Leita í fréttum mbl.is

,,Alfrelsiskirkjan og séra Kjarni árið 2038'' !

Séra Kjarni Hallsson sat í rúmgóðri skrifstofu sinni í Alfrelsiskirkjunni í Reykjavík og velti fyrir sér tilteknu þjónustumáli. Reyndar hét hann nú ekki Kjarni heldur Kjartan, en vegna þess að það var háttur hans að segja í ræðum sínum oft og iðulega  „og það er kjarni málsins", var snemma farið að kalla hann Kjarna og það var löngu orðið mörgum fast í munni og reyndar þótti honum sjálfum þetta nafn hreint ekki sem verst. En þarna var hann á þessum fallega degi, 19. júní árið 2038, að hugsa um giftingu sem hann þurfti að inna af höndum þennan sama dag, því kona í söfnuði hans vildi að hann sæi um að gifta hana og kisuna hennar !

Það hafði verið og var eitt helsta atriðið í stefnu Alfrelsiskirkjunnar, allt frá stofnun hennar tíu árum áður, að gifting tveggja lifandi einstaklinga væri fullkomlega eðlilegur gjörningur ef nógu mikill kærleikur væri til staðar milli þeirra. Hjónaband sem slíkt væri bara staðfestur elskusambands-sáttmáli milli tveggja einstaklinga sem bæru innilega ást til hvors annars. Það kæmi ekkert kyni við eða hver í hlut ætti !

Og frá því að Alfrelsiskirkjan hafði komið fram með þessa boðun sína, hafði orðið mikil breyting í siðamálum alls samfélagsins, sem fyrst og fremst hafði sýnt og sannað að kærleikurinn væri í reynd svo víðtækur að áhrifum yfir heildina að hann væri nánast alls staðar fyrir hendi. Séra Kjarni hafði sannfærst um það af eigin raun og var hann þó sannfærður fyrir !

Hann hafði fyrst í stað gift fjölda karla annarsvegar og svo konur hinsvegar, fólk sem elskaði hvort annað svo takmarkalaust að það vildi bara fá að lifa lífinu saman í friði, óháð boðum og bönnum sem höfðu verið svo ríkjandi í gamla, ófrjálsa tímanum. Séra Kjarna hryllti við þegar hann hugsaði um grimmdina og miskunnarleysið sem þá hafði verið í ráðandi stöðu og staðið kærleikanum svo svakalega fyrir þrifum ! Siðleysið á þeim tímum hafði sannarlega verið ótrúlega yfirgengilegt !

„Sem betur fer", hugsaði hann með sér, „eru nú komnir aðrir og betri tímar" ! En hann gerði sér líka fulla grein fyrir því að starf hans var alltaf að verða umfangsmeira og annasamara vegna þeirra breytinga sem höfðu orðið í þessum efnum hin síðari ár og hann vildi meina að væru til komnar sökum örrar framþróunar mannfélagsins. Hann hafði þegar tekið sér tvo aðstoðarpresta og í allt voru launaðir starfsmenn Alfrelsiskirkjunnar orðnir nokkuð á þriðja tuginn !

Í seinni tíð hafði hann, vegna hinnar öru þróunar, brugðist vel við mun fjölbreyttari óskum margra varðandi giftingarmál, því frelsiskrafa kærleikans í þeim efnum varð stöðugt víðtækari. Margt fólk vildi núorðið giftast gæludýrunum sínum, en þar var víða óhemju mikill kærleikur til staðar milli aðila og allar forsendur því fyrir hendi, samkvæmt reglum Alfrelsiskirkjunnar. Hann hafði nýlega afgreitt hestamann einn sem hafði krafist þess að fá að giftast uppáhaldsgæðingnum sínum, því honum þætti svo vænt um hann. Það hafði óneitanlega verið mjög flott umgjörð um þá giftingu. Hestamaðurinn hafði komið flengríðandi til athafnarinnar á sínum verðandi maka og farið síðan eftir athöfnina á harðastökki niður götuna, hress og glaður. Það hafði verið sjón að sjá og mikill stíll yfir manninum og folanum. Séra Kjarni minntist þess varla að hafa gefið saman öllu glæsilegri hjón !

Svo hafði gömul ekkja í blokkaríbúð vestur í bæ eindregið viljað fá að giftast páfagauknum sínum. Hún hafði sagt séra Kjarna eða öllu heldur hvíslað því að honum, að hún hefði verið svo lengi einmana eftir að hún hefði orðið ekkja, og páfagaukurinn hennar, blessað yndið hennar - hann Ljómi, hefði verið eini félagsskapurinn sem hún hefði haft og hún elskaði hann svo mikið að hún sæi það núna, að hún hefði ekki elskað Jón sáluga hálft eins mikið, og þar átti hún við fyrri makann. Og séra Kjarni hafði skilið þetta allt ósköp vel og auðvitað gefið þau saman, ekkjuna og páfagaukinn hennar, alveg eins og hestamanninn og folann hans. Það var allt sjálfsagt skyldumál og fúslega framkvæmt í þágu kærleikans og í anda hinnar sívökulu mannréttindavaktar hinnar mjög svo vinsælu Alfrelsiskirkju !

En nú lágu ein þrjú mál af þessu tagi fyrir á borði hans og biðu eftir afgreiðslu af hans hendi. Fyrst var það mál áðurnefndrar konu sem vildi giftast kisunni sinni, svo vildi gamall einsetukarl fá að giftast tíkinni sinni sem hann sagðist elska út af lífinu, og miðaldra kennslukona vildi sömuleiðis fá að giftast sínum heittelskaða hamstri. Séra Kjarni varð að kortleggja þessi mál mjög vandlega í huganum þar sem breytileiki paranna bauð auðvitað upp á mismunandi efnisáherslur í giftingartextanum.

Hann stimplaði pappírana svo með útflúruðum frelsisstimpli kirkjunnar, sem þýddi að viðkomandi giftingar væru heimilaðar svo framarlega sem áður væru staðin skil á því gjaldi sem stjórn Alfrelsiskirkjunnar hafði samþykkt að væri sanngjörn greiðsla fyrir þjónustuna. Sumir höfðu haft á orði að greiðslan væri nokkuð há, en séra Kjarni hafði bent þeim hinum sömu á það nokkuð hvatskeytilega, að einhverju ætti nú að vera fórnandi fyrir staðfestingu á yndislegu kærleikssambandi. Og þá hættu menn yfirleitt að nöldra.

Þarna á skrifstofunni sinni hallaði séra Kjarni sér aftur á bak í notalegum leðurstólnum í hálfgerðri sæluvímu. Hann spennti greipar fyrir aftan hnakka og hugsaði með sér af stakri vellíðan, hvað það væri nú ljúft og gott hlutskipti að fá að þjónusta fólk í samfélagi sem hefði sannarlega af víðtækum kærleika að státa - og þar fyrir utan - þurfti hann svo sem ekki að kvarta yfir sínum launakjörum !

                                                                        (- Er það þetta sem koma skal ? )

 

 

                                                                               

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 120
  • Sl. sólarhring: 502
  • Sl. viku: 1529
  • Frá upphafi: 315510

Annað

  • Innlit í dag: 116
  • Innlit sl. viku: 1242
  • Gestir í dag: 116
  • IP-tölur í dag: 116

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband