Leita í fréttum mbl.is

Hin óheppilegu kristnu gildi !!!

Á nýafstöðnum landsfundi flokks sem telur sig alltaf hafa það besta fram að færa fyrir alla þrátt fyrir ljótar staðreyndir um hrun og hrollvekjur, gerðist dálítið merkilegt - aldrei þessu vant !

Kannski átti það sér stað með eftirfarandi hætti :

Nokkrir menn í flokknum sem vilja heita kristnir, voru svo einfaldir að halda að hægt væri að fá á fundinum samþykkta tillögu um að mið skyldi tekið af kristilegum gildum og hefðum við alla lagasetningu í samfélaginu !

Tillagan var borin fram og fékk stuðning í fyrstu, en brátt fóru að renna tvær grímur á ýmsa og allmargir spurðu sessunauta sína hvað fælist eiginlega í þessum pakka ? Og svör við því virtust ekki liggja á lausu !

Það fór að fara töluverður titringur um fundarsalinn út af þessu máli, og ungliðar flokksins urðu brátt háværastir allra eins og þeim er tamt, enda flestir verið stríðaldir á frjálshyggju frá blautu barnsbeini. Þeir spurðu því hver í kapp við annan í miklum æsingi :

" Hvað er verið að meina með þessu og hvað felst í þessum kristnu gildum, veit það nokkur ? "

Þeir höfðu skiljanlega enga þekkingu á því sjálfir og fóru því að spyrja þá sem eldri voru sem þeir voru þó annars ekki vanir. Þarna voru nokkrir prestar á fundinum, því það hefur alltaf verið töluvert um presta í þessum flokki þó undarlegt sé, en sumir vilja meina að það sé lifandi sönnun þess að hægt sé að þjóna bæði Guði og Mammon, ef menn leggja sig bara verulega fram við það !

Ungliðarnir voru svo heppnir að hitta á einn af þessum hæfnisríku prestum sem tilheyra flokknum og spurðu hann hvað væri átt við með þessu tali um að tekið skyldi mið af kristnum gildum ?

Prestur svaraði spurningunni góðlátlega og sagði að það væri nú bara átt við þessar gömlu góðu reglur, " þú skalt ekki stela og þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum og ekki girnast hús hans og eigur  o.s.frv.o.s.frv ! "

Ungliðunum snarbrá við að heyra þetta og þeir litu skelfingu lostnir hver á annan. Þeir fengu ekki betur heyrt en að með þessari tillögu væri vegið að sjálfum tilvistar-grundvelli flokksins ! Hvernig gat mönnum dottið annað eins og þetta í hug  ?

Þeim varð þegar ljóst að þetta yrði að stöðva hvað sem það kostaði.........!

Það væri þokkalegt eða hitt þó heldur ef það ætti að setja eðlilegri sjálfsbjargarviðleitni manna svo afgerandi skorður ! Þeir fóru umsvifalaust í menn sem tilheyrðu kjarna flokksforustunnar og sögðu þeim hvers þeir hefðu orðið áskynja !

Og viti menn, valdamennirnir urðu hvítir á vangann og sögðust ekki hafa haft hugmynd um að meiningin með því að tala um stuðning við kristileg gildi, fæli það í sér að mönnum væri beinlínis bannað að bjarga sér !

Það var í skyndi kallaður saman neyðarfundur í bakherbergi þar sem helstu lykilmenn flokksins mættu. Nokkrir menn í flokknum sem lengi hafa verið orðaðir við kristni og áttu því hlut að þessari tillögu, voru kallaðir á fundinn og þeir beðnir af miklum þunga um skýringar á því hvað átt væri við með þessu ákvæði um kristin gildi ?

Og þegar þeir höfðu úttalað sig í hjartans einfeldni um málið, var lykilmönnunum ljóst að flokkurinn átti hreint ekki samleið með þessum kristnu gildum ! "

" Þau eru svo afskaplega óheppileg að inntaki, "  sagði einn lykilmannanna við hina kristnu flokksmenn hálf afsakandi. Einn þeirra sem var enn á valdi mikilla vonbrigða sagði fúll í bragði:

" Þau eru nú bara eins og Kristur vildi hafa þau ! "

" Ja, við skulum nú ekki vera að blanda honum inn í þetta ! "  svaraði hinn og skaut sér bak við félaga sína í hópnum.

Og þar með var þessari stórhættulegu tillögu kippt í flýti til baka og flestir á fundinum önduðu léttar, nema kannski þessir fáu sem telja sig þar kristna.

En hvað eru slíkir menn annars að gera þarna, eru þeir kannski líka í þessari tvöföldu þjónustu sem er orðin svo algeng í þjóðfélaginu ?

Einn flokksmaður sem hefur barist mjög fyrir kristnum gildum á undanförnum árum í ræðu og riti, sagðist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með slátrun tillögunnar og það væri ljóst að flokkurinn væri ekki kristinn !

Það er nefnilega það !

Er þá stætt á því fyrir menn sem vilja heita kristnir, að þjóna flokksvaldi sem sett hefur sig svona afgerandi á móti því að tekið sé mið af kristnum gildum og hefðum við lagasetningu hérlendis ?

Er í raun og veru hægt að þjóna bæði Guði og Mammon ?

Svari því hver fyrir sig, en það ættu flestir að vita hvað Biblían segir um það og það er nægilegur vitnisburður fyrir mig sem þetta skrifa.

Hinsvegar þykist ég vita að enginn segi sig úr flokknum út af þessu tilefni og það segir mér hvaða vægi hlutirnir þar raunverulega hafa !

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 149
  • Sl. sólarhring: 362
  • Sl. viku: 1558
  • Frá upphafi: 315539

Annað

  • Innlit í dag: 144
  • Innlit sl. viku: 1270
  • Gestir í dag: 143
  • IP-tölur í dag: 142

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband