Leita í fréttum mbl.is

Ein lítil dæmisaga !

Einu sinni var ákveðið að byggja stórt hús sem rúmað gæti tiltekna örþjóð.

Það var mikill vilji fyrir verkinu svo allir sem vettlingi gátu valdið komu að þeirri byggingu. Það vantaði ekki hjá fólki fúsleika til verksins og það hafði greinilega mikla trú á því að í húsinu yrði gott að búa fyrir þá sem þar áttu að eiga heima.

En byggingin krafðist auðvitað margs og það tók sinn tíma að koma henni upp. Það verður seint hægt að lýsa öllu því erfiði sem fylgdi þeirri baráttu og margir voru þeir sem féllu í miðju stritinu og lifðu það ekki að sjá sigurdaginn þegar flutt yrði inn í nýja húsið.

Í baráttusögu þeirri segir frá mörgum hetjum sem lögðu mikið fram af fórnfýsi og óeigingirni og án slíkra hefði byggingin aldrei orðið að veruleika.

En að lokum var svo komið, fyrir mikinn samtakamátt og þrotlaust starf, að til varð þetta stóra hús sem átti að rúma þessa litlu þjóð, og víst var það stæðilegt á að líta og sumum fannst það eiginlega stórglæsilegt !

Þarna stóð það loksins, samsvaraði sér nokkuð vel og virtist ætla að mæta með forsvaranlegum hætti þeim kröfum sem til þess þurfti að gera.

Íbúarnir voru í fyrstu mjög ánægðir og margir þeirra héldu áfram að hlynna að öllu og snyrta og laga. Þeir voru stoltir af því sem hafði áunnist !

Þeim fannst skyldurnar kalla áfram á það að vel væri sinnt um húsið, svo það héldi þeirri stöðu og hlýddi því hlutverki að vera til gagns og prýði og gæða fyrir íbúana og ekki bara þá, heldur líka alla sem kærðu sig um að koma í heimsókn !

Þeir sem best voru settir efnalega höfðu í upphafi fengið að ganga í valið með aðstöðu í húsinu og var það í takt við tíðarandann. Þeir höfðu tekið efstu hæðirnar undir sig og sitt skyldulið og vildu hafa mesta útsýnið.

Sá hluti hússins fékk því nokkuð fljótt heitið Valhöll. Aðrir hlutar hússins fengu líka sín heiti, miðhlutinn var nefndur Sambandshúsið en neðstu hæðirnar voru kallaðar Almenningshúsið.

Húsið rúmaði að vísu alla en það kom snemma í ljós að samskipti milli hæða urðu ekki eins og vonast hafði verið til. Húshlutirnir afmörkuðu sig furðu fljótt frá hvor öðrum og sumir íbúanna urðu fljótlega ónæmir fyrir lífinu í húsinu nema þá því sem gerðist á þeirra hæð. Það virtist einkum gilda um þá sem byggðu efstu hæðirnar.

Og fljótlega kom líka í ljós að það höfðu aldrei verið útfærðar fastmótaðar húsreglur. Flestir höfðu verið svo önnum kafnir við að koma húsinu upp að það hafði alveg gleymst að setja varanlegar reglur varðandi rekstur þess og afkomu í komandi tíð !

Það skorti alveg skýrar reglur um það hvernig réttindi og skyldur ættu að haldast í hendur og hvernig umgengni fólks við hvert annað ætti að vera í húsinu. Þetta varð til þess að skapa verulegan vanda.

Brátt kom líka upp sú leiðinlega staða, að íbúarnir á efstu hæðunum fóru í bókstaflegri merkingu að líta niður á þá sem bjuggu á neðri hæðunum og fyrirlíta þá nánast sem bjuggu í kjallaranum og þar í nánd !

Þegar húsfundir voru haldnir, fóru málin jafnan svo að íbúum efstu hæðanna tókst með allskyns brellum og brögðum og ekki síst efnalegum yfirburðum að ráða alfarið öllu varðandi málefni hússins. Stundum sömdu þeir um einhverjar ívilnanir til handa íbúunum á miðhæðunum gegn stuðningi þeirra eða fengu jafnvel einhverja af neðstu hæðunum til að standa með sér út á eitthvað sem einhversstaðar hefði verið kallað mútur.

Loks var svo komið að hin mikla bygging var farin að láta mjög á sjá vegna þess að íbúar efstu hæðanna sem öllu réðu og höfðu lifað hreinasta lúxuslífi á kostnað annarra í húsinu, höfðu gersamlega komið í veg fyrir eðlilegt viðhald hússins og allan aðbúnað sem gat komið öðrum íbúum þess og byggingunni sjálfri til góða.

Í skjóli þess að nákvæmar húsreglur voru ekki fyrir hendi og séð hafði verið til þess að þær yrðu það ekki, hafði mafía efstu hæðanna leikið lausum hala og hvorki skeytt um skyldur eða ábyrgð. Það eina sem hafði skipt máli fyrir hana var að hafa alla sína hentisemi í húsinu hvað sem aðrir sögðu.

Og að því kom að húsið mikla riðaði nánast til falls !

Þá skildu íbúar neðstu hæðanna loksins að eitthvað verulega mikið væri að !

Þeir fylltust skelfingu og sameinuðust um þá kröfu að fá yrði sem fyrst skýrar og góðar húsreglur sem kvæðu á um skyldur og ábyrgð allra íbúanna í húsinu, líka þeirra á efstu hæðunum, nokkurskonar hússtjórnarskrá !

Íbúarnir á efstu hæðunum urðu strax fúlir og reiðir og töldu enga þörf á því að breyta gömlu húsreglunum sem hefðu bara dugað vel. Þegar þeim var bent á aumlegt ástand hússins að utan sem innan, svöruðu þeir því til að það hefði alltaf verið hægt fyrir aðra íbúa að ræða þau mál á húsfundum, en enginn hefði vakið máls á því. Allt hefði verið í opnu og lýðræðislegu fari.

Þeir bæru ekki ábyrgð á ástandi hússins, að minnsta kosti ekki meiri ábyrgð en aðrir sem byggju í því og það væri fáránlegt að kenna þeim um hlutina !

Og við þessar aðstæður er spurningin auðvitað  - hvað á að verða um húsið mikla, sem við getum kallað þjóðfélagsbygginguna okkar ?

Á sjálfstæðismafían að halda áfram að einoka efstu hæðirnar og vaða yfir allt og alla og koma í veg fyrir að heiðarlegar húsreglur fái að gilda ?

Getur fólk ekki gert eitthvað í þessu máli, til dæmis 27. apríl næstkomandi ?

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 375
  • Sl. sólarhring: 384
  • Sl. viku: 1632
  • Frá upphafi: 316633

Annað

  • Innlit í dag: 314
  • Innlit sl. viku: 1318
  • Gestir í dag: 293
  • IP-tölur í dag: 288

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband