Leita í fréttum mbl.is

,,Ó, Sigmundur Davíð ! ´´

Nú þegar vilja ýmsir meina að farnir séu að birtast brestir í hin hástemmdu kosningaloforð Framsóknar. Mörgum þótti til dæmis ills viti þegar Sigmundur Davíð fór að segja að hann hefði ekki  vitað fyrr að staða ríkissjóðs væri svo slæm sem raun bæri vitni og þetta og hitt þyrfti að athuga betur !

Nú vita allir að kosningasigur Framsóknar verður einkum og sér í lagi skýrður með loforðum formannsins um leiðréttingar varðandi skuldamál heimilanna !

Þessi eftir-kosninga-ummæli Framsóknargoðans hafa því virkað á suma eins og einhverskonar forboði fyrstu undirbyggingar í málflutningi hans fyrir komandi undanhald í loforðamálunum og sumir óttast að það verði ekki staðið við mikið. Þeir eru til sem telja að Framsóknarforinginn sé þarna strax að byrja að svíkja og leið hans í því sé að beita fyrir sig gamalkunnugri prettapólitík.

Það virðist þó ljóst að staða ríkissjóðs sé ekki svo slæm að viðhalda þurfi veiðigjaldi, en þar kemur þó líklega fleira til.  Þegar LÍÚ stjórn tekur við völdum ræður LÍÚ trúlega ferðinni og blágræna auðvaldið í sjálfstæðisframsókninni verður líkast til að hlýða sínum herrum !

Síðustu fjögur árin hefur formaður Framsóknarflokksins sem kunnugt er verið manna iðnastur við það, ásamt Bjarna meðbróður sínum, að gera sitjandi ríkisstjórn allt til óþurftar og mæðu. Öll bjargráðastefna ríkisstjórnarinnar, sama hvert litið var, var ómöguleg að mati Sigmundar Davíðs því alltaf hafði hann sýn til annarra og betri úrræða.

En þegar hann hefur, í krafti þessara allt umlykjandi úrræða sinna og glæsilegra loforða um betri tíð og blóm í haga, unnið stóran kosningasigur, fer hann allt í einu að tala um vandamál sem komin séu í ljós, vandamál sem höfðu að hans mati hreint ekki verið til áður. En þó hafði hann í kosningabaráttunni afgreitt allt tal um vandamál með þeirri röksemd að það væru þúsund leiðir til að sigrast á þeim og alls staðar tækifæri til að gera betur !

Er slíkt ekki forkastanlegt lýðskrum ?

Og Sigmundur Davíð hefur talað um nýjan kafla í stjórnmálum, ný og betri samskipti og að allt sé að breytast í þeim efnum ? Ef ég skoða pólitíska framgöngu hans yfir síðasta kjörtímabil, sé ég ekki að hann hafi þar verið sérstakur boðberi einhverrar siðvæðingar í stjórnmálum eða að hann hafi skorið sig frá öllum öðrum með meiri trúverðugleika og sannari hætti !

Höskuldur Þórhallsson gæti kannski borið því vitni af eigin raun, að Sigmundur Davíð sé brautryðjandi nýrra starfshátta í pólitískum leikfléttum, en ég efast um að hann geri það og skil það reyndar ósköp vel. Upplifun þolanda er nefnilega yfirleitt allt önnur en upplifun geranda !

Og ég segi hiklaust - verði íslenska þjóðin, enn og aftur og jafnvel meira en nokkru sinni fyrr, þolandi svikinna loforða - býð ég ekki í framtíð þeirrar ríkisstjórnar sem nú er sest að völdum.

Sigmundur trítlar á toppinn

með tvíræðan kosningafeng.

Stjórnin er komin á koppinn

en kannski hún fari í spreng !

Ég er hinsvegar ekki að óska þess að svo fari - ég hef alltaf vonað að sérhver ríkisstjórn Íslands gæti reynst þjóð sinni vel, en því miður eru mörg dæmi um að svo hefur ekki farið. Og mér þykir Sigmundur Davíð ekki trúverðugur sem boðberi þeirra stefnumiða sem hafa nú fleytt honum upp í forsætisráðherrastólinn !

Hvernig mun þessi sjálfskipaði kraftaverkamaður fara að því að framkvæma kraftaverkin, hvernig gerist þessi silfurskeiðardrengur bjargvættur fólksins  í landinu, hvernig ætlar hann að færa rangfengið fjármagn, sem bankar og yfirvöld hafa rænt af fólkinu með ólögum og andstyggð, til fólksins aftur ? Er hann, sem virðist í öllu vera skilgetið afkvæmi auðvaldsins í landinu, líklegur í raun til að standa fyrir slíkum réttlætisverkum og það með sjálfstæðisflokkinn að bakhjarli ?

Trúi því hver sem vill en ekki mun ég trúa því að slíkt gerist fyrr en það liggur fyrir sem staðreynd ! Mér er öllu nær að halda að eitthvað í stíl við eftirfarandi erindi verði að veruleika:

Ó, Sigmundur Davíð þú sigur þinn vannst

með sérstöku loforðaflæði.

En það varir bara á meðan þú manst

og minnið á viðkvæma þræði !

 

Og kannski þú tapir af þráðunum þeim

og það falli sitthvað í gleymsku.

En orkir þú þannig á íslenskan heim

þú endar - sem dæmi um heimsku !

Það er margt hægt að íhuga í sambandi við hina nýju ríkisstjórn og hvernig hún er skipuð og kannski ekki síður hvernig hún er ekki skipuð.

Kringum brellur mála mauks

mælist eitt á hreinu,

að aldrei var þar Vigga Hauks

valkostur í neinu !

En ýmsir aðrir kostir virðast hafa verið kannaðir og viðurkenndir sem slíkir. Og kannski er það - til að mynda - hið besta mál, að utanríkismálefni okkar Íslendinga verði nú um skeið - til reynslu -í höndum Kaupfélags Skagfirðinga !

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 24
  • Sl. sólarhring: 292
  • Sl. viku: 1274
  • Frá upphafi: 316664

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 1002
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband