Leita í fréttum mbl.is

Um siðfræði

Í dag er siðfræði víst bara skilgreind sem námsgrein í skóla. Það virðist ekki lengur vera litið svo á að siðferðisvitund sé manninum meðfædd heldur verði nú að kenna hana ! Og hvernig skyldu menn þá öðlast hæfni til að kenna siðfræði ?

Hvernig verður sú siðfræðiþekking til sem nú er verið að kenna í skólum ?

Hvað með réttlætiskenndina ? Á að fara að kenna hana í skólum ?

Hvað með sannleikann ? Þarf að fara að kenna í skólum út á hvað sannleikurinn gengur ? Verða hér í framtíðinni spígsporandi um menntastéttir landsins prófessorar í siðfræði, doktorar í réttlætiskennd og lektorar í andlygi ?

Á hvaða forheimskuleið erum við eiginlega ? Nú virðast vera að stökkva fram á sjónarsviðið allskonar mannvitsbrekkur úr æðri skólum sem vilja gera sér mat úr hruninu og leggja út af því fræðilega, vísindalega, samfélagslega og sennilega umfram allt - tekjulega !

Hvar var allt þetta sérfróða siðfræðilið þegar gráðugir hákarlar og spilltir pólitíkusar voru að keyra hér allt niður, þegar verið var að eyðileggja samfélagið, hrista það heilbrigða úr því og leggja allar siðfræðireglur sem fórnir á altari Mammons ?

Hvar kom þetta úrvalslið fram til að mótmæla og vara við, hvað gerði það til að bjarga þjóðarskútunni á þeim tíma ? Hvar var siðfræðiþekking þess þá ?

Ég treysti mér svo sem alveg til að svara því.

Þetta fólk var upptekið af því að reyna að mala gull eins og fleiri. Það hafði fallið í sömu gildrurnar og aðrir og reyndi í engu að tala um siðfræði - enda bauð siðfræðispjall þá ekki upp á neina sérstaka tekjumöguleika og reyndar síst af öllu !

Nú er hinsvegar lag, nú er uppi krafa um aukið siðferði og nú sér þetta fólk að það má " þéna á siðfræði " eins og málin standa. Það má skrifa um siðfræði, t.d. í rannsóknarskýrslum, fjalla um siðfræði í fyrirlestrum og á fundum og í skólum sem fyrr segir. Það má í stuttu máli sagt - gera út á siðfræði í dag !

Reyndar er það svo, að taka þyrfti allt skólakerfi landsins til athugunar, einkum hin svokölluðu æðri námsstig, og rannsaka hvernig á því stóð að öll siðfræði hvarf bókstaflega í því menntaumhverfi sem þar var skapað á gullkálfsárunum.

Rétt leiðsögn var hvorki fyrir hendi í stjórnkerfinu, bankakerfinu eða menntakerfinu - og almenningur er að súpa seyðið af þeirri reginvillu í dag.

Stjórnkerfið ber ekki ábyrgðina, bankakerfið ber ekki ábyrgðina, menntakerfið ber ekki ábyrgðina. Þeir sem lögðu línurnar kerfislega segja bara : " Ekki benda á mig ? "

Almenningur á víst einn að bera ábyrgðina og axla byrðar hrunsins !

Þeir sem nú vilja leiða aðra eftir siðfræðibrautum, voru óraveg frá allri siðfræði í hinum villta fyrirhrunstíma og tóku sínar prófgráður í mettuðu Mammons andrúmslofti sem bjó ekki yfir neinni siðfræði heldur aðeins ábyrgðarlausri og botnlausri frjálshyggju samfara siðlausri græðgi.

Ein fyrsta reglan í heilbrigðum siðfræði-lærdómi er krafa um skilning á því að þegar frjálshyggjan kemur inn fer siðfræðin út !

Það er alfarið mín skoðun að siðgæði, réttlætiskennd, sannleiksást og trúmennska við góð gildi séu ásköpuð manninum. Grunnurinn að þessu öllu er lagður við fæðingu hvers manns og þó jafnvel fyrr. Uppeldi sem byggt er á röngum forsendum, getur sveigt margan af réttri leið, en samt er þetta allt fyrir í manninum og þarf ekki að kenna það sérstaklega í skólum, svo einhverjir þar geti fitnað á því sem framfærslukosti.

Siðfræðilegt menntamannakjaftæði er því engin lausn á spillingarmálum samfélagsins. Það þarf til að koma samfélagsleg viðurkenning á því að maðurinn hafi réttar eigindir til að bera og svo þarf að hlynna að þeim á grundvelli þess skilnings.

Það þarf ekki einhverja langskólagengna " siðfræðinga " til að tala niður til annarra varðandi þau efni.

Minna má á að allir þeir sem hruninu ollu voru langskólagengnir menn og væntanlega útlærðir í skólakenndri siðfræði. Sú siðfræði mun hinsvegar ekki hafa verið byggð á uppeldislega heilbrigðum grunni eins og útkoman sýnir og sannar. Það tóku illar hneigðir yfir í sálum leiðandi manna, þrátt fyrir alla menntunina, enda er jafnan við slíku hætt þegar farið er út í það að tilbiðja Mammon án afláts. Og það var hömlulaust gert hér, jafnt af siðvilltum stjórnvöldum og vargakjöftum viðskiptalífsins á öllum Diabolusar-tímanum.

Þar sannaðist það sem Ritningin segir, að ágirndin er rót alls ills !

Háskólarnir sjálfir voru gróðrarstíur frjálshyggjunnar og þaðan breiddist ágirndarpestin út um þjóðlífið. Það munu fáir leggja trúnað á að sömu stofnanir prédiki nú siðfræði í einhverri alvöru. Til þess mun grunnur þeirra sjálfra of rotinn.

Raunveruleg siðfræði þarf auðvitað að koma til inn í samfélagið en hún þarf að fæðast fram í gegnum þjóðlega vakningu. Við þurfum ekki einhverja skólakennda siðfræði frá aðilum sem vita jafnvel upp á sig skömmina af því sem gerst hefur.

Við þurfum ekki siðfræði-kennslu frá einhverjum sem reyna að flýja ábyrgð með því að bjóða fölsk bjargráð, eftir að sjúklingurinn - sem er íslenska þjóðin - hefur verið negldur á skuldaklafa skítmennskunnar í þessu landi af stjórnkerfinu, bankakerfinu og menntakerfinu, hinum raunverulegu ábyrgðaraðilum hrunsins - gjörsamlega án nokkurrar aðkomu siðfræðinnar !

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 55
  • Sl. sólarhring: 216
  • Sl. viku: 1305
  • Frá upphafi: 316695

Annað

  • Innlit í dag: 47
  • Innlit sl. viku: 1026
  • Gestir í dag: 45
  • IP-tölur í dag: 45

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband