Leita í fréttum mbl.is

Markaðshyggja er andstæða lýðræðis

Markaðshyggja er í raun andheiti við lýðræði því hugsunin á bak við hana er einfaldlega að tryggja þeim sem meiri fjárráð hafa aðstæður til að valta yfir aðra.

Sömu sjónarmið eru á bak við ýmis önnur hugtök eins og frjálshyggju.

Frelsið sem þar er talað um er frelsi hinna auðugu til að kúga smælingjana.

Oft er erfitt að vita í raun hvað felst á bak við hugmyndafræðileg viðmið, þar sem blekkingar geta ráðið þar miklu og hugtökin virðast oft svo jákvæð.

Um 1960 voru í gildi bæði á Íslandi og hinum Norðurlöndunum ýmis lagaákvæði sem gengu út á tryggingu þjóðarréttar. Þar var bundið í lög að auðlindir væru friðhelgar sem eign viðkomandi þjóðar og þær ættu ekki að ganga kaupum og sölum. Þær væru í raun líftryggingar velferðar fólksins.

En þegar hægri stjórnir fóru að komast að völdum í þessum löndum um og upp úr 1980 eða þá hægrisinnaðar vinstri stjórnir, sem höfðu glæpst inn á vegi markaðshyggju og annarra villuboða gagnvart heildarhagsmunum, fór margt að breytast. Smátt og smátt var farið að fjarlægja lagafyrirmælin sem settu yfirgangshneigð auðvaldsins skorður.

Það fór ósköp hljóðlega fram eins og þegar fjandanum er réttur litli fingurinn.

Úlfar sérhyggjunnar voru ólmir í að komast í feitt og umrædd stjórnvöld fóru að ganga erinda þeirra meir og meir í stjórnkerfunum. Afleiðingarnar þekkjum við nú hér á Íslandi af napurri reynslu og löngu er tími til kominn að læra af þeim mistökum. En þó að margföld landráð hafi verið framin, hika menn ekki við að segja að engin lög hafi verið brotin.

Þeir sem báru ábyrgð á hruninu áttu ekki að hafa brotið nein lög. Það væri svo sem eftir öðru að svo hefði verið. Úlfabræðurnir í stjórnkerfinu voru kannski þegar búnir að sérhanna lagaumhverfið fyrir bófana svo að ekkert yrði þeim til hindrunar við yfirtöku þeirra á þjóðareignum og auðlindum.

Var þá sem sagt svo komið að íslenska þjóðin bjó við þær aðstæður að lifa án þess að vita það  -  í þjóðfélagi sem tiltölulega fámenn auðvaldsklíka gat sett á hausinn án þess að brjóta nokkur lög ;

- í þjóðfélagi þar sem hægt var að fremja landráð án þess að nokkur refsing væri skilgreind fyrir slíkum glæp ;  

- í þjóðfélagi þar sem almannahagsmunir voru utan gátta í öllu stjórnkerfinu ?

Já, því miður virðist hafa verið svo komið. Frjálshyggjuliðið í Stóra þjóðarógæfuflokknum  og samverkamenn þess í öðrum flokkum, á því þjóðarþingi, sem virðist alveg hætt að sinna því hlutverki að vera þjóðarþing, hélt áfram löngu eftir hrun að mjálma sama afsökunarstefið fyrir frjálshyggjuna :

 " Það voru ekki brotin nein lög " !

En æðstu lög siðaðs samfélags eru fólgin í því að verja og viðhalda velferð fólksins, að tryggja þjóðlegt öryggi og almannahagsmuni.

Ef sett eru lög með öðrum formerkjum, eru það ólög sem að engu eru hafandi. Þá er löggjafarvaldið farið að þjóna einhverjum annarlegum sjónarmiðum einkahagsmuna og byrjað að svíkja skyldur sínar. Slíkt á engin þjóð með sjálfsvirðingu að láta yfir sig ganga eða þola með neinum hætti.

Mér er sagt að sumir lögfræðingar segi nú til dags, að þeirra hlutverk sé ekki að greina hvað sé rétt og hvað rangt, heldur að skilja lagabókstafinn og framfylgja honum. Ef svo er, hafa sannleikur og réttlæti greinilega ekki það vægi í dómsölum samtímans sem áður þótti skylt og eðlilegt.

Það er vegið að almenningsrétti á Íslandi í dag með margvíslegum hætti. Pyngjuvaldið er í sókn gegn áunnum mannréttindum liðinna áratuga.

Fólk þarf að halda vöku sinni og skilja enn á ný að samtakamáttur fjöldans er eina vörnin gegn markaðshyggjunni, frjálshyggjunni, afturhaldinu og peningavaldinu sem er að brjóta niður velferð fólksins í landinu.

Það var ekki meiningin með stofnun hins íslenska lýðveldis að tíu prósent þjóðarinnar lifðu við allsnægtir en hin níutíu prósentin við skarðan hlut og sumir við skort á lífsnauðsynjum.

Það þarf með vökulum hætti að verjast þeim árásum sem gerðar eru jafnt og þétt á lífskjör fólksins og standa vörð um þá félagslegu uppbyggingu sem hér var gerð á fyrstu áratugum lýðveldisins með þjóðhagslega réttlætis hugsjón fyrir augum. Stöndum saman fyrir velferð okkar allra og gegn þeim sem vilja nægtastöðu fárra útvaldra á kostnað okkar hinna !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 106
  • Sl. sólarhring: 153
  • Sl. viku: 1356
  • Frá upphafi: 316746

Annað

  • Innlit í dag: 69
  • Innlit sl. viku: 1048
  • Gestir í dag: 65
  • IP-tölur í dag: 65

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband