Leita í fréttum mbl.is

Pælingar vegna hryðjuverka í París !

Það hafa mörg hryðjuverk verið framin í París. Hvernig skyldi ástandið hafa verið þar við Bartólómeusarmessuvígin 1572, þegar kaþólikkar drápu mótmælendur hvar sem þeir fundust, nágranna og vini, eða á byltingarárunum um og eftir 1790, við byltingarnar 1830 og 1848, við drápin á kommúnufólkinu 1870, þar sem sigruð frönsk yfirvöld fengu leyfi þýskra sigurvegara til að murka niður Parísarlýðinn og þá var sannarlega engin miskunn sýnd.

Já, hryðjuverk í París, þau eru svo sem ekki ný af nálinni, en stundum er ekki talað um hryðjuverk þó þau séu framin. Þegar „réttir aðilar“ fremja þau er talað með öðrum hætti.

Þegar París var tekin í ágúst 1944 hefði hún verið í rústum ef skipanir Hitlers hefðu verið framkvæmdar. Það höfðu verið settar sprengjur við allar meiriháttar byggingar og allt var tilbúið fyrir gífurlega eyðileggingu. En þýski hershöfðinginn Dietrich von Choltitz setuliðsstjóri í París var fyrst og fremst hermaður og hann sá ekki tilganginn með slíku framferði.

Honum hraus satt að segja hugur við slíkum Vandalisma. Hann sat því á þessum fyrirmælum og gerði það sem hann gat til að bjarga borginni frá vitfirringu Hitlers. Þegar borgin hafði verið tekin voru von Choltitz og helstu aðstoðarmenn hans fluttir á brott, en fólk hópaðist um þá og hrækti á þá hver sem betur gat og máttu þeir trúlega þakka fyrir að halda lífi.

Svona eru mannleg viðbrögð, en þarna átti í hlut hermaður sem var á réttum stað á réttum tíma, maður sem bjargaði Notre Dame, Sigurboganum, Eiffelturninum, brúnum á Signu, Hotel des Invalides, Pantheon, Tuileries, Versölum og yfirleitt öllum byggingargersemum borgarinnar, þeim sem Frakkar eru yfirleitt stoltastir af. Þetta átti allt að eyðileggja samkvæmt fyrirmælum höfuðböðulsins í Berlín.

Hefði æstur nazisti verið í sporum von Choltitz þarf líklega ekki að hugleiða hvað hefði gerst. Þessar byggingar hefðu verið sprengdar í rúst og þá hefði líklega ekki verið annað sagt en að sannkallað hryðjuverk hefði verið framið í París !

Alltaf er þörf að vega og meta mál og vita þarf til fulls hver óvinurinn er. Fjandmaður á vígvelli er alltaf vandamál út af fyrir sig, en óvinur sem hreiðrar um sig á meðal okkar getur verið margfalt hættulegri. Hollusta fólks við sameiginleg gildi er grundvallarnauðsyn í hverju þjóðfélagi og þeir sem ekki vilja sýna slíka hollustu eiga þar ekki heima.

Hryðjuverk beinast ekki bara að því að drepa fólk. Hryðjuverk er hvert það athæfi sem felur í sér eyðileggingu menningar og lista, hluta eða sögu sem mannkynið á í raun sameiginlega. Því er stríðið sem háð er við öfgaöfl múslimaheimsins varnarstríð fyrir menningu okkar, listir og trúarlega arfleifð. Ekkert af þessu er metið af þessum aðilum og þeir vilja menningu okkar feiga.

Samkomulagsgrundvöllur er því enginn gagnvart slíkum andstæðingum. Þeir vilja einfaldlega afmá okkar lífsgildi og þar er engin málamiðlun í boði. Sérhver undansláttur af okkar hálfu er skoðaður sem veikleiki og gengið er miskunnarlaust á lagið. Evrópulöndin hafa síðustu fimmtíu árin ástundað þá umburðarlyndisstefnu gagnvart þessu hatursfulla og blóðþyrsta liði, að það hefur keyrt upp öfgana sem nú vilja vaða yfir allt.

Snákarnir sem yfirvöld á Vesturlöndum hafa alið við brjóst sér eru sannarlega farnir að bíta. Og það mun sanna sig á næstu árum að stefnunni verður að gjörbreyta ef bjarga á Evrópu og menningu okkar og lífsgildum frá tortímingu. Við þurfum leiðtoga sem hafa hugsjón fyrir þeim gildum sem hafa verið leiðandi um aldir í okkar menningarheimi.

Ræktum þá menningu sem við eigum og njótum ávaxta hennar áfram sem hingað til og skiptum henni ekki út fyrir hrærigraut fjölmenningar sem sameinar ekki neitt en sundrar öllu !

Ef við verjum ekki okkar gildi og okkar lífsheim, verða hryðjuverkaárásir daglegt brauð á Vesturlöndum á komandi árum. Árásunum verður nefnilega stöðugt meira beint að lífsháttum okkar, hugsun okkar og viðhorfum, frelsi okkar til að hafa skoðanir og tjá þær. Hættulegustu óvinirnir í hryðjuverkahópunum eru öfgamennirnir sem hafa lifað á meðal okkar, menn sem hafa lengi notið þess að nærast við þjóðarborð okkar, fengið alla þjónustu þar fyrir sig og sína, en hafa í raun alltaf viljað okkur illt !

Það þarf og verður að uppræta fimmtu herdeildirnar í Evrópu sem fyrst. Enginn aðili sem í raun á í stríði, má við því að hafa slíkan herafla hollustuleysis að baki sér, sem hvenær sem er getur brugðið rýtingum á loft. Réttur manna og þjóða til sjálfsvarnar er ótvíræður og allt er í húfi sem okkur á að vera kært !

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 102
  • Sl. sólarhring: 151
  • Sl. viku: 1352
  • Frá upphafi: 316742

Annað

  • Innlit í dag: 68
  • Innlit sl. viku: 1047
  • Gestir í dag: 64
  • IP-tölur í dag: 64

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband