Leita í fréttum mbl.is

SVIKAMYLLAN GEGN ÞJÓÐINNI

Margt bendir til þess að það séu ennþá frekar fáir í þessu landi, sem skilja að hér hefði ekkert hrun orðið ef ekki hefði áður verið farið út í einkavæðingu bankanna. Í skilningsleysi fjölmargra varðandi þetta atriði birtist undarleg og andfélagsleg afstaða. Afstaða sem tekur greinilega mið af flokkspólitískum ástæðum, sem eiga að gera það nauðsynlegt - í ætluðu sjálfsvarnarskyni - að neita staðreyndum.

Einkavæðing gengur fyrst og fremst út á það að afhenda eitthvað arðbært fyrirbæri sem ríki eða sveitarfélög hafa byggt upp, oftast með ærnum tilkostnaði, einstaklingum sem eru í náð valdhafa - svonefndum alikálfum kerfisins.

Yfirleitt er svo í leiðinni reynt að telja almenningi trú um það, oft með miklum áróðri í fjölmiðlum, að með því að einkavæða sé beinlínis verið að hlynna að almannaheill. Markaðurinn verði heilbrigðari við aukna samkeppni og fólk geti keypt alla þjónustu á lægra verði fyrir bragðið. Þetta fer hinsvegar svo til undantekningalaust á þveröfugan veg.

Einkavæðing leiðir nánast aldrei til hagstæðari hluta fyrir almenning !

Samkeppni eykst ekki, en samráð rekstraraðila um verðálagningu eykst hinsvegar gegn hagsmunum almennings. Markaðurinn verður ekki heilbrigðari heldur spillast ærleg viðmið um leið og einkavæðing hefur átt sér stað.

Þjónusta verður ekki betri eða fjölbreyttari, hún dregst saman við einkavæðingu, því þá verður markmiðið ekki að þjónusta fólk, heldur að hámarka arðránið í gegnum fenginn spena.

Frjálshyggjumenn og einkavæðingarsinnar gerðu markaðinn nánast að lifandi veru í allri umræðu eða öllu heldur skurðgoði sem þeir tilbáðu. Þeir töluðu um að markaðurinn hegðaði sér með ýmsum hætti, en hann átti að þeirra mati alltaf að leita jafnvægis. " Við verðum að bíða og sjá hvað markaðurinn gerir " voru t.d. mjög almenn viðbrögð hjá þeim sem voru á háum launum sem upplýstir greiningaraðilar. Allt þjónaði þetta þeim tilgangi að færa ábyrgð frá einstökum auðmönnum og starfandi fjármálafyrirtækjum yfir á markaðinn - þetta óútreiknanlega, alsjálfstæða fyrirbæri.

En staðreyndin var þó engu síður og öllu heldur sú, að markaðurinn hegðaði sér nákvæmlega eins og auðmenn, bankar og aðrir áhrifavaldar fjármálanna létu hann hegða sér. Og tilgangurinn var í öllum birtingarmyndum - þó í blekkingarlíki hiins fegraða forms væru fram settar, - sá að koma meiri og meiri peningum ofan í fyrirfram ákveðna vasa. Hin stýrða leið var því ekki miðuð við að markaðurinn leitaði jafnvægis heldur oftast þvert á móti.

Og þannig var það með fasteignaverðið. Því var stýrt upp úr öllu valdi og ekkert eftirlit haft með því að þar væri haldið utan um hlutina með sanngjörnum hætti.

Markmiðið var nefnilega að arðræna fólk. Yfirvöldin sváfu eins og þau hafa jafnan gert hér á landi þegar um almannaheill er að ræða, og þá ekki síst ef þau eru til hægri. Hinir einkavæddu bankar vissu að þeir gátu leyft sér nánast hvað sem var, því ríkisstjórnin sem setti þá á útsöluna sem aldrei var greidd, var boðin og búin að hleypa þeim um alla koppa og kirnur heimilanna í landinu - til að arðræna þau. Yfirsprengda markaðsverðið á fasteignunum var bara einn liður í svikamyllunni en hann var að vísu mjög stór.

Bankarnir buðu lán sem óðast á meðan athafnir þeirra á öðrum vígstöðvum grófu samhliða undan gjaldmiðlinum okkar. Þeir vissu sem var að þeir áttu ekkert á hættu hvað það varðaði, skuldaverðtryggingin sá um það. Öll lán sem tekin voru á þeim árum sem ofþensla fasteignaverðsins gilti - án nokkurs inngrips af hálfu yfirvalda til að leiðrétta vitleysuna - voru því tekin út á kolrangt og falskt verðmat á eignum. Þannig var stór hluti þjóðarinnar fjötraður í skuldavanda, sem aldrei hefði getað orðið til í þjóðfélagi sem heiðrað hefði réttlátar leikreglur. Ungt fólk sem t.d. var að reyna að eignast heimili í fyrsta sinn, var blóðneglt af níðingahöndum til lífstíðar í þar til kokkaðri skuldasúpu og stjórnkerfis-eftirlitið hraut á meðan.

Öll lán - tekin á þessu algera myrkurtímabili samvisku og siðferðis fyrir hrun, voru þannig í eðli sínu veitt sem blóðsugulán af hálfu bankanna, veitt til að veiða fólk í svikanet og festa það í fjármálalegum vítahring sem það aldrei gæti losnað úr. Eignirnar féllu síðan stórlega í verði er hin uppblásna svikabóla sprakk en skuldirnar ekki. Þær voru látnar margfalda byrðar lántakenda.

Og þessi hrikalegi glæpagjörningur var framkvæmdur með fullkominni blessun yfirvaldanna í þessu landi og er einn mesti þjófnaður sem framinn hefur verið hérlendis gagnvart fólkinu í landinu. Tilkoma kvótakerfisins og framsalsins er líklega það eina sem kemst þar í samjöfnuð að ranglæti til.

Og enn í dag virðast yfirvöldin í landinu síður en svo viljug til að leiðrétta eitt eða neitt fyrir almenning, þó nú segist þau vera til vinstri. Það segir sína sögu um samtryggingarmafíu þessa lands !

Það þarf sjáanlega ekki að flytja inn Economical hitmen frá Bandaríkjunum, til að grafa undan velferð fólksins í landinu þegar stjórnvöldin sjálf haga sér með þessum hætti.

Það er hægt að endurreisa banka sem rændir hafa verið innanfrá, tryggingafélag sem fær sömu meðferð, sparisjóði og stofnanir sem hafa verið tæmdar í gegndarlausu fjárhættuspili sérgæðinganna, borga milljarða á milljarða ofan fyrir útrásarvíkinga og Icesave-þjóðníðinga, en að koma til liðs við venjulegt fólk sem veitt var í spennta sameiginlega gildru fjármálageirans og yfirvalda - nei, það er allt annað mál !

En sannleikurinn talar sínu máli og segir okkur dag hvern í ljósi staðreyndanna hvað gerðist :

Bankarnir sviku lánþega sína - fólkið í landinu, ríkisstjórnin sveik þjóðina, þingið svaf og sveik skyldur sínar ásamt eftirlitsstofnunum og kerfinu öllu og sjálfur hádómstóllinn þagði þunnu hljóði því þá var hann ekki enn kominn í stjórnarandstöðu !

Enginn var að gæta hagsmuna almennings, fólkið var ofurselt svikamyllunni !

Þeir eru margir Íslendingarnir í dag sem seint eða aldrei munu bera traust til yfirvalda - sem þó íslensk þykist vera - eru og hafa verið að eyða landið og landsins hag með ólögum. Hér er ekkert byggt upp lengur - með lögum !

Kerfið þykist kannski vera að byggja upp - í orði kveðnu - en byggingarefnið er sjáanlega enn aðeins sami skíturinn og áður.

Siðleysið er látið viðhaldast og alltaf magnast ólyktin af spillingunni í nösum almennings !

Við þurfum að losna hér við Mubarakana - alla sem einn !

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 73
  • Sl. sólarhring: 202
  • Sl. viku: 1323
  • Frá upphafi: 316713

Annað

  • Innlit í dag: 52
  • Innlit sl. viku: 1031
  • Gestir í dag: 50
  • IP-tölur í dag: 50

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband