Leita í fréttum mbl.is

Að rita loforð sín á vatn !

Á einhverjum samningafundi Sioux-indíána og fulltrúa bandarískra stjórnvalda á höfðinginn Mahpiua-Luta eða Rauða ský að hafa sagt, að loforð hinna hvítu væru rituð á vatn..........!  Með öðrum orðum, þau héldu ekki, þau væru svikin - stundum strax eftir gerðan samning !

Íslenska þjóðin virðist vera í sömu stöðu, gagnvart nánast hverjum þeim stjórnmálaöflum sem með völdin fara í þessu landi, og Sioux-indíánar voru gagnvart fulltrúum Bandaríkjastjórnar á sínum tíma. Loforð eru gefin fyrir kosningar, en þau eru rituð á vatn og eftir kosningar kemur haldleysi þeirra fljótt í ljós.

Sveitarstjórnarmenn innan sjálfstæðisflokksins virðast sárir og reiðir út af meintum svikum forustu flokksins gagnvart gefnum kosningaloforðum, og hafa sumir slíkir tjáð sig í fjölmiðlum, að því er virðist mjög hneykslaðir, varðandi það efni. En er það nú víst að þeir séu eins sárir og reiðir og þeir látast vera, skyldi ekki geta verið að annað ráði yfirlýsingum þeirra eins og sakir standa ?

Eru ekki sveitarstjórnarkosningar í vor ? Standa þessir fulltrúar ekki bara andspænis þeim tíma að þeir þurfa að gylla sig svolítið frammi fyrir kjósendum sínum ? Eru þeir ekki bara að vinna við það að skrifa sitt á vatnið ?

Það er ekki víst að mikið fari fyrir þessari vandlætingu þeirra eftir þær kosningar sem framundan eru og krefjast þess sýnilega, að þeirra mati, að þeir tjái sig ósátta við flokks-stefnuna !

Það er nú svo með þennan svokallaða íslenska sjálfstæðisflokk, að hann er, mér vitanlega, eini stjórnmálaflokkurinn í heiminum sem er beinlínis yfirlýstur flokkur allra stétta !  Í öðrum heimshlutum er í öllum þjóðfélögum barátta í gangi vegna margvíslegra stétta-andstæðna, en umræddur flokkur sem kennir sig við hugtak sem aldrei hefur verið hans, þykist hafa fundið lausnina á því hvernig hægt sé að sameina alla landsmenn, fólk úr öllum stéttum, í eitt stjórnmálalegt kærleiksbandalag !

En sú hugsun sem ræður þar að baki, hefur alla tíð verið fölsk og skrifuð á vatn ! Það er ekki hægt að tjalda flokki sem þjónar öllum jafnt ! Kristur sjálfur sagði á sínum tíma hér á jörð, að menn gætu ekki þjónað Guði og Mammon !

Og ég hef miklu meira en rökstuddan grun um að sjálfstæðisflokkurinn sé öllu hallari undir þann síðarnefnda og öll þau þjóðfélagslegu mismununartól sem honum fylgja. Þó að einhverjir kunni að vera í þessum „flokki allra stétta" sem vilja fylgja kristnum gildum, hafa hugmyndir í þá átt - eins og vitað er - ekki átt miklu gengi að fagna sem tillögur á flokksþingum. Það er einfaldlega vegna þess að staðreyndin er sú, að hagsmunir flokkseigendafélagsins, sem ráða viðvarandi stefnu flokksins, fara ekki saman við kristin gildi !

Menn geta til dæmis ekki verið sannir bræður litla mannsins á götunni og flegið hann inn að skinni um leið ! Maður getur ekki verið peningaprins við hirð Mammons og um leið sóknarnefndarformaður í kristinni kirkju ? Enginn getur sinnt báðum þeim hlutverkum samtímis af heilindum, í öðru tilfellinu er og hlýtur að vera um fals og yfirskin að ræða !

En margir sjálfstæðismenn virðast segja með framferði sínu, að mál hafi þróast langt umfram það sem Kristur hafi séð fyrir, svo að nú á tímum sé það ekkert mál fyrir sæmilega greindan og góðfúsan mann, og sérstaklega þó ef hann er flokksbundinn í sjálfstæðisflokknum, að þjóna bæði Guði og Mammon og það svo að báðir séu að öllum líkindum sáttir við tilhögun mála !

Þetta er náttúrulega byltingarkennd afstaða og það hjá mönnum sem alla tíð hafa tjáð sig mjög andvíga öllum byltingum. En Saddúkear sjálfstæðisflokksins hafa aldrei séð neitt athugavert við tækifærissinna-framkomu og hagsmunalega tvöfeldni. Menn með slíkan hugsunarhátt hafa alla tíð sleikt sig upp við veraldlegt vald, hvort sem það hefur verið rómverskt, danskt, breskt eða bandarískt og um leið talið sig eiga nánast heilaga samleið með Guði !

En sjálfstæðisflokkurinn á auðvitað fyrst og síðast samleið með Mammonsdýrkun fjármagnseigenda og peningafurstum veraldarhyggjunnar. Þó að einhverjir fulltrúar aflaminni stétta álpist jafnan til að styðja flokkinn á misskildum forsendum, er Rockefeller-andinn þar allsráðandi og flokkurinn auðvitað stofnaður sem tilbeiðslutæki í hans þjónustu.

Og hvað þá ? Þarf það að koma einhverjum á óvart að loforð slíkra þjónustumanna, hvort sem þeir eru í sjálfstæðisflokknum eða hliðstæðum samstjórnarflokki, séu rituð á vatn og haldi ekki ? Mammonsvald er aldrei og getur aldrei orðið loforðavænt, og þeir sem hlýða því og ganga fram í þjónustu við það, geta aldrei verið trúverðugir menn orða sinna. -Tilgangurinn helgar meðalið - er þeirra forskrift og þannig hefur það alltaf verið !

Er ekki löngu orðið tímabært að menn skilji þessar staðreyndir og horfist í augu við hlutina eins og þeir eru ? Þjónustufulltrúar Mammonsafla munu alltaf rita loforð sín á vatn !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 196
  • Sl. viku: 1432
  • Frá upphafi: 315602

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1153
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband