Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2012

Um Ólaf Ragnar - Perpetum president !

Flest bendir til þess að við Íslendingar munum sitja uppi með Ólaf Ragnar Grímsson sem forseta áfram næstu fjögur árin. Þrátt fyrir undarlegar leikfléttur og sjónhverfingabrellur forsetans í fjölmiðlum allt frá áramótum, sem hefðu átt að draga verulega úr trausti til hans, virðist sem ekkert nægilega sterkt framboð hafi komið fram gegn honum.

Það má heldur ekki gleyma því að það er ekki hefð fyrir því á Íslandi að fella sitjandi forseta frá embætti. Því miður virðist það svo með marga, að það sé í eðli þeirra að frukta allt of mikið fyrir sitjandi ráðamönnum. Það er því löngum erfitt að fá fram breytingar og vinna undir því kjörorði að nýir vendir sópi best. Og Ólafur Ragnar er sannarlega ekki nýr vöndur á Bessastöðum og löngu hættur að sópa - nema þá til málamynda !

Undirritaður hefur ekki farið leynt með það að hann kaus Ólaf Ragnar sem forseta 1996. Þá var hann nýr vöndur á þessu sviði og hreint ekki einn á för.

Guðrún Katrín Þorbergsdóttir var við hlið hans og það var mikill liðsauki.

Valið var ekki erfitt þá. Ég hafði að vísu aldrei verið hrifinn af Ólafi Ragnari sem stjórnmálamanni, en hugsanlega gat hann samt orðið frambærilegur forseti.

Hann þekkti pólitíkina innan frá og reynsla hans úr þeim viðsjála heimi gat orðið gott veganesti fyrir forseta gagnvart ríkisstjórn og þingi ef vel væri á haldið.

Hann var líka með nýjar áherslur varðandi forsetaembættið, áherslur sem voru til þess fallnar að auka almennan áhuga fyrir embættinu og virkja það og þá möguleika sem í valdi forsetans fólust betur í þágu þjóðarinnar.

Og það var ekki vanþörf á því, fannst mörgum, og sjálfsagt að gefa viðkomandi frambjóðanda tækifæri til að sýna hvers hann væri megnugur varðandi þessar nýju áherslur. Það varð eiginlega töluverð vakning fyrir því á þjóðarvísu.

Aðrir frambjóðendur 1996 hurfu satt best að segja að miklu leyti í skuggann fyrir Ólafi Ragnari og Guðrúnu Katrínu konu hans.

Jafnvel ýmsir sem höfðu haft mikið horn í síðu Ólafs Ragnars, drógust að mati margra til þess að kjósa hann vegna Guðrúnar Katrínar.

En þetta var 1996 og margt breyttist furðu fljótt. Við misstum okkar mikilhæfu forsetafrú og með henni virtist deyja töluvert af þeim vonum sem fólk tengdi við hinn nýja forseta. Um aldamótin var undirritaður til dæmis orðinn þess fullviss að Ólafur Ragnar væri farinn að leika mikið til sama leikinn sem forseti og hann hafði áður leikið sem pólitíkus.

Áhugamál hans númer eitt var hann sjálfur, völd hans og fyrirferð í fjölmiðlum og þjóðlífi. Ferill hans fyrir hrunið og í hruninu og eftir hrunið var hreint ekki skammlaus og samskipti hans við þotulið útrásargreifanna voru alls ekki eins og þau hefðu átt að vera. Hann dansaði með, hann var meðvirkur, hann sá ekkert nema gull og milljarða streyma til Íslands. Hann virtist ekki telja að það myndi koma að skuldadögunum, eins og manni skilst þó að Dorrit hafi reynt að segja honum.

Hann skellti bara skollaeyrunum við viðvörunum af því taginu og sagði kokhraustur við erlenda fjölmiðla sem dáðust að íslensku "fjármálasnillingunum, "Þið hafið nú ekki séð mikið af þessu ennþá !

Og nú er Ólafur Ragnar að bjóða sig fram til að sitja fimmta kjörtímabilið sem forseti. Hann sem sagði að 16 ár væru langur tími í þessu embætti !

En nú er hinsvegar verulega skipt um hagi. Vinstrisinnaðir kjósendur hafa fjarlægst Ólaf eins og hann hefur fjarlægst félagshyggjuna og þær hugsjónir sem hún stendur fyrir, enda er hann orðinn lítið annað en íhaldssamur aristokrati og spilltur af of löngu samneyti við forréttindahyski og snobbhænsni hér og þar.

Svo nú er íhaldið orðið traustasti bakhjarl Ólafs Ragnars ásamt leifunum af Framsókn. Einhverntíma hefðu það þótt tíðindi svo ekki sé meira sagt.

Forustulið íhaldsins, er farið að sjá að Ólafur Ragnar er hreint ekki sá vargur í véum sem það taldi hér áður fyrr. Hann er farinn að ganga sömu götur og það í ýmsu. Og flokksmenn Stóra Þjóðarógæfuflokksins, jafnvel 7 af hverjum 10, ætla víst að kjósa manninn sem var eitt sinn " persona non grata " í þeirra augum.

Hægri menn virðast ekki kunna sér læti yfir því að vera búnir að finna ásættanlegan forseta fyrir " sínar áherslur " í Ólafi Ragnari - já, í Ólafi Ragnari Grímssyni !

En hvert átti aumingja maðurinn að fara til að leita sér stuðnings ?

Fyrri samherjar voru að stórum hluta búnir að sjá í gegnum hann og farnir að skilja, að hann er í raun og veru engu trúr nema þá eigin framagirnd.

Hann átti ekkert eftir nema að leita á náðir íhaldsins - og verði hann kosinn forseti áfram, verður það fyrir stuðning þess og atkvæði - og það er vel hugsanlegt að íhaldið geti notað Ólaf Ragnar og ekkert skilji þar á milli á komandi árum - ekki einu sinni " skítlegt eðli" !

Sú niðurstaða hlýtur að teljast aumur lokakafli á ferli Ólafs Ragnars Grímssonar, en fátt virðist líklegt til að breyta því ferli héðan af.

Ólafur Ragnar endar líklega ævidaga sína eins og Jónas frá Hriflu - sem forstokkað íhald - Sic transit gloria mundi - mætti segja !

 

 

 

 

 

 

 


Fræðingahrunið og ábyrgðarleysið !

Það er öllum ljóst sem hugsa á annað borð, að íslenska efnahagshrunið var hrun af mannavöldum. Það var framkallað í gegnum yfirmáta ábyrgðarleysi manna sem höfðu að sögn verið menntaðir til að bera ábyrgð !

Nánast allir gerendur hrunsins voru fræðingar af einhverju tagi. Í bankakerfinu, fjármálaeftirlitinu, ráðuneytunum og ríkiskerfinu öllu, störfuðu allra handa fræðingar sem allir áttu að vera að vinna baki brotnu fyrir íslensku þjóðina, áttu að vera fullir af ábyrgðarkennd og þjóðlegri skyldutilfinningu !

Því var stöðuglega haldið að fólki, að það vantaði ekki að vel væri séð fyrir öryggi þess. Íslendingar áttu að geta farið að sofa hvert kvöld í fullvissu þess að vakað væri yfir þeim og hagsmunum þeirra hverja stund. Þá sofnuðu menn hér á landi í því trausti og trúðu því að það væri gott þjóðfélagskerfi á Íslandi.

En nú gera menn það ekki og það verður langt í það að svokölluð yfirvöld þessa lands vinni sér eðlilegt traust meðal almennings á ný og það að Jóhönnu Sigurðardóttur meðtalinni.

Eitt af því sem sérmerkt hefur málflutning frjálshyggjumanna, bæði fyrir og eftir hrun, og einnig málflutning þeirra sem eru farnir að tala á línu frjálshyggjunnar, meðvitað eða ómeðvitað, er að það er alltaf forðast að tala um hina persónulegu gerendur málanna. Það var t.d. mjög mikið um það í fjölmiðlum fyrir hrun, að viðmælendur frá greiningardeildum bankanna og fulltrúar hinna ýmsu verðbréfasjóða, töluðu um að þetta og hitt færi eftir því hvernig markaðurinn brygðist við. Það var alltaf eins og mannshöndin og mannshugurinn hefði ekkert með málin að gera og yfirleitt talað þvert á hinar raunverulegu staðreyndir.

Ólafur Arnarson talaði t.d. á Bylgjunni 3.maí sl. " um óþreyjufulla peninga sem vildu komast úr landi " !

Peningarnir sjálfir vildu þetta sem sagt, það hafði ekkert með eigendur þeirra að gera. Það var engin persóna á bak við þessa " óþreyjufullu peninga " !

Svona er hinn ópersónulegi málflutningur notaður til að fela staðreyndirnar.

Og Jóhanna Sigurðardóttir tekur svo til orða í ræðum  " þegar hrunið skall á " !

Það skall ekkert hrun á, það var bara kaldrifjað eiginhagsmuna-samsæri í gangi og það vissu svo sem margir í kerfinu af því sem var að gerast, en þeir sem vissu þögðu þunnu hljóði, því annaðhvort voru þeir með í mafíunni eða var alveg sama um íslenskan þjóðarhag. En það sem var að gerast var - að það var verið að fremja rán á tiltölulega góðu þjóðarheimili, -  og misgerðir sem framdar eru með slíkum hætti af  ábyrgðarlausu stjórnmálaliði, og frjálshyggjulega hámenntuðu banka og viðskiptalífsfólki, verða aldrei staðsettar í sögunni á sama róli og jarðskjálfti, ofsarok eða eldgos.

Þetta var hannað hrun, tilbúin forsenda gífurlegra eignabreytinga, sem höfðu það siðlausa markmið að auðga útvalinn hóp svikulla bófa á kostnað þjóðarinnar.

Efnahagshrunið var ekki náttúruhamfaramál sem slíkt, það var glæpur hinna gráðugu, glæpur bankanna, glæpur viðskiptalífsins, glæpur stjórnvalda gegn þjóðinni ! Það er staðreynd staðreyndanna !

Og hver var í stjórn með Stóra Þjóðarógæfuflokknum þegar öllu var steypt í þrot og þar jafn sofandi og aðrir - Jóhanna Sigurðardóttir, einmitt þessi sama Jóhanna Sigurðardóttir sem vissi ekkert í sinn haus þegar " hrunið skall á " !

Hún er sannarlega ekki saklausari en aðrir sem spyrt hafa sig við og verið í slagtogi með Stóra Þjóðarógæfuflokknum og látið hafa sig til óhæfuverka undir hans forustu.

Skilur fólk ekki hver er meiningin með því að ópersónugera mannanna misgjörðir, að skilja á milli glæpsins og glæpamannanna ?

Ef sú skilgreining fær að standa, þá er enginn sekur, þá ber enginn ábyrgð, þá eru allir góðir og gegnir Íslendingar á ný, sama hvað þeir hafa gert.

Þá er hægt að fara safna á kostnað þjóðarinnar fyrir nýju frjálshyggju-fyllerí og gera síðan nýja gangstera að milljarðamæringum í gegnum nýtt hrun !

En staðreyndirnar tala allar einum rómi gegn þessari hvítþvottar skilgreiningu.

Það eru nefnilega margir sekir, það bera margir ábyrgð og það eru ekki allir góðir og gegnir Íslendingar hér í þessu landi.

Eitt af því sem hrunið sýndi okkur var það, að sumum er gjörsamlega sama um hag lands og þjóðar bara ef  þeir hagnast.

Menn sem voru ekkert annað en landráðamenn, voru á ferð og flugi árin fyrir hrun, á fullu við að féfletta þjóðina, og það með sérstakri blessun yfirvaldanna, sem gerðu þeim leikinn eins léttan og þau gátu.

Allir í stjórnkerfinu, allir í bankakerfinu, allir í eftirlitskerfinu virtust alfarið uppteknir við það að dást að skrautklæðnaði " keisarans " sem var náttúrulega berstrípaður og villuleiðandi fígúra í öllum skilningi. Sannleikurinn var læstur inni í skollaskápum kerfisins og allir áttu bara að nærast á lygum og leikaraskap.

Það þýðir því ekkert fyrir ráðamenn að reyna að breiða yfir aumingjadóm sinn því hann er augljós hverjum viti bornum manni.

Og þegar Jóhanna Sigurðardóttir talar í 17. júní ávarpi um traust sem farið hefur forgörðum, um þann vanda að þjóðin treysti ekki ráðamönnum, segir hún réttilega að sökin sé hjá þinginu og yfirvöldunum, en hvaða yfirbætur hafa verið sýndar í verki sem raunverulega hafa sannað sig ?

Bankakerfi með skítlegt eðli hefur verið endurreist á kostnað þjóðarinnar, sem áður hafði verið margvíslega hlunnfarin af því sama kerfi, og spillingar-haugurinn í stjórnarráðinu sem átti að moka, er enn á sínum stað og síst minni en áður. Meðan einhverjir héldu kannski að þeir væru að moka út voru aðrir að moka sama skítnum til baka.

Hvernig á fólk að geta borið traust til íslenskra ráðamanna eftir það sem á undan er gengið, þegar ekkert er gert í raun til að endurvekja það traust ?

Gjáin breikkar stöðugt milli þings og þjóðar og sú gjá er að verða botnlaus og óyfirstíganleg - og þessi mikla gjá heitir VANTRAUST !

 

 

 


Þjóðarmorð Tyrkja á Armenum !

Hinar sögulegu staðreyndir um þjóðarmorð Tyrkja á Armenum eru meðal verstu verka einnar þjóðar gegn annarri í mannkynssögulegu tilliti.

Á síðustu áratugum nítjándu aldar mótmæltu Norðurálfuríkin kúgun Tyrkja á Armenum og sjálfur Gladstone kallaði Abdul Hamid soldán Tyrkja fullum hálsi " morðingjann í hásætinu"! En Abdul Hamid vissi að honum var óhætt að fara sínu fram og betur hefði verið fyrir Armena að ríkisstjórnir Norðurálfunnar hefðu ekkert skipt sér af málum þeirra. Öll stjórnarbréfin sem send voru án þess að hugur fylgdi máli, gerðu nefnilega ekkert annað en að espa Tyrki gegn þeim.

Haustið 1895 dundu ósköpin yfir. Með vopnuðum skríl undir forustu lögreglunnar réðust Tyrkir á Armena, en hersveitir þeirra héldu vörð á meðan og tryggðu " vinnufriðinn ". Blóðbaðinu lauk um jólaleytið 1895 á þann hátt að 1200 Armenar voru brenndir lifandi í dómkirkjunni í Úfa.

Á 5-6 mánuðum voru 90.000 manns myrtir og margir fórust úr sulti og eymd. Ríkisstjórnir Norðurálfu höfðust ekkert að !

Í ágústmánuði 1896 lét soldáninn myrða 7000 Armena í Konstantinópel fyrir augunum á stjórnarerindrekum Evrópuríkja og það eina sem þeir gerðu var að senda mótmælabréf.

Friðarþingið í París árið 1900 og Jafnaðarmannaþingið 1902 kvörtuðu yfir því að Norðurálfan brygðist Armenum, en ekkert var gert nema talað !

Á meðan héldu Tyrkir uppteknum hætti að kúga og drepa Armena.

Ungtyrkir sem börðust fyrir " frjálslyndi, einingu og framförum, "  ráku Abdul Hamid frá völdum 1908, en honum tókst að komast til valda aftur og á þeim stutta tíma sem hann þá ríkti tókst honum að láta drepa um 20.000 Armena.

Það var hinsvegar ætlun Ungtyrkja að kúga allar þjóðir sem ekki væru tyrkneskar að uppruna og þó einkum Armena. Og Ungtyrkir voru langtum ákveðnari og hagvirkari í undirokunarstarfi sínu en Gamaltyrkir.

Fyrir fyrri heimsstyrjöldina höfðu þeir sett sér það markmið að fækka hinum kristna lýð í Armeníu. Stórveldin hugðust þá láta málið til sín taka og voru tveir yfirgæslumenn sendir frá hlutlausum löndum til að vaka yfir ástandinu í Armeníu. Áður en þeir komust á staðinn braust styrjöldin út.

Í skjóli hennar hugðust Ungtyrkir losa föðurlandið við þennan meinta óþjóðalýð, uppræta alla Armena í hinu tyrkneska ríki og láta engan lifandi undan komast, en stjórnin sjálf ætlaði að gefa leiðbeiningar um það hvernig haga skyldi manndrápunum.

Fjórar þúsundir manna voru sendar til Zeitun árið 1915, og ráku þeir alla íbúana, samtals 20.000 manns út í mýrar og eyðimerkur. Í Konstantinópel voru allir áhrifamenn ; kennarar, læknar, rithöfundar, lögfræðingar, ritstjórar og prestar,

alls 600 manns, sendir til Litlu-Asíu. Átta þeirra komust af, hinir hurfu !

Með þeim voru allir helstu talsmenn Armena úr sögunni.

Árið 1915 hófust síðan þær ógnir og skelfingar sem vart eiga sinn líka í sögunni.

Frá Kilikíu, Anatólíu og Mesópótamíu voru Armenar reknir af stað í helför sína. Tyrkir tóku allar eigur þeirra. Þeim var síðan hópað saman og reknir yfir fjöllin út á Arabíu-eyðimörkina. Þeir sem voru ekki skotnir áttu að farast þar úr hungri. Allir fullorðnir karlmenn og stálpaðir drengir voru leiddir afsíðis og drepnir. Ungar stúlkur voru seldar á uppboði. Þær stúlkur sem höfðu sloppið við nauðgun fóru á fjórfalt hærra verð en hinar. Hópar Kúrda réðust á járnbrautarlestirnar, rændu, misþyrmdu, myrtu og nauðguðu kvenfólki.

Allt var með ráði gert og þaulhugsað. Fólkið var látið veslast upp hægt og hægt úr hungri og harðrétti, en þessa aðferð kölluðu Tyrkir " kurteisleg manndráp ".

Af 180.000 manns, sem reknir voru frá Karpút og Sívas, komust 350 til Aleppó,

en af 19.000 frá Erzerum lifðu aðeins 11 manns. Flekkusóttin geisaði meðal fólksins. Náþefinn lagði af lestunum sem fluttu líkin.

Víða var sleppt öllum látalátum um brottflutning fólksins og því þá slátrað heima hjá sér, eða fundin upp fáranlegustu hrottabrögð til að stytta því aldur.

Eitt slíkt var að reka Armena hundruðum saman út á fleka á Tígrisfljóti.

Þegar flekarnir komu niður að Mósúl, voru þeir mannlausir, en fljótið var fullt af líkum og mannslimum. Í Kermak-gjánni slátruðu tyrkneskir hermenn 25.000 konum og börnum.

Armenskir hermenn sem barist höfðu í Tyrkjaher og sumir hlotið opinbera viðurkenningu, voru skotnir af tyrkneskum félögum sínum á bak við herstöðvarnar.

Innanríkisráðherra Tyrkja símaði í september 1915 til lögreglunnar í Aleppó :

" Ráða skal niðurlögum Armena án þess að hafa af því nokkurt samviskubit eða skeyta hið minnsta um tilfinningar " !

Árið 1916 hélt ógnunum áfram. Fangaherbúðirnar tæmdust. Í einum þeirra voru grafin lík 55.000 manna er soltið höfðu til bana. Einhvers staðar við Evratfljót týndust 60.000 manns. Við Mósúl voru 19.000 manns drepnar og á öðrum stað 20.000. Frásögn sjónarvotta er þannig að hverjum manni hlýtur að renna til rifja.

Þegar fregnir af atburðum þessum bárust til Norðurálfunnar 1915, vöktu þær geysimikla gremju. Miklar yfirlýsingar voru gefnar, staðfestar af Wilson Bandaríkjaforseta, Lloyd-George og Clemenceau, um endurreisn frelsis og sjálfstæðis til handa Armenum, ef þeir vildu ganga til liðs við Bandamenn.

Armenskir sjálfboðaliðar streymdu í heri þeirra, börðust af mikilli hreysti, og 200.000 létu lífið á orustuvöllunum.

Eftir rússnesku byltinguna réðust Tyrkir inn í rússneska hluta Armeníu til að uppræta Armena einnig þar. Í maí 1918 lýstu Armenar land sitt óháð lýðveldi. En það var þá 9000 ferkílómetrar að stærð með 350.000 íbúum.

Tyrkir héldu friðinn á sinn hátt, þeir hertóku Bakú og drápu um 30.000 manns.

Eftir hrun Tyrklands tóku Armenar aftur land sitt. En Bandamenn sem höfðu lofað þeim því, sendu ekkert herlið þeim til hjálpar. Friðþjófur Nansen taldi ástæðuna þá að engar olíulindir voru í Anatolíu. Tyrkir tóku landið aftur.

Armenar voru sviknir á ný !

19. janúar 1920 viðurkenndi friðarþingið í Versölum þó armenska ríkið og fór fram á það að Þjóðabandalagið tæki það undir sína vernd. En því var synjað.

Þjóðabandalagið hafði hvorki fjármagn eða her til ráðstöfunar og ekkert ríki var fáanlegt til að fara með umboð þess varðandi málefni Armena.

Þann 10. ágúst sama ár viðurkenndu Tyrkir Armeníu sem fullvalda ríki og Wilson ákvað landamærin. Armenar fengu 87.000 ferkílómetra lands, en Bandamenn gerðu ekkert frekar en áður til að tryggja þeim þetta landssvæði.

Þeir leyfðu Tyrkjum enn að komast upp með það að ráðast inn í Armeníu.

Í stuttu máli sagt, Bandamenn sviku Armena í öllu á hinn lúalegasta hátt og fyrir blóð það sem Armenar höfðu úthellt í þeirra þágu, guldu þeir pappír og verðlaust landabréf. Síðasti þáttur armenska harmleiksins gerðist þegar Tyrkir ráku Grikki úr Litlu-Asíu árið 1922. Þúsundir Armena voru samtímis reknir úr landi. Örsnauðir komu þeir til Grikklands, Búlgaríu, Sýrlands og hins rússneska hluta Armeníu.

Í ofsóknunum 1915-1916 útrýmdu Tyrkir einni milljón Armena í Tyrklandi,

eða rúmum þriðjungi hinnar armensku þjóðar.

Á friðarþinginu í Lausanne 1922-23 kallaði Curzon lávarður hörmungarnar í Armeníu " mesta hneyksli veraldar " en samt var Lausanne-samningurinn undirritaður án þess að minnst væri á Armena. Það var eins og þeir væru ekki til. Svona voru vinnubrögðin hjá ráðamönnum þeirra þjóða Evrópu, á þessum tíma, Breta og Frakka, sem öðrum fremur hafa þóst standa sem brjóstvörn fyrir lýðræði og mannréttindi. Sömu óheilindin réðu og síðar gagnvart lýðveldinu á Spáni, sem varð til þess að pumpa fasismann upp og starta síðari heimsstyrjöldinni !

Meðferðin á Armenum af hálfu Tyrkja var hryllileg og ómennsk, en það ber líka að hafa í huga og því má ekki gleyma, að þeir komust upp með glæpina vegna þess að áhrifamestu ríkisstjórnir Vesturlanda gerðu ekkert til að hindra þessi þjóðarmorð þó fyllilega væri vitað hvað væri að gerast.

Svik þeirra við málstað Armena voru slík, að þau gerðu Tyrkjum það fullkomlega ljóst að þeir gætu gert hvað sem þeim sýndist, án þess að óttast afskipti af þeirra hálfu. Og Tyrkir gerðu einmitt það sem þeim sýndist.

Þannig geta þjóðarmorð átt sér stað - enn í dag - með þegjandi samþykki þeirra sem gætu komið í veg fyrir þau !

 

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 117
  • Sl. sólarhring: 149
  • Sl. viku: 1367
  • Frá upphafi: 316757

Annað

  • Innlit í dag: 70
  • Innlit sl. viku: 1049
  • Gestir í dag: 66
  • IP-tölur í dag: 66

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband