Leita í fréttum mbl.is

Hugleiðing um hjálpræðisher Hippokratesar og skyld mál !

Eitt sinn var uppi maður sem hét Natan og var Ketilsson. Hann hafði líklega mikla áskapaða hæfileika til læknisstarfa, en þótti þó ekki vandur að meðulum. Og læknir sem ekki er vandur að meðulum er ekki góður læknir. Natan sagði bóndanum Sveini Þorvaldssyni á Illugastöðum á Vatnsnesi að hann gæti læknað hann, en Sveinn var sjúkur maður. En Natan sagðist vilja fá jörðina í staðinn !

Þannig eignaðist Natan Illugastaði, hann neyddi sjúkan mann til að afhenda sér jörðina á þessum forsendum. Það má segja að sá verknaður hans hafi ekki orðið honum til blessunar. Hann var myrtur af manneskjum sem hann hafði komið illa fram við. Það voru fleiri en Sveinn Þorvaldsson sem urðu fyrir yfirgangi hans. Sennilega hafa nokkuð margir á þeim tíma haft þungan hug til Natans Ketilssonar, enda var hugsun hans til manna ekki kærleiksrík eða þrungin líknarhugsjón. Hann orti til dæmis þessa vísu sem segir líklega sitt um afstöðu hans til náungans:

Þó ég annars vildi var

verða um sannleiks þankafar,

veginn banna betrunar,

bölvaðar mannaskammirnar !

En þegar mikill skortur var á læknum hérlendis á sínum tíma risu víða upp menn sem öfluðu sér þekkingar á læknisdómum og hjálpuðu fólki ótakmarkað. Sumir þeirra voru að öllum líkindum afburðamenn hvað læknishæfni varðar og höfðu áreiðanlega náðargáfu til að sinna sjúkum. Slíkt veganesti getur verið betra en háskólapróf í læknisfræði sem er kannski án slíkrar náðargáfu.

Fjöldi lækna hefur verið til á öllum öldum sem hafa borið stétt sinni fagurt vitni, líknað sjúkum og linað þrautir, staðið í eldi drepsótta og allskyns pesta, lifað með svo fórnfúsum anda að ég er ekki í nokkrum vafa um að á þeim stað sem í hugum manna er himnaríki, hamingjustaður útvalinna Guðs barna, mun áreiðanlega vera mikið um lækna. En ég hygg að þeir verði þar færri frá þeim tíma sem nú fer yfir jörðina, því andinn sýnist vera orðinn talsvert annar innan læknastéttarinnar en hann var.

Meðal íslenskra lækna hafa samt verið margir afburðamenn, menn sem hafa haft mikla verklega hæfni til starfans og sannan mannúðaranda í brjósti. Erfiðleikar læknisstarfsins hér áður fyrr voru hinsvegar tröllauknir að umfangi. Læknar þurftu að þjónusta stór umdæmi, áður fyrr, að sundríða ár og berjast við náttúruöflin óblíð og ströng í öllum þeirra myndum til að ná til sjúklinga sinna, hlynna að þeim, lina þrautir þeirra, bjarga mannslífum !

Þar hefur göfugmennska og óeigingirni verið sýnd ótal sinnum í svo miklum mæli að enginn veit né skilur það nema Guð einn. Þó læknisstarf sé ekki ástundað í dag hérlendis við slíkar aðstæður þarf samt sama andann enn og áfram til að líkna og lina þrautir, til að hjálpa, bjarga mannslífum og græða andleg og líkamleg sár, öll mannanna mein eftir því sem mögulega er hægt.

En önnur og eigingjarnari sjónarmið hafa líka oft spillt hinum helga reit hugsjónanna í þessum efnum svo margt hefur skaddast þar sem áður var heilt. Stóraukin einkavæðing læknisstarfsins í seinni tíð í þágu peningalegra viðmiða hefur ekki reynst veganesti til góðs, hvorki fyrir samfélagið né læknana sjálfa. Menn hafa þar fjarlægst þau markmið sem keppa bar að og trúlega skaðað með því eigin sál og skert lífsgæði annarra. Fleiri en Sveinn Þorvaldsson þurfa jörð til að lifa á !

Kannski fer að koma að því að við þurfum aftur að leita á náðir hómópata, vegna þess að réttindalæknar eru þegar að verða eða þegar orðnir of dýrir fyrir venjulegt fólk, svo það er ekki að verða á færi annarra en efnafólks að búa við þjónustu þeirra. Við slíkar aðstæður verðum við í krafti neyðarréttar að koma okkur upp utankerfis-læknum, hæfnisfólki sem hefur það í sér að líkna og hjálpa og starfa í anda þeirrar köllunar að verja lífið og viðhalda því, en lifir ekki fyrir tekjustigið eitt !

Heldur kysi ég að njóta þjónustu slíks manns en tískulæknis eða sérfræðings út í bæ, sem kann að hafa mikið batterí í kringum sig en hefur ekki þann anda í sér sem hefur gefið Hippókratesareiðnum líf til samfélagslegrar blessunar á liðnum öldum. Það er sá andi sem hefur gefið læknastéttinni þann frábæra orðstír sem hún hefur löngum haft í mannlegu samfélagi og án hans skapast dauði þar sem áður var líf !

Að lækna sjúkleika manna en rýja þá jafnframt inn að skinni fjárhagslega, er læknishjálp sem hefur andfélagslegar afleiðingar í för með sér, og að geta ekki læknað sjúkleika manna en rýja þá engu að síður inn að skinni fjárhagslega, er meira en andfélagslegur framgangsmáti, þá erum við að tala um verri hluti en það. Sérhver tími hefur sinn tíðaranda – og sá tíðarandi sem fer um allt samfélag okkar í dag er vondur, hann er hrokafullur, eigingjarn, gráðugur og fullur af sjálfselskulegum viðhorfum.

Það er alls staðar illt að mæta slíkum viðhorfum, en einna verst þar sem allir hafa lengstum búist við öðru. Við þurfum öll að leggja okkar til í baráttu við þennan vonda tíðaranda sem er skapaður af okkur sjálfum, skapaður af þeim eðliseiginleikum Mr. Hydes sem búa í okkur öllum. Við þurfum öll að leggja okkar til þess að göfugur andi Dr. Jekylls ráði þess í stað - öllu samfélagi manna til blessunar !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 176
  • Sl. viku: 1433
  • Frá upphafi: 315603

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 1154
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband