Leita í fréttum mbl.is

Skrifað í skvettustíl um staðlæg "stjórnmál" !

Það á að kjósa á Skagaströnd, - að hugsa sér ! Það er hreint og beint lýðræðishátíð framundan og sjómannadagshelgi í ofanálag. Einhverntíma hefði einhver líklega sagt á slíkum tímamótum: „ Nú er mikið um dýrðir" !

Fullt af fólki, - og menn skulu gera sér grein fyrir að það er fullt af fólki á Skagaströnd -, virðist varla ráða sér fyrir tilhlökkun ! Það er nefnilega ekki eins og þessi tilbreyting sé í boði fjórða hvert ár hér á Ströndinni, nær væri að segja áttunda hvert ár og þegar tilboðsdagarnir loksins koma, þá er eðlilegt að fólk velti því fyrir sér - í alvöru - hvað sé raunverulega í boði ?

Og það er náttúrulega alltaf pínulítil spurning þegar pólitík er annarsvegar, hvað sé raunverulega í boði, því þó að tilboðsmarkaðurinn fari alltaf nokkuð mikið upp á við í kringum þessar sérstöku aðstæður, er uppsveiflan oftast nokkuð vafasöm á köflum - og rúmlega það, ekki síst vegna þess að þeim virðist alltaf fjölga sem tengja loforð ekkert endilega við efndir. Menn eiga það jafnvel til að segja eftirá þegar einhver fer að tala um efndir: „Æi, láttu ekki svona, aðstæður kröfðust þess bara í augnablikinu að ég lofaði þessu, ég meinti ekkert með því, þetta var bara grín !"

Ég orti eitt sinn við þær aðstæður að mér fannst miklu lofað :

Lygin víða fær sitt flug,

fer um land með dunum.

Í ýmsra munni almáttug

á undan kosningunum !

                                                       En hvernig sem loforðalínurnar annars eru, er það samt hið besta mál að það séu og verði kosningar og þá í það minnsta fjórða hvert ár, en ný framboð verða samt að snúast um eitthvað meira en bara það að tryggja að það verði kosningar. Þegar ég sá nýja listann sem boðinn hefur verið fram hér á Skagaströnd, hrökk mér af munni þessi vísa:

Fullan jöfnuð skörp og skýr

skapar staðan fágæt.

Konur sjö og karlar þrír,

kynjahlutföll ágæt !

                                              Gamli elítulistinn sem nú heitir H-listi og virðist einna helst einhverskonar uppsuða úr gömlum graut, komst á koppinn með viðbótar-bragðefnum í lok apríl eða þar um bil. Var þar um einhverja málamynda-uppstillingu að ræða, sennilega til að koma til móts við nýjar framboðsáherslur. Var þó ekki laust við að einhver taugatrekkingur væri í gangi í kringum það sjónarspil, enda var um það kveðið :

Sjallar ætla að kjósa í kvöld,

kynna lausn á málum.

Komin virðist önnur öld,

enda er Dolli á nálum !

                                                  Það er svo sem aldrei tíðindalaust á Skagaströnd, en margt gerist fyrir kosningar sem ekki gerist endranær. Oddvitinn er fyrir nokkru hættur að mæta í Neistakaffið og Steindór Rúniberg er svo á kafi í sértækum iðnvæðingarmálum að hann hefur hreint ekki neinn tíma í framboðsmálin, allra síst framboðsfund ! Það minnir óneitanlega nokkuð á Þröst Líndal og rollurnar hans hérna um árið. Það þykir víst sumum bara ágætt að bjóða sig fram og vera svo ekki til viðtals. En það er líklega allt í lagi með það, því það er ljóst að -

Sumum þykir Steindórs staða

stórbrotin að allri gerð.

Líkt og stjarna á ljóssins hraða

leiftri hann á sinni ferð !

 

Sömu raddir segja að Dolli

sé með öllu í blóð og merg,

daufur bæði í dúr og molli,

dansi verr en Rúniberg !

                                               En líklega veit þó enginn hvar við dönsum næstu jól, en hinsvegar vilja sumir meina að það sé ljóst að -

Þeir sem kjósa ætla Ð,

ákveðnir frá rótum,

dansa ekki Dolla með,

dansa á öðrum nótum !

                                        Og því er ekki að neita að dansinn í sveitarstjórnarmálunum hér hefur verið nokkuð einhæfur síðustu tuttugu árin og þessvegna hreint ekki fráleitt að æfð séu ný dansspor í þeim efnum.

Dolla og Magga dansinn er

dottinn út úr tísku.

Síst þar gefinn sjansinn er

með sólskinsbragði frísku !

                                              Það þarf auðvitað einhverja ferska aðila á hið pólitíska dansgólf okkar Skagstrendinga með ný spor og nýja vendi, til að sópa og prýða hinn málefnalega sameignarsal og hleypa almenningslífinu þangað inn, en spurningin er hinsvegar, hefur raunverulegt tilboð í þeim efnum verið lagt fram ? Reynslan mun skera úr því hvort nýir framboðsaðilar standi undir væntingum,  en fólk má auðvitað eiga sér þær vonir í millitíðinni að einhverjar breytingar verði með tilkomu slíkra á sviðið :

Á málin gæti komið kast

með keppnisanda nýrra manna.

Ef allt er ekki frosið fast

á fimbulvelli hagsmunanna ?

                                                   Það er því í sjálfu sér gott að fólk hafi val og ef um raunhæft val er að ræða, er það enn betra. Það er vonandi að Skagstrendingar geti hér eftir gengið að kjörborði fjórða hvert ár til að velja sér forustulið og það falli ekki oftar niður kosningar en orðið er. Við íbúar á Skagaströnd hljótum að sjá til þess eftirleiðis að svo verði og það innifelur náttúrulega nánustu aðstandendur beggja framboðslistanna og alla þá sem hér búa. Í því mengi erum VIÐ ÖLL !

Ég lýk þessu pistilgreyi svo með eftirfarandi stöku :

Ströndin okkar bjart með blikið

ber vort líf í skauti sér.

Hún á skilið margt og mikið,

meira en í boði er !

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 4
  • Sl. sólarhring: 178
  • Sl. viku: 1034
  • Frá upphafi: 309926

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 907
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband