Leita í fréttum mbl.is

Pólitísk ákvörðun !

Á sínum tíma var tekin sú pólitíska ákvörðun af íslenskum ráðamönnum að taka upp verðtryggingu með þeim hætti sem gert var og þýddi að skuldunautar einir ættu að bera alla áhættu en hin efnahagslegu máttarvöld ættu og mættu alltaf vera fullkomlega ábyrgðarlaus !

Það virðist hafa verið samdóma álit þeirra hagsmunaaðila sem að því mikla ranglætismáli komu, að þetta yrði að gera til þess að lánardrottnar, það er að segja, burgeisar og bankavald, gætu sloppið við allt hugsanlegt tap sem fylgt gæti viðvarandi fjármála-ómennsku þeirra. Öllum mistökum þeirra og afglöpum skyldi hellt yfir almenning í formi þeirrar sítifandi vítisvélar sem verðtryggingin varð fyrir venjulegt fólk í þessu velferðarspillandi sérhagsmuna þjóðfélagi sem hér hefur ríkt og ríkir enn. Síðan hefur almenningur í þessu landi borgað slíkar upphæðir út á þetta morðkerfi að það gæti enginn lifandi maður reiknað út þau glæpagjöld !

En nýlega komust menn til valda sem lofuðu að losa þennan klafa af fólki og skapa hér einhvern vísi að eðlilegu fjármála-umhverfi. Og þessi nýju stjórnvöld, kosin til réttlætisverka, byrjuðu sitt umbótastarf í þá veru með því að setja á fót nefnd til að athuga verðtrygginguna og í nefndina voru náttúrulega settir dæmigerðir fulltrúar þeirra afla og sjónarmiða sem vilja viðhalda verðtryggingunni vegna ýmissa  sérhagsmuna. Niðurstaðan gat því tæplega orðið önnur en hún varð. Sá eini sem í nefndinni sat - af öðru tagi - skilaði auðvitað sértillögu !

Það er nefnilega svo eins og fyrr segir, að þessi fjárhagsverndarpólitík þjónar hagsmunum sumra en níðist á öðrum. Það hefur í raun og veru alltaf legið fyrir. Það þurfti pólitíska ákvörðun á sínum tíma til að koma þessari sérpöntuðu verðtryggingu á og það þarf pólitíska ákvörðun í dag til að leggja hana niður !

Það er bara blekkingarleikur hjá stjórnvöldum að setja það sem ég kalla falska nefnd á koppinn til að athuga þessi mál. Reynslan af verðtryggingunni fyrir allan almenning er himinhrópandi dæmi um langtíma ranglæti.  Ætlar ríkisstjórnin bara að láta leiðréttingu á því máli velkjast í ónýtri nefndavinnu og daga þar uppi ?

Ef þjóðfélagið getur ekki viðhaldist nema fyrir ranglæti eins og verðtrygginguna, þá á þjóðfélagið ekki rétt á því að lifa eins og það er. Þá hefur það ekki verðleika til þess. Martin Luther King jr. sagði í sinni frægu ræðu „ Ég á mér draum",  „Maður sem ekki er reiðubúinn að fórna lífi sínu fyrir góðan málstað á ekki skilið að lifa !" Þjóðfélag sem á, að því er virðist, að þrífast á ranglæti og vondum málstað, fær ekki staðist til lengdar og á heldur ekki skilið að lifa. Íslenskt þjóðfélag á ekki og má ekki lifa með þeim hætti. Ef við höfum engar hugsjónir um réttlæti og ærleg gildi að leiðarljósi, til hvers lifum við þá ?

Við lifum þá bara öðrum til skaða og okkur sjálfum til seinni tíma falls. Það er ómanneskjulegt að snúa blindu auga að viðvarandi ranglæti og þjóna því, hvort heldur sem það er gert með þegjandi samþykki eða opnum kjafti. Og þeir eru löngu orðnir allt of margir í þessu landi sem virðast telja sig helst og mest eiga samleið með viðvarandi ranglætishlutum nú á dögum !

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, fyrrverandi félagi í Bandalagi jafnaðarmanna, sagði í útvarpi fyrir skömmu: „ Hvaða væll er þetta alltaf, við höfum það gott !" Ég hef engar efasemdir um það að Ragnheiður Ríkharðsdóttir hafi það gott, en það eru ekki allir í hennar núverandi sporum, enda orðið býsna langt síðan hún var í Bandalagi jafnaðarmanna. Ég fæ ekki séð að framkominn hugsunarháttur hennar í seinni tíð beri þess nokkur merki að hann sé Vilmundarvænn sem slíkur !

Staðreyndin er sú að fjöldi fólks hefur það skítt í þessu landi og það er ekki hvað síst hinu langa og leiða mismununar-valdaskeiði núverandi flokks Ragnheiðar Ríkharðsdóttur að kenna. Svo kemur þessi fyrrverandi jafnaðarmanneskja og talar um væl í fólki og að það hafi það bara gott ! Mér virðist liggja ljóst fyrir að það sé eitthvað athugavert við sómatilfinningu fólks í hennar stöðu þegar það talar svona. Ég ætla því að leyfa mér að hafa skömm á manneskjunni fyrir vikið !

Sérhagsmuna verðtryggingin er bölvun fyrir íslenska þjóð og verður að víkja. Hún hefði aldrei átt að viðgangast og hún og kvótakerfið hafa eyðilagt meira af þjóðlegum manngæðum í þessu landi en flest annað. Þeir sem græða á ófarnaði annarra lifa á blóðpeningum. Ef stjórnvöld standa ekki við loforð sín um að afnema ranglætiskerfi núgildandi verðtryggingar og taka af alvöru og festu á skuldavanda heimilanna, verður ekki friðvænlegt ástand í landinu á komandi misserum. Svikulir stjórnmálamenn eru það sem við þurfum síst á að halda, en því miður er framboðið í þeim efnum mikið og virðist stöðugt aukast þó eftirspurnin sé engin !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 84
  • Sl. sólarhring: 188
  • Sl. viku: 1334
  • Frá upphafi: 316724

Annað

  • Innlit í dag: 60
  • Innlit sl. viku: 1039
  • Gestir í dag: 58
  • IP-tölur í dag: 58

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband