Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

" Hann er upprisinn " !

Það hafa alltaf verið til menn í þessum heimi sem hafa fjandskapast út í kristindóminn. Og það segir sig sjálft, að menn sem eru fyrst og síðast og alfarið af þessum heimi, hljóta að vera andstæðir öllu því sem kemur frá himnum.

Svo það hefur aldrei vantað að árásir hafa verið gerðar á fylgjendur Krists og þær munu verða gerðar, meðan sá sem er aflvaki þeirra leikur lausum hala.

En kristnin hefur staðið allt slíkt af sér í gegnum aldirnar og mun halda velli og sigra því lífsforsendur hennar eru hreinar !

Upprisa Jesú var til dæmis staðfest með mjög sérstökum hætti á sínum tíma. Gröf Hans var nefnilega innsigluð að rómverskum sið og hervörður settur um hana. Það var gert samkvæmt kröfu æðstu prestanna og átti að tryggja að lærisveinar Drottins rændu ekki líki Hans og segðu Hann svo upprisinn.

En allt var þetta til einskis og staðfesti aðeins það yfirnáttúrulega sem gerðist !

Það varð ekki hrakið að gröfin var tóm og engin frambærileg skýring fannst !

Og vegna sigurhrópanna " Hann er Upprisinn " flæddi kærleiksbylgja kristninnar í framhaldi mála yfir löndin og allir sem áttu lifandi hjarta í brjósti sér, fundu að eitthvað ferskt og gott var orðið að veruleika. Það var sannarlega eitthvað komið í heiminn sem frelsaði og skapaði nýtt líf !

Og frumherjar trúarinnar, postularnir og samverkafólk þeirra, karlar sem konur, allt þetta fólk kom saman í sannri einingu fyrir kraft Heilags Anda, og flutti fagnaðarerindið um nýjan sáttmála fyrir blóð Jesú Krists, um allt rómverska heimsveldið á tiltölulega skömmum tíma. Það gat ekki öðruvísi farið því alls staðar voru einstaklingar með opin hjörtu sem meðtóku frelsisboðskapinn og boðuðu hann síðan öðrum í krafti kærleikans.

Saga kristninnar felur í sér allt það besta sem mönnum hefur verið gefið, en hún er ekki hluti af svokallaðri trúarbragðasögu mannkynsins, því trúarbrögð eru og hafa verið búin til af mönnum. Kristnin kom hinsvegar að ofan og er himneskt tilboð um samfélag við hinn Lifandi Guð, í gegnum Hann sem er Vegurinn, Sannleikurinn og Lífið !¨

Krossinn sem var áður tákn um hræðilegan dauða varð að tákni sigrandi lífs og flutti hvarvetna með sér lifandi von til manna, von um opnar inngöngudyr til eilífðar Guðs !

En það hafa alltaf verið til menn sem hafa ekki skilið fagnaðarerindið og snúist öndverðir við inntaki þess og anda. Slíkum mönnum hefur jafnan fundist sem kristnin setji þeim of miklar skorður og einkum varðandi það sem þeir vilja og þrá, en vita þó að er ekki forsvaranlegt.

Það er hið synduga eðli mannsins sem rís þar til uppreisnar sem löngum fyrr !

Það hefur margt verið afhelgað á síðustu árum á Íslandi vegna taumlausrar efnishyggju og Mammonsdýrkunar og afhelgun andlegra verðmæta er aldrei góð. Borgarstjórn Reykjavíkur afhelgaði til dæmis vorið 1991 55 daga í árinu vegna ásóknar verslunar og gróðahyggju. Sumir telja það hafa verið stærstu einstöku aðgerðina til afhelgunar þjóðfélags okkar frá upphafi vega.

Morgunblaðið lýsti því margsinnis yfir að þar hefðu úreltar hömlur verið afnumdar og enginn mótmælt, en sannleikurinn er hinsvegar sá, að með þessari aðgerð færðu menn sig töluvert nær því að láta lögmál hins veraldlega átrúnaðar ríkja allar stundir.

En þrátt fyrir þá aðför eiga enn að vera til fjórir alhelgir dagar á dagatalinu, það er Jóladagur, Föstudagurinn langi, Páskadagur og Hvítasunnudagur og hver þeirra helgast ákveðnum höfuðþætti kristninnar. Jóladagur tengist fæðingu Frelsarans, Föstudagurinn langi dauða Hans sem friðþægingarfórnar á krossi, Páskadagurinn upprisu Hans og sigri lífsins og Hvítasunnudagurinn helgast gjöf Heilags Anda !

Það væri engin kristni til ef Kristur hefði ekki fæðst inn í þennan heim !

Það væri engin kristni til ef Hann hefði ekki fórnað lífi sínu fyrir okkur öll !

Það væri engin kristni til ef Hann hefði ekki risið upp og sigrað dauðann !

Það væri engin kristni til ef Heilagur Andi hefði ekki verið gefinn !

Öll þessi fjögur höfuðatriði þurftu að koma til svo að kærleiksblessun himinsins næði til okkar mannanna og ekkert megnaði að hindra það.

Og þessvegna er kristnin ósigrandi, það sigrar enginn himininn og engum er það betur ljóst en þeim sem varpað var út úr himninum á sínum tíma með sínu uppreisnarliði. Eina takmark sálnaóvinarins er og hefur því verið að draga eins marga með sér í glötun og hann frekast getur.

En við eigum lifandi von og dauðinn þarf ekki að vera hlutskipti okkar !

Tilboð himinsins um hlutdeild í hinu eilífa lífi stendur okkur enn til boða fyrir blóð Jesú Krists !

Fallinn heimur á ekki að vera takmark okkar heldur hin nýja Jerúsalem !

En til þess að taka við þeirri blessun sem boðin er, þurfum við að vera kristin og játast Kristi og taka þátt í sigurhrópinu " Hann er upprisinn !"

Það sigurhróp sé því áfram lifandi kveðja kristins fólks um allan heim, þegar það fellst í faðma og fagnar á páskum upprisu FRELSARANS !

 

 

 

 


Hjartadrepið gagnvart kristindómnum !

Það er athyglisvert hvað tíðarandinn er hreint út sagt orðinn andkristinn og það á bæði við á Vesturlöndum almennt og hérlendis. Í því sem öðru öpum við ósiðina upp eftir nágrannaþjóðunum og þykjumst víst meiri og menntaðri fyrir vikið.

Nú er vitað að menning og lífstilvera Vesturlanda er að miklu leyti byggð á kristnum grunni og sú var tíðin að kristniboðar frá Evrópu og Bandaríkjunum fóru til Afríku og Asíu til að boða þjóðum þar kristni. Ég býst við að hefði þeirra ekki notið við, væri líklega öll Afríka múslimsk í dag og þar með fjandsamlegri menningu Evrópuríkja umtalsvert meira en nú er. Afrísk kristni er víða til fyrirmyndar og líklega tímabært að fá fólk þaðan til að boða kristni hér.

Áhrifa kristindóms gætir líka víða í Asíu og kristið fólk þar er hliðhollara okkur á Vesturlöndum en við eigum í reynd skilið. Það munar líka um framlag þess til góðra hluta í þessum heimi og við ættum vissulega að vera þakklát fyrir það.

Það ætti því að geta legið ljóst fyrir hverjum sæmilega skynsömum manni að kristindómurinn er ein grundvallarstoðin undir lífsgildum þeim sem við höfum lengst af viljað fylgja og því er andúðin á honum í nútímanum mjög mikið umhugsunarefni.

Í íslenskum skólum má helst ekki minnast á neitt kristið lengur, en þar má liggja yfir allskyns efni úr heiðinni goðafræði tímunum saman. Venjulegur íslenskur menntaskólanemi veit yfirleitt talsvert um það efni enda er honum kennt það, en um Biblíuna, Bók bókanna, grundvallarrit trúar okkar, virðist hann býsna fáfróður. Í spurningaþætti í sjónvarpi nýverið vissu sex upplýstar manneskjur, kennarar þar á meðal, ekki hvað guðspjallamaðurinn Lúkas hefði starfað og oftast er það svo, þegar spurning kemur úr Biblíunni að menn standa á gati.

Þegar spurt var öðru sinni í sama þætti um hvað þorpið hefði heitið sem Marta, María og Lasarus bjuggu í, voru viðbrögð eins keppandans mjög athyglisverð. Hann fórnaði nánast höndum og kvartaði yfir að lið hans skyldi fá spurningu um eitthvað Biblíurugl, en hitt liðið miklu betri spurningu. Svo klykkti hann út með því að segja " Jesus " , og auðvitað með enskum framburði. Og að sjálfsögðu gataði liðið á þessu og líka hitt liðið.

Þarna var þó verið að spyrja um atriði varðandi heimssögulegan atburð, að maður var vakinn upp frá dauðum. En það virtist engin leið að vekja keppnisliðin upp frá þeim andlega dauða sem herjaði á þau varðandi áhuga á slíkum hlutum. Þau voru slíkir lasarusar að þekkingu á þessum efnum, að maður velti því nánast fyrir sér hvernig svona upplýst nútímafólk hefði getað komist hjá því að vita þetta ?

Það má til dæmis spyrja - er þekking íslenskra kennara í nútímanum á Jesú Kristi og lífi hans og starfi virkilega orðin svona bágborin ?

Það þarf víst ekki að búast við að nemendur í skólum viti mikið varðandi kristin gildi þegar fræðararnir eru gjörsamlega skilningsvana í þeim málum og ýmis skuggaöfl í þjóðfélaginu ýta leynt og ljóst undir fjandsamlega afstöðu til kristindómsins.

Hvað erum við að gera þegar við höldum uppi svona viðhorfum og teljum að það sé í þágu uppbyggilegrar lífssýnar fyrir börn okkar og framtíð þeirra ?

Ég held að margur sem í alvöru hugsaði það mál, kæmist fljótlega að þeirri niðurstöðu að þarna værum við á mjög rangri leið.

Heiðrum því Guð vors lands í skólum landsins og úthýsum honum þar ekki !

Samfélag sem gengur fram í því að höggva undan sér meiðinn sem það er byggt á getur ekki þrifist með heilbrigðum hætti. Það mun því taka út afleiðingarnar af röngum viðhorfum og lagasetningum sem þjóna niðurrifs-sjónarmiðum.

Þá mun koma að því fyrr en síðar að lítið sem ekkert líf verður lengur að finna í Lagarfljóti andans í þessu landi og þegar svo verður komið, mun enginn kannast við að bera þar nokkra ábyrgð, frekar en nú í náttúrulegu myndinni fyrir austan.

Kristindómurinn er besta gjöfin sem mannkyninu hefur hlotnast og sú gjöf er einnig gefin okkur Íslendingum. Látum engin öfl spilla fyrir okkur þeirri gjöf.

Förum vel með það sem blessar samfélag okkar og göngum þar saman í þjóðlegri einingu gagnvart sögu okkar og menningu !

Ég vil svo hér í lokin segja við alla sem vilja taka þeirri kveðju  - gleðilega páska !

 


Hin óheppilegu kristnu gildi !!!

Á nýafstöðnum landsfundi flokks sem telur sig alltaf hafa það besta fram að færa fyrir alla þrátt fyrir ljótar staðreyndir um hrun og hrollvekjur, gerðist dálítið merkilegt - aldrei þessu vant !

Kannski átti það sér stað með eftirfarandi hætti :

Nokkrir menn í flokknum sem vilja heita kristnir, voru svo einfaldir að halda að hægt væri að fá á fundinum samþykkta tillögu um að mið skyldi tekið af kristilegum gildum og hefðum við alla lagasetningu í samfélaginu !

Tillagan var borin fram og fékk stuðning í fyrstu, en brátt fóru að renna tvær grímur á ýmsa og allmargir spurðu sessunauta sína hvað fælist eiginlega í þessum pakka ? Og svör við því virtust ekki liggja á lausu !

Það fór að fara töluverður titringur um fundarsalinn út af þessu máli, og ungliðar flokksins urðu brátt háværastir allra eins og þeim er tamt, enda flestir verið stríðaldir á frjálshyggju frá blautu barnsbeini. Þeir spurðu því hver í kapp við annan í miklum æsingi :

" Hvað er verið að meina með þessu og hvað felst í þessum kristnu gildum, veit það nokkur ? "

Þeir höfðu skiljanlega enga þekkingu á því sjálfir og fóru því að spyrja þá sem eldri voru sem þeir voru þó annars ekki vanir. Þarna voru nokkrir prestar á fundinum, því það hefur alltaf verið töluvert um presta í þessum flokki þó undarlegt sé, en sumir vilja meina að það sé lifandi sönnun þess að hægt sé að þjóna bæði Guði og Mammon, ef menn leggja sig bara verulega fram við það !

Ungliðarnir voru svo heppnir að hitta á einn af þessum hæfnisríku prestum sem tilheyra flokknum og spurðu hann hvað væri átt við með þessu tali um að tekið skyldi mið af kristnum gildum ?

Prestur svaraði spurningunni góðlátlega og sagði að það væri nú bara átt við þessar gömlu góðu reglur, " þú skalt ekki stela og þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum og ekki girnast hús hans og eigur  o.s.frv.o.s.frv ! "

Ungliðunum snarbrá við að heyra þetta og þeir litu skelfingu lostnir hver á annan. Þeir fengu ekki betur heyrt en að með þessari tillögu væri vegið að sjálfum tilvistar-grundvelli flokksins ! Hvernig gat mönnum dottið annað eins og þetta í hug  ?

Þeim varð þegar ljóst að þetta yrði að stöðva hvað sem það kostaði.........!

Það væri þokkalegt eða hitt þó heldur ef það ætti að setja eðlilegri sjálfsbjargarviðleitni manna svo afgerandi skorður ! Þeir fóru umsvifalaust í menn sem tilheyrðu kjarna flokksforustunnar og sögðu þeim hvers þeir hefðu orðið áskynja !

Og viti menn, valdamennirnir urðu hvítir á vangann og sögðust ekki hafa haft hugmynd um að meiningin með því að tala um stuðning við kristileg gildi, fæli það í sér að mönnum væri beinlínis bannað að bjarga sér !

Það var í skyndi kallaður saman neyðarfundur í bakherbergi þar sem helstu lykilmenn flokksins mættu. Nokkrir menn í flokknum sem lengi hafa verið orðaðir við kristni og áttu því hlut að þessari tillögu, voru kallaðir á fundinn og þeir beðnir af miklum þunga um skýringar á því hvað átt væri við með þessu ákvæði um kristin gildi ?

Og þegar þeir höfðu úttalað sig í hjartans einfeldni um málið, var lykilmönnunum ljóst að flokkurinn átti hreint ekki samleið með þessum kristnu gildum ! "

" Þau eru svo afskaplega óheppileg að inntaki, "  sagði einn lykilmannanna við hina kristnu flokksmenn hálf afsakandi. Einn þeirra sem var enn á valdi mikilla vonbrigða sagði fúll í bragði:

" Þau eru nú bara eins og Kristur vildi hafa þau ! "

" Ja, við skulum nú ekki vera að blanda honum inn í þetta ! "  svaraði hinn og skaut sér bak við félaga sína í hópnum.

Og þar með var þessari stórhættulegu tillögu kippt í flýti til baka og flestir á fundinum önduðu léttar, nema kannski þessir fáu sem telja sig þar kristna.

En hvað eru slíkir menn annars að gera þarna, eru þeir kannski líka í þessari tvöföldu þjónustu sem er orðin svo algeng í þjóðfélaginu ?

Einn flokksmaður sem hefur barist mjög fyrir kristnum gildum á undanförnum árum í ræðu og riti, sagðist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með slátrun tillögunnar og það væri ljóst að flokkurinn væri ekki kristinn !

Það er nefnilega það !

Er þá stætt á því fyrir menn sem vilja heita kristnir, að þjóna flokksvaldi sem sett hefur sig svona afgerandi á móti því að tekið sé mið af kristnum gildum og hefðum við lagasetningu hérlendis ?

Er í raun og veru hægt að þjóna bæði Guði og Mammon ?

Svari því hver fyrir sig, en það ættu flestir að vita hvað Biblían segir um það og það er nægilegur vitnisburður fyrir mig sem þetta skrifa.

Hinsvegar þykist ég vita að enginn segi sig úr flokknum út af þessu tilefni og það segir mér hvaða vægi hlutirnir þar raunverulega hafa !

 

 

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 23
  • Sl. sólarhring: 94
  • Sl. viku: 1298
  • Frá upphafi: 316217

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 1041
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband