Leita í fréttum mbl.is

Um arfleifð Abrahams o.fl.

Einn merkilegasti persónuleiki allra alda er vafalítið ættfaðirinn Abraham.

Hann gekk fram í trú umfram aðra menn, segir Biblían, og Guð var með honum. Hann er ættfaðir Gyðinga og Araba og metinn sem slíkur af þessum niðjum sínum þó með nokkuð ólíkum hætti sé. Gyðingar eru nefnilega samkvæmt Biblíunni afkomendur Abrahams í gegnum hinn fyrirheitna son Ísak, en Arabar eru afkomendur Ísmaels, sem var rekinn út í eyðimörkina með móður sinni, hinni egypsku Hagar. Þeir bræðurnir Ísmael og Ísak voru umskornir á sama degi og léku sér saman sem bræður í bernsku uns leiðir skildust.

Hagar var ambátt Söru konu Abrahams og þegar hún sýndi húsmóður sinni óvirðingu varð Abraham að dæma í því máli. Hann fór eftir því lögmáli sem í gildi var og Hagar varð að víkja. Afbrýðissemin frá þessum ævagömlu atburðum virðist lifa góðu lífi enn í dag í samskiptum afkomenda hálfbræðranna Ísmaels og Ísaks og leggja sitt eldsneyti í bálið sem logað hefur fyrir botni Miðjarðarhafsins.

En niðjar Abrahams eru víðar en í Ísrael og Arabalöndunum. Gyðingar eru víða enn í dreifingunni og enginn veit hvar afkomenda hinna tíu týndu ættkvísla Ísraels er að leita. Þessvegna getur nánast hver sem er í heiminum í dag verið Gyðingur ef út í það er farið. Leikkonan Eleanor Parker sagði eitt sinn, að hún teldi að við værum öll Gyðingur innra með okkur og í kvikmyndinni Tobruk sem fjallar um atburðarás í síðari heimsstyrjöldinni, er Rock Hudson látinn segja við George Peppard sem leikur Gyðing, að hann telji að það sé brot af Gyðingi í hverjum manni og Peppard er látinn svara að bragði:  " Og dálítill nasisti líka !"

Og þar stöndum við frammi fyrir þessum ævafornu andstæðum, hinni  mannlega jákvæðu samstöðu með Ísrael og því sem Abrahamslínan stendur fyrir og hinni  neikvæðu samstöðu með Babylon og Mammon og þeirri arfleifð sem felur meðal annars í sér hið djöfullega og sílogandi hatur á kyni Jakobs.

Nói var afkomandi Adams í gegnum Set son hans og Abraham var afkomandi Nóa í gegnum Sem son hans. Þessvegna er svo oft talað um Gyðinga sem Semíta, afsprengi Sems. Kamskynið fæddi hinsvegar af sér ógnvaldinn Nimrod  og í gegnum hann uxu upp Babylon og Nínive, hinar fornu höfuðborgir heimshyggjunnar og gamla turnsins sem verið er að reyna að endurreisa í andlegum skilningi í Brussel nútímans, en turninn sá er táknmynd um uppreisn gegn Guði og öllu því sem kemur að ofan. Filistear, hinir svörnu fjendur Ísraelsmanna, voru líka afkomendur Kams og líklega flestir íbúar borganna Sódómu og Gómorru.

Við skulum ekki viðhafa neina tæpitungu þegar fjallað er um þessi mál, en gera okkur það fullkomlega ljóst að Gyðingahatur er aldagamalt fyrirbæri sem á sér fyrst og fremst andlegar orsakir. Það er ættað úr annari vídd, og það kemur að neðan. Því er stjórnað af þeim anda sem aldrei hefur neitt gott gert.

Það er hatast við útvalningarhlutverk Gyðingaþjóðarinnar og því afneitað og það er hatast við sérstaka varðveislu Guðs yfir þessari þjóð. Það er hatast við öll persónueinkenni Gyðinga sem hafa haldið þeim í sérstöðu sem þjóð til þessa dags, þrátt fyrir ofsóknir á öllum öldum. En fyrst og fremst eru Gyðingar hataðir fyrir það að þeir hafa alltaf lifað allt af - öfugt við margar aðrar þjóðir sem heyra nú sögunni til, þjóðir sem í eina tíð voru miklu voldugri en Gyðingar og jafnvel  kúgarar þeirra um langa hríð. Sumir virðast beinlínis telja það söguleg mistök að Gyðingar skuli vera til í dag. Þeir ættu samkvæmt öllu eðlilegu að vera löngu útdauðir.

Og það er talsvert til í því sjónarmiði. Ef menn hefðu ráðið, væru Gyðingar svo sannarlega ekki til í dag, því engri þjóð hafa jafn margir verið jafn áfjáðir í að sálga síðustu þrjú þúsund árin og jafnvel lengur.

Assýríumenn og Babyloníumenn voru í sínum ofbeldisfulla Nimrods-anda iðnir við dráp á Gyðingum en hvar eru þeir nú ? Egyptar hinir fornu lögðu sig fram við að koma Gyðingum í hel en hvar eru þeir nú til dags ? Rómverjar voru heimsdrottnar síns tíma og ráku Gyðinga með hervaldi burt úr þeirra eigin landi, en þeir eru hvergi til í dag - en Gyðingarnir lifa - og hafa lifað þá og aðra ofsækjendur sína alla tíð !

Riddarar krossfarartímanna murkuðu Gyðinga niður með skelfilegum hætti víða um lönd, en þeir eru dauðir og farnir og svona mætti lengi telja. Meðan kristnar þjóðir hötuðust sem mest við Gyðinga og ofsóttu þá með ýmsum hætti og niðurlægðu þá sem mest, virðist sem þeir hafi lifað mun betra lífi í löndum Múhameðstrúarmanna og búið þar við mun betri kjör.

Kannski var sameiginlegur ættfaðir mönnum ofar í huga á þeim tímum en nú er, en þetta umburðarlyndi átti þó aðeins við um takmarkaðan tíma. Bæði á undan og eftir því tímabili var Gyðingum eiginlega hvergi vært.

Fyrstu mennirnir til að verða fyrir ofsóknum af hálfu Múhameðs og fylgjenda hans voru Gyðingar, búsettir í  borginni Jathrib, sem seinna var nefnd Medína, borg spámannsins.

Múhameð vildi í fyrstu vingast við Gyðingana sem bjuggu þarna og fá þá á sitt band, en þeir voru fjölmennir í borginni. En það gekk auðvitað ekki því þeir gengust ekki inn á neina málamiðlun varðandi trú sína. Það varð til þess að Múhameð fylltist fjandskap í þeirra garð og rak þá að lokum burt úr borginni en hirti áður af þeim allar eigur þeirra.

Ein ættsveit Gyðinga sem gekk til liðs við íbúa Mekku meðan þeir voru í andstöðu við Múhameð, hlaut þau örlög að allir karlmenn hennar, um það bil 650 manns, voru teknir af lífi og konur þeirra og börn seld mansali eftir að hafa verið neydd til að horfa á aftökurnar.

Múhameð gerði líka árás á Gyðingasamfélag í vininni Kajbar og lét drepa fjölda manns þar og gera aðra ánauðuga. Það hafa margir drepið og ofsótt Gyðinga í gegnum aldirnar, bæði fyrir og eftir tíma Múhameðs, og svo mun að öllum líkindum áfram ganga þar til öll skil verða gerð upp.

Nasistar höfðu á stefnuskrá sinni - eins og flestir vita - algera útrýmingu Gyðinga. Þeir voru drjúgir við manndráp og misþyrmingar og nutu aðstoðar talsvert fleiri við þessi útrýmingarstörf en almennt hefur verið viðurkennt.

En Gyðingar lifa enn og munu lifa því þeim er viðhaldið af æðra valdi en því sem af jörðu er ættað og undir jörð. En margir eru samt alltaf undirgefnir þeim anda illskunnar sem heimtar útrýmingu þeirra að fullu og öllu.

Einn af þjónustumönnum nasista var Vidkun Quisling, norski nasistinn, sem hét reyndar líka Abraham. Skyldi Hitler hafa vitað það ?

Og þegar málin eru skoðuð enn betur, hefði það líklega alveg eins getað átt sér stað að Adolf Hitler hefði heitið Abraham Hitler !

Kannski var Hitler, sem reyndar hét Schiclgruber að ættarnafni, einn af niðjum Abrahams, líkt og Kóra, Datan, Júdas og fleiri kvistir af þeirri svörtu sálarálfu sem brýtur af sér alla náð. Þeir hafa verið til sem hafa haldið því fram að Gyðingablóð hafi verið í ætt Hitlers og kannski hefur það verið svo, að þessi höfuðofsækjandi Gyðinga á tuttugustu öldinni, hafi verið af gyðinglegum stofni sjálfur og snúist gegn eigin blóði ? Það er ekki óþekkt fyrirbæri að persónur sem hafa hatrið eitt að stefnumiði og bera anda tortímingar og glötunar í brjósti sér, hatist fyrst og fremst við eigið blóð !

En við skulum líka hafa það hugfast að sú andlega auðlegð sem við höfum eignast í gegnum Biblíuna og kristindóminn er meiri en nokkrum manni er fært að skilja. Og hin illu öfl andaheimsins vilja auðvitað ræna okkur þeirri auðlegð. Það er hart vegið að kristnum gildum í dag og þar eru að verki þessi sömu öfl, þau hatast við kristindóminn og þau hatast við Gyðinga og alla guðlega opinberun. Þessi öfl hafa víða komið sér vel fyrir í kirkjum samtímans og hafa þar malandi málpípur sem í raun tala gegn því sem þær ættu að standa fyrir.

En þessi öfl munu ekki sigra og geta ekki sigrað því barátta góðs og ills getur aðeins endað á einn veg - með því endanlega uppgjöri sem Guð mun stjórna.

Hin miklu áhrif Biblíunnar á mannlíf þessa heims, má meðal annars lesa í  gegnum það að nöfn margra persóna í hinni helgu bók eru kunn og algeng um veröld alla. Meðal flestra þjóða má finna sérþjóðlegar útlagningar af þeim, meðal Múhameðstrúarmanna eru nöfn eins og Ibrahim og Yussef afar algeng en þau eru náttúrulega arabískar útlagningar af nöfnunum Abraham og Jósef.

Sama má segja um mörg önnur nöfn af gyðinglegum uppruna.

Á Íslandi hefur nafn Abrahams ekki fest sig mikið í sessi og held ég að það geti hugsanlega verið vegna þess að það þyki eiginlega of mikið Gyðingabragð af því. En nöfn hinna ættfeðranna, Ísaks og Jakobs, eru talsvert við lýði, einkum þó það síðara. Og svo hafa mörg kvennöfn úr Gamla og Nýja Testamentinu notið hér mikilla vinsælda, svo sem María, Elísabet, Rebekka, Rakel, Rut, Sara og Ester, svo dæmi séu nefnd.

Synir og dætur Abrahams eru víða og eins og Eleanor Parker sagði, erum við kannski öll að einhverju leyti Gyðingar innra með okkur, en eins og Peppard er látinn segja í myndinni Tobruk, er kannski lítill nazisti þar líka í mörgum.

Vonandi verður hann þó hvergi stór í neinum aftur eins og hann var í Adolf Hitler og helstu fylgjendum hans.

Sporin ættu sannarlega að hræða menn í þeim efnum !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 42
  • Sl. sólarhring: 429
  • Sl. viku: 1451
  • Frá upphafi: 315432

Annað

  • Innlit í dag: 42
  • Innlit sl. viku: 1168
  • Gestir í dag: 42
  • IP-tölur í dag: 42

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband