Leita í fréttum mbl.is

SÖGULEG UPPRIFJUN

Eins og flestir vita sem þekkja til mannkynssögunnar, var Vilhjálmur II. Þýskalandskeisari mjög ákafur hernaðarsinni. Hann stefndi að því lengi vel að breyta hlutföllum varðandi hernaðarjafnvægi í Evrópu, svo ný uppskipti fengust fram í nýlendumálum. Meðan Þjóðverjar höfðu verið að basla við að sameina sitt land úr allskonar smáríkjum, hirtu Bretar og Frakkar allar bestu nýlendurnar í Afríku og víðar og í kjölfar þeirra sigldu Hollendingar, Belgar og Portúgalir. Þegar Þjóðverjar mættu loks til leiks í arðráninu var ekkert eftir handa þeim nema eyðimerkur og ómerkilegir útnárar sem varla var hægt að arðræna vegna fátæktar þeirra sem þar bjuggu.

Þjóðverjar voru því hundóánægðir og keisarinn trúlega óánægðastur allra.

Þegar Þýskaland lét svo að lokum til skarar skríða með ófriðinn, var það sennilega allra hlutaðeigandi ríkja best undirbúið fyrir stríð, enda gekk Þjóðverjum mjög vel fyrsta ár stríðsins og allt fram á árið 1916. En þá tók við pattstaða á vesturvígstöðvunum og skotgrafahernaðurinn illræmdi byrjaði.

Hvorugur stríðsaðilinn gat unnið á hinum og frumkvæði Þjóðverja var fallið niður. Þegar svo Bandaríkin komu óþreytt inn í stríðið 1917 varð það Þýskalandi um megn. Það varð að játa sig sigrað, keisarinn varð að fara frá ásamt hernaðarklíku sinni, samsafni prússneskra junkara og stækra hægrimanna. Hann flýði land og settist að í Hollandi.

Það kom í hlut sósíaldemókrata að taka við stjórnartaumunum í hernaðarlega og efnahagslega rústuðu ríki. Þeir viku sér ekki undan þeirri ábyrgð og hófust einbeittir handa við að greiða úr málum og endurreisa land og þjóð.

Hægri mennirnir sem höfðu keyrt allt í þrot, biðu átekta eftir færi til að sölsa undir sig völdin að nýju. Undan þeirra rifjum rann áróðurinn fyrir því að þýski ríkisherinn hefði aldrei verið sigraður á vígstöðvunum, heldur hefðu áhrifaöfl gyðinga og sósíalista heima fyrir rekið rýting í bak stríðandi hers og þjóðar.

Áróðurinn fyrir  Rýtingsstungunni var gífurlegur og féll mörgum vel í eyra.

Vopnahlés-samningarnir voru sagðir svik við þýsku þjóðina og þeir menn sem undirrituðu samningana voru kallaðir landráðamenn. Þeir neyddust hinsvegar til að undirrita vegna þess að framferði keisarans og hægristjórnar hans hafði haft þær afleiðingar að Þýskaland var ofurliði borið sem fyrr segir og gat sér litla björg veitt. Þeir sem sköpuðu orsakirnar fyrir afleiðingarnar þóttust hinsvegar lausir allra mála og gagnrýndu óspart allt sem gert var.

Eins og menn ættu að vera farnir að þekkja, hegða gerendur mála, þeir sem sekir eru, sér oft eins og þeir séu saklausastir allra manna.

Hægrisinnaðar morðingjasveitir voru síðan gerðar út og háttsettir stjórnmálamenn á vinstri kantinum og í röðum uppbyggingarmanna voru skotmörkin. Þannig voru t.d. Matthias Erzberger fjármálaráðherra og Walter von Rathenau utanríkisráðherra myrtir, sem báðir voru mjög hæfir menn í störfum sínum fyrir Þýskaland.

Hægri menn gerðu þá að syndahöfrum vegna vopnahlés-samninganna og Rapallo-samingsins, þeir hinir sömu sem staðið höfðu að stríðinu og voru í raun ábyrgir fyrir hruni Þýskalands 1918. Þeir myrtu aðra í hefnd fyrir eigin gjörðir.

Hægri klíkurnar unnu sitt sóðastarf að tjaldabaki, reru undir ólgunni í þjóðfélaginu, spilltu fyrir uppbyggjandi framgangsmálum og töldu sig ekki bera nokkra ábyrgð á einu eða neinu. Þannig var það nú í þá tíð og upp úr meinlegu moldvörpustarfi þeirra komst skilgetið afkvæmi óhreinna vinnubragða þeirra til valda - Adolf Hitler !

Maður kemst eiginlega ekki hjá því að fara að rifja upp söguna með þessum hætti, eftir útrás og frjálshyggjustríð til að leggja undir sig nýlendur í fjármálaheiminum, eftir samningaferlið varðandi Icesave, sem hægrimenn, ábyrgðarmenn hrunsins, virðast líkja við íslenska Versalasamninga og segja alfarið á ábyrgð þeirra sem undirrita.............!

Mikið virðast nú sumir alltaf eiga auðvelt með það að vera ábyrgðarlausir og

" stikkfrí " hvernig svo sem forsaga málanna er " !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 365
  • Sl. sólarhring: 365
  • Sl. viku: 1461
  • Frá upphafi: 315366

Annað

  • Innlit í dag: 326
  • Innlit sl. viku: 1147
  • Gestir í dag: 312
  • IP-tölur í dag: 312

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband