Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2014

Hanna Birna í haugasjó !

„Hamlar leki hugarró

í heimi gæfuslita.

Hanna Birna í haugasjó

hrekst á milli vita !"

Það er víst alltaf hægt að búast við snöggum og óvæntum veðrabreytingum í heimi stjórnmálanna. Þar er sannarlega enginn annars bróðir í leik og systralagið þarf sosum ekki að vera mikið betra. Stundum er einhverjum hampað svo engu er líkt og svo snýst dæmið kannski við og skyndilega húrrar viðkomandi niður tignartröppurnar eins og - framahyskið á Glæsivöllum - vilji hann fjandans til !

Náköld er Hemra og skjótt skipast veður í lofti sem fyrr segir. Það er ekki langt síðan Hanna Birna Kristjánsdóttir þótti eitt frambærilegasta foringjaefnið í liði sjálfstæðismanna og sumir vildu jafnvel skella henni beint í formannsstöðuna rétt fyrir síðustu kosningar. Þá voru lekandi leiðindi í kringum Bjarna Ben og hann virtist í standandi vandræðum með stöðu sína innan flokksins, en Bjarna er sennilega ekki alls varnað í klókindum og hann fann ráðið sem dugði.

Hann kom klökkur í bragði í sjónvarpið og sagðist vera farinn að hugsa sinn gang með að hætta, ef allir ætluðu að vera vondir við hann áfram ? Og það var eins og við manninn mælt, öll gagnrýni á formanninn innan flokksins hvarf eins og dögg fyrir sólu, hjaðnaði á svipstundu og varð að engu. Það sáu það allir að það var bara ekki hægt - flokksins vegna - að henda honum út á síðustu stund fyrir kosningar !

Harðsólaðir íhaldsnaggar eins og vesturfarinn Kári Lár, sem höfðu farið mikinn í gagnrýni á Bjarna, snerust heilan hring og fóru að lofsyngja Bjarna hástöfum. Formaðurinn fékk uppskrúfaða stuðningsyfirlýsingu á flokkslegu færibandi um - allt að því - ævarandi hollustu. Það voru engir vafningar í kringum það mál !

Og nú er Hanna Birna komin í vanda og náttúrulega fer hún í spor Bjarna og talar fjálglega um það, að hún ætti kannski bara að hætta í pólitík og finna sér annan vettvang til starfa. En samt undirstrikar hún það klóklega að hún vilji auðvitað vinna þar sem hún geti best gagnast fólkinu í landinu og hagsmunum þess !

En nú bregður svo við að stuðningsyfirlýsingar við hana virðast ætla að standa á sér, að minnsta kosti koma þær ekki fram á færibandi eins og í tilfelli Bjarna, og að vísu byggist framvindan ekki eingöngu á afstöðu sjálfstæðismanna til málsins. En samt, það er eins og eitthvað vanti í myndina, kannski hefði Hanna Birna átt að vera svolítið klökk í sjónvarpinu, kannski var það það sem vantaði til að viðsnúningur yrði í málinu henni í vil ?

En það gæti verið fleira sem hefur spillt þar fyrir, kosningar eru til dæmis ekki yfirhangandi, svo hættan á flokkslegu strandi í þeim er ekki svo áþreifanleg - því miður, en greinilegt er samt að Hanna Birna er í allt annarri og lakari stöðu að pólitískum styrk en hún var fyrir tiltölulega skömmum tíma. Hvað skýrir svo skyndilegt bakslag - það gætu bara sumir haldið að manneskjan hefði verið leidd í gildru og verið viljandi flækt í gjörningum mistaka ? Sjálfsagt eru þeir til innan sjálfstæðisflokksins sem grétu það þurrum tárum að hún hyrfi af vettvangi þar !

Vera má að mæða og neyð

meinum fái hrannað,

svo fallin stjarna flokks á leið

fari að hugsa um annað !

Það hefur oft sýnt sig að fólk sem kemur úr borgarstjórnarmálunum og jafnvel sem hálfgerðar stjörnur, virðist eiga erfitt með að fóta sig á vægast sagt hálum undirstöðuvelli þjóðmálanna. Og það má líka benda á, að kannski er Bjarna Ben ekki svo leitt sem hann lætur, þó að Hanna Birna verði fyrir einhverju vinsældasigi og kannski mætti yrkja um það í eftirfarandi dúr :

Heldur vænkast Bjarna braut,

betra sér hann árið.

Kreppt er að hans keppinaut

kringum lekafárið !

Sumir hafa lýst yfir áhyggjum af stjórnsýslunni varðandi umrætt mál og hef ég nú grun um að slíkar staðhæfingar séu yfirskynsblaður og þeir sem þannig tala séu öllu fremur áhugasamir um það að nýta sér þá möguleika sem málið gefur í pólitískum skilningi. En það er ekkert nýtt að fólk í stjórnmálum beri fyrir sig lýðræðislegar hugsjónir í orði þó það hafi sjaldnast haft miklar áhyggjur af slíkum málum á borði.

Lekamálið er á margan hátt fróðlegt mál og það verður athyglisvert að fylgjast með því hvernig því reiðir af og hvort það kemur til með að hafa einhver áhrif til endurbóta í kerfislegum skilningi. Ég hef hinsvegar miklar efasemdir um að svo verði. En ég held samt að þjóðhagslega séð sé miklu nauðsynlegra að laga til í kerfinu svo þar sjáist bót á, en að kasta einhverri  manneskju sem er í pólitík - og hefur líklega gert þar einhver mistök -  út í ystu myrkur og láta sem þá sé öllu bjargað !

Hanna Birna hefur í raun og veru ekki gert mikið af sér miðað við ýmsa aðra sem komið hafa nálægt stjórn landsmála á undanförnum árum og sumir unnið þar óþurftarverk að minni hyggju og komist upp með það allt of lengi !

Fyrir nokkrum dögum gerði ég eftirfarandi vísur um það mál sem ég hef rætt hér og mér finnst fara vel á því að ljúka þessum pistli með þeim :

Vex við Hönnu Birnu borð

basl og sviti á enni.

Stundum er sem Stefáns orð

steypi undan henni !

 

Misjafnt skilnings metið val

mun þar sitthvað kynna.

Hvernig ber að túlka tal

tveggja fullorðinna ?

 

Mörgum hjá er stríðið strangt,

sterkar taugar bila.

Hvað er rétt og hvað er rangt,

hvernig á að spila ?

 

Ljótt er þegar lamað traust

leggst í götu þvera.

Regluverkið reglulaust

reynist stundum vera !

 

 

 

 


Örlítil innansveitarkronika !

„Loksins loksins !" á Kristján Albertsson að hafa sagt þegar Vefarinn mikli frá Kashmír kom út, „loksins,loksins" segi ég þegar Bæjarmálafélag Ð-listans er kynnt til lífs og starfa hér á Skagaströnd, eins og lofað var á vordögum, fyrir kosningar. Það er svo sem engin vissa fyrir því að því sem lofað er fyrir kosningar verði fram haldið eftir kosningar, og mörg dæmin til um að slíkt hafi gleymst, en þarna virðist samt örla á einhverri viðleitni af þeirri gerð að standa við það sem sagt var !

Það er í sjálfu sér nokkuð gaman að sjá ofurlitlar gárur á hinum pólitíska vatnsfleti bæjarmálanna á Skagaströnd, sem um býsna langt skeið hefur verið svo sléttur af lífshreyfingu - að maður hefur stundum haft það á tilfinningunni að allt væri í raun steindautt þar.

En nú er að vita hvort þessar gárur sléttist út og hverfi í gráum fleti flatneskjunnar í hreppsmálunum, eða hvort eitthvað meira verði úr þessu félagsstarfi hins nýja framboðs frá því í vor og að líf fari að koma í tuskurnar í sveitarstjórn ?

Hverjir skyldu nú verða í forustu hins nýja félags og koma til með að leiða þetta nýsköpunartæki samfélagslegrar endurreisnar, já, má ekki segja það, Ða er ekki sjálfsagt að nota stór orð þegar um svona viðreisnar-staðreynd er að ræða ?

En það er auðvitað erfitt að vita hvernig hlutunum verður komið á koppinn , því eins og oft er þegar mikið stendur til, eru margir kallaðir en fáir útvaldir !

Ég velti þessu samt pínulítið fyrir mér og hugsaði það á eftirfarandi nótum :

 

Bæjarmálafélag  er fætt á Skagaströnd,

framtakið er lofsvert og hressir margra önd.

Uppfylling á fyrirheitum vekur alltaf von,

verður kannski formaðurinn Steindór Haraldsson ?

 

Félagið er hugsað sem þroskavænlegt þing,

það á ekki að snúast og allra síst í hring.

Það á bæði að vekja menn og víkka þeirra sýn,

verður kannski formaðurinn Inga frænka mín ?

 

Félagið er ætlað hér sem öflug lyftistöng

og einkum til að drýgja og bæta gæfuföng.

Svo lífskjörin í öllu skapi veg til vænni hleifs,

verður kannski formaðurinn Kristín dóttir Leifs ?

 

Félagið er skapað í skýrri trú á það

að skutla megi einhverjum framförum af stað.

Það á bæði að vaxta og verja lífsins hnoss,

verður kannski formaðurinn sjálfur Halli Boss ?

 

- o.s.frv. - o.s.frv. - o.s.frv.- o.s.frv. - o.s.frv.- o.s.frv. !!!!

 

 

 


Lögfræðingaveislan !

„Eina stétt ég veit sem virkar

vel í öllu fyrir sig.

Jafnvel götur gæðamyrkar

gefa henni sigurstig.

 

Ryðst hún um með ráði snjöllu,

reikna kann sér dæmið víst.

Enda hagnast hún á öllu,

hruni og bölvun - ekki síst !"

                            Enginn Allrason

Það virðist alveg sama hvað upp kemur í þjóðfélaginu, hvernig allt fer og gengur, alltaf þarf að hafa lögfræðinga við höndina til að leggja blessun sína yfir alla gjörninga í samfélagi, þar sem ekkert traust er til staðar milli aðila. Tími handsala er sannarlega löngu liðinn. „Á öllu fitna lögfræðingarnir" segir almannarómur -  og hann lýgur sjaldan, að sagt er !

En þó að lögformleg blessun sé viðhöfð við hlutina, virðist oft geta farið svo að málin gangi ekki upp þrátt fyrir það. Það finnast agnúar hér og þar, brotalamir gagnvart reglum og fyrirmælum laga, eitt og annað sem segir að öryggið sé nú ekki algjört þó vissir aðilar séu hafðir við höndina og fái sína þóknun.

Í gamla daga voru menn meira sjálfbjarga með hlutina í mörgu og jafnvel sínir eigin lögfræðingar, eins og Stephan G. segir í vísunni frægu:

„Löngum var ég læknir minn

lögfræðingur, prestur.

Smiður, kóngur, kennarinn,

kerra, plógur, hestur."

Margt fólk hefur sagt mér, að reynsla þess af lögfræðingum og afskiptum þeirra af málum sé hreint ekki góð. Kona ein sagði mér að hún hefði talið sig þurfa að leita til lögfræðinga í tveim tilfellum, en hún hefði ekki með nokkru móti getað upplifað þau samskipti sem eitthvað sem telja mætti traust og öruggt. Og margar umsagnir hef ég heyrt sem hníga að því sama. Það er áreiðanlega enginn íslenskur Clarence Darrow til í dag og líklegast hefur hann aldrei  verið til !

Og það má auðvitað spyrja þeirrar spurningar, hversvegna ætti fólk að treysta lögfræðingum, í samfélagi þar sem enginn treystir öðrum ? Eru þeir kannski hafnir yfir vantraust, eru þeir hvergi vanhæfir, eru þeir eitthvað spes ?

Hagsmunagæsla fyrir stórfyrirtæki og viðskiptalífsjöfra hefur verið og er vafalaust enn býsna stór liður í tekjuöflun lögfræðinga. Hvað halda menn til dæmis að Bónus-málaferlin hafi skilað af sér fjárhagslega í hendur lögfræðinga ? Þar hlýtur að vera um að ræða stjarnfræðilega tölu - að minnsta kosti frá sjónarmiði venjulegra launamanna á Íslandi, en þeir bera sem kunnugt er stöðugt minna úr býtum, eftir að verkalýðshreyfing sem stendur undir nafni lagðist af hérlendis !

Ástandið í þjóðfélaginu undanfarin ár hefur eins og vitað er verið erfitt fyrir flesta, en það hefur líklega verið algjör veislutími fyrir tekjuöflun lögfræðinga. Þeir virðast nefnilega hagnast á öllum aðstæðum - einnig samfélagslegum erfiðleikum sem þeir hafa jafnvel sjálfir sumir hverjir átt sinn þátt í að skapa !

Það er sagt að mikill fjöldi byggingarkrana sé tilvísun á þensluástand, en það mætti alveg eins segja að mikill fjöldi lögfræðinga sé sambærileg tilvísun á ótrausta stöðu samfélagsmála. Fólk hefur til þessa líklega talið sig þurfa stöðugt meiri lögfræðiaðstoð vegna þess að það hefur virst vera að skilja æ betur að engu sé hægt að treysta og heiðarleiki sé að verða nokkuð sjaldgæft fyrirbæri í  skiptum manna. En nú er hinsvegar orðið ljóst að tiltrú á dómskerfið í heild hefur minnkað mikið á síðustu árum í hugum fólks, og kannski hefur það eitthvað með það að gera hvaða ímynd lögfræðingar hafa orðið sér úti um meðal þess sama fólks ?

Það er ekki farsælt veganesti til framtíðar fyrir nokkurt mannfélag, ef afstaða hins breiða fjölda til ætlaðra fulltrúa laga og réttar fer að einkennast fyrst og fremst af ógeði og andúð, virðingarleysi og vantrausti ! En slík afstaða skapast ekki af engu ?

Veisluhöld geta vissulega boðið upp á gleðistundir og eiga meira að segja að gera það, en sum veisluhöld eru þess eðlis, að það getur verið mannskemmandi að taka þátt í þeim. Ég held að dæmin um það séu orðin nokkuð mörg í þjóðfélaginu !

Það er löngu tímabært að lögfræðistéttin athugi sinn gang með tilliti til þeirrar stöðu sem hún þarf að hafa í hugum fólks, en hefur bersýnilega ekki !

 


Að taka afstöðu til mála !

Stundum sé ég ástæðu til að velta því nokkuð fyrir mér á hvaða forsendum fólk tekur afstöðu til mála ? Í eina tíð held ég að það hafi skipt miklu máli hjá flestum að vera sannleikans megin og styðja helst í engu það sem rangt væri, en sú afstaða virðist mér búa við fallandi gengi mjög víða, eins og sakir standa.

Það er ekki annað að heyra nú til dags, en mjög margir spái fyrst og fremst í það að taka afstöðu til mála út frá því hvað sé og geti verið hagkvæmast fyrir þá. Viðhorfin til þess hvað sé rétt eða rangt virðast víðsfjarri þeim sem þannig hugsa. Og svo er oft að heyra, að vilji til þess að þurfa kannski að fórna einhverjum lífsþægindum fyrir það að standa á sínu og því sem menn telja rétt, sé vægast sagt orðinn af skornum skammti í okkar ofurneysluruglaða samfélagi. Það er dapurleg niðurstaða ef menn eru almennt orðnir svo fullir af siðlausum sofandahætti að þeir láti allt falt við freistingum !

Í Einræðum Starkaðar segir Einar Ben „ gleðin er heilust og dýpst við það smáa" og er ég ekki grunlaus um að sá fjölhæfi maður hafi lesið Orðskviðina í Biblíunni vel yfir áður en hann lagði út með mörg þau spekiorð sem í umræddu kvæði búa. En Einar Ben var margbrotinn maður og vildi alla tíð fá sitt tillag í lífinu og það í ríflegra lagi. Spekimál kvæða hans var því kannski öðru fremur hugsað sem leiðbeiningar-framlag til annarra, heldur en eitthvað sem hann sjálfur ætti að lifa eftir. Að minnsta kosti var líf hans í flestu nokkuð frábrugðið því sem hann boðaði.

Þegar hann eitt sinn fúlsaði við soðinni ýsu, svaraði Valgerður kona hans : „Þetta er soðin ýsa með floti og kartöflum og það er fullgóður matur handa þér á mánudegi !" En Einar svaraði að bragði: „Á mánudegi, hvers á mánudagurinn eiginlega að gjalda ? Hvers vegna má ekki vera veislumatur á mánudegi ?"

Svo fórnarlund Einars Ben gagnvart lífsgæðum og skilningur hans á gleðinni í því að búa við það smáa, mun nú lengstum hafa verið nokkuð mikið með sínum sérstaka hætti. En samt er það svo, að sá sem hefur ekki of mikið umleikis í sínu lífi upplifir oft sælli gleði en sá sem telur sig þurfa alls að gæta vegna hagsmuna sinna og gefur sér ekki nokkurn tíma til þess - að lifa !

Best fer jafnan á því að hugsjónir og framferði rími saman í mannlegri tilveru, enda er það að vera sjálfum sér samkvæmur oft hið erfiðasta mál en jafnan þó sigur þroska, samvisku og sæmdar í lífi hvers manns. Þann sigur vinna hinsvegar allt of fáir og enn færri nú til dags en áður var. Það vantar allar hugsjónir í tilvistarstrengina í dag, það vantar háleit markmið og  hreina og göfuga sýn til samfélagslegra þarfa. Það vantar að koma hinu allsráðandi eigingirnisstefi nútímans undir aga og hemja græðgisfullar hvatir sjálfsins !

Það vantar endurlífgaðan kristinn anda í þjóðarsálina, og ég segi það hiklaust nú þegar ríkisútvarpið er farið að kasta því út úr dagskrá sinni sem í áraraðir hefur verið því til sóma, og telur það ekki lengur eiga við  -  vegna samtíma sem er á sinni breysku blinduför inn í meiri og meiri siðleysu. Hvenær hefur þörfin verið meiri á því að standa hvarvetna vaktina fyrir hinum góðu, gömlu gildum ?

Sá forsvarsmaður sem telur sig þjóna þjóðinni best með því að fella niður Morgunbænir og Orð kvöldsins úr dagskrá útvarpsins er sjáanlega að þjóna einhverju allt öðru en hann ætti að þjóna. Andinn í þeirri ákvörðun afhjúpar sig mjög skýrt og sýnir sig vera anda niðurrifs og lausungar í siðferðilegu tilliti. Það er hinsvegar ekkert nýtt að verið sé að þóknast einhverju sem ekki er af okkar meiði og seint verður þjóð okkar til þrifnaðar !

En nýir stjórnendur eru oft Mammons mestu vinir og þeir sem eru það taka afstöðu til allra mála á grundvelli þess sem þeir telja hagkvæmt, hagkvæmt fyrir sjálfið og yfirdrepsskapinn, hagkvæmt fyrir rotin sjónarmið dauðra sálna. Og slíkir stjórnendur trúa því að allir aðrir séu þeim líkir, elski sjálfa sig 100% á kostnað allrar elsku gagnvart öðrum, taki afstöðu til mála eftir því sem þeir telja sér hagfellt, hafi enga sýn á hvað sé rétt eða rangt, þekki ekki neitt til fórnarlundar og hafi ekki neina sannfæringu, samvisku eða sómatilfinningu !

Og eigi slíkir stjórnendur að fá að móta og leiða þjóðfélagið, er það ávísun á blessunarlausan ófarnað, ávísun á annað og verra hrun. Þá er samfélagið dæmt til andlegs dauða, dæmt til kyrkingar og hengingar heiðarlegra viðmiða og blygðunarlausrar aftöku allra heilbrigðra siðagilda !

Hvaða afstöðu viljum við hafa til mála ? Ætlum við að láta andlega berrassaða sperrileggi leggja okkur línurnar í okkar eigin lífsmálum ? Eiga þjónustubundnir andar, innfluttir í gegnum kukl framandi þjóða, að fá að vaða hér yfir allt og alla ?

Eigum við ekki að vera áfram kristin þjóð, og halda fast í Herrans klæðafald ? Er það ekki leið hjálpræðisins og þess vonarljóss sem hefur lýst þjóðinni í gegnum dimmar aldir til þeirra föðurhúsa sem fyrri kynslóðir trúðu statt og stöðugt að væri heimahöfnin eina og sanna ?

Eigum við virkilega að sætta okkur við að ríkisútvarpið okkar vinni andlegt skemmdarverk í þágu skurðgoða öfugsnúins tíðaranda og neiti okkur um þá þjónustu sem verið hefur þar í boði, að hefja hvern dag með morgunbæn og ljúka honum með orði kvöldsins ? Erum við orðin svo andlega dauð ?

Ég vil að endingu spyrja, verður næst ráðist á þjóðsönginn okkar ?

 

 


Um afnuminn móðurrétt !

Sú var tíðin, að ættsveitarskipulag var við lýði hjá flestum þjóðum og þá var venjan að menn röktu ætt sína í kvenlegg. Skýringin var sú að samlífi og mökum kynja voru þá ekki settar neinar skorður og það gerði það að verkum að faðerni barna var með öllu óvíst. Það varð til þess að ættir voru raktar í kvenlegg - eftir móðurrétti, - og var það venjan sem fyrr segir hjá flestum ef ekki öllum fornþjóðum. Fjölhjúskapurinn var söguleg staðreynd á þeim tímum.

Með þessu fylgdi það, að konur nutu mikillar virðingar og álits þar sem þær voru jafnframt mæður, - og hið eina foreldri sem vitað varð um með vissu. Þessi virðingarstaða kvenna leiddi til fullkomins kvenríkis um tíma að mati sumra fræðimanna, og þó það hafi nú líklega ekki verið svo, er ljóst að staða kvenna í ættsveitaskipulaginu var afar mikilvæg og viðurkennd sem slík.

Þróunin frá hinu frjálsa samlífi ættsveitarsamfélagsins yfir í einkvæni og frá móðurrétti til föðurréttar er mjög athyglisverð og má finna þætti varðandi hana í mörgum ritverkum frá fornum tíma, svo sem leikritinu Oresteia eftir Aeschylos. Svissneski fræðimaðurinn Johann Bachofen taldi það verk í raun áhrifamikla lýsingu á baráttunni milli hnignandi móðurréttar og vaxandi föðurréttar.

Kollvörpun móðurréttarins á sínum tíma var í raun heimssögulegur ósigur kvenþjóðarinnar. Karlmaðurinn tók við stjórnartaumunum, líka á heimilinu, konan lækkaði í tign, hún var þrælkuð, hún varð ambátt fýsna hans og einbert tæki til barneigna. Og eftir því sem tíminn leið við þá stöðu mála, breiddist gleymskan yfir hina fyrri stöðu, sem lítil ástæða þótti til að minnast af handhöfum ríkjandi réttar.

En að því kom að menn fóru að rannsaka forsöguna með faglegum hætti og leita upplýsinga varðandi það hvernig samfélagslegum málum hafði verið háttað áður. Sú uppgötvun og niðurstaða Bandaríkjamannsins Lewis H. Morgans, framsett 1877 í riti hans Ancient Society, or Researches in the Lines of Human Progress from Savagery, through Barbarism, to Civilization, að kvenleggs-ættsveitin, forsenda móðurréttarins, hafi verið undanfari föðurréttar-ættsveita menningarþjóðanna, er geysilega mikilvægur lykill að því að skilja söguna rétt.

Rannsóknir Morgans í þessum efnum leiddu hinsvegar til niðurstaðna sem voru þess eðlis að margir vildu sem minnst af þeim heyra. Það verður að segjast eins og er, að á seinni hluta nítjándu aldar, í algleymi karlaveldisins, voru niðurstöður Morgans þannig hreint ekki velkomnar og full tilhneiging víða til að gera lítið úr þeim og þagga þær helst í hel.

Hugmyndin um að konan hafi alltaf verið ambátt mannsins, er til okkar komin frá tiltölulega nýliðnum tíma eða 18. öldinni, upplýsingatímabilinu svonefnda, og er fjarri öllum sanni. Valdastaða kvenna í öllum fornum samfélögum var sem fyrr segir miklu öflugri en yfirleitt hefur verið viðurkennt og það var líklega nauðsyn seinni tíma karlaveldis sem gerði það að verkum að reynt var að tala sem minnst um það sem áður var. En staðreyndin er sú að móðurrétturinn var við lýði áður en föðurrétturinn kom til og staða kvenna þar af leiðandi allt önnur og sterkari en síðar varð.

Móðurrétturinn var sem fyrr segir nánast almennur í flestum löndum til forna og það er til dæmis talið sannað að Skotar hafi fyrst búið við móðurrétt og nægir þar að benda á að Beda segir frá því að konungsætt Pikta, sem yfirleitt eru taldir frumbyggjar Skotlands, hafi rakið kyn sitt í kvenlegg. Og þótt föðurréttur tæki yfir síðar í skoskum byggðum, var ættsveitarskipulagið áfram til staðar og sérstaklega í Hálöndunum. Þar var það öldum saman mjög fast í sessi, en að lokum notuðu Englendingar tækifærið til að berja og brjóta það niður eftir Jakobína uppreisnina 1745. Hálöndin urðu aldrei söm eftir þá blóðtöku !

Við þá breytingu að tekinn var upp sérhjúskapur, þar sem konan tilheyrði aðeins einum manni, var brotið ævagamalt boðorð fyrri skipunar mála. Það var sem sé brotinn réttur annarra karla úr samverinu til sömu konunnar. Fyrir það brot varð að friðþægja svo sátt mætti ríkja og það var gert með því að konur gáfu sig öðrum körlum á vald um tiltekinn tíma. Þar var oft um mjög breytilega samninga að ræða, og stundum hægt að kaupa sig frá kvöðinni, því oftast voru þessi mál mjög erfið viðfangs og sköpuðu víða sálarlegar undir sem seint eða aldrei greru.

Babylonskar konur urðu til dæmis að selja fram blíðu sína einu sinni á ári í hofi Mylittu, sem var babylonsk ástargyðja. Aðrar þjóðir í Litlu-Asíu sendu ungar stúlkur til hofs Anaitis, sem var armensk ástargyðja, og þar urðu þær að dveljast árum saman. Í vistinni þar áttu þær að iðka frjálsar ástir með þeim elskhugum er þær veldu sér, og máttu þær ekki giftast fyrr en að loknum þessum tíma. Slíkir siðir voru lengi vel sameiginlegir öllum þjóðum frá Miðjarðarhafi austur að Ganges og sveipaðir allskonar trú og dulrænu. En smátt og smátt dró úr kröfunni um þetta ástar endurgjald kvenna fyrir lausn úr samveri til þeirrar stöðu að bindast einum manni.

Sennilegt er að svonefndur jus primae nochtis siður (réttur hinnar fyrstu nætur) sé kominn til í upphafi í gegnum þessa friðþægingu, sem leifar frá fjölhjúskapnum.  En þegar fram í sótti urðu það eingöngu furstar og lénsdrottnar sem kröfðust þessa réttar í krafti þeirrar valdastöðu sem þeir höfðu. Sú krafa varð ákaflega illa þokkuð og árið 1486 gaf Ferdinand kaþólski út úrskurð í Aragóníu fyrir sitt ríki, sem bannaði þessum valdsherrum að nota sér þennan rétt, enda gekk hann þvert á öll þau siðaboð sem giltu í sérhjúskapnum og jafnframt kaþólskum trúarsið.

Margt má um þessi mál segja frekar, en ég læt hér staðar numið, en ætla að ljúka þessum pistli með íslenskri smásögu sem kemur inn á gildi móður og föðurréttar.

Eitt sinn snemma á síðustu öld ræddust þeir við í Alþingishúsinu þingmennirnir Jón Þorláksson og Magnús Torfason, en báðir voru þeir komnir af Finni Jónssyni biskupi í Skálholti. Jón var kominn af honum í kvenlegg, en Magnús Torfason var að vanda stór í stykkjum og stærði sig af því að vera kominn í beinan karllegg af biskupi og væri sá ættleggur göfugri. Þá sagði Jón Þorláksson fastmæltur og með fyllsta öryggi: „ En minn er vissari " !

Þar með var þeim umræðum lokið. Magnús Torfason vissi að hann var þarna kominn út á hálan ís og fyrst málið tók þessa stefnu kaus hann að ræða það ekki frekar. Það er nefnilega í nokkuð mikið ráðist að stæra sig af karllegg í gegnum margar kynslóðir, því hver veit hvað borið hefur við í samskiptamálum kynja á svo langri leið eða hvaða karlar hafa lagt þar til efniviðinn í nýja einstaklinga ?

Það er enganveginn víst og gefið, að allt sé þar eins og sýnist og sagt er vera með karllegginn, en móðurættin ætti hinsvegar ekki að vera neitt vafamál !

 


"Silfurskeiðunga siðleysan !"

Það er gömul aðferð í pólitík, ekki síst í stjórnmálafræði hægri manna, þegar menn þykjast vera að leiðrétta rangindi og stuðla að réttlæti, að taka það frá fólkinu sem fer í leiðréttinguna. Að láta fólkið sjálft borga án vitundar þá réttarbót sem sagt er að sé í gangi og svo hæla menn sér af öllu saman !

Gjörningar af slíku tagi hafa oft verið viðhafðir hérlendis þannig að rangindi eru í raun endurtekin - með álagi. Það þarf ekki nokkur maður að búast við nokkru öðru af silfurskeiðungum ríkisstjórnarinnar en að þeim kippi í kynið.

Þeir eru ekki menn sem gæta almannahagsmuna, þeir eru þvert á móti innmúraðir og innvígðir gæslumenn sérhagsmuna og verða aldrei annað. Lýðskrum og framsettur fagurgali fyrir kosningar breytir þar ekki neinu um og varast ber að trúa fölskum fyrirheitum ótrúverðugra manna um leiðréttingar á svikræði við almenningsheill.

Vaxtabæturnar, sem fyrri stjórnvöld veittu fólki sem leiðréttingu á misferli gagnvart almannahagsmunum, hefur silfurskeiðungastjórnin þurrkað út á tveimur árum og höfðu þær hjálpað mörgum í glímunni við afleiðingar hrunsins. Nú taka silfurskeiðungar allan þann viðurgjörning af fólki, sennilega vegna „skuldaleiðréttingarinnar miklu !" Þannig eru vinnubrögðin.

Enginn Allrason yrkir í því sambandi:

Stjórnin svört um sálarrætur

sýnir stefnu paura tveggja.

Viðurkenndar vaxtabætur

var hún fljót að eyðileggja !

Og Enginn bætir við og hnykkir á með þessari vísu:

Svikull stjórnar andinn er,

allur þannig gerður.

„Leiðréttingin" lýsir sér,

lítil er og verður !

Og það mun sannast að svik verða í tafli, enda aldrei lagt upp með annað í veganesti. Enginn Allrason hefur ort um þetta efni fleiri vísur:

Stjórnvöld svikul þjarma að þjóð,

þjá og velferð granda.

Sjúga úr æðum saklaust blóð,

sýna rotinn anda !

Og Enginn segir að lengi megi yrkja um siðleysu silfurskeiðunganna:

Fyrst þeir hrunið framkölluðu,

fráleitt mun því hægt að neita.

Svo í runu samkölluðu

svikaspuna skítlegheita !

En mergurinn málsins er, að fólkið í landinu getur ekki á nokkurn hátt treyst því að Simmi silfurskeið og Bjarni Ben II séu trúverðugir valdsmenn gagnvart almannahagsmunum. Ferill þeirra sýnir allt aðra mynd. Þeir eru sem fyrr segir fæddir inn í það hlutverk að vernda sérhagsmuni og hafa ekkert lært af hruninu. Enginn Allrason orðar stöðu mála hreint út þannig:

Þeir eru að hirða af fólki fé,

flá í dýpstu rætur.

Svo það láti sjálft í té

sínar réttarbætur !

„Allt verður Íslands óhamingju að vopni" meðan við búum við stjórn sem ekki er af fólkinu komin, byggist ekki á hagsmunum fólksins og starfar ekki í anda velferðar fólksins.  - Silfurskeiðungastjórnin er stjórn ofurvelferðar fárra útvaldra á kostnað hinna mörgu - almennings þessa lands !

 

 

 

 


Forðumst gömul feigðarspor !

Ég hef nokkuð mikið hugleitt stöðu okkar Íslendinga gagnvart þeirri hættu að ánetjast á ný erlendu valdi.  Margir eru sýnilega mjög sofandi í þeim málum og sumir virðast velta því helst fyrir sér hvað sé hægt að fá fyrir sjálfstæðið !

Áar okkar flúðu konungsvald og yfirdrottnun og sóttu hingað til Íslands til fyrirheita frelsis, til þeirrar fósturjarðar sem er „álfu vorrar yngsta land" eins og segir í kunnu kvæði. Þeir vildu fá að vera í friði fyrir ágangi þess yfirvalds sem alltaf vill vera að ráðskast með annarra líf og frelsi !

Og hér var stofnað þjóðveldi sem stóð til 1262. Framan af stóðu menn fastan vörð um sjálfstæði lands og þjóðar, en upphafleg, fastmótuð dreifing valdsins var um 1200 orðin svipur hjá sjón. Öll goðorð voru svo að segja komin í hendur fimm höfðingjaætta sem allar vildu meira. Þá styttist líka í að ásælni hins norska konungsvalds  næði þeim tökum hér innanlands og fengi þann svikastuðning meðal höfðingja landsins sem dugði til að koma þjóðveldinu fyrir kattarnef og landi og þjóð undir Noregskonung. Það var vægast sagt illur og glæpsamlegur gjörningur og skapaði örlagaríkar forsendur fyrir margra alda kúgun og arðrán.

Aldrei verður með nokkru móti hægt að mæla alla þá ógæfu sem hlaust af óþjóðlegri valdabaráttu höfðingja Sturlungaaldarinnar ? Hvað voru þessir menn eiginlega að hugsa, gat ekkert haft áhrif á þá nema áfergjan í auð og völd ? Var það hömlulaus græðgin sem fór með þá eins og suma aðra ?

Það er nefnilega auðvelt að sjá hverjir standa og hafa staðið helst í sporum þessara þjóðvillinga á okkar dögum og ekki hafa þeir batnað frá fyrri tíð ?

Margir græðgis grislingar

grandvarleika sneyddir,

kjósa að verða kvislingar,

í konungshallir leiddir !

 

Helst mun slíkra hugarfar

heildar valda tjóni.

Andi gamla Gissurar

greinist enn á Fróni !

                        (RK)

Það er nú svo með okkar sögu eins og sögu annarra þjóða, að hún segir okkur glöggt, að það hefur aldrei vantað menn hérlendis sem hafa verið tilbúnir að þjóna undir erlent vald og verða hirðmenn í hásölum ytra. Það er undarleg innrétting í þeim mönnum sem virðast sjá slíkt helst sem eftirsóknarvert hlutskipti !

En það virðast því miður alltaf vera einhverjir til staðar, tilbúnir í kommissara-hlutverkin og viðskiptahagsmunir og vegtyllur leiða menn iðulega frá heilbrigðum, þjóðlegum markmiðum á allt aðrar götur. En það vantar sjaldnast að menn sem eru að selja þjóð sína í gin úlfsins, telji sig um leið vera að vinna henni gagn og gæði. Þeir telja sig vera föðurlandsvini öllum öðrum fremur. Þannig taka ranghugmyndirnar yfirráðin og með þeim hætti er samviskan svæfð !

Vidkun Quisling taldi sig hreint ekki þjóðsvikara, jafnvel ekki á síðustu stundum lífs síns. Hann var þvert á móti, að eigin skilningi, mesti ættjarðarvinurinn, hann var sá sem stóð á réttum grundvelli og sagði af mestri einlægni „ Alt for Norge "! Það var hans inngróna sannfæring. Og síðustu orð hans voru: „ Ég er saklaus"! 

Quisling var tekinn af lífi fyrir landráð og nafn hans er nú samheiti um veröld alla fyrir þjóðsvikara. Þeir heita ekki Mosleyar, Lavalar, Henleinar, Antonescar eða Tisóar, þeir heita ekki eftir nafni einhvers annars leiðtoga annarra þjóðsvikara, þeir eru nefndir eftir Quisling ! Og af hverju skyldi það vera ?

Það ber líklega margt til þess. Eitt er að Quisling var talsvert kunnur fyrir stríð og  hafði verið starfsmaður Fridtjov Nansens í flóttamannahjálpinni fyrir Alþjóða Rauða krossinn, meðal annars starfað við hjálparstarf gegn hungri í Sovétríkjunum upp úr 1920. Þar hafði hann að margra mati staðið sig vel. Hann var ráðherra í ríkisstjórn Noregs um 1930 og var það sem kallaðist málsmetandi maður, áhrifamaður í norskum stjórnmálum á þeim tíma.

En einhver brestur hlýtur að hafa verið í eðlisgerð hans og fest í honum þær ranghugmyndir sem urðu honum að lokum að falli og þjóð hans til mikillar ógæfu. Sumum þótti undarlegt að maður af hans tagi skyldi ganga nazistum á hönd, en kannski var hann bara aldrei sá maður sem þeir hinir sömu héldu hann vera. Maður sem styður það sem nazistar stóðu fyrir og standa, getur ekki talist heilbrigður til anda og sálar !

Vidkun Quisling - Víðkunnur Kvislingur, já, svo sannarlega var höfuðsvikari Noregs víðkunnur kvislingur og kvislingar munu þeir hvarvetna verða kallaðir sem kjósa að feta í hans spor, hvort sem slíkt er gert hérlendis eða erlendis !

Að gera slíkt ætti engum að þykja eftirsóknarvert hlutskipti !

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 25
  • Sl. sólarhring: 125
  • Sl. viku: 1055
  • Frá upphafi: 309947

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 928
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband