Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011

Soramörkin segja til sín !

Þegar spilling er fyrir hendi liggja fyrir hverjum manni tvær leiðir, annaðhvort að vinna með henni eða berjast gegn henni. Hlutleysi gagnvart spillingu er ekki til. Eins er það með réttlæti, annaðhvort styðja menn réttlæti eða ekki. Þar er enginn millivegur. Sannleikurinn er annað dæmi. Annaðhvort standa menn að málum með sannleikann á vörum eða lygina.

Því miður eru þeir allt of margir sem halda að í þessum efnum sé hægt að gera  málamiðlanir. En það er bara ekki svo. Sérhver málamiðlun í þessum efnum setur þann sem gerir hana í stöðu leiksopps blekkingar og svikaferlis.

Ef þú ánetjast spillingu ertu fangi þeirrar spillingar. Ef þú styður ranglæti, ertu kominn út af vegi réttlætisins. Ef þú notar lygina til að koma þér áfram, verður líf þitt smám saman að einni allsherjar lygi þar sem sannleikanum verður  úthýst með öllu. Allt helst þetta svo í hendur. Spilltur maður verður ranglátur, lyginn og ómerkilegur. Það verða ávextir breytninnar !

Átta menn sig ekki á því út frá þessu hversvegna fjármálageirinn í landinu er eins og hann er ?

Skilja menn ekki í ljósi þessara staðreynda, hvernig alþingi með litlum staf og yfirvöld í þessu landi eru orðin vegna svikuls flokksræðis sem er að ganga að lýðræðinu dauðu ?

Enginn flokkanna í landinu getur nú þvegið af sér áunnið, innbrennt soramark !

Spilling er því miður orðin landlæg pest í þessu landi - eftir 1991 virðist beinlínis hafa verið farið að líta þeim augum á menn, að þeir væru því frambærilegri sem þeir væru spilltari og móttækilegri fyrir málamiðlanir.

Slíkir menn voru verðlaunaðir með vegtyllum í kerfinu því þeir studdu fúslega að því sem baktjaldamafían vildi láta styðja að - meiri samtryggingu, meiri spillingu og meira siðleysi !

Og nú er það orðið sem aldrei fyrr að öfugsnúinni listgrein í kerfinu - að tala eitt og gera annað. Leyndarhyggjan virðist orðinn allsráðandi mottumars kerfisins. Fyrirmælin eru :

Sópið öllum skítnum undir mottuna og talið jafnframt um að allt þurfi að vera gegnsætt !

Íslensk stjórnvöld eru hreint út sagt orðin þaulæfð í því hlutverki að níðast á almenningi og í því samhengi virðist mikið til sama hvaða flokkar eru við völd.

Auglýsingar eru aftur farnar að enduróma fyrirhrunstaktinn. Þar er sagt að íslensk verðbréf byggi á trausti og bankarnir segja - við þjónustum ykkur frá A til Ö, komið til okkar, við leysum málin fyrir ykkur !

Hvaða mál bjóðast þeir til að leysa ?

Vandamálin sem þeir sköpuðu og urðu fyrst og fremst til af þeirra völdum !

Og svo eru íslensk verðbréf auglýst sem farsæll fjárfestingakostur !

Varla þó fyrir þá sem þegar hafa tapað öllu sínu á slíkum pappírum !

Ef þetta er ekki siðleysi hvað er þá siðleysi ?

Vilhjálmur Egilsson, einn af þeim sem verðlaunuðu Icesave-gjörninginn 2007, talar um að nú sé algjör nauðsyn að efla atvinnu í landinu.

En hann er harður á því að ekki megi hækka laun manna þó allt annað hafi hækkað stórkostlega. Hann vill sem sagt fá fleiri á þrælalaunin, þessi maður sem er áreiðanlega með tugfölduð almennings-laun !

Þannig hugsa gullkálfar frjálshyggjunnar - fólk virðist bara til eins gagns í þeirra hugsun - til arðráns !

Ég veit um ýmsa menn sem tala mikið, ekki síst núna, um að menn eigi að vera bjartsýnir, sannir og heiðarlegir, og auðvitað er það góðra gjalda vert að vera það - en spurningin er hinsvegar, hafa þeir hinir sömu sýnt þá birtingarmynd í lífi sínu og starfi ?

Hafa þeir verið andvígir spillingu, hafa þeir fylgt réttlætinu og talað í nafni sannleikans ? Eða hafa þeir kannski stundað málamiðlanir og eru enn að því ?

Er það kannski ástæðan fyrir öllu bjartsýnistali slíkra manna - mitt í allri spillingunni, ranglætinu og lyginni - að þeir telja sig hafa allt sitt á þurru vegna þess að þeir hafa alltaf dansað með spillingunni ?

Hvernig töluðu forsprakkar íhaldsins, slegnir ótta, fyrst eftir hrunið :

" NÚ ÞURFUM VIÐ ÖLL AÐ STANDA SAMAN !

Eftir ránin og viðbjóðinn, áttu menn sem sagt að sameinast í einingu þjóðbræðralagsins með þeim sem rændu þá og stýrðu þjóðarskútunni beint á rjúkandi feigðarboðann !

Ég vil hvetja alla til að safna upplýsingum um hvernig efnahagshrunið - af mannavöldum drýgt -  fór með fjöldann allan af fólki í þessu landi.

Það þarf að skrá þetta allt svo að það liggi sem ljósast fyrir hvernig fólk var svikið og rænt af spilltum yfirvöldum og taglhnýtingum þeirra.

Það þarf að safna slíkum upplýsingum saman í einn allsherjar gagnabanka.

Þá ættu allir - nema þeir allra blindustu - að geta séð, að sumir menn geta bara ekki haldið því fram að þeir hafi góða samvisku og hreinan skjöld.

Það er ófrávíkjanleg sannfæring mín, að það sé ekki til nokkur atvinnupólitíkus í þessu landi, sem getur á réttum forsendum sagst hafa góða samvisku og hreinan skjöld. Pólitík gengur út á málamiðlanir - einkum þó afslátt á öllum góðum gildum - og við sjáum það á öllu sem gerist frá degi til dags.

Þjóðræknir þingmenn virðast fullkomlega útdauð manntegund á Íslandi og ég hika ekki við að segja að það situr nú enginn maður á alþingi sem ég get borið virðingu fyrir - eftir það sem á undan er gengið.

Þar ríkir greinilega algjört sinnuleysi gagnvart almennu mannlífi í þessu landi. Best væri því fyrir þjóðina að svo sálardauðu húsi væri lokað sem fyrst.

Þjóðin þarf á öðru að halda en blekkingartilburðum og sýndarmennsku !

 

 

 


Háklassahreiður menningarsjúkleikans

Tónlistarhúsið í Reykjavík, byggt á öllum hrokahugmyndum fyrirhrunstímans, er ekki byggt fyrir íslensku þjóðina og þaðan af síður fyrir reykvískan almenning. Hvað sem fuglar eins og Ashkenazy segja, þá er þetta fyrirtæki sett á laggirnar á allt öðrum forsendum en látið er að liggja í ræðu og riti.

Einu tengslin sem þetta tónlistarhof, þetta fokdýra menningarskrípi, hefur við almenning í landinu er að stórum hluta byggingarkostnaðarins hefur verið stolið úr sjóðum þjóðar í kreppu, til hagsbóta fyrir menningarsjúkan háklassa - það sem kalla mætti yfirstétt andskotans í þessu landi !

Hugsið um bruðlið og vitleysuna í gerð þessa húss ! Þarna hefur tugum og hundruðum milljóna króna verið dælt í flókinn arkitektúr, skraut og dellu-útfærslur, sem  eiga ekkert skylt við notagildið sem byggingin á að miðast við.

Og þó hefur verið horfið frá ýmsum skýjaborgum þessu viðkomandi - um sinn.

Þarna á íslenski afætu-aðallinn að sitja prúðbúinn og hlusta á tónlist, meðan almenningur berst við hungurvofuna og atvinnuleysið. Þarna á að skapa sömu aðstæðurnar og giltu fyrr á tíð, eins og þegar átjándu aldar slektið gleymdi sér í hámenningunni meðan fólkið átti ekki fyrir brauði. Drottningardruslan í Frakklandi hafði nú þá sitt svar við vanda fólksins eins og margir vita.

Tónlistarhúsið átti sinn primus motor í upphafi eða sinn gúrú sem var Björgólfur Guðmundsson og það er vel við hæfi að óska þess að allt sem honum hefur fylgt verði líka fylgja þessa húss sem hefur hlotið nafnið Harpa.

Af hverju stigu menn ekki bara skrefið til fulls og settu nafnið Davíðsharpa á húsið, var það ekki það eina rökrétta ?

Davíð Oddsson er og verður áreiðanlega áfram goð á stalli í augum flestra þeirra sem munu sækja þetta hús og þá sjúklegu oflætismenningu sem þar verður á boðstólum í nafni forréttindahyskis þessa lands. Þarna mun hæfileikafólk á sviði tónlistar fá að leika fyrir peningaöflin og fá hundsbeinin sín að launum.

Einn mesti hæfileikamaður heims á sviði tónlistar, Mozart, var svo óheppinn að lifa á átjándu öld. Reyndar má eiginlega frekar segja að hann hafi dáið á átjándu öld frekar en lifað. Því Mozart var í raun að deyja hægfara dauða mestan hluta sinnar stuttu ævi vegna skilningsleysis samtíðar sem alfarið var stjórnað af menningarsjúkum háklassaöflum. Og þegar þessum öflum hafði endanlega tekist að drepa Mozart, var hann grafinn í betlaragröf sem enginn veit hvar er í dag.

Minnismerki hans í Zentralfriedhof-garðinum í Vínarborg er ekki við gröf hans því enginn veit hvar jarðneskar leifar hans liggja. Líkamsleifar Beethovens og Schuberts voru fluttar í Zentralfriedhof eftir að grafir þeirra höfðu lengi verið í vanhirðu á fyrri stað.

Snillingar mannkynsins virðast ekki mikils virði nema rétt á meðan þeir eru að skemmta háklassanum !

Sjálfur Bach naut ekki mikillar viðurkenningar á sínum dögum og það var ekki fyrr en Mendelssohn fór að kynna hann um 1825 sem mönnum fór að verða ljóst hvílíkur tónmenntarisi hann var. En menningarsjúkur háklassi skynjar slíkt aldrei með sönnum hætti.

Það eru byggðar tónlistarhallir - ekki fyrir fólkið eða menninguna sjálfa - heldur fyrir hinn menningarsjúka háklassa sem skilur í raun enga heilbrigða menningu því það eina sem hann tilbiður eru fjármunir og völd.

Hitt er bara haft með -  til sýnis !

Íslenska tónlistarhöllin er byggð á sömu blóðsugu-forsendunum og giltu á valdatíð hinna allsráðandi aðalsstétta. Hún á fyrst og fremst að vera  háklassanum menningarlegt skálkaskjól þegar hann vill koma saman og þykjast postullegur kjarni alls hins góða, göfga og fagra.

Og meðan Mozartar deyja enn hungurdauða víða um heim, sitja svínaldir burgeisar við menningartrogin í tónlistarhöllunum og hrína af ánægju við ofgnótt forheimskunnar.

Ef Hallgrímur Pétursson - okkar gamli Passíusálmasmiður, hefði haft brotabrot af byggingarkostnaði Hallgrímskirkju milli handanna meðan hann lifði, hefði hann aldrei liðið skort. Ef Sigurður Breiðfjörð hefði notið einhvers skilnings hefði hann aldrei dáið úr hungri, ef menn hefðu vitað hvílíkur maður Sigurður málari var hefði hann ekki verið látinn drepast eins og eitthvert kvikindi.

Hvað sagði Hilmar Finsen við kónginn, sem spurði þó þrátt fyrir allt : " Er ekki hægt að gera eitthvað fyrir þennan mann ?

" Jú, svar landshöfðingjans var svar háklassa allra tíma : " Han har inte fortjent noget ! "

Ef listamaður skríður ekki á fjórum fótum inn í menningarskrípin og dansar eftir nótum háklassans, er hann drepinn úr hungri eða myrtur með þögn og fálæti.

Aðeins þeir sem þiggja beinin - eins og hundarnir undir borðinu - fá meðlætið og hinn háklassa gefna menningarstimpil. En þeir eru oft síðri listamenn en þeir sem drepnir eru úr hungri eða skilningsskorti - eins og mannkynssagan sannar best.

Davíðsharpan í Reykjavík eða Björgólfsbatteríið eða hvað við eigum að kalla þetta fáránlega tónlistarhús, þetta óskilgetna kreppuafkvæmi, þennan bastarð þjóðar í efnahagshruni, er framkvæmd sem var svikin inn á þjóðina á kolröngum forsendum, eitt af því sem á að nýtast oföldu smábroti þjóðarinnar og að mínu áliti versta hluta hennar, á kostnað almenningsheilla og þjóðarhags.

Ég óska þessari tónlistarhöll háklassans út í hafsauga og megi hún aldrei þrífast því eins og staðið hefur verið þar að málum, er um að ræða beint kostnaðartilræði við velferð fólksins í landinu.

Menningarhreiður sjúklegs háklassa mega aldrei hafa forgang gagnvart almennum lífshagsmunum þjóðar og allra síst þjóðar í þrengingum.

 

 

 

 


Líkin í lestinni !

Eftir að efnahagshrunið hafði staðfest með þjóðarhörmungum þann beiska sannleika, að íslensk stjórnvöld höfðu nánast allan Davíðstímann vanrækt skyldu sína í því að gæta almannaheilla, sáu samt afar fáir valdaaðilar ástæðu til að fara í það sem kalla mætti naflaskoðun.

Viðkvæðið var yfirleitt hjá öllum " ekki benda á mig ! "

Enginn var tilbúinn að axla neina ábyrgð og enn eru iðrunarmerki hvergi sýnd.

Rotnunarmerki spillingar og ógeðs eru því víða fyrir hendi í kerfinu.

Það er nefnilega kunnara en frá þurfi að segja, að það kemur fljótt ólykt af líkum. Það þarf því að grafa þau eða brenna eða losa sig við þau með einhverjum hætti. Maður sem ferðast um með lík á bakinu mun fljótt verða þess áskynja að menn munu fara að taka stóran sveig framhjá honum og forðast að vera honum samferða. En það eru ýmis fyrirbæri í okkar þjóðfélagi sem eru með lík í lestinni og vilja sjáanlega ekki skiljast við þau.

En lík eiga enga framtíð fyrir sér !

Gogol skrifaði eitt sinn um dauðar sálir. Það er margt sameiginlegt með dauðum sálum og líkum í lest. Þar vantar sammannlegan lífsneista, tilfinningu fyrir öðru lífi og rétti þess. Lík í lest og dauðar sálir geta þó verið lifandi að nafninu til, en andleg lífsmeðvitund verður samt hvergi fundin í þeim. Þar sem sjálfelskan ein ræður, gengur hún fljótlega að öllu heilbrigðu lífi dauðu.

Sjálfstæðisflokkurinn -  sem er í mínum huga Stóri Þjóðarógæfuflokkurinn - er með allmörg lík í lestinni og því er ólyktin af honum svo megn og viðvarandi í vitund þjóðarinnar. Framsóknarflokkurinn eða Litli Þjóðarógæfuflokkurinn, losaði sig nokkuð fljótt við sín verst þefjandi lík, en steig samt ekki skrefið til fulls til trúverðugrar endurreisnar. Hann hefði átt að taka upp nýtt nafn og undirstrika með því að hann vildi verða nýtt pólitískt afl. Hann hefði t.d. getað tekið upp nafnið Samvinnuflokkurinn, sem hefði tengt hann hugsjón samvinnuhreyfingarinnar og þeim félagshyggjuarfi sem þar liggur fyrir.

En hugsjónin sú og félagshyggjan var algjörlega svikin af flokknum undir forustu Halldórs Ásgrímssonar og hirðar hans. Sú hirð varð að víkja því hún átti sér ekki viðreisnarvon eftir að afleiðingar verka hennar fóru að koma í ljós.

En Sjálfstæðisflokkurinn lætur ekki sína Hrunahirð víkja, sérgæskudansinn dunar enn innan flokksins, í stækri ólyktinni af rotnandi líkunum. Og á meðan svo er, verður skiljanlega allt tal um endurreisn og betri vinnubrögð af flokksins hálfu hræsnin ein.

Nú er ég eins og ég hef alltaf verið og mun alltaf verða, alfarið á móti Sjálfstæðisflokknum og stefnu hans og vildi náttúrulega helst af öllu að hann væri ekki til. Ástæðan fyrir því er ósköp einföld, ég er andvígur sérhagsmuna-stefnum og þeirri mismunun sem þeim fylgir. Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur sérhagsmuna og að mínu mati hefur hann aldrei verið teljandi varnarþing fyrir íslenska þjóðarhagsmuni eða almannaheill. Það var ekki lagt í sköpunarmót flokksins að hann ætti að vera það, enda hefur hann aldrei verið neinn þjóðvarnarflokkur. Hann hirti nafnið sem hann ber frá fyrri flokki sem var borinn uppi af verkum manna sem seint hefðu orðið " sjálfstæðismenn"  í dag.

Árið 1807 sagði John Quincy Adams, einn þeirra Bandaríkjamanna sem ég virði hvað mest, við einn samstarfsmann sinn á þingi : " Þetta mál mun kosta okkur þingsætin, en sérhagsmuni má ekki setja ofar almannaheill ! "

Slíka afstöðu hafa forustumenn Sjálfstæðisflokksins aldrei skilið því þeirra stefna hefur alltaf verið þveröfug. Almannaheill er þar afar gildislítið hugtak.

Sjálfstæðisflokkurinn er að minni hyggju fyrst og fremst flokkur undir ráðandi leiðsögn eigingjarnra sálna, manna sem hafa sérhæft sig í því að herja fjármuni út úr ríki og sveitarfélögum - oftast undir fölskum fánum  frelsis og manndáða !

En fyrst að Sjálfstæðisflokkurinn er því miður til, er það hrein og klár þjóðfélagsleg nauðsyn að hann verði það þá í eins heilbrigðri mynd og frekast er unnt. Reyndar veit ég ekki hvort hægt er að hafa þar eitthvað heilbrigt til staðar, en ég veit þó að líkin í lestinni munu seint gefa heilbrigða mynd.

Leið þessa flokks til heilbrigðari hátta, ef svo má að orði komast, hlýtur því að liggja í því að hann losi sig við þessi langlyktandi lík sem fyrst. Drjúgur hluti af þingliði flokksins fellur undir það sem ég vil kalla " lík í lestinni !"

Það er afdráttarlaus skoðun mín að það sé ekki forsvaranlegt að bjóða þjóðinni  upp á fólk með þá fyrirhruns-fortíð sem margir þingmenn sjálfstæðismanna eiga og reyndar má segja það sama um nokkra fleiri á þingi.

Sjálfstæðisflokkurinn mun aldrei auka gengi sitt og lífslíkur meðal þjóðarinnar með því að hampa á sínum framboðslistum dauðum sálum eða lifandi líkum, valkostum sem allt fólk með sæmilega sýn á það sem frambærilegt er - vill hvorki heyra né sjá !

 


Niður með blóðsugukerfið !

Margt hefur kallað á áleitnar spurningar hjá almenningi, eftir að það kom í ljós við hrylling hrunsins, hvað efstu mannlífslögin í íslenska samfélaginu reyndust hafa verið orðin gráðug og gjörspillt í framferði.

Enginn hafði fyrir þann tíma getað ímyndað sér að slík forherðing og glæframennska af hálfu ráðamanna gæti átt sér stað hérlendis.

Og eftir hrunið héldu valdamenn áfram hyglingum og bjargráðum fyrir hina fáu á kostnað hinna mörgu. Af hverju var t.d. bönkum sem höfðu verið seldir innan sviga frá ríkinu, á verði sem aldrei var greitt nema að litlu leyti - voru sem sagt orðnir einkavæddir bankar, af hverju var þeim bjargað ?

Af hverju voru þeir ekki bara einfaldlega látnir fara í sitt gjaldþrot ? Það var búið að stela úr þessum bönkum innanfrá svo til hverri krónu - frá þjóðinni að mestu leyti og skaðinn auðvitað skrifaður á hana. Svo var farið í að endurfjármagna þá með skattpeningum þjóðarinnar !

Hverskonar fjármálastjórn er það eiginlega sem birtist í slíku ?

Af hverju voru ekki bara tveir skítlausir ríkisbankar stofnaðir og hitt látið fara í sitt endanlega hrun ? Skyldi skýringin vera m. a. sú, að nokkuð mörgum finnst greinilega að bankastarfsemi og skítur sé ein besta blanda sem þeir eigi völ á ?

Og það liggur svo sem fyrir hversvegna var farið í hlutina með þeim hætti sem gert var, þegar hin hábölvaða ríkisstjórn sem bauð upp á hrunið, loksins áttaði sig á því að frjálshyggju-fyllerí hennar væri búið að setja allt á hausinn.

Enn einu sinni var nefnilega farin hin gamla leið, að bjarga fjármagnseigendum á kostnað þjóðarinnar. Að vísu voru áreiðanlega ýmsir, sem höfðu aðgang að innherja-upplýsingum í kerfinu, búnir að taka sitt fé út úr bönkunum, því rottur flýja jafnan sökkvandi skip. En það voru svo margfalt fleiri sem þurftu vernd kerfisins og höfðu kröfuvægi til að heimta þá fyrirgreiðslu.

Svo í stað þess að bankaskrímslin færu í þá glötun sem þau höfðu fyrirbúið sjálfum sér með þjóðarógæfustefnu sinni, var hellt í þau peningum á nýjan leik, sem auðvitað var stolið frá þjóðinni í gegnum hið þrælgötótta fulltrúalýðræði sem hér hangir sem fyrr á ystu spillingarþröminni.  Af hverju var það mál ekki bara sett í þjóðaratkvæði ?

Það þurfti bara eina spurningu :

Eruð þið hlynnt því eða andvíg að þið verðið rænd aftur ?

En það var enginn að hugsa um þjóðina, það var bara verið að hugsa um þá sem eiga peninga í þessu þjóðfélagi. Og eins og flestir eiga að vita, verður enginn maður ríkur í gjörspilltu umhverfi nema því aðeins að hann sé samdauna því.

Það er því sannfæring mín, að það hafi tæpast nokkur maður auðgast að marki á Íslandi eftir 1990 með heiðarlegum hætti ! Stjórnvaldsaðgerðir hafa hyglað ýmsum hópum stórlega svo sem í gegnum kvótakerfið, en þegar slíkt er gert er auðvitað gengið á rétt annarra. En þegar yfirvöldin sjálf ræna og stela, er forsendan að baki verknaðinum yfirleitt réttlætt með lagastimpli. Það hafa mörg lög verið sett á Íslandi síðustu tuttugu árin sem eru í hrópandi ósamræmi við mannlega siðvitund og almennt réttlæti. Slík lög eru ólög og virka öfugt við eðlilega lagasetningu. Þau brjóta samfélagið niður í stað þess að byggja það upp.

Og staðreynd allra staðreynda í kringum hrunið er að almenningur í þessu landi var svikinn og rændur af bönkum og fjármálafyrirtækjum með blessun yfirvalda. Það er versti verknaður sem framinn hefur verið á Íslandi til þessa og fjöldi fólks mun aldrei aftur geta borið eðlilegt traust til íslenskra yfirvalda og margir hata nú yfirhyskið í landinu, sem leiddi hrunið yfir okkur með græðgi sinni. Þar mun ekki gróa um heilt nema yfirvöld játi sök sína og gangi í það af heilindum að græða sárin.

Við sitjum hinsvegar uppi með handónýtt kerfi !

Við sitjum uppi með ríkisstjórn sem vill vera með annan fótinn í Brussel en hinn í 101 Reykjavík !

Við sitjum uppi með forsætisráðherra í höfuðborginni og yfirforsætisráðherra úti á Álftanesi !

Við sitjum uppi með þing sem sýnir næstum daglega afskræmingu lýðræðislegra vinnubragða, harðneskjulega fundarstjórn og hroka í ótal myndum !

Við sitjum uppi með hæstarétt sem er sýnilega í stjórnarandstöðu !

Við sitjum uppi með sömu bankakerfisspillinguna og réði ríkjum hér fyrir hrun !

Hvað hefur breyst ?????????

Við sitjum uppi með fyrirhrunsskítinn og bætum skít á skít. Hér eru Mubarakar og Gaddafar í kerfinu, ekki síst fjármálakerfinu, menn af sama tagi og þessir illræmdu harðstjórar, menn sem hugsa ekki eina heilbrigða hugsun gagnvart landi og þjóð. Hvað á að gera við slíka kvislinga ?

Mahatma Gandhi sagði eitt sinn: " Earth provides enough for every man´s need but not for every man´s greed ! "

Við getum sagt það sama um Ísland, landið okkar er gott og gjöfult, en það er hægt að eyðileggja það og allan þess hag með yfirvaðandi græðgi auðvalds og frjálshyggju. Og þau eyðileggingaröfl hafa þegar sýnt hvers þau eru megnug þegar þeim er gefið svigrúmið til vítisverkanna.

Þjóðarógæfuflokkarnir sem voru við völd í meira en áratug frá 1995, gáfu það svigrúm sem þurfti og það má aldrei fyrirgefa eða gleyma þeim glæp !

Við eigum ekki að sætta okkur við ránskap og ábyrgðarleysi kerfisins og fjármálamafíunnar gegn okkur - borgurum þessa lands !

Við eigum ekki að sætta okkur við verðtryggingu gegn velferð !

Við eigum ekki að sætta okkur við að þjóðin verði negld á skuldaklafa fátæktar og kúgunar, hvorki af útlendum hákörlum né innlendum !

Það er ekki framtíðin sem lífsbarátta okkar átti að skapa fyrir börnin okkar !

Hvenær rís íslenska þjóðin fyrir alvöru upp og neitar alfarið að standa undir drápsklyfjum blóðsugukerfisins ?


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 131
  • Sl. sólarhring: 133
  • Sl. viku: 1381
  • Frá upphafi: 316771

Annað

  • Innlit í dag: 79
  • Innlit sl. viku: 1058
  • Gestir í dag: 75
  • IP-tölur í dag: 75

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband