Leita í fréttum mbl.is

Landsfundur Stóra Þjóðarógæfuflokksins

Það er ekki lítið sem er á döfinni þegar Stóri Þjóðarógæfuflokkurinn heldur landsfund. Svo til öll ógæfuöfl þjóðfélagsins fara á kreik, alls staðar er skriðið fram úr skúmaskotum baktjaldavaldsins, því þeir eru ófáir sem vilja fá að sýna sig og sjá aðra á þessu höfuðþingi hræsninnar.

Skuggavaldi er vafalaust sjálfur á staðnum sem endranær, enda er þetta hans þing og hans sigurhrós og gleðiefni að stíga upp og stjórna þar málum.

BB II talaði í sápufroðuræðu sinni um höfuðhrunvald þjóðfélagsins sem farsælasta leiðtoga flokksins í seinni tíð, svo það virðist sem persónudýrkunin á Bubba kóngi sé á uppleið aftur. En kannski þarf viðkomandi frambjóðandi bara á stuðningsliði gamla einvaldsins að halda eins og sakir standa vegna formannskjörsins. Í sömu ræðu geirnegldi BB geislabauginn kyrfilega um höfuðið á píslarvotti flokksins við mikil fagnaðarlæti viðstaddra.

BB II sýndi sem sagt í öllu að hann hefur allt það til að bera sem formaður Stóra Þjóðarógæfuflokksins þarf að hafa til að halda forsvaranlega á málum fyrir sérgæðingaflokkinn.

Það er von mín að land og þjóð þurfi aldrei að sjá framan í BB III, því þá væri Íslands óhamingja vissulega komin á endanlegt hástig helgöngu sinnar !

Í máli núverandi formanns Stóra Þjóðarógæfuflokksins heyrðu menn gamla hrokatóninn og það sem hið óþjóðlega forustulið flokksins hefur fram að færa, eftir að það kom þjóðarbúinu í þrot með frjálshyggju fylleríi sínu. Það er engin iðrun, engin viðurkenning á mistökum, brotum eða neinu. Engin samviska virðist til !

Það er stöðugt talað um afleiðingar hrunsins en aldrei orsakir þess. Hamast er á ríkisstjórninni sem enn er að reyna að moka hruns-flórinn, þó illa hafi það nú  gengið - en engin ábyrgð er öxluð af þeim sem öllum öðrum fremur áttu sök á því hvernig fór.

Meiri forherðingu er varla unnt að ímynda sér en þá sem sýnd hefur verið af forustuliði Stóra Þjóðarógæfuflokksins allar götur frá hruni og hefur verið endurómuð víða af almennum flokksmönnum þeim hinum sömu til ævarandi skammar.

Ég hlýt að skammast mín sem Íslendingur fyrir þessa samfélagslegu óværu !

Fyrir nokkru var grein eftir einn hægrimann í Mbl. undir því fororði að Þjóðarógæfuflokkurinn aðhylltist ekki forsjárhyggju ! Það þarf nú ekki að segja neinum það eftir að þjóðfélagið sem flokkurinn þóttist vera í forsvari fyrir, fór á hausinn. Það gerðist einmitt vegna þess að enginn var í raun á hagsmunavakt fyrir þjóðfélagið - það var engin þjóðarforsjá í gangi !

Samt var verið að borga heilum hópi hálaunamanna fyrir þjóðhagsleg eftirlitsstörf, sem reyndust svo ekki vera neitt nema nafnið tómt þegar veruleikinn talaði. Hvernig er hægt að þiggja laun á slíkum forsendum ?

Landsfundur Stóra Þjóðarógæfuflokksins er sannarlega ekkert fyrirbæri sem talar máli þjóðarhagsmuna og hefur aldrei gert. Þar eru sérhagsmunir einir á ferð eins og fyrri daginn. Hugsjónir hafa skiljanlega aldrei átt samleið með þessu hryllilega flokksskrímsli þjóðarógæfunnar. Enginn flokkur hefur vegið eins að sjálfstæði þjóðarinnar og samt þykist flokkurinn vera að verja sjálfstæðið.

Það var fangaráðið hjá flokknum í vandræðunum eftir hrunið að hengja sig í það mál þegar hann var búinn að eyðileggja fjárhag ríkisins.

Hversu sjálfstætt skyldi það ríki vera sem sett hefur verið á hausinn ?

Landsfundur Stóra Þjóðarógæfuflokksins er andmanneskjulegt einkatrúðaþing.

Þar stjákla menn um eins og steigurlátir hanar með stélin beint upp í loftið og hænurnar reyna sem þær geta að tjalda sínu þó kamb og karlrembu vanti.

Svipmyndir í sjónvarpi og blöðum sýna hvernig yfirborðsmennskan og falsið ræður þarna lögum og lofum. Aðrir flokkar hafa ekki hroka og hræsniskvóta til hálfs á við Stóra Þjóðarógæfuflokkinn sem er þar íslenskur methafi í gegnum langa og ljóta spillingarsögu.

Í raun og veru snúast málin á landsfundum þessa flokks fyrst og fremst um eitt atriði, hvernig menn geti áfram sem best mjólkað ríki og sveitarfélög til hagsbóta fyrir öfl flokksins og sérgæðinga ? Þar sem einhverja peninga er að hafa, þar eru nefnilega Þjóðarógæfuflokksmenn ævinlega á snöpum. Þeir eru þekktir að því að sitja við kjötkatlana þar til þeir eru orðnir kaldir.

Gróðafíkn þeirra er óseðjandi og eftirhrunsgræðgin ekki minni en fyrirhrunsgræðgin. Allt misgerðareðli mannsins á sitt vanheilaga varnarþing í daglegri framgöngu heittrúaðra liðsmanna Stóra Þjóðarógæfuflokksins.

Og það sem forðum var sagt af einum úr þeirra hópi um meðferð opinbers fjár er enn í fullu gildi af þeirra hálfu : " Fólkinu kemur ekkert við hvað gert er við þessa peninga ! "

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 123
  • Sl. sólarhring: 169
  • Sl. viku: 1380
  • Frá upphafi: 316381

Annað

  • Innlit í dag: 109
  • Innlit sl. viku: 1113
  • Gestir í dag: 109
  • IP-tölur í dag: 108

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband