Leita í fréttum mbl.is

Um sjálfstæðismálapólitík - innan gæsalappa !

 

Það mun hafa verið meira en ömurlegt fyrir marga að upplifa það að Íhaldsflokkurinn, flokkur Jóns Þorlákssonar, skyldi á sínum tíma ræna nafni flokks Skúla Thoroddsen og félaga og kallast eftir það Sjálfstæðisflokkurinn.

Afturhaldið í landinu hafði á árum áður lagt Skúla í einelti og ofsótt hann miskunnarlaust, en stefna hans sigraði að lokum, sú sjálfstæðisstefna sem var sönn og í samræmi við anda þjóðarinnar sjálfrar.

Það voru Skúli og félagar sem gerðu Sjálfstæðisflokksnafnið stórt í Íslands-sögunni og vegna afreka þeirra lék ljómi um það flokksheiti. Það að vera sjálfstæðismaður á þeim tíma stóð fyrir allt annað og betra mál en síðar varð. Afturhaldið íslenska sem var danskt undir Dönum og amerískt undir Könum, treysti sér ekki lengur til að burðast með íhaldsnafnið á flokknum vegna óbeitar almennings á því og rændi því sem skrautfjöður fyrir sig hinu gamla og þjóðfræga nafni flokks Skúla Thoroddsens og annarra leiðandi manna í sjálfstæðisbaráttu fyrri ára.

Þeir sem síst áttu þetta nafn skilið og voru lengst frá því að geta þjónað því í réttum anda, fóru þannig að nýta sér það sem vegsauka !

Og ekki nóg með það, heldur var merki elstu og merkustu menntastofnunar landsins, Hins almenna menntaskóla, gripið með í leiðinni.

Með þessum hætti voru þeir sem aldrei höfðu verið sjálfstæðismenn, hvorki til hugar né hjarta, gerðir að sjálfstæðismönnum, en flaggið var náttúrulega falskt frá upphafi og undirlægjuhátturinn gagnvart erlendu valdi og fjármagni hefur í herbúðum íhaldsins alltaf verið samur við sig.

Þessir " nýju " sjálfstæðismenn höfðu því allt frá byrjun mjög afbrigðilega afstöðu til sjálfstæðismála þjóðarinnar og að skoða ræður forustumanna þeirra, t.d. á árunum 1940 til 1950 er mjög upplýsandi um tækifærissinnuð viðhorf þeirra í þeim efnum. En það er oft svo með þá sem ganga í þoku, að þeim finnst allir aðrir vera umvafðir þoku nema þeir sjálfir. Þeir ímynda sér að allt sé á hreinu í kringum þá. En " nýju " sjálfstæðismennirnir voru aldrei með hlutina á hreinu í sjálfstæðismálum þjóðarinnar.

Þeir níddust á því sjálfstæði með Nató-aðildinni og nánast í öllum málum þar sem þeir gátu komið því við. Á sínum tíma var því jafnvel haldið fram í Morgunblaðinu að besta leiðin til að varðveita sjálfstæðið væri að fórna því ! Svo dýrt kveðin voru sjálfstæðis-bjargráð þessara aðila þá !

Þeir settu okkur inn í forstofu Evrópusambandsins og komu því svo fyrir að erlent áhrifavald fór að gera sig svo gildandi í lögum og reglugerðum hérlendis að menn máttu varla míga nema sækja um leyfi til þess á eyðublaði.

Allir vita að stór hluti af sjálfstæði hvers manns og hvers ríkis er að fá að ráða sínum málum án afskipta annarra. " Nýju " sjálfstæðismennirnir stjórnuðu hér landsmálum svo til alfarið í næstum tvo áratugi. Enginn flokkur hefur fengið annað eins svigrúm til athafna og þeirra flokkur fékk né betra tækifæri til að sanna sig og stefnu sína. Hefðu þeir viljað láta gott af sér leiða og hugsað um hagsmuni þjóðarheildarinnar værum við að sjálfsögðu í góðum málum í dag.

En reyndin er önnur. Þeir klúðruðu öllum málum vegna þess að þeir tóku sérhagsmuni alltaf fram fyrir almannahagsmuni. Og á 18 árum tókst þeim að koma málum þjóðarinnar í svo djúpan skít að vandséð er hvort þar verði nokkurntíma hægt að hreinsa til. Þegar svo var komið, að innanlandsmálin voru orðin ein vandræðaflækja af völdum þessarar ógeðslegu sérhagsmunaklíku, var brugðið á það ráð að fara að lofsyngja sjálfstæðið og hylla það í síbylju.

Hinir " nýju " sjálfstæðismenn vissu sem var, að þeir höfðu ekkert annað til að reyna að vinna sig í álit á ný. Þeir yrðu bara enn og aftur að blekkja þjóðina með  uppskrúfuðum sjálfstæðis-fagurgala. Í því skyni höfðu þeir líka rænt nafni gamla sjálfstæðisflokksins.

Þeir spáðu lítið í það, að þetta sjálfstæði sem þeir þóttust nú ólmir vilja verja, var komið út á ystu nöf tilverumöguleika sinna vegna þeirra eigin ógæfuverka. Þannig toppaði " nýi " Sjálfstæðisflokkurinn sjálfan sig að fullu og öllu. Hann mun hér eftir aldrei geta flúið hengingardóm Sögunnar !

Nú er engum manni stætt á því lengur, sem vill ganga á vegi dómgreindar, að viðhafa hið gamalrænda nafn þessa flokks - nú er aðeins hægt að tala um stóra Þjóðarógæfuflokkinn, með sérstakri hliðsjón af því að það er líka til lítill Þjóðarógæfuflokkur, sem studdi þann stóra til hans vondu og þjóðháskalegu verka. Til hvers var að starfrækja Þjóðhagsstofnun á stjórnarárum flokka sem voru ekkert að vinna fyrir þjóðarhag ? Hún var náttúrulega lögð niður !

Íslensk pólitík er nú orðin svo ómerkileg og rotin að innviðum, að það er varla á færi nokkurs manns að finna þar ögn af ærlegu innihaldi og sú umsögn á við um alla flokkana sem sæti eiga á alþingi.

En sú þjóðarógæfa sem hlaust af 18 ára samfelldri landsstjórn hins falska sjálfstæðisflokks er himinhrópandi vitnisburður um óheilindi þess flokks og þeirra sem þar hafa stjórnað, gagnvart heildarhagsmunum þjóðarinnar og þar með íslensku sjálfstæði. Sá vitnisburður mun gilda um alla framtíð fyrir kraft sannleikans og réttlætisins og sýna og sanna að þeir sem flagga nú sem óðast hugsjónum sjálfstæðis og þjóðareiningar hafa sjálfir gert sig, með sérhagsmuna-fyrirgreiðslu sinni, að mestu ógæfuvöldum þjóðarheillar þessa lands.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 10
  • Sl. sólarhring: 365
  • Sl. viku: 1260
  • Frá upphafi: 316650

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 988
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband