Leita í fréttum mbl.is

Brot úr Íslandssögu !

 

Því miður virðist svo komið að hroki sé orðinn að meiriháttar dyggð í hugarheimi býsna margra Íslendinga. Það er nú ekki ýkja langt síðan hér á landi var sultur og seyra og allsleysi víða í ranni. Þá varð lunginn af landsfólkinu að berjast við fátæktina hörðum höndum allar stundir og þó dugði sú barátta ekki til að tryggja afar nægjusömu fólki nauðþurftir !

 

Í Reykjavík var eymdin slík, á þeim stað sem nú er höfuðvígi hrokagikkja landsins, að það þurfti að safna fé um allt land veturinn 1876-1877 handa íbúum þar og öðrum innnesjabúum við Faxaflóa. Það var nú ekki burðugra upplitið á almennum lífskjörum í höfuðstaðnum þá. Menn voru nánast að deyja þar úr hungri !

 

Frá þeim tíma er líklega hin öfugsnúna kenning um að landsbyggðin lifi á höfuðborginni !

 

Skömmu áður hafði 1000 ára afmæli Íslands byggðar verið haldið hátíðlegt og töluverðum fjármunum verið varið til hégómans, enda var þar fyrst og fremst um að ræða hátíð broddborgaranna og danadindlanna. Þeir vildu fá sitt úr landssjóði. Og þetta var náttúrulega löngu áður en arðránið í landinu fór að hygla höfuðstaðnum í öllu á kostnað landsbyggðarinnar !

 

Árið 1890 bjuggu 88,9% landsmanna í sveitum en aðeins 11,1% í kaupstöðum og verslunarstöðum. Árið 1901 eru sambærilegar tölur 80,2% á móti 19,8% og 1910 eru þær 67,8% og 32,2%. Miklar breytingar voru að verða við myndun þéttbýlisstaða, en samt var fátæktin á þeim stöðum voðaleg framan af og allsleysið ólýsanlegt !

 

Fólkið flýði úr yfirfullum sveitunum út að sjónum. Þar var hægt að lifa ef einhver bátskel fékkst. Þá var veiðin öllum frjáls en það er löngu liðin tíð. Kvótakerfið hefur séð til þess að sérhagsmunirnir drottna þar að mestu eins og víðar !

 

Sveitarhöfðingjarnir sem voru að missa fólkið burt sáu fram á að arðráns-möguleikar þeirra fóru hraðminnkandi. Heiðakotin voru ekki lengur setin. Þeir og fylgifiskar þeirra töluðu um iðjuleysi og ómennsku fólksins sem legði grunninn að ævilangri vesalmennsku þess, og slík orð og önnur ámóta áttu greiða leið í þingskjöl á þessum árum og vitna um beiskju gömlu kúgaranna. En gróðapungar vaxandi borgarastéttar sáu stöðuna hinsvegar þveröfuga og hlökkuðu eins og hrafnar yfir sínum arðránsmöguleikum sem margfölduðust á sama tíma !

 

Og nýir kúgarar tóku vissulega við. Saga hins viðtakandi arðráns er víða til og það í fjölbreyttum myndum og hver sem er getur kynnt sér hana. Réttarstaða alþýðunnar var lítil sem engin því engin yfirvöld voru í raun að hugsa um almannahag. Séra Jónarnir og aðrir af því tagi gengu alls staðar fyrir. Það er hægri hefðin !

 

Fardagaárið 1901-1902 leituðu 7,8% landsmanna til sveitarinnar vegna fátæktar og þá voru landsmenn 78.470 svo að sveitarlimirnir voru á sjöunda þúsund talsins.

Þeir voru yfirleitt boðnir upp og sá sem bauð lægst hreppti sinn þræl á kostakjörum. Þar var líka aðbúðin oftast verst og sumir dóu af afleiðingum þess hvernig níðst var á þeim. Það vantaði ekki þrælahaldara á Íslandi þá frekar en endranær. Manni verður óglatt að hugsa til þess hvernig farið var með fólk hér áður fyrr !

 

En svo hófst verkalýðsbaráttan og smátt og smátt tókst að kenna verkafólki að ganga upprétt. En það tók langan tíma og kostaði miklar fórnir. Það var samt margsinnis reynt að kúga fólk aftur ofan í sama gamla eymdarfarið og ekki síst í kreppunni eftir 1930. En þá var fólk búið að læra það að standa saman um rétt sinn og gaf sig ekki, en þeim lærdómi hafa flestir glatað nú til dags. Nú hafa nefnilega svo til allir áhyggjur af eignum sínum því flestir eiga eitthvað í dag og hugsa bara um sitt, en þegar fólk átti ekki neitt stóð það saman !

 

Sérhagsmunaveiran getur sýkt ótrúlegasta fólk og gert það sálarlega andstyggilegt !

 

Við Íslendingar höfum lengstum verið merktir því óláni að hafa aldrei haft sómasamleg stjórnvöld. Fjármálastjórn í landinu hefur til dæmis aldrei verið til með þjóðlegum og ábyrgum hætti. Það sem ég vil kalla sérhagsmunasvínarí hefur þar alla tíð setið í fyrirrúmi og ekkert er þar á betri vegi nú nema síður sé !

 

Og nú er verið að halda upp á 100 ára fullveldi þjóðarinnar sem hefur þó eiginlega aldrei verið til í raun. Hátíðauppákomur eru í gangi og verða víða á árinu sem munu líklega kosta meira í heild en launabætur lífsnauðsynlegra ljósmæðra landsins !

 

Við þurfum svo sem ekki að halda upp á mikið, við höfum allan þennan fullveldistíma verið lítið annað en fylgirakkar erlendra ríkja, fyrst Danmerkur, svo Bretlands og síðast Bandaríkjanna. Og í gegnum það höfum við auðvitað tilheyrt Nató - hinu háheilaga varnarbandalagi vestrænna ríkja. Fyrir það vildu og vilja margir öllum þjóðréttindum fórna, landhelginni sem öðru. Sérhvert ríkisstjórnarhöfuð beygir þar kné sín og auðsýnir þar dýpstu lotningu sína, sem sýnd er þá í hvívetna. Sú tilbeiðsla hefur sannast fram á þennan dag !

 

Mikið vildi ég að fullveldið hefði verið ekta og að við Íslendingar hefðum haft þann manndóm í okkur að halda okkur utan við allar þjóðadeilur og stórveldapólitík eins og yfirlýst hlutleysi í upphafi átti að tryggja. En þeirri stefnu var fljótlega spillt og enn sem fyrr virðast fornu handritin fyrst og fremst vera okkur til gildis sem þjóð, – þó þau séu enn að hálfu leyti eða meira í eigu og höndum dana !

 

En þrátt fyrir þá aumu stöðu og annað sem áfátt er, berjum við okkur á brjóst alla daga og belgjum okkur út, þykjumst nánast vera nafli allrar tilveru, eins og þegar við ætluðum hérna um árið að taka yfir fjármál heimsins. En ósköp kollótt verður nú birtingarmyndin, þegar mikilmennskubrjálæðið breiðir sig yfir minnimáttarkenndina, sem náttúrulega er fyrst og fremst ráðandi í þjóðarsálinni þegar allt kemur til alls !

 

,,Miklir menn erum við, Hrólfur minn !”

 

 

 


Um óvissa framtíð, eitraða nútíð og umbreytta fortíð !

 

Það hefur alltaf verið svo í þessum auma heimi að ýmsu vægast sagt misjöfnu hefur verið lyft á stall þegar líða fer frá ódáðum og raddir allra fórnarlamba hafa þagnað !

Nú er sá tími líklega kominn að farið verði að ausa ótæpilega yfir almenning allra landa þýskum sjónarmiðum varðandi seinni heimsstyrjöldina. Sýna hvað Þjóðverjar þurftu að þola í stríðinu mikla, – stríðinu sem þeir hófu !

 

Samfara því verður svo eflaust farið að rækta upp alls konar endurskoðunar-sjónarmið sögulegrar túlkunar og nýja sýn á þann veruleika sem Stór-Þýskaland undir forustu nazista bjó yfir. Allt verður smám saman fegrað og fóðrað nýjum búningi.

 

Sektarkenndin eftir öll hin frömdu glæpaverk virðist nefnilega vera farin að fyrnast allmikið og senn geta menn jafnvel farið að sjá það í glansmyndum sem var ekkert nema botnlaus hryllingur. Aldrei virðist mannskepnan læra neitt sem hefur gildi til lengdar. Ef hún tekur skref áfram í einhverju, stígur hún líklegast á næsta stigi tvö skref aftur á bak eða fer í hringi !

 

Hættur mannlífsins eru margar. Einstaklingar gera margvísleg mistök og taka gjöld fyrir, en þegar stjórnvöld gera mistök er það fólkið í heild sem geldur fyrir slíkt og oft illilega. Það er löngu ljóst að ábyrgð er þá hvergi til, jafnvel ekki hjá mönnum sem hafa verið í háum stöðum á ofurlaunum til lengri tíma - að sögn - vegna niðurslítandi ábyrgðar ! Þekkjum við ekki dæmin um slíkt frá því fyrir hrun og enn í dag !

 

Heiðarleiki virðist því miður allt of fáum mönnum í blóð borinn nú til dags og þegar óheiðarleiki situr við völd er samfélagsleg ógæfa til staðar. Það er undarlegt að á svokölluðum upplýsingartíma skuli óvenju margir blanda óheiðarleika saman við sjálfsbjargarviðleitni og telja sjálfsagt að stela frá öðrum ef þeir hafa færi til þess.

Þar virðist engu skipta hvert menntunarstig manna er !

 

Menntun er hinsvegar alltaf góð og gild til þess að styrkja heilbrigða innviði, en hún skilar sér ekki vel þegar innviðir einstaklingsins eru óheilbrigðir og rotnir. Þá verður menntunin bara eins og lakkáferð á ónýtt undirlag. Yfirborðið verður kannski áferðarfallegt fyrst í stað en býr yfir litlu raungildi. Undirfúinn mun ekki leyna sér til lengdar. Þjóðfélagsmeiður sem hlynnir stöðugt að fúagreinum verður smám saman rotinn til róta. Það hefur víða sannast !

 

Endurskoðunarsagnfræði er ekki endilega eitthvað sem leiðréttir misfellur og færir hluti til sannari vegar. Endurskoðun sögulegrar framvindu er oftast gerð vegna þess að annar tími og önnur sjónarmið hafa tekið völdin. Það sem áður gilti þjónar ekki lengur ráðandi viðhorfum !

 

Slík breyting þarf ekki að hafa neitt með rétt eða rangt að gera. Það er ekkert víst að ný og endurskoðuð útgáfa sögulegrar atburðarásar verði nær sannleikanum en sú sem áður var látin gilda - nema síður sé. Það eina sem er víst er að breytt sjónarmið á líðandi stund hafa bara kallað á aðra sýn á það sem liðið er, eitthvað sem þykir hagstæðara í núinu !

 

Fölsun staðreynda er býsna stór þáttur í valdaspili nútímans. Tölvutæknin gerir mönnum kleyft að umsnúa flestum hlutum og það er miskunnarlaust gert þar sem þörfin krefur að mati ráðandi afla. Í skollaleik tæknibragðanna er hvorki til staðar sannleikur eða siðferði. Þar eru engar reglur virtar og ekið utan vega í öllu til tjóns og bölvunar fyrir allt sem heitir siðlæg mennska !

 

Lygar gærdagsins eru hylltar sem sannleikur líðandi stundar og stóri sannleikur morgundagsins. Allt sem haft hefur dómgreindarlegt raungildi er hamrað út í þynnra og þynnra og hvarvetna farið yfir ystu mörk. Útgerð mannkynsins virðist ætla að sigla áfram á fullri ferð í hringiðu heimskunnar uns botni er náð !

 

Andavaldið í glötunarferli nútímans er slíkt að öllu virðist hagrætt til þess að svo geti orðið !

 

 

 

 

 

 


Þegar gildin glatast !

 

Á tuttugustu öldinni sannaðist allt sem William Booth leiðtogi Hjálpræðishersins hafði spáð fyrir um það tímaskeið. Við fengum að reyna trú án Heilags Anda, kristindóm án Krists, fyrirgefningu án iðrunar, hjálpræði án endurfæðingar, stjórnmál án Guðs og himin án helvítis !

 

Hvað þýðir það ? Það þýðir glötun leiðandi gilda. Trú án Heilags Anda er ekki neitt, kristindómur án Krists er ekkert, fyrirgefning án iðrunar er einskis virði, hjálpræði án endurfæðingar er marklaust, stjórnmál án Guðs eru siðlaus og himinn án helvítis er óraunhæft viðmið sem blindar menn fyrir ógn hins illa !

 

Allt þetta sýndi sig í margfaldaðri mynd á tuttugustu öldinni. Siðferðileg gildi voru markvisst dregin niður í nafni frjálsræðis og öfugrar upplýsingar og maðurinn hrokaði sig upp í virðingarleysinu gagnvart Almættinu. Afleiðingarnar létu ekki á sér standa !

 

Tvær heimsstyrjaldir eyðilögðu meiri mannauð en nokkurntíma verður hægt að greina að gildi og hefðu átt að sýna öllu mannkyni að til væri helvíti. Fjölmargir leiðtogar komu fram sem voru sannkallaðir djöflar í mannsmynd, siðlausir með öllu. Viðbjóðslegir verknaðir áttu sér stað um heim allan út öldina og hræðilegustu níðingsverkin voru að kasta kjarnorkusprengjum á borgir, fullar af lifandi fólki !

 

Hver sem ver slík hermdarverk bægir mennskunni úr eigin brjósti. Tuttugasta öldin er svartur tími í sögu mannkynsins, einkum vegna þess sem William Booth sagði fyrir um að verða mundi. Allir hugsanlegir glæpir geta átt sér stað þegar allar vörður hafa verið fjarlægðar af lífsveginum. Þá dansa allir djöflar í Vítiskæti sinni og það sem aldrei fyrr !

 

Það eru til góðir staðir og það eru til vondir staðir. Höfuðsetur hins góða hefur verið skilgreint sem himnaríki og höfuðsetur hins vonda sem helvíti. Hvað er að þeirri skilgreiningu ? Illir menn hafa skapað öðrum helvíti á jörðu, hvaðan hefur sú illska komið sem falist hefur þar að baki ? Er hún ekki andlega talað leidd á legg frá því helvíti sem er í raun andstæða alls sem á himneskan þráð í lífsrót sinni ?

 

21. öldin er skilgetið afkvæmi 20. aldarinnar. Hún er ekkert nýtt upphaf. Hún hefur fengið í veganesti frá fyrri öld yfirgengilega stóran skammt af viðbjóði. Fólk fagnaði um allan heim við aldamótin því sem það hélt vera einhver kaflaskil til betra lífs, en það voru engin kaflaskil – aðeins áframhaldandi viðbjóður !

 

Áður en fyrsta ár hinnar nýju aldar var liðið hafði meiriháttar hermdarverk verið framið þar sem þúsundir létu lífið. Venjulegt fólk í sinni daglegu önn. Og enn er myrt og eyðilagt sem fyrr í anda tuttugustu aldarinnar. Arfleifðin þaðan er ill og iðrunarlaus !

 

Við höfum tapað mörgu af því á tiltölulega skömmum tíma sem varðveitti í okkur mennskuna, margar athafnir okkar í dag eru orðnar dýrslegar og samt segir enginn neitt. Siðferðilegar samfélagsstoðir hafa fallið og það er talið – jafnvel í opinberri umræðu – ávinningur fyrir frelsið. Slík er afvegaleiðslan í upplýsingu nútímans !

 

Gildin glatast, samfélagsbyggingarnar hrynja, græðgi einstaklingsins veður yfir félagshyggju og samhjálp. Peningaguðinn glottir kalt úr hásæti því sem auðvald eigingirninnar hefur búið honum – á heimsvísu. Þeir sem fullyrða að ekki sé til neitt helvíti eru í óhaminni græðgi sinni dags daglega að vinna að því að komandi tímar verði að helvíti fyrir þá sem á eftir koma, því siðvillt nútíð er ófær um að byggja undir bjarta framtíð !

 

William Booth bar sannleikanum vitni í spá sinni fyrir 20. öldinni ! Það hefur allt komið fram og sannast sem hann sagði þar. En áfram eru samt hin gömlu og góðu gildi brotin niður. Ábyrgðarleysi æðstu valdamanna eykst jafnt og þétt. Þeir virðast flestir komnir í tilvistarlausan tölvuleik með fjöregg mannkynsins. Áfram er stöðugt stefnt niður á við - í siðlausum gír !

 

Er eitthvað sem bendir til að átt geti sér stað afturhvarf til bættari heims og betri siða ? Ekki fæ ég séð það. Hættur þær sem ógna mannkyninu í dag hafa aukist mikið á síðustu árum og eldsmaturinn í málum er orðinn slíkur að heimur í báli getur þessvegna orðið eina uppskera morgundagsins !

 

Er það gildisleysi gjöreyðingarinnar sem á að bíða okkar allra – innan skamms ?

 

 

 


Inngrónar arabasleikjur !

 

Bretar hafa sýnilega allt frá dögum Arabíu Lawrence, og þó sennilega lengur, verið hinar mestu arabasleikjur. Bresk stjórnvöld viðruðu sig snemma upp við allskonar valdamenn í arabaheiminum og virtist þá litlu skipta hver fortíð þeirra var og hvaða glæpi þeir höfðu drýgt !

 

Olíuhagsmunir breska auðvaldsins réðu ferðinni og allskyns viðbjóður flaut þar löngum með. Enginn sagnfræðingur hefur þó séð ástæðu til að fara vel ofan í þá hluti, enda er það allt annað mál en að grafast fyrir um vammir og skammir Rússa fyrr og síðar. Í þeim tilfellum hefur löngum verið auðvelt að fá vel borgað fyrir skrifin. Það er ekki sama hver hýddur er !

 

Bretar skipulögðu öll ríkismál á Arabíuskaganum á sínum veldisárum þar út frá sínum nýlenduforskriftum og auðvaldshagsmunum. Þeir bjuggu til sérhannaðar gróðaholur eins og Kuwait fyrir sig og tóku þann skika út úr Írak vegna hins gífurlega olíumagns sem þar var. Þeir sköpuðu sér þar smáríki sem laut í öllu boðum þeirra og bönnum. Þeir mokuðu peningum í ótalda sjeika til að hafa þá góða og svo flæddi olían í þeirra þágu allan ársins hring með margföldum gróða. Bretar hafa lengi verið sérfræðingar í arðráni og verið þar miklir lærimeistarar annarra !

 

Margir heimsvaldasinnaðir oflátungar frá Bretlandi, sem flæktust um lönd araba á fyrstu tuttugu árum 20. aldarinnar eða þar um bil, virðast hafa verið haldnir af nánast sjúklegri hrifningu á þeim lifnaðarháttum sem þar tíðkuðust.

 

Arabíu-Lawrence er gott dæmi um slíkan mann. Hann taldi sig þurfa að vera arabískari en nokkur arabi var. Enginn botnaði neitt í manninum og margt bendir reyndar til að hann hafi ekki verið alveg heill á geðsmunum. En hann féll inn í aðstæður í fyrri heimsstyrjöldinni og reyndist bretum mjög þarfur liðsmaður og þá skipti annað ekki máli. Tilgangurinn helgar meðalið eins og oft er sagt og bæði rómverjar og bretar hafa líklega þekkt allar útfærslur mála í þeim efnum !

 

Lawrence tókst að sameina nokkra arabíska ættflokka í stríðsaðgerðum gegn tyrkjum, sem voru að vísu trúbræður araba, en höfðu verið hrokafullir og slæmir yfirdrottnarar. Lagði hann þannig nokkuð þungt lóð á vogarskálarnar fyrir stríðsrekstur breta á þessum slóðum. Afleiðingin varð sú að hann varð fljótlega goðsögn, og eins og vitað er, halda goðsagnir oftast velli hvað sem líður sannleikanum varðandi þær !

 

Önnur dæmi um innlifaða arabíska breta um þetta leyti og eftir það eru Peake pasha og Glubb pasha, sem voru hernaðarlegir ráðunautar jórdanskra stjórnvalda lengi vel og sömdu sig eins og Lawrence mjög að arabískum siðum. Þessir menn voru heiðraðir í bak og fyrir af breskum stjórnvöldum og áreiðanlega voru þeir um tíma taldir mikils virði fyrir breska auðvalds-hagsmuni. Að hve miklu leyti þeir voru hinsvegar almennum arabískum hagsmunum til gagns er líklega meira álitamál !

 

Harry St. John Philby má svo nefna til viðbótar. Hann var arabasleikja út í gegn og gekk í þjónustu Ibn Saud og dvaldi með honum til æviloka. Hann skrifaði margar bækur um Arabíu enda að ýmsu leyti gagnfróður um málefni þar, en sumir telja að bækur hans lýsi honum sjálfum ekki síður því maðurinn var mjög sér á parti eins og flestir þessir arabísku bretar voru.

 

Olíuhagsmunir breta í þessum löndum margfölduðust þegar á leið og skipti breskra stjórnvalda við valdamenn þar urðu æ flóknari og ljósfælnari, enda margs krafist sem ekki hentaði að hafa í hámæli. Bretar voru meira og minna á tánum gagnvart vaxandi arabísku valdi og fundu jafnframt að þeirra fyrra áhrifavald fór jafnt og þétt dvínandi.

 

Þegar þeir tóku svo að sér umboðsstjórn yfir Palestínu eftir fyrra stríð lentu þeir í klemmu á milli araba og gyðinga og kunnu enganveginn að hegða sér í þeirri stöðu. Alltaf voru þeir sem fyrr að reyna að gera aröbum til geðs en sumir bretar höfðu þó samúð með gyðingum, einkum eftir að upplýsingar um helförina lágu fyrir.

 

Að lokum hrökkluðust þeir frá Palestínu við lítinn orðstír og höfðu að mestu glatað áhrifum þeim sem þeir höfðu þó haft þar í byrjun. Þeir reyndu þó með ýmsum hætti að vingast við araba áfram en oftast varð það á kostnað eigin virðingar !

 

En olíuþörfin knúði þá áfram svo þeir lögðust lægra og lægra í skiptum við Arabaheiminn, sem þeir höfðu á árum áður nánast ráðið yfir. Ekki dugði lengur að múta sjeikunum með smápeningum, þeir voru farnir að vita að þeir sátu á sístreymandi gullnámu og gerðu æ meiri kröfur. Breska auðvaldið var farið að engjast í höndum þeirra svo hlutverkum hafði sannarlega verið snúið við !

 

Og nú er að margra mati svo komið, að breskt efnahagslíf gengur að miklu leyti fyrir arabísku gulli eins og reyndar margt víðar í Evrópu. Arabar hafa keypt upp margt í Bretlandi frá því um 1970, banka og fjármálafyrirtæki, verslanir og framleiðslu-fyrirtæki, dagblöð og fjölmiðla og þar við bætist að fjöldi múslima í Bretlandi er orðinn það mikill að undirlægjuháttur stjórnvalda gagnvart þeim er nánast áþreifanlegur í dag.

 

Eftir því sem arabískt peningaflæði eykst og múslimum fjölgar í Bretlandi má ætla að hefðbundin bresk gildi verði ekki til staðar sem fyrr. Napóleon náði aldrei að gera innrás í Bretland, Hitler ekki heldur, en innrás múslima hefur heppnast svo vel að breska þjóðin er orðin allt annað fyrirbæri en hún var og stendur fyrir margt annað í dag en hún hefði fengist til að standa fyrir um miðja síðustu öld.

 

Það er því engin furða þó bresk yfirvöld séu á margan hátt fjandsamleg í garð Ísraels og höll undir araba og múslima. Langtíma sleikjuháttur hefur haft þar sitt að segja ásamt auknu ófrelsi með eigin skoðanir og sjálfstæði í seinni tíð. Sumir geta sýnilega lent í gíslingu án þess að vita það sjálfir !

 

Það hefur allt sínar skýringar þegar að er gáð !

 


,,Oh, how wonderful meeting !”

 

Á Natófundi naut hún sín,

nærðist þar á prumpi.

Sjálfumglöð og sæt og fín

sat hjá Æðstastrumpi !

 

Glæðast fann hún gildi sitt,

gleði sálar nóga.

Þóttist stór að hafa hitt

heimsins mestu bóga !

 

Ekki var á yndi hlé

innan um höfðingjana.

Gegnum öll hin glæstu vé

Gulli leiddi hana !

 

Ósköp varð hún mjúk og meyr,

margt þar fór að dreyma.

Brostu í kampinn báðir tveir

Bjarni og Siggi heima !

 

Vel þeir þóttust vita að það

veitti skilin ríku,

að senda hana á helgistað

hægrimannaklíku !

 

Fann hún seidd frá toppi að tá

tign í ræðu hverri.

Svo nú er skrítið upplit á

Ármanni og Sverri !

 

Snúast tálsins tannhjól greitt,

telst þar andinn skæður.

Sést nú staðan býsna breytt,

bláa höndin ræður !

 

Ráfar dama vega villt,

værðar haldin blundi,

áróðurs af efni fyllt

út af Natófundi !

 

 


Um Gísla á Uppsölum og hjábörn mannlífsins !

I.

 

Við vitum svo fátt um ferli það,

og fjölmargt án tafar rengjum,

sem hrærist mönnum í hjartastað

og hreyfir við sálarstrengjum.

Það gerist svo margt í heimi hér

í hugsunar innstu málum,

sem hjartað úr mörgum manni sker

og misþyrmir ótal sálum.

 

Til bjargráða oft er ærið fátt

á áranna þrautagöngu.

Og því hafa allt of margir mátt

mæðast í fári ströngu.

Það reynist oft lífsins lægsta stig,

sem lamar með öfugstreymi,

að hverfa þar inn í sjálfan sig

og svelta í luktum heimi.

 

Margur sem þannig alveg einn,

í alveldi gæfuslita,

finnur í öllu að ekki neinn

vill af honum nokkuð vita,

- gleymist þannig sem agnar ögn,

umhyggju hverri rúinn,

þekkir ei neina sólar sögn,

á sál og líkama búinn.

 

Við vitum af einum sem bjó við böl

en bar það af þolinmæði,

þó oft hafi þjáð hann innri kvöl

með öðru en lítilræði.

Þeim aðstæðum sem þar allri von

eyddu á vegferðinni,

kynntist hann Gísli Gíslason

gjörla á ævi sinni.

 

II.

 

Við þekkjum hann Gísla á þjóðlegan máta

sem þraukaði á lægstu skör.

Og virtist í öllu líf sitt láta

líða við engin kjör.

En sálarlíf hans er heimspekigáta

sem hlýtur að kalla á svör.

 

Að lifa og vita af veröldinni

er víðasthvar fólki tamt.

Hjá mönnum sem hafa ekki af mörgu kynni

er mótlætis bragðið rammt.

Þeir eyða því löngum ævi sinni

við afspyrnu nauman skammt.

 

Og Gísli karlinn í koti sínu

var klárlega einn af þeim.

Hann stritaði við það starfs í brýnu

að standa á fótum tveim.

Og bjó við þá einu leiðarlínu

- að lifa við þröngan heim !

 

En svo varð hann allt í einu frægur

við umfjöllun fréttamanns.

Og heim að Uppsölum sótti sægur

er sjá vildi veröld hans,

og líta, – sá áhugi er eðlislægur,

einhvern með þyrnikrans !

 

Við finnum þar eitthvað í fari hins eina

sem fer ekki almannaslóð,

og virðist ei hafa hugsun neina

við heimslegan efnasjóð.

Og kannski er þar sagan hjartahreina

sem hreyfir við okkar þjóð ?

 

Margur sitthvað í máli hvíslar

um mannlífsins rofabörð.

Það finna ýmsir til fárs og píslar

og fjötrast við kjörin hörð,

svo það verða eflaust alltaf Gíslar

á Uppsölum til á jörð !

 

 


Vísur um telpu sem týndi sér í valdadraumum !

 

Kyndug ertu Kata litla,

komin út í skrítin mál ?

Ertu að hugsa um hærri titla,

heillar framinn þína sál ?

 

Sérðu stærri sóknarfæri,

sýnist þér ei neitt um megn ?

Er nú hugans viðurværi

valdalöngun út í gegn !

 

Kata litla, Kata litla,

kostaleysi er staða ill.

Ljóst að draumar létt þig kitla,

lengra kemstu – ef til vill !

 

Forðast viltu fyrri siði,

finnur nýjar leiðir kæn.

Sést þar núna öll á iði,

ekki í neinu heimsk og græn !

 

Eykst þér síst af öllu mæða

yfir því að ná svo langt.

Uppi í veröld valdahæða

virðist þú ei sjá neitt rangt !

 

Kata litla, Kata litla,

kostaleysi er staða ill.

Ljóst að draumar létt þig kitla,

lengra kemstu - ef til vill !

 

Áfram mun þér ylja á vegi

eigin trúar framasól,

fyrst þú gast á græðgis degi,

gómað löngu þráðan stól !

 

En vegferðin oft víti skapar,

valdabrölt er ekkert grín.

Margir verða af því apar

- og ættu bara að skammast sín !

 

 

 

 

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Júlí 2018
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 42
  • Sl. sólarhring: 57
  • Sl. viku: 1072
  • Frá upphafi: 309964

Annað

  • Innlit í dag: 40
  • Innlit sl. viku: 943
  • Gestir í dag: 39
  • IP-tölur í dag: 39

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband