Leita í fréttum mbl.is

Foringjalausi flokkurinn !

Enn einu sinni hefur það sannast að Samfylkingin er svo mikill jafnaðarmannaflokkur að það er engin leið fyrir söfnuðinn að koma sér upp formanni. Þegar manneskja í flokknum býður sig fram gegn sitjandi formannsnefnu án nokkurs undangangandi undirbúnings, svona líklega til þess að lýðræðisleg kosning geti farið fram, koma frambjóðendur út á jöfnu. Skyldi nokkur jafnaðarmannaflokkur í heiminum vera svona jafn yfir línuna ?

Öll þessi ár frá því að Samfylkingin var stofnuð hafa menn verið að basla við að koma sér þar upp sæmilega frambærilegum formanni, en það virðist bara ekki hægt. Enginn hefur náð að höndla embættið með þeim hætti sem þörf er á. Það virðist bara ekki framkvæmanlegt að vænlegt foringjaefni geti komið fram og risið upp úr allri þessari meðaldrægu kratakássu !

Á sínum tíma voru gerðar svo miklar kröfur til Ingibjargar Sólrúnar að það lá fyrir frá byrjun að hún myndi að lokum brotlenda. Hún hefði aldrei getað mætt þeim væntingum með viðunandi hætti sem gerðar voru til hennar, en svo kom hrunið og feykti henni af stallinum.

En þó það hefði ekki komið hrun hefði Ingibjörg hrunið, því hún var komin yfir valdahæðina og farin að hrasa talsvert niður á við hinum megin.

Hún gerði sér líklega grein fyrir því að það væri að falla undan henni og því greip hún í Geir og hélt að með setu í ríkisstjórn myndi hún geta framlengt völd sín og áhrif en það var falsvon.

Hún var í raun orðin fallin stjarna þá þegar og að halda að það væri eitthvað hald í Geir sýnir glöggt að dómgreind hennar var ekki lengur upp á það besta. Það var hrein og klár örvænting sem stjórnaði gerðum hennar þar !

Það fer ekki vel með heilbrigða skynsemi að vera lengi til húsa hjá krötum og það sannaðist á Ingibjörgu Sólrúnu og hefur sannast á fleirum bæði fyrr og síðar og mun halda áfram að sannast.

Árni Páll Árnason er ekki foringjaefni og verður það seint. Til þess er hann of flatur, of sjálfumglaður og of tilgerðarlegur. Hann er ekki afgerandi í málflutningi, hann talar út og suður og kemst sjaldan þannig að kjarna málsins að fólki skiljist hver hann er. Hann hefur ekki skýra sýn fyrir augum hvað beri að gera og hugsjónamaður er hann lítill sem enginn. Hann er meira í þörf fyrir að vera leiddur en leiða.

Það er því í alla staði við hæfi að hann lafi inni sem formaður Samfylkingarinnar á einu atkvæði – sínu eigin atkvæði !

Samfylkingin er eiginlega ekki íslenskur flokkur, þar er miklu fremur um að ræða einhverskonar evrópska samsuðu sem á afltaug sína úti í Brussel og virðist ekki geta séð að Ísland eigi sér aðra framtíð en sem útibú frá ESB ! Það virðast engar lausnir liggja á félagslegu færibandi krata nema í gegnum aðild að ígildi erlends konungsvalds ! Hin þjóðlega reisn innan flokksins er yfirleitt í svo lágum gír að hún nær sjaldnast venjulegri naflahæð !

Sumir halda að Samfylkingin sé arftaki Alþýðuflokksins, en ef svo er, virðist arfleifðin hafa glatast að talsverðum hluta við millifærsluna. Þeir fáu kostir sem Alþýðuflokkurinn gat státað af hafa nefnilega ekki skilað sér svo nokkru nemi, en hinsvegar hefur Samfylkingin flesta af hinum mörgu göllum Alþýðuflokksins hvort sem þeir hafa erfst eða sprottið upp af sjálfu sér í þessari nýju gorkúlu ætlaðrar jafnaðarmennsku. En ef til vill er um arfleifð að ræða sem er enn annarlegri en sú frá Alþýðuflokknum ?

Kannski fluttist yfir í Samfylkinguna einhver görótt fylgja frá Þjóðvaka, einhver afstæð og uppskrúfuð Jóhönnugerjun sem blandar ólyfjan í íslensk stjórnmál ofan á alla þá eitrun sem þar er fyrir ?

Forsendur mála eru að minnsta kosti þannig í pólitísku samhengi hlutanna, að það er varla hægt að búast við því að einhver foringi verði til við þær aðstæður sem ríkt hafa og ríkja enn í þeirri flokksónefnu sem Samfylkingin er. Barnasjúkdómarnir virðast svo miklir og margir innan flokksins að það hálfa væri nóg.

Það má líka vissulega spyrja í fullri alvöru af hverju Samfylkingin sé yfirleitt að reyna að koma sér upp formanni ? Er ekki langheppilegast og best við hæfi fyrir flokk af þessu tagi að formannstöðunni sé jafnað út í þriggja manna nefnd, þar sem sitji einn og hálfur karl og ein og hálf kona ?

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 185
  • Sl. sólarhring: 279
  • Sl. viku: 1594
  • Frá upphafi: 315575

Annað

  • Innlit í dag: 166
  • Innlit sl. viku: 1292
  • Gestir í dag: 164
  • IP-tölur í dag: 163

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband