Leita í fréttum mbl.is

,,Gylfaginningar og gervisamningar !"

Það er ekkert nýtt í íslenskri sögu, að þegar hægristjórnir eru við völd eru kauplækkunar-samningar einir í boði. Og einmitt við þær aðstæður hafa svokallaðir foringjar verkalýðsins stundum staðið með þeim hætti að samnings-málum fyrir launafólk að það hefur verið til stórskammar og skemmt flestu öðru fremur fyrir samstöðu um kaup og kjör.

En lengi virðist vera hægt að bæta skömm ofan á skömm, og sú forusta sem nú er fyrir alþýðusamtökunum, er líklegast sú aumasta sem þar hefur sést til þessa. Þetta fólk, sem hefur hagfræðinginn Gylfa Arnbjörnsson í hávegum sem sinn gúru og greiningarmálahaus, er komið óraveg frá réttum rótum, og virðist ekki einu sinni vita hvað verkalýðsbarátta er !

Þessi nánast sjálfskipaði forustuhópur er yfirleitt á háum launum og í raun og veru ekkert nema viðbótar arðráns lið gagnvart almennu verkafólki. Það er því ekki að undra þó það eigi töluverða samleið með Samtökum atvinnulífsins !

Það skuggafundar-samráð sem leiddi til þess staðfestingarálits sem nú er lagt fram fyrir fólk sem einskonar samningur um áframhaldandi samningsleysi, er talandi dæmi um þau vinnubrögð sem ástunduð eru af þessari hjartadauðu klíku sem þykist tala fyrir hagsmunum alþýðu manna í þessu landi.

Gylfaliðar eru gjörsamlega rúnir trausti meðal verkafólks og fjölmargir og stöðugt fleiri líta á þá sem handbendi allt annarra hagsmuna en þeim var ætlað að verja. Þann dag sem Gylfi Arnbjörnsson tekur saman pjönkur sínar og hverfur frá ASÍ er full ástæða fyrir verkafólk Íslands að fagna. Sá maður hefði aldrei átt að koma  inn fyrir dyr hjá samtökum launafólks. Menn eins og hann og Ásmundur Stefánsson og þeirra líkar hafa aldrei reynst nein blessun fyrir verkalýðinn í þessu landi.

Samningsákvæði sem fela í sér „hækkun" á launum sem er undir gangandi verðbólgu er í raun launalækkun. Þar er enn og aftur verið að leggja afleiðingar af hruni og röngum stjórnvaldsaðgerðum á bök þeirra sem síst skyldi. Og á máli hinnar tálbeittu Gylfaginningar er slíkt látið heita þjóðarsátt sem er hið argasta rangnefni. Verkafólk sem hefur djörfung til að bera, og hefur ekki verið beygt til fullnustu undir mannskemmandi kúgunarklafann, á skilyrðislaust að hafna því að vera skiptimynt í skrípaleik af þessu tagi. Þar er farið fram á algerlega ósæmilega og óásættanlega hluti !

Samningar á launamarkaði eru og eiga að vera á milli tveggja jafnrétthárra aðila. Þar á annar aðilinn ekki að yfirtaka samningsfulltrúa hins aðilans eins og virðist hafa verið gert á tiltekinni skuggafundarvöku. Hugtök á þessu sviði eiga heldur ekki að taka mið af hagsmunum annars aðilans, eins og verið hefur sem leiður arfur frá liðinni tíð. Við vinnandi menn eigum ekkert að vera kallaðir launþegar, þeir sem þiggja laun - eða látum við ekki vinnuna okkar af höndum fyrir launin, og á móti á ekkert að tala um vinnuveitendur, þá sem veita vinnu, - eða fá þeir ekkert fyrir vinnuna okkar, miklu réttara er að tala þar um atvinnurekendur !

Á atvinnumarkaði er bara um viðskipti að ræða sem felast í að sumir eru verksalar og aðrir verkkaupar. Við seljum vinnu okkar og aðrir kaupa hana. Báðir aðilar eru í þörf fyrir þessi viðskipti og hjól atvinnulífsins ganga best þegar viðskiptin geta farið fram á eðlilegum grunni þar sem gagnkvæmt traust fær að ríkja. Þannig þurfa þau auðvitað að geta átt sér stað svo þjóðfélagið njóti góðs af og friður haldist og allir fái sitt með ærlegum skilum. Eða gengur þjóðfélags-samningurinn ekki út á það að við séum sammála um að reka hér manneskjulegt samfélag ?

Þegar auðvaldsflokkar stjórna Ríkinu, virðast Samtök atvinnulífsins alveg vita hvernig þau eiga að hegða sér og hvernig þau geta hegðað sér - á kostnað vinnandi fólks ! En þegar sami talandinn er í Gylfa Arnbjörnssyni og Þorsteini Víglundssyni er engin leið fyrir verkafólkið í landinu að una því. Forseti ASÍ á ekki að vera málpípa fyrir rekstrar-sjónarmið atvinnurekenda !

Það þarf að hreinsa til hjá alþýðusamtökunum. Andlaust og lífvana forustulið, sem er löngu orðið sjálfdautt af roluskap og ræfilshætti, þarf að komast í kistu sína, og nýtt blóð þarf að fara að renna um félagslegar æðar verkalýðshreyfingarinnar !

Oft hefur verið þörf á mannsliði þar en nú er nauðsyn á. Ætlum við að láta viðvarandi innanskömm drepa þessa hreyfingu fólksins niður að fullu eða ætlum við að snúast til varnar ?

Burt með allar Gylfaginningar og gervisamninga, sem fela ekki í sér neitt annað en svik við almennan rétt verkafólks til að fá að lifa mannsæmandi lífi í þessu landi !

Fáum lifandi fólk með hjartað á réttum stað til að leiða verkalýðshreyfinguna úr helgreipum hagfræðilegrar ónáttúru inn á samfélagslegar brautir meðvitaðrar mennsku !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 12
  • Sl. sólarhring: 150
  • Sl. viku: 1441
  • Frá upphafi: 315611

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 1162
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband