Leita í fréttum mbl.is

Röngu skilaboðin !

Á síðari árum hefur það gerst æ algengara að heildinni sé refsað fyrir það sem lítið brot af henni gerir. Vegna þess að 5 prósent borgara landsins hlýða ekki settum reglum eru sett bönn og allskyns hömlur á frelsi hinna 95 prósentanna !

Með slíku er verið að senda röng skilaboð til fólksins í landinu af hálfu yfirvalda og afleiðingarnar eru auðvitað slæmar fyrir samfélagið.

Það er þannig stöðugt verið að koma þeim boðum til þín sem borgara í þessu landi, að þó að þú hagir þér fullkomlega í samræmi við lög og reglur, verðir þú að sætta þig við að verða fyrir allskonar búsifjum og erfiðleikum í daglegu lífi þínu vegna þess að einhverjir aðrir standa ekki sína plikt.

Það er beinlínis verið að segja við þig - af hálfu þeirra er síst ættu að haga sér þannig : " Láttu þér ekki detta í hug að það verði eitthvað virt við þig að þú standir þig vel og sért góður og ábyrgur þjóðfélagsþegn, þú verður að gjalda fyrir hina sem eru það ekki !"

Og þetta viðhorf virðist orðið allsráðandi. Þegar búið er til kerfi í viðskiptum til að auka þjónustu og hjálpa upp á greiðslugetu viðskiptavinanna, skilar það sér kannski alveg eftir vonum hjá yfir 90 prósentum þeirra sem í hlut eiga, en vegna þess að nokkur prósent standa sig ekki, er kerfið lagt niður.

Í stað þess að víkja þeim úr kerfinu sem svíkjast um skyldurnar gagnvart því og krefjast frekari tryggingar af þeirra hálfu, er öllum hinum refsað sem standa sig !

Það virðist aldrei mega styggja neinn sem brýtur reglur og hegðar sér óábyrgt ?

Í flestöllum þéttbýlisstöðum landsins er nú fullt af hraðahindrunum sem eru skemmandi fyrir bíla og af hverju eru þær tilkomnar ?

Þær hafa verið settar upp vegna þessara 5 prósenta eða bara 2 prósenta sem eru að leika sér að því að brjóta lög og reglur með hraðakstri, aðila sem sýna hegðun sem ekki ætti að líðast neins staðar !

Í stað þess að setja upp alvöru reglur með hækkunarstuðul á sektum gagnvart hinum brotlegu, eftir því hversu brot þeirra eru alvarleg og endurtekin, er stöðugt níðst á okkur hinum sem erum þó að reyna að fylgja reglunum !

Það kemur högg á bíl í hvert skipti sem honum er ekið yfir hraðahindrun og það má auðveldlega reikna út hvað það gerir bílnum á ársgrundvelli að verða fyrir svo og svo mörg hundruð höggum af þessu tagi.

Kostnaður bíleigenda og samfélagsins alls getur orðið umtalsverður vegna þessa ef allt er talið og auðvitað á ekki að standa svona að málum.

Yfirvöld eiga ekki að stunda skemmdarstarfsemi á bílum !

Hér á Skagaströnd eru þessar hraðahindranir orðnar drjúgmargar í ekki stærri bæ og mál að þeim fækki og helst ættu þær alveg að hverfa.

Áður voru þær reyndar sumar hannaðar með framhjáhlaupi sem er nú kapítuli út af fyrir sig, enda fann nú lögreglan sjálf fyrir því að sú útfærsla var ekki heppileg og raunar með ólíkindum vitlaus.

Það ber auðvitað að taka á hraðakstri hvar sem er með sektum gagnvart hinum brotlegu og ekki síst í þéttbýli. Það á að láta agavaldið skella þá sem til þess hafa unnið. Þeir eiga að fá að finna fyrir vendinum. Það sendir rétt skilaboð í anda þess - að með lögum skuli land byggja.

En það er stöðugt hlífst við að láta hin brotlegu 5 prósent axla ábyrgð sína. Það er stöðugt haldið verndarhendi yfir þeim sem neita að fara eftir settum reglum og lögum landsins. Skilaboðin til þeirra eru einfaldlega : " Haldið bara ykkar striki og gerið bara það sem ykkur þóknast !"

Og svo á þjóðin að borga fyrir hina brotlegu sí og æ, hraðakstursfíflin, þá sem svína á þjónustukerfunum, útrásarvíkingana, innanbanka-ræningjana og yfirleitt alla þá sem brjóta lög og reglur í þessu landi !

Samúðin er alltaf með þeim - á kostnað okkar hinna sem reynum að standa okkar plikt ! En röng skilaboð geta smám saman fætt af sér röng viðbrögð. 

Hvað ef  95 prósentin verða að lokum svo þreytt á því hvernig komið er fram við þau og löghlýðni þeirra, að þau ákveða bara að fara að hegða sér eins og siðvilltu 5 prósentin ? 

Myndi það ekki þýða endanlegt niðurbrot samfélagsins ?

Er kannski andi lögleysisins svo að verki í þessu að engu er viðbjargandi lengur, vegna þess að menn eru orðnir svo rótfastir í röngum vinnubrögðum ?

Og ef svo er ekki, hvenær ætla þá yfirvöldin í þessu landi að fara að efla lög og reglur með því að senda frá sér rétt skilaboð ?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 103
  • Sl. sólarhring: 152
  • Sl. viku: 1353
  • Frá upphafi: 316743

Annað

  • Innlit í dag: 68
  • Innlit sl. viku: 1047
  • Gestir í dag: 64
  • IP-tölur í dag: 64

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband