Leita í fréttum mbl.is

Hugleiðing varðandi morðin á Kennedy-bræðrunum !

Það mun mála sannast að Bandaríkin séu komin yfir sögulegan hápunkt valda sinna á heimsvísu. Margvísleg stjórnmálaleg mistök á síðustu áratugum ásamt lélegri forustu hafa grafið svo undan tiltrú og trausti á þessari ríkjasamsteypu að þau eru eiginlega að verða svipur hjá sjón miðað við þann tíma þegar þau voru viðurkennd í víðum skilningi sem forusturíki heimsins !

Nú hefur sérgæska auðhringa og valdablokka spilltrar fjármagnshyggju leikið bandaríska stjórnkerfið svo illa með viðvarandi tekjusviptingu og fjártökugerð, að fjárhagsstaða ríkisins er orðin verulega slæm. Má segja að framganga bandarískra auðhringa í arðráni og yfirgangi um heim allan síðustu áratugi, sé nú farin að skaða heimaríki þeirra verulega með hliðstæðum hætti og myndu einhverjir segja að þar kæmi vel á vondan !

Bandaríkin eru nú talin mjög skuldsett og er haft fyrir satt að Rauða-Kína sé helsti lánardrottinn þeirra og má því með sanni segja að nú séu tímar Marshall-hjálpar langt að baki, þegar Bandaríkin á hátindi styrks og valda lögðu fjölmargar aðrar þjóðir á skuldaklafa sinn.

Líklega má segja að ein helsta ástæðan fyrir þeirri breytingu sem orðin er í þessum efnum sé sá ótrúlegi hroki sem Bandaríkin hafa sýnt í skiptum við aðrar þjóðir um langt skeið og sú óþjóðlega stefna sem auðhringar og valdaklíkur í fjármálaheimi Bandaríkjanna hafa rekið, sem byggst hefur á hámarks-arðráni um víða veröld.

Þær hægrisinnuðu forréttindaklíkur sem hafa haft völdin í Bandaríkjunum að mestu síðustu 50-60 árin, munu eiga mestu sökina á því hvernig komið er. Republikanar eru nú komnir svo langt til hægri að það fer að verða stutt skrefið fyrir flokkinn að vippa sér yfir í fasismann. Það er hláleg og kaldhæðnisleg staðreynd í ljósi samtímans að þessi flokkur skyldi í upphafi hafa verið frjálslyndari en Demókrataflokkurinn og þar með verið flokkur Abrahams Lincolns !

Ef Lincoln sæi yfir sviðið í dag myndi hann að mínu áliti fá fullkomið ógeð á framgöngu forustumanna Republikana og eiga lítið sem ekkert sameiginlegt með þeim. Lincoln var alltaf maður fólksins en Republikanaflokkurinn er algert hagsmunatæki forréttinda-aðals nú á dögum og þar rottar sig saman eitt versta auðmannasamfélag heimsins, en eina markmið þess er að standa vörð um einkahagsmuni sína og óbreytta forréttindastöðu.

Ein mesta ógn sem þetta lið hefur staðið frammi fyrir var sigur John F. Kennedys í forsetakosningunum 1960 og sú ógn skapaðist á ný við yfirvofandi líkur á sigri Róbert F. Kennedys í forsetakosningunum 1968. Þeir aðilar sem voru orðnir svo skelfdir og hatursfullir 1963 að þeir hikuðu ekki við að myrða forseta landsins, gerðu sér það ljóst á vordögum 1968 að þeir þyrftu að myrða Róbert Kennedy áður en hann yrði forseti. Að öllum líkindum hefur morð Martins Luther Kings jr. í apríl það ár verið þessum öflum hvatning varðandi þau skuggalegu plön sem þau voru með á dagskrá, ef þau hafa þá ekki beinlínis sjálf átt aðild að því morði.

Í augum bandarískra harðlínumanna á hægri vængnum var Róbert Kennedy jafnvel talinn verri en John bróðir hans. Í forsetatíð Johns hafði Róbert verið hans nánasti samstarfsmaður og þeir bræðurnir höfðu jafnan haft mjög líka sýn á flest þjóðfélagsmál, þó sumir teldu John gætnari mann og ekki eins harðan í horn að taka og Róbert.

Þeir bræðurnir vildu meðal annars færa Bandaríkin í frjálsræðisátt, jafna borgaraleg réttindi í landinu og auka félagslega þjónustu í margvíslegum skilningi. Öll slík stefnumið voru auðvitað eitur í blóði hægri manna og Kennedybræðurnir voru því af mörgum þeirra taldir hreint og beint svikarar og landráðamenn við flest það sem Bandaríkin ættu að standa fyrir !

Ferill Lyndon B. Johnsons er mjög skrítinn í öllu þessu sambandi og vekur upp margar spurningar. Hvar og hvernig stóð Johnson eiginlega eftir að hann tók við af Kennedy, hversvegna skipaði hann, demókratinn, rannsóknarnefndina eins og hún var skipuð, undir forsæti republikana, 7 manna nefnd með 5 republikana og aðeins tvo demókrata innanborðs ? Voru ekki helstu andstæðingar Kennedys menn verulega til hægri í bandarískum stjórnmálum og var eðlilegt að skipa í nefndina algjöran meirihluta slíkra manna ?

Hversvegna var Barry Goldwater, svo öfgafullum hægri manni, teflt fram gegn Johnson í eftirkomandi kosningum 1964 ? Var það kannski beinlínis gert til að auka tiltrú á Johnson sem eftirmanni Kennedys – af þeim mönnum sem hötuðu Kennedy, en töldu jafnframt víst að Johnson væri í raun þeirra maður og æskilegur á forsetastóli sem slíkur ?

Róbert Kennedy hafði í kosningabaráttu sinni til útnefningar sem frambjóðandi flokks demókrata í væntanlegu forsetakjöri 1968, tekið það skýrt fram í viðtölum að hann myndi sem forseti láta taka upp rannsóknina á morði bróður síns aftur, sem sannar að honum hafi ekki þótt gengið þar vel til verks. Og menn geta rétt ímyndað sér hvílík ógn sumum hafi staðið af því ef það yrði gert !

Ádeila Róberts í þessu efni beindist auðvitað fyrst og fremst að Johnson forseta, sem hafði skipað rannsóknarnefndina varðandi morð Kennedys forseta með þeim hætti sem það var gert. Og það þarf engum getum að því að leiða að mörgum hefur orðið órótt. Litu slíkir menn ekki svo á málin af þessum sökum og öðrum að stoppa yrði Róbert Kennedy sem fyrst og senda hann sömu leið og bróður hans ?

En morð á öðrum forseta, manni svo nátengdum þeim sem fyrr hafði verið myrtur var vægast sagt stórmál og hefði meira en nokkuð annað sannfært menn um allar jarðir að víðtækt samsæri hlyti að liggja að baki slíkum verknaði. Það varð því að koma Róbert Kennedy fyrir kattarnef áður en hann yrði forseti því eftir það yrði vafalaust miklu erfiðara og jafnframt hættulegra að ná til hans og annað forsetamorð var líka af of mikilli stærðargráðu sem atburður – jafnvel í Bandaríkjunum !

Og það bendir allt til þess að Róbert Kennedy hafi þannig verið myrtur af sömu myrkraöflunum og létu myrða bróður hans og sama aðferðin notuð. Sirhan Bishara Sirhan var maðurinn sem settur var í hlutverk Oswalds og látinn svara til saka fyrir morðið. Hann var maður sem lá einkar vel við höggi varðandi það hlutverk. Það þurfti ekki einu sinni að þagga niður í honum á eftir því hann vissi ekki neitt og gat ekki kjaftað frá neinu. Það þurfti því ekki að gera út morðingja morðingjans í hans tilfelli !

En morðingjar Kennedy-bræðranna voru áreiðanlega ekki þessir menn, heldur menn sem að öllum líkindum voru taldir í allt annarri stöðu en þeirri að vera slíkir tilræðismenn. Oswald virðist hinsvegar hafa vitað eitthvað um málin og því varð að drepa hann og það er alveg hugsanlegt að það hafi að lokum líka verið þaggað niður í morðingja hans, Jack Ruby !

„One gunman“ kenningin var líka í báðum tilfellum fráleit og til þess ætluð að koma í veg fyrir allar frekari eftirgrennslanir. Fúsleiki Warren nefndarinnar til að halda þeirri kenningu á lofti og veita henni staðfestingu, vekur vægast sagt grun um óhreinleika í málsmeðferðinni. Málið átti bara að vera úr sögunni, morðinginn átti að vera fundinn og allt væri því upplýst og á hreinu !

En það var fátt annað á hreinu en það að tveir píslarvottar höfðu bæst við í hóp þeirra manna sem reynt höfðu að koma Bandaríkjunum aftur á sitt upphaflega frelsismálaspor og ólýsanleg illmennska hafði hrósað andstyggilegum sigri !

Það er haft fyrir satt að John J. McCloy Warren-nefndar maður hafi haft miklar efasemdir um „ the one gunman theory,“ en ferð til Dallas ásamt Allen Dulles, gömlum vini og jafnframt félaga í nefndinni, hafi sannfært hann um málið gegn Oswald !

Já, Dulles sannfærði McCloy um að Oswald hefði verið einn að verki og leiðin til þess að fá McCloy á þá skoðun var að skreppa með hann til Dallas ! Hvernig skyldi það ferli nú hafa verið, hverja skyldu þeir hafa hitt og hversvegna skyldi Dulles hafa verið það svona mikið kappsmál að Oswald einn yrði talinn morðinginn ?

Allt í sambandi við Warren nefndina vekur efasemdir og grun um þöggun !

Eitt af því sem sterkast sýnir hvaða viðhorf risu á ný til opinna og viðurkenndra valda í Republikanaflokknum eftir morðið á Róbert Kennedy, er sú staðreynd að frambjóðandinn sem tapaði fyrir bróður hans 1960, gamli haukurinn og kommúnistabaninn Richard Nixon var dreginn fram aftur sem hið nýja útspil flokksins. Það átti að þýða, að mistökin frá 1960 væru þar með leiðrétt, og sagan héldi nú áfram eins og hún hefði átt að gera þá !

Hinn ófyrirséði milliþáttur rangrar atburðarásar áranna 1960 til 1968, þar sem lýðræðisleg kosningaúrslit höfðu sett fyrirfram ákveðna hluti út af sporinu, hafði verið afmáður sem slíkur og framvindan sett á ný í rétt samhengi. En menn afmá ekki Söguna með sjónhverfingum og samsærum, ekki til lengdar. Sagan er og verður til sem slík og Kennedybræðurnir voru eins og þeir voru, manna líklegastir á sínum tíma til að leiða Bandaríkin út úr myrkviðum auðhringavaldsins og peningaaðalsins inn í nýja frelsistíma lýðræðislegs stjórnvalds.

Hvað hefði gerst ef Róbert Kennedy hefði orðið forseti Bandaríkjanna árið 1968 eins og allt benti til að hann yrði ? Hefði Vietnamstríðinu ekki lokið talsvert fyrr, hefði ný stefna ekki verið mótuð fyrir Bandaríkin um heim allan, hefði viðhorf til Bandaríkjanna ekki gjörbreyst í Mið og Suður Ameríku, hefði traust og virðing ekki farið að vaxa á ný til þessa ríkis frumherja sjálfstæðisbaráttunnar, þeirra sem stóðu í eldlínu mannfrelsisins 1776, hefði þá ekki farið að bjarma af nýrri öld ?

Róbert Kennedy skilgreinir í mörgu skoðanir sínar í bók sinni Í leit að betri heimi. Þar er margt allrar athygli vert. Það var að öllum líkindum mikil ógæfa fyrir Bandaríkin og heiminn allan að hann skyldi ekki ná því að verða forseti og fá að taka við embætti Washingtons. Hann hafði ótvíræða hæfileika og burði til að verða mikilhæfur forseti !

Frá 1968 hefur enginn forseti Bandaríkjanna reynst afburða leiðtogi, hvorki fyrir Bandaríkin eða heiminn í heild. Enginn þeirra hefur trúverðuglega verið að leita að betri heimi eða gert eitthvað í því að gera þennan heim okkar betri en hann er. Það er dapurleg staðreynd. En hvað hafa þessir forsetar þá verið að gera ?

Ég get alveg svarað því fyrir mitt leyti. Það er nefnilega skoðun mín að þeir hafi allir verið meira og minna í því hlutverki að viðhalda og þjóna því valdi beint eða óbeint, sem varð Kennedybræðrunum að bana !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 55
  • Sl. sólarhring: 62
  • Sl. viku: 1330
  • Frá upphafi: 316249

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 1050
  • Gestir í dag: 28
  • IP-tölur í dag: 28

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband