Leita í fréttum mbl.is

Hvað eru skipulögð glæpasamtök ?

Í nokkuð mörg ár hefur verið hamrað á því í fjölmiðlum og eiginlega öllu opinberu lífi, að við Íslendingar séum alltaf að sækja í okkur veðrið á öllum sviðum. Jafnvel efnahagshrunið alræmda gat ekki á nokkurn hátt kveðið niður þá sjálfsupphafningar-síbylju. Áfram var sömu grobb-umræðunni viðhaldið um ríkulegan vöxt á margvíslegum menningarverðmætum og listir og allra handa menntir voru sagðar blómstra sem aldrei fyrr. Við áttum að vera þjóð í mikilli framför og allt að vera á réttri leið til sæmdar og sigra !

Og enn er talað svona - en hvernig er að bera hlutina saman við fyrri tíma, því við þurfum ekki að fara langt til að finna annan tíma og annað þjóðfélag sem var satt best að segja miklu manneskjulegra en það sem blasir við augum í dag.

Og höfum við þá nokkuð verið að ganga götuna til góðs síðastliðin 30 ár ?

Árið 1967 var leigubílstjóri í Reykjavík skotinn til bana og atburðurinn þótti svo hryllilegur, að þjóðin öll hefði í raun þurft áfallahjálp í kjölfarið miðað við það ferli sem tíðkað er í dag og þykir sjálfsagt mál. Þjóðfélag okkar á þeim tíma mátti nefnilega heita ofbeldislaust ef við berum það saman við " framfarirnar " sem orðið hafa á þessu sviði síðan. Það þótti ekki til siðs að drepa fólk og það datt varla nokkrum manni slíkt í hug á þeim árum.

En nú kippir sér enginn maður upp við það þó morð sé framið í Reykjavík og sumir telja líklega að slíkir atburðir séu bara eðlilegir fylgifiskar borgarmenningar og aukinnar aðlögunar að sjálfri heimsmenningunni. Það liggur við að maður sjái einhvern menningarfrömuðinn fyrir sér, segja með spekingslegum svip: " Glæpir eru bara eitt af því sem gera mannlífið litríkara og meira spennandi !" Þess má líka geta að glæpasagnaritun er víst orðinn stór þáttur í  " bókmenntalegri menningu " í landinu og miklar " framfarir " í þeim efnum !

Það er nefnilega eitt af því undarlega í mannlífinu, að það vill enginn verða myrtur en mörgum virðist þykja ákaflega gaman að lesa um morð á öðrum. Í því felst sjálfsagt einhver menningarleg framfaramynd þó ég komi ekki auga á hana.

En í stuttu máli sagt, hafa ofbeldisverk aukist geysilega mikið hérlendis á síðustu 30 árum eða svo, ásamt því að birtingarmyndir ofbeldis nú á dögum eru orðnar afskaplega grófar og oft merktar af algjöru virðingarleysi gerenda gagnvart lífi annarra.

Öryggiskennd borgara landsins og þó einkum íbúa á Stór-Reykjavíkursvæðinu hefur rýrnað svo á síðustu árum við allar " framfarirnar " á þessu sviði, að það er engin leið að bera stöðuna í dag saman við hlutina eins og þeir voru meðan við gerðum okkur ennþá grein fyrir því að við værum bara venjuleg lítil þjóð.

Samkvæmt fyrri skilningi okkar Íslendinga mynduðum við hér fyrir 1970 nokkurnveginn glæpalaust samfélag. Félagsleg samstaða var miklu meiri þá en nú og fólk hjálpaðist að með hlutina og það þótti bara sjálfsagt í þá daga.

Og þessi gamli mannskilningur fólks á stöðu mála hérlendis gerði það að verkum, að engin lifandi sál lét sér til hugar koma að hér gætu verið starfrækt glæpasamtök, hvað þá skipulögð glæpasamtök !

Róttækir vinstri menn úthúðuðu gjarnan íhaldinu en héldu því þó aldrei fram að stjórnmálaflokkur hægri manna væri í rauninni bara skipulögð glæpasamtök, og menn lengst til hægri kölluðu sósíalista flestum illum nöfnum en töluðu þó ekki um að þeir væru félagar í skipulögðum glæpasamtökum !

Menn gátu til dæmis haft sínar skoðanir á SÍS, LÍÚ eða Íslenskum aðalverktökum, en enginn talaði þó beinlínis um skipulögð glæpasamtök í þeim tilfellum eða öðrum !

Þjóðfélagið á þeim tíma var í rauninni svo saklaust að það hefði vel verið hægt að reka hér skipulögð glæpasamtök án þess að fólk gerði sér grein fyrir því !

Og sumir myndu kannski vilja spyrja sem svo, það skyldi þó aldrei hafa verið gert ?

Hvernig var það til dæmis með hinn svokallaða Kolkrabba, hverskonar fyrirbæri var hann og hvaða dagskrá fylgdi hann hér á árum áður ?

Það má velta ýmsu fyrir sér varðandi þessa hluti, en hinsvegar er staða mála í núinu sögð sú, að íslensk yfirvöld séu einhuga í því að mynda skjaldborg ( já, enn eina skjaldborgina ) og að þessu sinni til að verja þjóðina fyrir innrás skipulagðra glæpasamtaka ?

Slík fyrirbæri hafa greinilega - samkvæmt skilningi yfirvaldanna - aldrei verið til í íslensku samfélagi áður.......!  Hættan er því sögð afskaplega mikil og í raun voðalegt mál ef okkar góða og friðsama þjóðfélag fengi slíka óværu yfir sig og það í fyrsta sinn !!!

Ef samfélag okkar opnaðist fyrir starfsemi skipulagðra glæpasamtaka gæti fólk líklega orðið fyrir barðinu á margskonar ógæfu sem bitna myndi á þjóðlegri velferð. Við getum ímyndað okkur að þar gæti ýmislegt illt verið á ferðinni, svo sem sérhagsmunagæsla verðtryggingar, rán á ríkiseignum, kvótaeinokun, allskyns bankasvínarí, stóriðjuspilling og einkavæðing andskotans - svo eitthvað sé nefnt, en eins og við vitum höfum við verið laus við slíkt fram til þessa - já, eða þannig !!!

En menn skulu gera sér grein fyrir að það breyttist margt í landinu við efnahagshrunið ! Þar á meðal staðan á trausti almennings á yfirvöldum þessa lands, hvort sem við tölum um þjóðmálasviðið eða sveitarmálasviðið. Traustið á ráðamönnum fór niður fyrir núll !

Fólk fór að skilja að það væru ærið margir á þessum vettvangi sem væru hreint ekkert með það í huga að starfa fyrir land og þjóð. Það væru hinsvegar fjölmargir þar eingöngu með það í huga að sveima í kringum kjötkatlana til að veiða þar eftirsóknarverða bita fyrir sig og sína.

Svo nú er hinn gamli íslenski sakleysis-skilningur ekki lengur fyrir hendi hjá fólkinu í landinu. Meðferðin á þjóðinni hefur knúið fram önnur og harðari viðhorf. Það er kominn fram nýr skilningur, skilningur sem hefur grafið sig djúpt í hrikalegt arðrán og spillingarferli liðinna ára, yfirgengilega mismunun  á mörgum sviðum - af hálfu yfirvalda og pólitískra valdahópa gagnvart hagsmunum almennings. Og þessi nýi skilningur, knúinn fram í gegnum bitra reynslu og djúpstæð vonbrigði, vekur upp spurninguna í fyrirsögn þessa pistils og það í mögnuðum krafti réttlátrar reiði :

" Hvað eru skipulögð glæpasamtök ?

Eru það gömul grímuklædd samtryggingarsamtök sem hafa arðrænt og hlunnfarið íslensku þjóðina undir fölsku flaggi og sauðargæru til margra ára - það skyldi þó aldrei vera - eða er um að ræða nýjan menningargróður í ofbeldisrækt seinni ára, sem er alveg grímulaus og þekkist á leðrinu og lyktinni, húðflúrum og hnúajárnum ?

Ég læt hverjum og einum um það að svara því fyrir sig !

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 232
  • Sl. sólarhring: 274
  • Sl. viku: 1421
  • Frá upphafi: 314708

Annað

  • Innlit í dag: 194
  • Innlit sl. viku: 1108
  • Gestir í dag: 188
  • IP-tölur í dag: 187

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband