Leita í fréttum mbl.is

Málamynda sjálfstæði !

Það er alkunna að menn eru misjafnlega gerðir og það svo að í mörgum tilfellum geta menn verið afskaplega ólíkir. En eitt er nokkuð sameiginlegt með flestum mönnum, og það er að vera viðkvæmir og hörundssárir fyrir eigin sjálfi. Þessi veikleiki sést auðvitað einna best í fari manna sem eru mikið í sviðsljósinu. Það getur til dæmis í allmiklum mæli átt við fólk í menningarlífinu og listageiranum og þá sem eru í pólitík !

Nú er það svo, að í pólitík verða oftast til einhverjir flokksforingjar. Og þeir geta verið með ýmsu móti eins og við vitum, en sumir þeirra virðast þó vera með það afskaplega mikið á hreinu innra með sér að þeir séu foringjar. Og líklega er það þessvegna sem það hendir þá stundum að tala niður til annarra - og ekki síst náinna samstarfsmanna !

Slíkir „stórforingjar“ virðast ekki gera sér nokkra grein fyrir því að þeir sem ganga þeim næst að völdum, þurfi á því að halda sjálfs sín vegna að það sé tekið eitthvert tillit til þeirra, jafnvel þó það sé kannski bara til málamynda og að þeir vilji umfram allt að málamynda-sjálfstæði þeirra sé virt einhvers. Tillitsleysið er stundum svo mikið að það leiðir oft til mikilla sárinda og þau sárindi geta dregið dilk á eftir sér. En foringjar sem eru alræðissinnaðir í eðli sínu eru vanastir því að valta yfir allt og alla og taka það ekki til sín að aðgát skuli höfð í nærveru sálar.

Við þekkjum líkast til ýmis dæmi úr íslenskri pólitík varðandi þetta efni. Og sambærileg tilfelli erlendis eru legio. Það eru auðvitað ekki allir stjórnmálamenn stórrar gerðar, reyndar held ég að þeir séu afar fáir, en jafnvel menn sem ekki eru afgerandi að innviðum til, vilja samt að aðrir haldi að þeir séu það og að þeim sé sýnd einhver virðing. Það er svona viss aðferð til að lyfta sjálfinu upp á við og reyna að halda áskapaðri minnimáttarkennd niðri um leið.

Sumir sem eru í pólitík og vita að þeir hafa aldrei haft þá innri burði sem þeir þyrftu að hafa, myndu samt seint viðurkenna að það eina sem þeir hefðu til brunns að bera væri liðugur talandi. Slíkir menn hafa mikla þörf fyrir það að látast vera sjálfstæðir þó þeir viti allra manna best að þeir eru það ekki. Sumir flokksforingjar virðast samt hafa skilið þetta vandamál manna að einhverju leyti og svo virðist til dæmis hafa verið með Halldór heitinn Ásgrímsson !

Það var eiginlega merkilegt hvað hann sem flokksformaður kippti sér lítið upp við það þó Guðni Ágústsson væri með ýmsar yfirlýsingar oft og tíðum sem hefðu þó átt að koma illa við hann. En kannski var ástæðan fyrir afslappaðri framkomu Halldórs sú að hann hefur alveg vitað hvar hann hafði Guðna. Já, kannski vissi hann að Guðni þyrfti bara að viðra svolítið sitt málamynda-sjálfstæði, en það fælist engin raunveruleg ógn í þeirri uppsetningu. Kannski vissi Halldór alveg fyrirfram að Guðni myndi alltaf láta undan og éta allt ofan í sig sem hann hefði áður sagt. Kannski var Halldór Ásgrímsson bara töluverður mannþekkjari á bak við allan þumbaraskapinn ?

En svo eru aðrir foringjar - eins og fyrr segir, menn af allt annarri gerð. Þeir eru svo miklir foringjar að þeir þola mönnum ekki einu sinni málamynda-sjálfstæði og síst af öllu eigin undirmönnum. Þar er um að ræða ákveðna manngerð, sem við getum til hægðarauka kallað D gerðina – Drottnaragerðina ! Menn sem tilheyra þeirri gerð eru svo vissir um eigið ágæti að skilaboð þeirra til annara eru einfaldlega : „ Ég er kóngurinn og þú hlýðir – eða hefur verra af !“

Það er eflaust erfitt hlutskipti að vera undirmaður slíks foringja. Hann krefst nefnilega svo mikils. Hann leyfir ekki lítilsigldum undirmönnum að vera með og viðhafa eitthvert málamynda-sjálfstæði, hann lítur á það sem ótvíræða uppreisnartilburði, hann verður reiður og segir: „Ég líð þetta ekki, svona gerum við ekki !“ Og vesalings greyið sem ætlaði að auka tommu við ímyndað gildi sitt með því að tuða eitthvað, verður þess í stað að gjalti !

Og það er alkunna að foringjar sem eru svona miklir foringjar, halda áfram að vera foringjar þó aðrir séu kosnir í þeirra stað. Hollusta fjölmargra flokksmanna virðist límd við slíka stórforingja. Þess eru jafnvel dæmi að eftirmenn þeirra nái aldrei fótfestu á stjórnmálasviðinu vegna þess að skuggi hins stóra fyrirrennara byrgir þeim sýn í allar áttir, stendur þeim stórlega fyrir þrifum. Þeir verða jafnvel enn minni en þeir þyrftu að vera, vegna þess að í eigin hugsun eru þeir ekki búnir að taka við foringjahlutverkinu heldur eru þeir enn í viðjum undirgefninnar gagnvart stóra fyrirrennaranum. Slíkir menn geta ekki einu sinni sýnt málamynda-sjálfstæði, þeir hafa verið kúskaðir of mikið sem undirmenn til þess að geta risið frá því !

Og kannski er ráðríki og valdsmennska sumra í íslensku samfélagi orðin svo mikil fyrir kvótagull og hverskyns kerfishyglingar undanfarinna ára og áratuga, að þörfin fyrir málamynda-sjálfstæði sé að margfaldast meðal þjóðarinnar. Má ekki sjá þess merkin vítt og breitt ?

Hvað með almenna sjómenn, hvert skyldi nú sjálfstæði þeirra vera gagnvart kvótagreifunum og útgerðarvaldinu, skyldi það vera raunverulegt eða bara málamynda-tilraun til uppréttrar stöðu ?

Er persónulegt sjálfstæði manna og mannréttindi þeirra á uppleið í þessu landi eða niðurleið ? Er valddreifing að aukast eða minnka, er misskipting að vaxa eða minnka ? Er réttur manna og geta til sjálfstæðis á Íslandi meiri í dag en fyrir 25 árum ?

Er fólk í miklu meiri mæli að ánetjast hinu minnimáttarháða málamynda-sjálfstæði í dag en það var áður fyrr ? Ég er á því að réttu og sönnu svörin við þessum og þvílíkum spurningum séu samfélagi okkar til lítils sóma !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 203
  • Sl. sólarhring: 253
  • Sl. viku: 1224
  • Frá upphafi: 309918

Annað

  • Innlit í dag: 186
  • Innlit sl. viku: 1052
  • Gestir í dag: 185
  • IP-tölur í dag: 183

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband