Leita í fréttum mbl.is

VIÐ ÞURFUM NÝTT OG HREINT ÍSLAND

Þegar rannsóknarskýrsla Alþingis var birt, var almennt talið að hún yrði höfð til grundvallar því hreinsunarstarfi sem þurfti að vinna í þjóðfélaginu. Allir vissu að það þurfti að hreinsa til og þarna var komin úttekt sem átti að vera hægt að byggja verkið á. Það þurfti bara að bretta upp ermar og taka til við þrifin.

En fljótt kom í ljós að ráðamenn voru tvístígandi og alveg í öngum sínum yfir skýrslunni. Þar komu fram margvíslegar upplýsingar um vesaldóm kerfisins og spillingu af hvers konar tagi og þeim fannst þeir vera orðnir allt of berskjaldaðir fyrir dómi almennings. Sumir þeirra bölvuðu örugglega skýrslunni í sand og ösku með sjálfum sér, en þóttust hinsvegar allir af vilja gerðir til að hreinsa ærlega til.

Það virðist þó sem gert hafi verið þegjandi þverpólitískt samkomulag um að láta þessa skýrslu liggja sem mest afsíðis. Það mætti sem best þegja hana í hel á nokkrum árum. Hún var eiginlega allt of óþægilegt plagg !

Sennilega hefur verið hugsað eitthvað á þá leið, að skipa mætti sérstakan saksóknara til að róa almenning og umboðsmann skuldara í þokkabót, en það mætti ekki fara að snúa við hverjum steini í kerfinu. Það væri allt of hættulegt !

Ránsfengur útrásarbófa og alikálfa skyldi áfram vera í þeirra höndum og skuldir afskrifaðar hjá þeim eftir þörfum og bankarnir nýju með " hreinu nöfnin " skyldu starfa í anda gömlu bankanna. Þannig að samtryggingarpólitík  flokkanna ákvað að  engu skyldi í raun og veru breytt eftir bankaránin innanfrá, aðeins gengið í það að blekkja almenning og velta öllum drápsklyfja-reikningum þjóðsvikanna yfir á hann. Að þessum gjörningi stóð í raun öll kerfisklíka flokkanna þó hvergi kæmi fram nein sönnun fyrir því. Sameiginleg varnarþörf knúði valdaelítuna til þess að standa svona að málum, þar sem allir innvígðir fjórflokksmenn voru með einum eða öðrum hætti sekir um misgerðir gegn almannahagsmunum.

Rannsóknarskýrsla Alþingis varð þannig fljótlega dæmd innan kerfisins sem skýrslan sem aldrei átti að vera samin og ráðandi viðhorf að tjaldabaki varð að það þyrfti að koma henni sem fyrst inn í skáp gleymskunnar. En svo hátt hafði hinsvegar verið reitt til höggs með skýrslunni og slíkar væntingar vaktar með afhjúpun þeirri sem þar kom fram varðandi alls kyns fjármálaleg bellibrögð, að það var hægara sagt en gert að draga í land. Pólitíkin gekk samt snarlega út á þá stefnu að það yrði auðveldara að halda í skítinn en hreinsa til. Menn komust að þeirri niðurstöðu að ef það ætti að hreinsa til í kerfinu eins og þyrfti, yrði kannski ekkert kerfi eftir !

Og því vilja margir þungavigtarmenn viðhalda spillingunni - á kostnað þjóðarinnar !

Sáu menn hvernig Samfylkingin hegðaði sér í landsdómsmálinu til að fría sína ráðherra, sáu menn hvernig forusta flokksins og þingmenn hegðuðu sér í því máli ?

Hagsmunir flokksins réðu öllu, hagsmunir þjóðarinnar skiptu litlu sem engu.

Allir vita hvernig Stóri Þjóðarógæfuflokkurinn hefur hegðað sér þegar þjóðarhagsmunir eru annarsvegar, enda værum við ekki að glíma við afleiðingar hruns ef þar hefði verið haldið á málum út frá þjóðarheill.

Litli Þjóðarógæfuflokkurinn  hugsaði líka um flokksræðið en ekki þjóðræðið.

Vinstri græna flokksforustan hefur heldur ekki vikist vel við þeim þingmönnum sínum sem hafa viljað hafa sjálfstæða skoðun. Flokksræðið er þar lítið síðra en hjá öðrum. Þessi stöðuga viðleitni - að valta yfir þá sem ekki eru sammála flokksvaldinu er ólýðræðisleg og til þess eins fallin að viðhalda spillingu kerfisins. Við þurfum svo sannarlega á öðrum og betri vinnubrögðum að halda !

Við þurfum að finna gömlu gildin aftur og hefja þau til vegs og virðingar á nýjan leik og til þess þurfum við öllu öðru fremur hreint svið.

Við viljum vafalaust flest búa í þjóðfélagi þar sem ríkir traust. Við viljum geta treyst því að þar til kosin yfirvöld vaki trúlega yfir almannaheill. Við viljum sjá fjöregg lands og þjóðar í góðum höndum og siðferðileg viðmið í lagi.

Við viljum að börnin okkar geti átt sér haldbærar vonir um farsæla framtíð.

Þessi heilbrigðu lífsrök voru tekin frá okkur - fyrir tilstilli ábyrgðarlausra yfirvalda - manna sem höfðu völdin í sínum höndum, en notuðu þau gegn eðlilegum hagsmunum lands og þjóðar - í þágu sérvillinga og svikahrappa.

Við þurfum lýðræði þar sem flokksræði er í dag. Við þurfum að losna við allt það fólk af þingi sem á görótta fortíð í spillingu fyrirhrunsáranna !

Við þurfum þing og ríkisstjórn sem hægt er að treysta til góðra verka, við þurfum dómstóla sem dæma út frá réttlætis-sjónarmiðum en ekki annarlegum hagsmunatengslum. Við þurfum samfélag á traustum siðferðisgrunni.

Þegar Ólafur Ragnar hverfur frá Bessastöðum, sem vonandi verður eftir þetta kjörtímabil, þurfum við að kjósa manneskju í forsetaembættið sem hefur flekklausan feril að baki, manneskju sem getur orðið einingartákn fyrir íslenska þjóð. Við megum ekki við því að á Bessastöðum sitji umdeild persóna með tengsl við þjóðvillta útrásarfortíð eða nokkuð af því tagi sem spillt getur talist.

VIÐ ÞURFUM NÝTT OG HREINT ÍSLAND !

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 49
  • Sl. sólarhring: 111
  • Sl. viku: 1478
  • Frá upphafi: 315648

Annað

  • Innlit í dag: 35
  • Innlit sl. viku: 1187
  • Gestir í dag: 31
  • IP-tölur í dag: 31

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband