Leita í fréttum mbl.is

Sjálfseyðingarhvöt Byssuríkjanna !

Enn einu sinni hefur verið framið skelfilegt ofbeldisverk í Bandaríkjunum, þar sem brjálaður maður virðist hafa gengið berserksgang, vopnaður margskota byssum úr heimilisvopnabúrinu. Og ennþá einu sinni eru fórnarlömbin aðallega saklaus börn ! Hvað oft þarf svona atburður að eiga sér stað til þess að yfirvöldin rumski og geri sér grein fyrir skyldum sínum gagnvart öryggi fólksins í landinu, landinu þar sem allir virðast geta gengið gráir fyrir járnum ef þeim sýnist svo.

Bandaríkin ættu eiginlega öllu heldur að heita Byssuríkin ! Það virðast vera trúarbrögð þar, að hver maður eigi að geta keypt sér skotvopn eins og honum sýnist, því það eigi að vera hlutur af sjálfstæði og frelsi hvers manns.

Það er spurning hvort þetta viðhorf eigi ekki rætur sínar í landnemasögunni gömlu, þegar indíánar áttu það til að birtast skyndilega og verða þeim að skaða sem voru að stela landi þeirra. Þá gilti það sem á sýnilega að gilda enn í dag, að eiga nóg af skotvopnum á heimilinu !

Og nú er svo komið, að það hefur verið byggður upp heilmikill sértrúarsöfnuður á amerískan stórmælikvarða, sem dýrkar byssuna og telur það mannréttindi af fyrstu gráðu að allir megi eiga sem mest af byssum. Manngildi bandarískra karlrembusauða fer víst svo til alfarið eftir því hvað þeir eiga margar byssur !

Maður sem á ekki byssu er talinn aumingi og maður sem kann ekki með skotvopn að fara er ósjálfbjarga aumingi. Í ríki þar sem stór hluti af þjóðhetjunum samanstendur af fyrrverandi byssubófum, verða allir sem vilja kallast menn með mönnum, að kunna skil á því að skjóta. Ef einhvers þarf að spyrja, er hægt að gera það á eftir kúlnahríð og púðurreyk, þó reyndin sé  oftast sú að dauðir menn tala ekki af sér !

Og menn sem dýrka Johnny Ringo, John Wesley Hardin, Billy the Kid, Clay Allison, Jesse James og alla þessa löngu dauðu krimma vestursins, dýrka auðvitað líka byssuna. Án hennar hefðu fyrrnefndir gaurar ekki verið neitt neitt !

Svo arfleifðin virðist kalla á sitt og skólastofurnar verða því að slettast út í blóði nemenda og kennara meðan frelsið til að eiga vopnabúr er talið vera grundvöllur mannlegrar reisnar af fyrstu gráðu í Byssuríkjunum, The Gun States !

Og sumir gætu svo sem spurt, mega þá ekki Byssuríkin búa við sitt í þessum efnum ? Mega þá ekki frjálsir og sjálfstæðir byssueigendur velja sér skotmörk að vild í skólum landsins og annarsstaðar þar sem þeir kjósa að opinbera mannréttindi sín, með því að drepa saklausa og varnarlausa samborgara sína með skothríð í allar áttir ?

Og þó menn kjósi að æfa sig heimafyrir og byrji á því að skjóta mömmu gömlu, er það ekki bara amerísk arfleifð sem verður að fá að hafa sinn gang ?

Kannski var mamma gamla yfir sig hrifin af byssum sjálf og vildi hafa byssur upp um alla veggi heima fyrir ?

Það þarf svo sem ekki karlrembusauði til að byssan sé dýrkuð þarna vestanhafs því svo virðist sem kvenrembusauðirnir séu engu skárri í þessum efnum í landi hins óhefta ofbeldis !

Og það læra börnin sem fyrir þeim er haft, segir á vísum stað !

En mega Byssuríkjamenn ekki bara ganga fram í sinni sjálfseyðingarhvöt og verða sjálfum sér og byssufrelsi sínu áfram til skammar með þeim hætti sem öll heimsbyggðin þekkir ?

Flestar aðrar þjóðir væru búnar að taka fast á þessu máli, eftir alla þá harmleiki sem átt hafa sér stað og eiga fyrst og fremst rætur í þeirri þráhyggju sértrúarsafnaðarins sem fyrr er nefndur, sem gengur út á það - að byssan sé og eigi að vera aðalsmerki frelsisins í Ameríku !

Og svo eru unglingar og börn pilluð niður af brjálæðingum ár eftir ár og það er bara grenjað og vælt í smátíma, en svo ekki meir, og byssudýrkunin heldur síðan áfram eins og ekkert hafi í skorist !

Og margur furðulostinn maðurinn spyr :

Hvað þarf fórnarkostnaðurinn að verða hár til að hafist sé handa við að afnema vitleysuna ? Hvenær skyldu bandarísk stjórnvöld sýna þann manndóm að setja strangar reglur sem takmarka borgaralegt aðgengi til vopnakaupa ?

Sjálfseyðingarhvöt Byssuríkjanna sem birst hefur í síendurteknum fjöldadrápum byssumanna á almennum borgurum landsins er orðinn einn svartasti skammarbletturinn á bandarísku þjóðfélagi og er þó af mörgu að taka í þeim efnum ! Hvenær skyldi verða hafist handa gegn þessu þjóðarböli með viðhlítandi hætti ? Er Obama alveg sama ?

Þarf hann ekki að fara að vinna fyrir friðarverðlaununum ?

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 43
  • Sl. sólarhring: 107
  • Sl. viku: 1472
  • Frá upphafi: 315642

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 1184
  • Gestir í dag: 30
  • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband