Leita í fréttum mbl.is

Bandaríkin og örlagadómur þeirra !

 

Bandaríkin hafa um alllangt skeið notið álits í heiminum langt umfram verðleika. Að vísu hefur þetta álit verið að hjaðna talsvert síðustu tuttugu árin eða svo, enda fullar forsendur fyrir því, en enn er þetta ríki ofmetið af mörgum og talið höfuðvígi margra góðra réttlætismála.

Þó svo hafi vissulega verið í eina tíð er það löngu liðinn tími og nú í dag er ljóst að hvorki Demókrataflokkurinn né Republikanaflokkurinn eru flokkar þeirra hugsjóna og þeirra gilda sem gerðu Bandaríkin í upphafi að einu merkasta ríki sem nokkru sinni hefur verið sett á fót. Þessir flokkar hafa fyrst og fremst orðið flokkar auðstétta landsins og það er langt síðan þeir höfðu þá hugsjónalegu burði að höfða verulega til almennings með stefnu sinni.

Sumir telja í dag að Republikanaflokkurinn sé orðinn svo hægrisinnaður að hann vanti lítið á að breytast í einhverskonar fasistaflokk. Demókrataflokkurinn hefur verið á aumingjalegri pólitískri siglingu um nokkuð langt skeið, ekki síst eftir siðferðilega lágkúru Clinton-tímabilsins, og vandséð er fyrir hvað flokkurinn stendur í raun. Hann nýtur þess þó að margir kjósa hann vegna þess að þeir telja hann skömminni skárri en keppinautinn. En það eru hæpin meðmæli í pólitík sem öðru að komast frekar áfram á ágöllum andstæðingsins en eigin verðleikum.

Republikanaflokkurinn sendir nú fram Mitt Romney, fyrrum ríkisstjóra í Massachucetts, sem sitt forsetaefni. Romney virðist samkvæmt tali og gerðum tilvalinn fulltrúi þeirra tíu prósenta íbúa Bandaríkjanna sem velta sér í mestum auði. Hann er mormóni en það virðist ekki skipta neinu máli í dag. Hann er virkur í söfnuði Hinna Síðari daga Heilögu eins og mormónar kalla sig, hefur verið trúboði á þeirra vegum og gegnt stöðu biskups.

Fyrir 52 árum var demókratinn John F. Kennedy fyrsti bandaríski kaþólikkinn til að verða forseti og mörgum þótti þá sem það færi ekki vel saman við bandaríska stjórnarfars-arfleifð að kaþólskur maður yrði forseti, en nú er mormóni talinn frambærilegastur sem fulltrúi Republikana !

Kannski segir það sitt um það hvar Bandaríkjamenn eru á vegi staddir um þessar mundir og hver tenging þeirra er við þau gildi sem leiddu til stofnunar ríkisins ?

Obama forseti hefði að mínu áliti alveg getað fengið hættulegri andstæðing en Mitt Romney, en þó er enganveginn víst að hann sigri þó telja verði það mun líklegra. Miklu ræður hvað gerist á endasprettinum og Obama má ekki við því að misstíga sig mikið. Hann hefur verið við völd undanfarin 4 ár og þær væntingar sem til hans voru gerðar þegar hann tók við embættinu voru slíkar að enginn maður hefði getað uppfyllt þær. Þessvegna eru víða vonbrigði til staðar hjá kjósendum og það gæti skaðað útkomu Obama.

Heimurinn eins og hann er orðinn nú á dögum, tók því svo til gagnrýnislaust að friðarverðlaun Nóbels væru veitt Obama fyrir ódrýgðar dáðir, og er það einn lægsti punktur þeirrar verðlauna-veitingar frá upphafi, enda fyrir löngu búið að eyðileggja sögulegt gildi þessara verðlauna. Svo margir óverðugir hafa fengið þau.

En nú í dag höfum við sem sagt mann á meðal okkar sem er handhafi friðarverðlauna Nóbels og jafnframt æðsti yfirmaður Guantanamo fangabúðanna og ábyrgur fyrir því sem þar er gert og hefur verið gert ! Það hefur löngum sitthvað þótt öfugsnúið sem sagt er að hafi verið og sé unnið í þágu friðarins, ekki síst nú á tímum, en villuviðhorf mannkynsins eru líka stöðugt að aukast á kostnað heilbrigðrar dómgreindar.

Og varðandi forsetakosningarnar í Bandaríkjunum, mætti sem best spyrja, um hvað stendur valið ? Er þar um að ræða litrík framboð eða eru þau bara í sauðalitunum ? Og skiptir það í raun svo miklu máli í dag hver er forseti Bandaríkjanna yfir höfuð, þegar sá sem situr í Hvíta húsinu er orðinn illa staddur skuldunautur í veröldinni og lánardrottinn hans er ríkisstjórn Rauða-Kína ?

Nei, það liggur ljóst fyrir að Bandaríkin eru búin að lifa sitt fegursta og þau hafa farið illa með sitt fyrrum glæsta pund. Þau hafa lifað á gömlum orðstír allt of lengi. Litlu sem engu hefur þar verið bætt við af dáðum í háa Herrans tíð, en ódáðunum hefur sífellt fjölgað.

Allt það fegursta og besta sem býr í Bandaríkjunum, er enn í dag beintengt við frelsishugsjónir og afrek frumherjanna Washingtons, Adams, Jeffersons, Franklins og annarra sem lögðu dyggar hendur að verki til að gera þetta ríki að veruleika. Og þar í framhaldi tóku svo aðrir við sem héldu áfram verki þessara mikilhæfu manna, menn eins og Madison, John Quincy Adams, Daniel Webster og Abraham Lincoln.

En Bandaríkin í dag eru ekki lengur það ríki sem þessir menn sköpuðu !

Það er langt síðan þau fóru út af því spori og síðan hafa þau barist um í þoku og villu hrokans og heimsvaldastefnunnar eins og svo mörg valdamikil ríki á undan þeim sem nú eru svipur hjá sjón eða heyra sögunni til.

Og það kemur líka að því að Bandaríkin munu heyra sögunni til og það er ekki víst að langt sé í það. Þau hafa þegar verið dæmd og verið léttvæg fundin og dómurinn yfir þeim er ákveðinn. Hroki þeirra verður gerður að engu.

Það sem mun gerast, verður slíkt að vöxtum að New Orleans hörmungarnar munu verða sem smámunir hjá því. Afleiðingar komandi náttúruhamfara á vesturströnd Bandaríkjanna munu verða heimssögulegar.

Jarðskjálftinn sem kemur mun verða ógurlegur. Kalifornía mun fá að finna fyrir því. Misgengið mun brjóta sig upp og landið falla saman, hafið mun ryðjast inn og kaffæra geysileg landsvæði. Fyrsta viðvörunin um þessar komandi hörmungar kom á föstudaginn langa, 27. mars 1964. Það var jarðskjálftinn mikli í Alaska !

Næsta viðvörun kom ári síðar, það var jarðskjálfti upp á 7,0 á Richter, skjálftamiðjan var í Puget-sundi, um 24 km suður af Seattle - leiðin hefur legið niður vesturströndina og næst er það Kalifornía !

Bandaríkin verða öðruvísi útlits og svipur hjá sjón þegar Kyrrahafið verður komið inn að Kentucky og Englaborgin á grængolandi dýpi !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 11
  • Sl. sólarhring: 398
  • Sl. viku: 1420
  • Frá upphafi: 315401

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 1137
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband