Leita í fréttum mbl.is

,,Þýskaland öllu ofar" - ?

Það vita allir sem kynnt hafa sér atburði síðustu aldar, að saga hinna hræðilegu öfgaafla  sem náðu völdum í Þýskalandi 1933 og héldu þeim til 1945 með öllu því blóðbaði sem því fylgdi, hefur allar götur síðan verið ömurleg fylgja fyrir þýsku þjóðina.

Nazisminn  er og verður einn lægsti punktur mannlegrar vansæmdar í sögu mannkynsins  og Þjóðverjar hafa á margan hátt sem þjóð liðið fyrir þennan ljóta kafla í sögu sinni.

Mörgum finnst það að verðleikum en til eru þeir líka sem hafa viljað færa Þjóðverjum sitthvað til málsbóta, en oftast virðist þá einhver pólitískur tilgangur vefjast inn í málið. En hvernig sem þessi mál eiga eftir að fara endanlega, er ljóst að það hvernig Þjóðverjar sjálfir meðhöndla þau, ræður mestu um það hvort þeir nái að frelsa þjóðarsál sína að fullu frá hryllingi nazistatímabilsins !

Það er söguleg staðreynd að nazistar náðu völdum eftir lýðræðislegar kosningar sem gáfu þeim milljónir atkvæða !  Margir Þjóðverjar þóttust sjá í Adolf Hitler þann sterka mann sem Þýskaland þyrfti á að halda. Og líklegt má telja, þrátt fyrir að ýmsir slæmir hlutir hefðu þegar gerst, að hefði Hitler farist í  - við skulum segja bílslysi - árið 1937 eða 38, hefði til dæmis orðið undir Wolkswagen bjöllu, væri hann að öllum líkindum talinn meðal virtustu stórmenna þýskrar stjórnmálasögu í dag. Það skiptir nefnilega óhemju miklu máli, þegar sagan er annarsvegar, hvenær valdamaðurinn deyr !

En Hitler lifði hinsvegar nógu lengi til að djöfullinn í honum opinberaði sig til fulls og margir voru yfir sig hrifnir meðan sigurganga Þjóðverja stóð yfir. En hyllingarhrópin Sieg Heil hljóðnuðu í Þýskalandi þegar Þúsund ára ríkið lá í rústum og þjóðin gekk þjáningaveg ósigurs og neyðar. En sumir voru samt orðnir þannig innréttaðir til sálarinnar að nazisminn átti þá með húð og hári. Þeir læknuðust ekki af geðveikinni og voru Hitlers-sinnar til dauðadags.

Þegar lesin er bók Simon Wiesenthals  Réttlæti - ekki hefnd, verður nú að segjast að maður fer að hugsa margt. Og þegar maður horfir á kvikmyndina The Judgment of Nuremberg veltir maður ýmsu fyrir sér. Og hin snjalla saga Frederick Forsyths Odessa skjölin fær mann líka til að hugleiða þessi mál með nýjum hætti.

Allar götur frá stríðslokum var álit margra að ýmsir háttsettir nazistar væru starfandi embættismenn í ríkisþjónustu í Vestur-Þýskalandi, en lítið gerðist í því að slíkir aðilar væru saksóttir jafnvel þótt fortíð þeirra sumra væri vægast sagt görótt. Hinsvegar var það almennt talin stefna ríkisstjórna í Vestur-Þýskalandi að gera þyrfti upp við þessa tíma og sannleikurinn yrði að segjast hversu sár sem hann væri. En orð og gerðir eru ekki alltaf það sama.

En tíminn leið og að því kom að flestir þessir vandræða-nazistar í vestur-þýska ríkiskerfinu dóu og þeir sem vildu hugsanlega halda hendi yfir þeim önduðu kannski léttar þegar svo var komið. En Vestur-Þýskaland og síðan endursameinað Þýskaland tók aldrei á sig neina ábyrgð á veldistíma nazista eða taldi sig sem slíkt þurfa að hylma yfir glæpi sem framdir voru á þeim árum.

Þessvegna brá mér í brún við að heyra það nýlega að dómari í Berlin hefði hafnað því að opinberuð yrðu þýsk leyniþjónustugögn varðandi Adolf Eichmann, á þeim forsendum að slíkt gæti verið hættulegt öryggishagsmunum og ímynd þýska ríkisins ?

Ég spyr, hafa menn ekki heyrt svona fyrirslátt áður þegar bregða þarf fæti fyrir sannleikann og réttlætið ?

Þýðir þetta að þýska ríkið sé nú að breyta um stefnu og samsama sig því með einhverjum hætti sem gerðist 1933 til 1945 ?  Hvernig ber að skilja þetta ?

Eru hagsmunir Þýskalands í dag og öryggi þess háð því að einhverjar leyndar syndir ráðamanna frá þessum árum komi ekki fram, verði ekki opinberaðar, heldur þaggaðar niður, á maður að trúa því  að slík hugsun sé í gangi í dag ?

Þýskaland nútímans er mesta efnahagsveldi Evrópu og öflugasta ríki álfunnar. Það vilja því sumir meina að það sem hafðist ekki með tveimur heimsstyrjöldum hafi náðst nú á tímum eftir öðrum leiðum !

Svo kannski eru þar nú einhverjir til sem vilja segja í dag með svipuðum hætti og fyrr Sieg Heil og Deutschland uber alles !

En Þýskaland nútímans er ekki Þýskaland áranna 1933 til 1945 og verður það aldrei nema það fari að samsama sig hlutum sem áttu sér stað í þeim tíma og seint verða taldir góðir eða virðingarverðir. Og það ber að hafa í huga, að til þess að falla ekki í gryfjur glópskunnar er alltaf mikil þörf á því fyrir lönd sem eiga kannski ærið misjafna sögu að baki, að greina vel hvernig beri að standa að málum til að varast drauga fortíðarinnar !

Ef ímynd þýska ríkisins er svo brothætt að sópa verður undir ríkisteppin meintum upplýsingum úr fortíðinni varðandi forherta nazistaglæpamenn, þá þykir mér hvorki á miklu né góðu byggt ! Ef öryggishagsmunir Þýskalands í dag hvíla á því að halda verður leyndum einhverjum atriðum varðandi fjöldamorðingjann og stríðsglæpamanninn Adolf Eichmann, þá verð ég að segja að ekki er nú grundvöllurinn merkilegur ?

Leið Þýskalands til endursköpunar hlýtur að liggja eftir brautum sannleikans, alveg eins og annarra ríkja sem kljást verða við drauga úr fortíðinni. Ef þagga á niður sannleikann til að tryggja ríkið, hvar er þá Þýskaland nútímans statt í samfélagi þjóðanna ?

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 7
  • Sl. sólarhring: 173
  • Sl. viku: 1037
  • Frá upphafi: 309929

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 910
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband