Leita í fréttum mbl.is

Blindir leiða og blessun deyða !

Það er full ástæða til að spyrja þess í samtímanum og það í löndum sem þó teljast kristin, - hvað hafa menn á móti Jesú ? Og það má svara því þannig, að kenningar hans þyki gera allt of miklar kröfur til manna um breytni og háttalag ! Á tímum sem mótast af uppreisn og agaleysi, er skiljanlegt að kristindómurinn eigi í vök að verjast og undir högg að sækja. Sú ádeila sem Kristur sjálfur hélt uppi gegn hrokafullum faríseum, saddúkeum og hræsnurum fyrir 2000 árum, er enn í fullu gildi, enda er nóg af þessháttar lýð til staðar í tilverunni í dag !

Pílatusar og Heródesar ganga um veröldina sem aldrei fyrr. Valdamenn eru að þvo hendur sínar dags daglega af þessu og hinu og verða þó aldrei hreinir. Menn nautnahyggjunnar og allsnægtanna vilja ekkert vita af blæðandi heimi og kenning Krists er þeim hvimleið í alla staði. Réttlæti, jöfnuður og sannleikur, allt er það þeim andstyggð sem vilja byggja líf sitt á lygi !

Á tímum Jesú var samfélag „hinna lærðu“ hreint ekki spennt fyrir því frekar en endranær að einhver kæmi – að utan – og færi að kenna með þeim hætti sem hann gerði. Og ekki bætti um að hann kenndi með þeim hætti að vald og kraftur fylgdi máli hans og fólkið flykktist að honum. Það var ekki talið að neinu leyti forsvaranlegt að gjörsamlega ólærður maður hegðaði sér með slíkum hætti !

Það myndaðist því þegar í byrjun andstaða gegn honum af hálfu fræðimannanna og hinna skriftlærðu og nokkuð víst er að þar hafi öfund og metnaðarhroki ráðið ferðinni að mestu. Kristur var nefnilega með þeim ósköpum gerður að hann virtist alls ekki kunna að hegða sér í samræmi við þá goggunarröð sem í gildi var !

En hann kenndi og útskýrði ritningarnar fyrir fólki svo að það sá Guðs orð fyrir sér í miklu skýrara ljósi og skildi það með nýjum og opinberuðum hætti. En sú opinberun skipti engu máli í augum lærdómsmannanna, það sem var höfuðatriðið og réði afstöðu þeirra, var að maðurinn sýndi þeim ekki þá virðingu sem þeir töldu sig eiga heimtingu á !

Aðeins örfáir þeirra á meðal lögðu við hlustir og reyndu að skilja hvað fólst í þeim boðskap sem Kristur bar fram. En jafnvel þeir töldu sig verða að fara varlega svo þeir kölluðu ekki yfir sig fjandskap og reiði hinna sem voru margfalt fleiri. Nikodemus kom til Jesú að næturþeli og tók ekki neina áhættu. Hann vildi ekki leggja að veði orðstír sinn og stöðu í samfélagi hinna lærðu þó hann fyndi í orðum Jesú eitthvað sem talaði til hjarta hans.

Og þannig var með þá sem frá mannlegu sjónarmiði hefðu helst átt að skilja boðskap Krists, þá menn sem höfðu legið yfir ritningunum og töldust hinir menntuðu og skriftlærðu meðal þjóðarinnar, þeir voru manna sjónlausastir þegar sannleikurinn horfði við þeim.

Og þannig er þetta enn í dag. Ekkert hefur breyst í þessum efnum. Öfundin og metnaðarhrokinn eru enn á sínum stað í hjörtum mannanna. Enginn – að utan – á að vaða inn á hið útvalda svið og reyna þar að afvegaleiða fólkið. Engin ný sannindi eiga að koma fram nema í gegnum hinn rétta farveg, hina mannfélags-skóluðu meginrás og í samræmi við rétta goggunarröð !

En samt gerast hlutirnir sem valda straumhvörfum í mannlífinu alltaf þar fyrir utan, því hinar fastbókuðu forskriftir sanhedrin-klíku-samfélags allra tíma taka aldrei við neinni opinberun eða nýjum sannindum. Til þess er umrætt samfélag allt of upptekið af eigin sjálfi og þeirri ímynduðu og fölsku upphafningu sem sjálfumgleðinni fylgir !

Kristur sá auðvitað að í sálum slíkra manna var lítill sem enginn móttakari fyrir þann boðskap sem hann flutti. Þar sem engin auðmýkt er til staðar gagnvart guðlegum sannindum er enginn jarðvegur fyrir boðskap af því tagi. Það þurfti því að tala til þeirra sem brugðu yfir sig blekkingarhjúpi ætlaðrar þekkingarstöðu með afhjúpandi hætti og Kristur gerði það óspart.

Hvað sagði hann ekki oft og iðulega við þá ? „Þið kallið ykkur lærimeistara í Ísrael og vitið þetta ekki !“ Í annað skipti sagði hann við fólkið: „Ef réttlæti yðar ber ekki af réttlæti fræðimanna og farísea, komist þér aldrei í himnaríki !“

Hann talaði um blinda leiðtoga blindra, hann sagði að menn skildu ekki tákn tímanna, hann varaði við súrdeigi farísea og saddúkea, hinum röngu kenningum þeirra !

Hann sagði: „ Þið síið mýfluguna en svelgið úlfaldann, þér líkist hvítum kölkuðum gröfum, sem sýnast fagrar utan, en innan eru fullar af dauðra manna beinum og alls kyns óþverra, þannig eruð þér, sýnist hið ytra réttlátir í augum manna, en eruð hið innra fullir hræsni og ranglætis !“

Og menn geta rétt ímyndað sér hvernig þessi og önnur ámóta ummæli hans virkuðu á lærða klúbbinn í þá daga, menn urðu alveg utan við sig af vonsku því hann kom við kaun þeirra og sýndi þeim hvernig þeir í raun og veru voru, í öllu falsi sínu og yfirdrepsskap !

Og enn er það svo að menn eru ekki viðkvæmari fyrir neinu eins og eigin sjálfi. Þeir ganga grímuklæddir um í gráðubúningum mannfélags-skólunarinnar og óttast það umfram allt að einhverjir uppgötvi að innan í öllum umbúðunum sé bara lítil, óttaslegin sál, full af minnimáttarkennd !

Í gamalgóðu íslensku kvæði spyr skáldið sem orti : „Höfum við gengið til góðs, götuna fram eftir veg ?“ Og það má líka spyrja þess sama í heild varðandi mannkynið allt. Við erum nefnilega ótrúlega gjörn á að ganga villugöturnar og ótrúlega andvíg því að leiðrétta stefnuna, jafnvel þó við séum farin að sjá að framundan sé ekkert annað en brotlending sálarlegrar afkomu.

Kristindómurinn hefur verið helsti ljósviti vestrænna landa um langt skeið, enda boðskapur hans frá Krists hendi verið í alla staði heilnæmur og góður og þeim til blessunar sem hafa við honum tekið. Hinsvegar hefur mjög misjafnlega verið haldið á málum af hálfu kirkjudeilda og margir þar tapað réttri sýn vegna metorðastrits og valdabaráttu og skaðað með því bæði sjálfa sig og aðra. Málefnið hefur liðið fyrir breyskleika manna alla tíð og þar hafa farísear, saddúkear og hræsnarar, lærði klúbburinn að langmestum hluta, alltaf átt sinn drjúga þátt í niðurrifsverkum hvers tíma. Það getur aldrei skilað sér til góðs þegar þjónar helvítis koma sér fyrir í kirkjum og þykjast starfa fyrir himnaríki ! „Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá“ sagði Kristur.

En slíkir munu líða undir lok, kynslóð af kynslóð, en Orð Guðs mun standa og vinna sitt verk meðan líf sem á von um frelsun er til á þessari jörð !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 177
  • Sl. sólarhring: 292
  • Sl. viku: 1586
  • Frá upphafi: 315567

Annað

  • Innlit í dag: 160
  • Innlit sl. viku: 1286
  • Gestir í dag: 159
  • IP-tölur í dag: 158

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband