Leita í fréttum mbl.is

Fræðingahrunið og ábyrgðarleysið !

Það er öllum ljóst sem hugsa á annað borð, að íslenska efnahagshrunið var hrun af mannavöldum. Það var framkallað í gegnum yfirmáta ábyrgðarleysi manna sem höfðu að sögn verið menntaðir til að bera ábyrgð !

Nánast allir gerendur hrunsins voru fræðingar af einhverju tagi. Í bankakerfinu, fjármálaeftirlitinu, ráðuneytunum og ríkiskerfinu öllu, störfuðu allra handa fræðingar sem allir áttu að vera að vinna baki brotnu fyrir íslensku þjóðina, áttu að vera fullir af ábyrgðarkennd og þjóðlegri skyldutilfinningu !

Því var stöðuglega haldið að fólki, að það vantaði ekki að vel væri séð fyrir öryggi þess. Íslendingar áttu að geta farið að sofa hvert kvöld í fullvissu þess að vakað væri yfir þeim og hagsmunum þeirra hverja stund. Þá sofnuðu menn hér á landi í því trausti og trúðu því að það væri gott þjóðfélagskerfi á Íslandi.

En nú gera menn það ekki og það verður langt í það að svokölluð yfirvöld þessa lands vinni sér eðlilegt traust meðal almennings á ný og það að Jóhönnu Sigurðardóttur meðtalinni.

Eitt af því sem sérmerkt hefur málflutning frjálshyggjumanna, bæði fyrir og eftir hrun, og einnig málflutning þeirra sem eru farnir að tala á línu frjálshyggjunnar, meðvitað eða ómeðvitað, er að það er alltaf forðast að tala um hina persónulegu gerendur málanna. Það var t.d. mjög mikið um það í fjölmiðlum fyrir hrun, að viðmælendur frá greiningardeildum bankanna og fulltrúar hinna ýmsu verðbréfasjóða, töluðu um að þetta og hitt færi eftir því hvernig markaðurinn brygðist við. Það var alltaf eins og mannshöndin og mannshugurinn hefði ekkert með málin að gera og yfirleitt talað þvert á hinar raunverulegu staðreyndir.

Ólafur Arnarson talaði t.d. á Bylgjunni 3.maí sl. " um óþreyjufulla peninga sem vildu komast úr landi " !

Peningarnir sjálfir vildu þetta sem sagt, það hafði ekkert með eigendur þeirra að gera. Það var engin persóna á bak við þessa " óþreyjufullu peninga " !

Svona er hinn ópersónulegi málflutningur notaður til að fela staðreyndirnar.

Og Jóhanna Sigurðardóttir tekur svo til orða í ræðum  " þegar hrunið skall á " !

Það skall ekkert hrun á, það var bara kaldrifjað eiginhagsmuna-samsæri í gangi og það vissu svo sem margir í kerfinu af því sem var að gerast, en þeir sem vissu þögðu þunnu hljóði, því annaðhvort voru þeir með í mafíunni eða var alveg sama um íslenskan þjóðarhag. En það sem var að gerast var - að það var verið að fremja rán á tiltölulega góðu þjóðarheimili, -  og misgerðir sem framdar eru með slíkum hætti af  ábyrgðarlausu stjórnmálaliði, og frjálshyggjulega hámenntuðu banka og viðskiptalífsfólki, verða aldrei staðsettar í sögunni á sama róli og jarðskjálfti, ofsarok eða eldgos.

Þetta var hannað hrun, tilbúin forsenda gífurlegra eignabreytinga, sem höfðu það siðlausa markmið að auðga útvalinn hóp svikulla bófa á kostnað þjóðarinnar.

Efnahagshrunið var ekki náttúruhamfaramál sem slíkt, það var glæpur hinna gráðugu, glæpur bankanna, glæpur viðskiptalífsins, glæpur stjórnvalda gegn þjóðinni ! Það er staðreynd staðreyndanna !

Og hver var í stjórn með Stóra Þjóðarógæfuflokknum þegar öllu var steypt í þrot og þar jafn sofandi og aðrir - Jóhanna Sigurðardóttir, einmitt þessi sama Jóhanna Sigurðardóttir sem vissi ekkert í sinn haus þegar " hrunið skall á " !

Hún er sannarlega ekki saklausari en aðrir sem spyrt hafa sig við og verið í slagtogi með Stóra Þjóðarógæfuflokknum og látið hafa sig til óhæfuverka undir hans forustu.

Skilur fólk ekki hver er meiningin með því að ópersónugera mannanna misgjörðir, að skilja á milli glæpsins og glæpamannanna ?

Ef sú skilgreining fær að standa, þá er enginn sekur, þá ber enginn ábyrgð, þá eru allir góðir og gegnir Íslendingar á ný, sama hvað þeir hafa gert.

Þá er hægt að fara safna á kostnað þjóðarinnar fyrir nýju frjálshyggju-fyllerí og gera síðan nýja gangstera að milljarðamæringum í gegnum nýtt hrun !

En staðreyndirnar tala allar einum rómi gegn þessari hvítþvottar skilgreiningu.

Það eru nefnilega margir sekir, það bera margir ábyrgð og það eru ekki allir góðir og gegnir Íslendingar hér í þessu landi.

Eitt af því sem hrunið sýndi okkur var það, að sumum er gjörsamlega sama um hag lands og þjóðar bara ef  þeir hagnast.

Menn sem voru ekkert annað en landráðamenn, voru á ferð og flugi árin fyrir hrun, á fullu við að féfletta þjóðina, og það með sérstakri blessun yfirvaldanna, sem gerðu þeim leikinn eins léttan og þau gátu.

Allir í stjórnkerfinu, allir í bankakerfinu, allir í eftirlitskerfinu virtust alfarið uppteknir við það að dást að skrautklæðnaði " keisarans " sem var náttúrulega berstrípaður og villuleiðandi fígúra í öllum skilningi. Sannleikurinn var læstur inni í skollaskápum kerfisins og allir áttu bara að nærast á lygum og leikaraskap.

Það þýðir því ekkert fyrir ráðamenn að reyna að breiða yfir aumingjadóm sinn því hann er augljós hverjum viti bornum manni.

Og þegar Jóhanna Sigurðardóttir talar í 17. júní ávarpi um traust sem farið hefur forgörðum, um þann vanda að þjóðin treysti ekki ráðamönnum, segir hún réttilega að sökin sé hjá þinginu og yfirvöldunum, en hvaða yfirbætur hafa verið sýndar í verki sem raunverulega hafa sannað sig ?

Bankakerfi með skítlegt eðli hefur verið endurreist á kostnað þjóðarinnar, sem áður hafði verið margvíslega hlunnfarin af því sama kerfi, og spillingar-haugurinn í stjórnarráðinu sem átti að moka, er enn á sínum stað og síst minni en áður. Meðan einhverjir héldu kannski að þeir væru að moka út voru aðrir að moka sama skítnum til baka.

Hvernig á fólk að geta borið traust til íslenskra ráðamanna eftir það sem á undan er gengið, þegar ekkert er gert í raun til að endurvekja það traust ?

Gjáin breikkar stöðugt milli þings og þjóðar og sú gjá er að verða botnlaus og óyfirstíganleg - og þessi mikla gjá heitir VANTRAUST !

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 380
  • Sl. viku: 1252
  • Frá upphafi: 316642

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 981
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband