Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

HANDALAUST FORUSTULIÐ - ANDLEGA TALAÐ

Í keisaradæminu Kína sem var eitt víðlendasta ríki veraldar í eina tíð, voru það  lög, að embættismaður sá skyldi missa báðar hendur sem viljandi fargaði almannafé. Þessi lagasetning þótti innankerfismönnum hörð, enda hefur hún sennilega virkað á kínverska ráðsmenn almannafjár svona svipað og landsdómur virðist virka á íslenska starfsbræður þeirra.

Ýmsum þótti það bara fjandi hart að geta ekki farið sínu fram og þjónað sínum hneigðum, í sínum embættum, í friði fyrir lögum landsins.

Sjálfsagt hafa samfylkingarmenn kerfisins, menn einkaframtaks og mannlegs sjálfstæðis, tautað hundfúlir fyrir munni sér að svona lagasetning væri úrelt og alls ekki í takt við menningarstig lands og þjóðar. Slíkur lagabókstafur stæði sjálfsbjargarviðleitni manna beinlínis fyrir þrifum !

En það hefur alltaf verið svo í öllum ríkjum að einhverjir sérréttindahópar hafa talið sig hafna yfir lög og rétt - í augun slíkra eru lögin bara sett til að virka fyrir neðan þá - til að halda skrílnum í skorðum og tryggja áunnin sérréttindi sérgæðinganna !

Og nú hefur komið í ljós að hið lýðfrjálsa Ísland sker sig ekkert úr að þessu leyti - ákveðinn valdahópur virðist eiga að vera undanþeginn ábyrgð og skyldum, vandi á ekki að fylgja vegsemd hverri, handhafar framkvæmdavaldsins eiga í skjóli vina og félaga á þingi að geta gert það sem þeim sýnist !

Þar eiga engin víti að vera til varnaðar á neinn hátt !

Þannig á að vera hægt að splundra heilu þjóðfélagi án þess að neinn verði gerður ábyrgur, þannig á - í gegnum tveggja manna tal - að vera hægt að fara í stríð við aðrar þjóðir þvert á þjóðarvilja, þannig á að vera hægt að gefa eigur samfélagsins út og suður og svo mætti lengi telja. Engin ábyrgð á að fylgja slíkum " pólitískum prakkarastrikum " - punktur, basta !

Flokkslegir hagsmunir eiga samkvæmt þessu alltaf að vera í forgangi og almannaheill út í kuldanum !

Samfélagsleg niðurrifsverk virðast þannig ekki eiga að teljast ábyrgðarhæf á Íslandi ef þau eru framin af ráðherravaldi, í góðfúslegri sátt við kerfið og þingið. Vanrækslusyndir framkvæmdavaldshafa á víst hér eftir að  verðlauna  í nafni umburðarlyndis og mannréttinda ! Ill umgengni um almannafé á þannig ekki að vera refsiverð og allra síst ef umgengnisaðilinn er háttsettur í kerfinu !

Vissulega má segja að ef viðhorfið á að vera slíkt, þá sé landsdómur úreltur og sannarlega lítið í takt við þann tíðaranda sem býr á bak við slíka afstöðu.....!

En þá vaknar ein spurning virkilega til fulls: Hvað höfum við að gera með þing sem hugsar og vinnur með slíkum hætti ?

Þing sem starfar sýnilega fyrir sérréttindahópa en alls ekki fyrir þjóðina eða að almannaheill !

Það virðist blasa við - að ef hin forna kínverska regla varðandi refsingu við slæmri meðferð á almannafé væri viðhöfð hér á landi, væri allmiklu færra um hendur í ríkiskerfinu en sem svaraði mannaflanum þar.

Sennilega væri kerfið handalaust í raun og veru eins og það virðist nú alfarið vera - andlega talað.

Landsdómsmálið er fyrst og fremst mælistika á það hvernig yfirvöld líta á illa meðferð almannafjár og almannaheilla. Er slíkt refsivert að áliti þeirra eða er ætlun þeirra að verðlauna slíka breytni ?

 


Landsdómur - um ábyrgð stjórnmálamanna !

Ömurlegt hefur verið að fylgjast með því að undanförnu hvernig pólitískir samtryggingarsinnar allra flokka virðast hafa tekið höndum saman til að forða því að fyrrverandi valdamenn úr þeirra röðum verði að bera einhverja ábyrgð vegna efnahagshruns landsins.

Alræmd urðu á sínum tíma þau orð Geirs H. Haarde þáverandi forsætisráðherra, að ekki mætti persónugera vandann. Þar var nánast reynt að skipa efnahagshruninu í flokk með náttúruhamförum. Það mátti kannski jafna því við jarðskjálfta eða eldgos miðað við skaðann sem það olli á þjóðarbúinu, stöðu heimilanna í landinu og allri afkomu venjulegs fólks, en að öllu öðru leyti er það ósambærilegt við hamfarir höfuðskepnanna. Enginn deilir við náttúruna eða krefur hana ábyrgðar.

Hinsvegar er hægt að krefjast þess að þeir sem áttu að standa á öryggisvaktinni fyrir þjóðina og brugðust þar algerlega, beri ábyrgð á því hvernig öllu var klúðrað. Hrunið var nefnilega alfarið af mannavöldum !

Þjóðarógæfuflokkarnir vilja silkihanskameðferð á sínum mönnum og fallast ekki á að þeir eigi að bera ábyrgð, en sú afstaða er ekkert annað en búast mátti við af forhertum aðilum sem iðrast ekki neins.

Samfylkingin reynir að standa vörð um sitt fyrrverandi höfuðgoð Ingibjörgu Sólrúnu og Atli Gíslason ber kápuna á báðum öxlum eins og venjulega. Mér er ómögulegt að skilja hvað maður af hans tagi er að gera í flokki Vinstri grænna ?

Margrét Frímannsdóttir er látin koma fram í fréttum sjónvarps og fordæma það sem helst ber að skilja á hennar orðum að séu ofsóknir gegn fyrrverandi ráðamönnum! En finna mátti að henni var náttúrulega mest í mun að verja Ingibjörgu Sólrúnu. Það vantar ekki að það eru alltaf nógir í helfarar hersingunni til að verja samtryggingarmálin. Þingmenn lágkúrunnar eru á fullu í fjölmiðlum að reyna að hækka pólitíska inneign sína í bankakerfi flokkshollustunnar.

En er einhver að verja þjóðina, er einhver að verja almenning og hagsmuni hans fyrir afleiðingum afglapa fyrrverandi stjórnvalda ?

Nei, ekki er hægt að sjá að svo sé og þingið er sem fyrr vanburða væfla.

Því er borið við að lagaákvæðin um landsdóm séu úrelt, en af hverju var þá ekki löngu búið að endurnýja þau ?

Ástæðan fyrir því er líkast til ósköp einföld. Það var aldrei búist við því að það ætti eftir að reyna á þau. Það var aldrei gert ráð fyrir því að hin pólitíska kerfisklíka þyrfti að axla ábyrgð með nokkrum hætti.

En nú þýðir ekki að segja þjóðinni að enginn sé ábyrgur. Allar svikamyllur hins einkavædda bankakerfis áttu upphaf sitt hjá mönnum sem þjónuðu undir það illa frjálshyggjukerfi í stöðum sínum hjá ríkinu. Ráðherrar og þingmenn brugðust þjóðinni !

Að embættisafglöp ráðherra fyrnist eftir þrjú ár er líka út í hött. Nær væri að miða þar við 10 ár, enda vita allir að forsendur hrunsins liggja að mestu í ákvörðunum stjórnvalda frá því um og upp úr síðustu aldamótum.

Þingið emjar nú og vælir yfir því að þurfa að taka á málum og stinga á kýlum. Það er talað um Geir, Árna, Ingibjörgu og Björgvin eins og píslarvotta.

Það er í raun lítill vilji til þess á alþingi að láta þau eða aðra bera einhverja ábyrgð á því hvernig fór. Það eitt sýnir ljóslega að alþingi veldur ekki hlutverki sínu og er samansafn meðalmennskuskussa sem almenningur getur ekki borið virðingu fyrir.

Vigdís Hauksdóttir talaði um það í útvarpi um daginn að fá þyrfti sérfræðinga frá hinum Norðurlöndunum til að koma með ráð og benda á leiðir til að endurreisa virðingu alþingis ! Hafa menn heyrt aðra eins vitleysu ?

Ragnheiður Ríkarðsdóttir er nýbúin að tala af mikilli vandlætingu í útvarpið um bankaræningja sem hefðu keyrt hér allt á kaf og hún sagði meira að segja " sem keyrðu okkur á kaf ! " Aumingja manneskjan virtist ekki hafa hugmynd um hvaða afl það var sem gerði þessa bankaræningja út og minntist auðvitað ekki á neitt slíkt. Ég efast líka um að Ragnheiður sé komin mjög mikið á kaf þó almennt fólk í landinu sé það að stórum hluta.

Virðing alþingis hefur fallið meðal þjóðarinnar vegna þess að framferði þingsins hefur ekki kallað á annað. Sérfræðingar erlendis frá brúa ekki þá gjá sem myndast hefur milli fólksins í landinu og Marsbúanna sem sitja á alþingi.

Sú gjá stækkar stöðugt því nánast hver ný frétt leggur sitt til þess.

Nú hefur t.d. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir aftur tekið sæti á þingi !!!

Landsdómur verður að fjalla um ábyrgðarmál hrunsins því þjóðin veit að hrunið varð vegna vanhæfra stjórnvalda sem knúðu fram siðlausa einkavæðingu bankanna á kostnað þjóðarheilla.

 

 


Um sjálfstæðismálapólitík - innan gæsalappa !

 

Það mun hafa verið meira en ömurlegt fyrir marga að upplifa það að Íhaldsflokkurinn, flokkur Jóns Þorlákssonar, skyldi á sínum tíma ræna nafni flokks Skúla Thoroddsen og félaga og kallast eftir það Sjálfstæðisflokkurinn.

Afturhaldið í landinu hafði á árum áður lagt Skúla í einelti og ofsótt hann miskunnarlaust, en stefna hans sigraði að lokum, sú sjálfstæðisstefna sem var sönn og í samræmi við anda þjóðarinnar sjálfrar.

Það voru Skúli og félagar sem gerðu Sjálfstæðisflokksnafnið stórt í Íslands-sögunni og vegna afreka þeirra lék ljómi um það flokksheiti. Það að vera sjálfstæðismaður á þeim tíma stóð fyrir allt annað og betra mál en síðar varð. Afturhaldið íslenska sem var danskt undir Dönum og amerískt undir Könum, treysti sér ekki lengur til að burðast með íhaldsnafnið á flokknum vegna óbeitar almennings á því og rændi því sem skrautfjöður fyrir sig hinu gamla og þjóðfræga nafni flokks Skúla Thoroddsens og annarra leiðandi manna í sjálfstæðisbaráttu fyrri ára.

Þeir sem síst áttu þetta nafn skilið og voru lengst frá því að geta þjónað því í réttum anda, fóru þannig að nýta sér það sem vegsauka !

Og ekki nóg með það, heldur var merki elstu og merkustu menntastofnunar landsins, Hins almenna menntaskóla, gripið með í leiðinni.

Með þessum hætti voru þeir sem aldrei höfðu verið sjálfstæðismenn, hvorki til hugar né hjarta, gerðir að sjálfstæðismönnum, en flaggið var náttúrulega falskt frá upphafi og undirlægjuhátturinn gagnvart erlendu valdi og fjármagni hefur í herbúðum íhaldsins alltaf verið samur við sig.

Þessir " nýju " sjálfstæðismenn höfðu því allt frá byrjun mjög afbrigðilega afstöðu til sjálfstæðismála þjóðarinnar og að skoða ræður forustumanna þeirra, t.d. á árunum 1940 til 1950 er mjög upplýsandi um tækifærissinnuð viðhorf þeirra í þeim efnum. En það er oft svo með þá sem ganga í þoku, að þeim finnst allir aðrir vera umvafðir þoku nema þeir sjálfir. Þeir ímynda sér að allt sé á hreinu í kringum þá. En " nýju " sjálfstæðismennirnir voru aldrei með hlutina á hreinu í sjálfstæðismálum þjóðarinnar.

Þeir níddust á því sjálfstæði með Nató-aðildinni og nánast í öllum málum þar sem þeir gátu komið því við. Á sínum tíma var því jafnvel haldið fram í Morgunblaðinu að besta leiðin til að varðveita sjálfstæðið væri að fórna því ! Svo dýrt kveðin voru sjálfstæðis-bjargráð þessara aðila þá !

Þeir settu okkur inn í forstofu Evrópusambandsins og komu því svo fyrir að erlent áhrifavald fór að gera sig svo gildandi í lögum og reglugerðum hérlendis að menn máttu varla míga nema sækja um leyfi til þess á eyðublaði.

Allir vita að stór hluti af sjálfstæði hvers manns og hvers ríkis er að fá að ráða sínum málum án afskipta annarra. " Nýju " sjálfstæðismennirnir stjórnuðu hér landsmálum svo til alfarið í næstum tvo áratugi. Enginn flokkur hefur fengið annað eins svigrúm til athafna og þeirra flokkur fékk né betra tækifæri til að sanna sig og stefnu sína. Hefðu þeir viljað láta gott af sér leiða og hugsað um hagsmuni þjóðarheildarinnar værum við að sjálfsögðu í góðum málum í dag.

En reyndin er önnur. Þeir klúðruðu öllum málum vegna þess að þeir tóku sérhagsmuni alltaf fram fyrir almannahagsmuni. Og á 18 árum tókst þeim að koma málum þjóðarinnar í svo djúpan skít að vandséð er hvort þar verði nokkurntíma hægt að hreinsa til. Þegar svo var komið, að innanlandsmálin voru orðin ein vandræðaflækja af völdum þessarar ógeðslegu sérhagsmunaklíku, var brugðið á það ráð að fara að lofsyngja sjálfstæðið og hylla það í síbylju.

Hinir " nýju " sjálfstæðismenn vissu sem var, að þeir höfðu ekkert annað til að reyna að vinna sig í álit á ný. Þeir yrðu bara enn og aftur að blekkja þjóðina með  uppskrúfuðum sjálfstæðis-fagurgala. Í því skyni höfðu þeir líka rænt nafni gamla sjálfstæðisflokksins.

Þeir spáðu lítið í það, að þetta sjálfstæði sem þeir þóttust nú ólmir vilja verja, var komið út á ystu nöf tilverumöguleika sinna vegna þeirra eigin ógæfuverka. Þannig toppaði " nýi " Sjálfstæðisflokkurinn sjálfan sig að fullu og öllu. Hann mun hér eftir aldrei geta flúið hengingardóm Sögunnar !

Nú er engum manni stætt á því lengur, sem vill ganga á vegi dómgreindar, að viðhafa hið gamalrænda nafn þessa flokks - nú er aðeins hægt að tala um stóra Þjóðarógæfuflokkinn, með sérstakri hliðsjón af því að það er líka til lítill Þjóðarógæfuflokkur, sem studdi þann stóra til hans vondu og þjóðháskalegu verka. Til hvers var að starfrækja Þjóðhagsstofnun á stjórnarárum flokka sem voru ekkert að vinna fyrir þjóðarhag ? Hún var náttúrulega lögð niður !

Íslensk pólitík er nú orðin svo ómerkileg og rotin að innviðum, að það er varla á færi nokkurs manns að finna þar ögn af ærlegu innihaldi og sú umsögn á við um alla flokkana sem sæti eiga á alþingi.

En sú þjóðarógæfa sem hlaust af 18 ára samfelldri landsstjórn hins falska sjálfstæðisflokks er himinhrópandi vitnisburður um óheilindi þess flokks og þeirra sem þar hafa stjórnað, gagnvart heildarhagsmunum þjóðarinnar og þar með íslensku sjálfstæði. Sá vitnisburður mun gilda um alla framtíð fyrir kraft sannleikans og réttlætisins og sýna og sanna að þeir sem flagga nú sem óðast hugsjónum sjálfstæðis og þjóðareiningar hafa sjálfir gert sig, með sérhagsmuna-fyrirgreiðslu sinni, að mestu ógæfuvöldum þjóðarheillar þessa lands.

 

 


Um ólýðræðislegar athugasemdir

Steingrímur J. Sigfússon sagði á þingi um daginn, við umræður um Herjólfsmálin og Landeyjahöfn, " skammastu þín, Árni Johnsen ! "

Af hverju átti Árni að skammast sín fyrir það sem hann sagði, mátti hann ekki tala út frá sínum sjónarmiðum ? Áttu sjónarmið hans kannski að endurspegla skoðanir Steingríms J. Sigfússonar til að vera gjaldgeng ?

Eru menn alveg hættir því að þola andstæðar skoðanir ?

Össur Skarphéðinsson sagði í fréttum nýlega, að tiltekinn stjórnmálamaður í Færeyjum ætti að skammast sín ! Viðkomandi maður hafði víst hafnað því að mæta í veislu til heiðurs Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra Íslands og - eiginkonu - hennar. Maðurinn færði þau rök fyrir afstöðu sinni, að trúarskoðanir hans gengu út á það að samkynhneigð væri synd. Og hann heiðraði ekki synd.

Nú er það svo að grundvöllur alls lýðræðis er réttur manna til að hafa skoðanir.

Enginn getur með lýðræðislegum hætti sagt - " mínar skoðanir eru réttar, þínar rangar, viltu gera svo vel að aðhyllast mínar skoðanir eða skammast þín til að þegja !"

Samfylkingin hefur hinsvegar gengið allra flokka lengst í því að ástunda skoðanalegan rétt-trúnað og sett sig oft og iðulega í rannsóknarréttarstöðu gagnvart þeim sem hugsa öðruvísi. Það liggur því við að ég segi að Samfylkingin ætti að skammast sín, en ég ætla ekki að gera það, því umrætt fyrirbæri er fætt eins og það er og gat varla orðið til með öðrum hætti, sé tekin hliðsjón af þeim sem að getnaðinum stóðu !

Össur Skarphéðinsson er dæmigerður Samfylkingarmaður og eins og alþjóð veit  hefur hann líklega aldrei gert neitt sem hann þarf að skammast sín fyrir.

Jafnvel meðan hann var bara fávís ungur maður og hélt sjálfur að hann væri allaballi, var hann líklega í hjarta sínu krati og því er Samfylkingin sannarlega sá pólitíski leikskóli sem passar best fyrir hans sýndarmennsku eða þannig.

Það kemur fyrir að Össur  bloggar dálítið og það jafnvel að næturlagi, en hann hefur líklega aldrei orðið sér til skammar við þá iðju. Hann er líklega tiltölulega saklaus eða grænn eins og menn segja stundum, en þó ekki vinstri grænn.

Hann er líklega ekki alveg nógu saklaus til þess.

Ég held að þegar menn tala eins og Steingrímur gerði gagnvart Árna Johnsen og Össur gagnvart færeyska stjórnmálamanninum, þurfi lýðræðið að skammast sín fyrir að þeir tali þannig í nafni þess. Málfrelsið í lýðræðinu er nefnilega þess eðlis, að það fer illa saman við hverskonar gusugang í geði og óskynsamleg reiðiorð, en passar þó hálfu verr við skoðana-rétt-trúnað Samfylkingarmanna, sem virðast oft vera haldnir einhverskonar lömunarveiki varðandi lýðræðislega hugsun.

Það er t.d. í hæsta máta ólýðræðislegt ef menn eiga ekki að fá að ráða því hvort þeir mæti í veislur eða ekki !

 


Mammon á stalli sem fyrr

Það hefur komið fram aftur og aftur skýrt og greinilega, að siðfræðin innan skilanefnda bankanna er ekki á marga fiska. Þar eru greinilega margir að afla mikið - fyrir sig -  og launin í fullum fyrirhruns-stíl hjá liðinu.

Það hefur líka komið fram að ef einhver " kunninginn " þykir vera með ferilskrá í gruggugra lagi og virðist meinað af þeim sökum að sitja í skilanefnd, þá er hann bara ráðinn sem starfsmaður.

Þannig að siðfræði bankageirans virðist enn vera frá dögum víns og rósa, söm við sig að mestu leyti og þar virðist fyrri spilling vera gengin í endurnýjun lífdaga óhófsins.

Endurskipulagning og hagræðingarferli bankakerfisins sýnist svo að mestu fólgið í því að steypa daunillum haughúsunum, fullum af útrásarskít og innherjadrullu niður til almennings:

Og svo segir þetta hrokafulla lið við þjóðina : " Veskú, hér er reikningurinn fyrir D-ára djammið, peningana eða lífið ! "

Hvernig geta menn hegðað sér svona, hvernig getur siðvillan verið svona yfirgengileg ? Hvað er eiginlega að þessu fólki ?

Eru þetta ekki Íslendingar eins og við, hvaðan er þessi morðsjúka Mammons veira komin inn í þjóðlífið, eitrandi og spillandi út í gegn ?

Átti ekki að byggja upp nýtt Ísland, átti ekki að byggja nýtt Ísland upp á heiðarleika og sómatilfinningu ? Var það ekki hið yfirlýsta markmið ?

Á undirstaða hins nýja Íslands að vera nýr skítur á gömlum grunni ? Er engin mannræna til innan íslensks stjórnkerfis lengur ?

Er einhvern heiðarlegan mann að finna í þessu ómanneskjulega siðblinda kerfi ?

Slíkar og þvílíkar spurningar leita nú á hug hvers almenns borgara í þessu landi og ekki að furða. Aðstæðurnar gera harða kröfu til slíkrar gagnrýni á yfirvöld.

Og það er ekki bara bankakerfið sem virðist ekki eiga völ á neinu fólki í æðstu stöður sem almenningur getur borið traust til. Svo er sýnilega með allt ríkiskerfið. Þar virðist bara hver auminginn upp af öðrum !

Það skiptir litlu sem engu með mannabreytingar á ráðherrastólum því það eru flokkarnir sjálfir sem eru sýktir af pólitískri innanskömm. Ráðherraskiptingar eru bara til þess gerðar að drepa ábyrgð mála á dreif og rugla almenning í ríminu. Til hvers fór Ögmundur úr stjórninni á sínum tíma, af hverju kemur hann inn aftur núna ? Engar vitrænar skýringar hafa fengist á því.

Af hverju voru Ragna og Gylfi látin hætta ef þau stóðu sig svona svakalega vel og eftirsjá að þeim, eins og forsætisráðherra segir ?

Á Guðbjartur Hannesson að vera einhverskonar pússaður félagsmálaráðherra eftir grófgerðan Árna Pál ? Það má mikið vera ef kerfið á ekki eftir að skemma þann mann eins og svo marga aðra sem hafa viljað vel en ekki getað breytt neinu þegar til kom.

Hinn pólitíski hráskinnaleikur er í algleymingi sem fyrr meðan almenningur berst í bökkum vegna afleiðinga óstjórnar og fjármálasiðleysis stjórnvalda.

Og ábyrgð gagnvart þjóðarhag virðist enginn bera, hvorki forseti, ríkisstjórn, þing eða dómstólar, allt virðist þetta sömu gagnsleysismyndinni merkt.

Forustumenn Stóra Þjóðarógæfuflokksins þykjast núna bera hag almennings óskaplega fyrir brjósti og þá ekki síður sjálfstæði landsins. Samt voru það þeir sem settu almenningshag niður í skítinn og umrætt sjálfstæði í meiri hættu en það hefur nokkurntíma komist í.

En skítt með skítuga stjórnarandstöðu - aðalspurning dagsins er - hvar er Grákollustjórnin eiginlega stödd í þjóðlífinu ?

Er hún bara að verða ómerkilegt útibú frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum ?


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 50
  • Sl. sólarhring: 437
  • Sl. viku: 1459
  • Frá upphafi: 315440

Annað

  • Innlit í dag: 50
  • Innlit sl. viku: 1176
  • Gestir í dag: 50
  • IP-tölur í dag: 50

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband