vinstri maður, en ég hef séð mér til mikilla vonbrigða margan vinstri manninn hegða sér síst betur - í ráðherrastól - en hægri menn hafa yfirleitt gert. Og ég tel að vinstri maður sem hegðar sér engu skár en hægri maður, sé í raun og veru enginn vinstri maður og geti jafnvel talist verri en nokkur hægri maður, því júdasar-eðlið og áráttan er alltaf sending beint úr opnu helvíti.

Hver maður sem er fullur af eigingirni ætti auðvitað, sérgæsku sinnar vegna, að vera kjaftfastur í kolbláum eiginhagsmunaflokknum, og ég man eftir nokkrum mönnum í gamla Alþýðubandalaginu sem áttu í raun og veru hvergi annarsstaðar heima en í spillingarhúsakynnum hægri manna.

Ég skildi aldrei hvað slíkir menn voru að gera í Alþýðubandalaginu, nema þá til þess eins að skemma það vísvitandi innanfrá.

Og einhvernveginn finnst manni þegar maður skoðar málin, að hér á árum áður hafi nú verið í öllum flokkum einhverjir þjóðlega hugsandi menn með gagnlegar hugmyndir.

Að minnsta kosti var það svo - fyrir daga frjálshyggjuæðis stóra Þjóðarógæfu-flokksins, að maður taldi sig stundum geta gefið sér það, að til væru þeir menn til hægri sem hugsanlega væri hægt að bera eitthvað traust til á íslenskum mannskilnings-forsendum. En sú staða er sannarlega ekki fyrir hendi í dag.

Menn þeir sem enn tilheyra þeim flokki, geta ekki lengur notið neins trausts sem hagsmunagæslumenn fyrir íslenska þjóðarhagsmuni. Þeir hafa  gjörsamlega fyrirgert því trausti og það skilja allir nema blindir blámenn í björgum Valhallar.

Þjóðarógæfuflokkarnir báðir, sá stóri og sá litli, eyðilögðu nefnilega ríkishagsmuni Íslands og velferðarstöðu þjóðarinnar !

Þeir gerðu það vegna þess að þjóðlega hugsandi menn voru ekki lengur í forustu þeirra, engir voru þar til að bremsa vitleysuna af. Þarna voru aðeins frjálshyggjusinnaðir framagosar og eiginhagsmunapotarar, - ótíndir spílavítisgaurar, menn sem hefðu líklega seint verið taldir hæfir til þátttöku og starfa í Bandalagi réttlætisins.

Innblásin orð, ættuð frá Cicero hinum rómverska, eru einkunnarorð Missouri fylkis í Bandaríkjunum. Í bandarískri sögu eru þau trúlega arfur frá tímum sjálfstæðisbaráttunnar og hljóða þannig á latínu -  Salus Populi Suprema Lex Esto,  - á ensku - Let the Welfare of the People Be the Supreme Law, - á íslensku - Látum Velferð Þjóðarinnar vera Æðstu Lögin.

Einkunnarorð af þessu tagi hafa sjaldnast verið mikils metin af íslenskum stjórnvöldum og síst af öllu eftir 1991, en þurfa svo sannarlega að standa í fullu gildi á því Íslandi sem við þurfum lífsnauðsynlega að sjá rísa í komandi tíð.

 

 

 


HÖFUÐVERKJAKÖST LÝÐRÆÐISINS

Þjóðaratkvæðagreiðslan á morgun er í raun enn eitt dæmið um þessi höfuðverkjaköst sem lýðræðisfyrirkomulagið fær alltaf annað slagið.

Í sumum tilfellum skapast slík köst af beinni misnotkun lýðræðisins og það er í sjálfu sér ekkert nýtt að sumir virðast hafa ríkan vilja til að nota lýðræðislegar kosningar í sprell og fíflalæti. Þeir sem þannig nota sér dýrmæt mannréttindi til heimskupara eru sannarlega ekki að horfa mikið í það hvað slíkt getur kostað þjóðfélagsheildina.

Forsetinn hljóp eftir skoðanakönnunum og vildi reyna að vaxa að lýðhylli eftir að hafa verið á þeysingi með útrásarvíkingum út um allan heim á liðnum árum. Hann setti þingfrágengið Ice-Save málið í þessa þjóðaratkvæðagreiðslu, sem mun greinilega fara fram við andskynsamleg skilyrði. Það getur nefnilega enginn greitt atkvæði í þessari kosningu út frá þjóðhagslegum skynsemdar forsendum. Dæmið er svo óskýrt sem frekast má vera.

Ekki er heldur ólíklegt að skaði þjóðfélagsins af því að málið var ekki látið ganga til lausnar um áramótin, sé þegar orðinn svo mikill að hugsanlegur ávinningur í samningsgerð vegi þar lítt upp á móti. Þeir sem hugsa á þjóðhagslegum nótum hljóta því að eiga erfitt með að sjá hvernig hagsmunum Íslands verði best borgið eða hjálpað eins og nú er komið í þessu yfirgengilega máli.

Þeir sem ætla hinsvegar að greiða atkvæði í þessari dæmalausu kosningu út frá flokkslegum hagsmunum, á flokkspólitískan hátt, telja sig aftur á móti sjálfsagt vita hvernig þeir eiga að kjósa. Þeir geta eflaust talið sér trú um það, að þeir séu með atkvæði sínu að styðja flokkinn sinn, en hvort þeir eru að styðja hann til góðra eða illra verka með tilliti til hagsmuna þjóðarheildarinnar geta þeir bara alls ekki vitað og kannski er þeim mörgum hverjum sléttsama um það.

Birgitta þingkona sagði í nafni þess brots af  " þjóðbjörgunarliðinu " sem hún stendur fyrir, að ákvörðun forsetans um að vísa málinu í þjóðaratkvæði hefði verið sigur fyrir lýðræðið ! Hverskonar sigur ?

Það getur enginn maður sagt svona á nokkrum skynsamlegum forsendum eins og staðan er og hefur verið. Ég hef líka fengið mestu efasemdir um að lýðræðishugsun Ólafs Ragnars Grímssonar forseta samrýmist þeirri lýðræðishugsun sem ég hef sem Íslendingur fyrir minni þjóð.

Ólafur Ragnar fékk minn stuðning 1996, því mér fannst sjálfsagt að hann fengi að sýna hvað í honum byggi, en ég missti fljótlega alla trú á því að hann myndi breyta einhverju til bóta í stjórnkerfismálum þjóðarinnar.

Forsetinn hefur tvisvar beitt valdi sínu til að beina málum í þjóðaratkvæði. Ég er helst á því að í bæði skiptin hafi hann verið þjóðinni næsta óþarfur maður.

Oft hefur það viljað brenna við, að þegar Íslendingar hafa staðið frammi fyrir valkostum fyrir líf sitt og framtíð, hafi þeir valið það sem verstu gegndi.

Oft hefur það verið gert í nafni hroka og skorts á eðlilegri upplýsingu. Það virðist ekki síður til í dæminu í dag en oft áður.

Þegar sambandslögin varðandi fullveldi Íslands lágu fyrir 1918, fóru sumir svokallaðir " sjálfstæðismenn " þeirra tíma, hamförum gegn þeim og fundu þeim margt til foráttu. Samt voru þau eins og nú er viðurkennt mikið skref fram á við fyrir þjóðréttindi Íslendinga. Guðmundur Finnbogason, einn merkasti Íslendingur sinnar tíðar, sagði á þeim tímamótum:

" Ég tel það helga skyldu mína að gjalda sambandslögunum jákvæði. Og yrðu þau nú felld með þjóðaratkvæði, eftir allt sem á undan er gengið, þá mundi ég til æviloka standa orðlaus, hvenær sem Íslendingar væru kallaðir asnar. "

Ég veit ekki hvernig þjóðaratkvæðagreiðslan á morgun fer, en ég óttast að hún geti falið í sér ógæfuforskrift að lýðræðislausnum komandi tíma.

En ég vona samt að hún setji hvorki mig né aðra landa mína í þá vandræðastöðu að standa framvegis orðlausir við tiltekin skilyrði, eins og Guðmundur Finnbogason benti réttilega á að gæti átt sér stað.

Við verðum alltaf að vita um hvað er verið að kjósa þegar kosið er !


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 354
  • Sl. sólarhring: 354
  • Sl. viku: 1450
  • Frá upphafi: 315355

Annað

  • Innlit í dag: 318
  • Innlit sl. viku: 1139
  • Gestir í dag: 305
  • IP-tölur í dag: 305

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband