Leita í fréttum mbl.is

Krabbameinsæxli þjóðarlíkamans

Sú var tíðin að Þjóðarsálin lét til sín heyra í hljóðvarpi og var oft fróðlegt að hlusta á þær skoðanir sem þar komu fram, því auðvitað endurspegluðu þær viðhorf almennings eða svokallaða þjóðarsál að talsverðu leyti og á sinn hátt.

Það er líka oft vitnað til anda þjóðarinnar gagnvart þessu og hinu og fyrst menn tala um þjóðarsál og þjóðaranda er heldur ekki úr vegi að tala um þjóðarlíkama. Ef íslenska þjóðarsálin á að vera heilbrigð þarf hún líklega að vera til húsa í styrkum og stæltum líkama. Við getum spurt okkur hvernig sá líkami þurfi að vera uppbyggður til að hann skili sínu hlutverki eins og best verður á kosið ? Getum við séð fyrir okkur að ríkisstjórnin sé hjartað í þessum líkama sem dælir heilbrigðu blóði út um hann allan ?

Er það annars ekki hlutverk framkvæmdavaldsins ?

Gerir ríkisstjórnin þetta eða eru athafnir hennar meira til þess fallnar að veikja líkamann en styrkja hann ?

Getum við hugsað okkur Alþingi sem heilann í þessum líkama, stöðugt starfandi að því að koma fram með heilbrigðar og uppbyggilegar reglur fyrir heilsufar og viðgang þessa líkama sem við erum öll hluti af ?

Sjáum við Hæstarétt í því hlutverki að vaka yfir því að eðlileg réttlætistilfinning sé til staðar í þessum líkama og heilbrigður viðgangur sannleikshugsunar ?

Getum við trúað því að prestastéttin varðveiti hin hreinu siðferðilegu gildi í hugsun þessa líkama svo engin saurgun hugarfarsins eigi sér þar stað ?

Getum við fundið að fjármálageirinn stjórnist af einlægri hugsun fyrir viðgangi og vexti þessa þjóðarlíkama okkar og vilji honum allt hið besta ?

Ef við hugsum okkur að Forsetinn sé nafli þjóðarlíkamans, fósturstrengur fortíðar og nútíðar, getum við treyst því að hann sé á sínum stað, en ekki stöðugt að ímynda sér að hann sé hjarta eða heili þjóðarlíkamans eða í miklu stærra hlutverki en honum er ætlað að vera ?

Nei, því miður, þá getum við ekki heimfært borgaralegt öryggi í neinum traustvekjandi mæli yfir á neitt af þessu. Gömlu Grikkirnir áttu oft í miklum erfiðleikum með sitt lýðræði enda frumherjar í málinu, en þeir vissu að besta staðan er heilbrigð sál í hraustum líkama - Mens Sana in Corpore Sano. Það á auðvitað jafnt við um einstaklingslíkama sem þjóðarlíkama.

Íslensk yfirvöld virðast hinsvegar ekki hafa mikinn skilning á þeirri staðreynd.

Ríkisstjórnir landsins hafa sjaldnast haft til að bera sérstakt hjarta fyrir velferð þjóðarinnar, og heilastarfsemi heildarinnar sem situr á Alþingi í dag virðist í besta falli vafasöm með vísun til þeirrar velferðar.

Hæstiréttur virðist að margra áliti í einhverju tómarúmi þegar kemur að réttlætismálum og mikil spurning hvort sannleikurinn geri menn þar frjálsa. Prestastéttin hefur átt slíkum vítum að mæta innan eigin vébanda, að hún hefur tæpast verið aflögufær í siðferðilegum efnum eða til þjóðlegrar leiðsagnar í þeim málaflokki.

Fjármálageirinn, með bankana í broddi fylkingar, virðist hafa tekið að sér hlutverk illkynjaðra krabbameinsæxla á þjóðarlíkamanum í stað þess að byggja þar upp heilbrigða vefi.

Það er því fátt sem bendir á batamerki í þeim efnum og aukið traust fólks á viðkomandi aðilum er hvergi á leiðinni til baka. Þar syrtir áfram í álinn !

Forsetinn var árin fyrir hrunið eins og fló á skinni í alþjóðlegum skilningi og virtist þá fjarlægjast mjög þann líkama sem hann átti að vera hluti af.

Hann þyrfti líklega að fara í rækilega naflaskoðun á sjálfum sér, varðandi það hvernig hann hefur rækt hlutverk sitt, á heildina litið, með hliðsjón af þjóðarvelferð. Sú rannsókn gæti kannski flokkast undir gagnrýna hugsun af hans hálfu - gagnvart sjálfum sér, en hugtakið gagnrýn hugsun virðist mjög vinsælt meðal háskólamanna í dag, einkum þeirra sem höfðu víst enga hugmynd um yfirvofandi hrun og bera því auðvitað enga ábyrgð á því.

Ferill manna er sannarlega ekki alltaf í samræmi við það sem skyldurnar ættu að bjóða og það hefur sýnt sig í allt of miklum mæli hjá íslenskum ráðamönnum fyrir og eftir hrun, til mikils skaða fyrir íslenska þjóð og almenna velferð í þessu landi.

Þegar við skoðum samhengi þessara hluta í alvöru virðist flest í lausu lofti í borgaralegum öryggismálum þegar litið er til yfirvalda, enda er það líka mikil spurning hvort yfirvöldin séu í raun með hjarta fyrir þjóðarlíkamanum eða lífskjörum fólksins í landinu.

Hinsvegar er enginn vafi á því að yfirvöldin hafa löngum haft stórt hjarta fyrir fjármagnseigendum og þeirra hagsmunum og geta sjáanlega gengið býsna langt til móts við þá eins og hrunið og eftirmál þess sýna best og sanna.

Almenningur getur hinsvegar ekki borið traust til yfirvalda því hagsmunir hans eru alltaf fyrir borð bornir, hvort sem það er gert sem afleiðing af " þjóðarsátt " eða afleiðing efnahagslegs hruns eða bara vegna þess að það er og hefur alltaf verið stefna Sjálfstæðisflokksins að sérhagsmunir gangi fyrir almannahag !

Íslensk yfirvöld virðast svo gegnsýrð andanum frá hægri, jafnvel þó þau komi frá vinstri, að þau kunna hreinlega ekki að þjóna svikalaust almennri velferð.

Þessvegna er þjóðarlíkaminn kaunum sleginn og graftarkýlin um allt !

Það er dæmigert fyrir þá kaldhæðni sem ríkir oft í heimi stjórnmálanna, að nú hefur verið settur á koppinn sérstakur velferðarráðherra, sennilega í tilefni þess að velferðin hefur verið bundin niður í spennitreyju hinnar kerfislegu íslensku sérhagsmunagæslu. Alltaf fá blekkingarnar sitt stóra rúm.

Og nú er búið að opna snobbhöllina í Reykjavík fyrir menningarneyslu toppanna og varla fær Björgólfur Guðmundsson veglegri bautastein en þann eyðslubrunn.

Þar láta svo kvótagreifar kerfisins, allra flokka alikálfar, almenning borga herlegheitin eins og fyrri daginn, til að fullnægja sínu skítlega eðli !

Þingmenn landsins sitja eins og fangar í fílabeinsturni gervimennskunnar og virðast ekki vita að þeir hafa meira og minna gengið í björgin bláu þar sem enginn maður heldur heilum sönsum til lengdar, þar sem menn ganga erinda sérhagsmunanna - jafnvel án þess að vita það !

Er annars ekki kominn tími til að loka Bastillunni við Austurvöll ?

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 198
  • Sl. sólarhring: 278
  • Sl. viku: 1219
  • Frá upphafi: 309913

Annað

  • Innlit í dag: 185
  • Innlit sl. viku: 1051
  • Gestir í dag: 185
  • IP-tölur í dag: 183

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband