Leita í fréttum mbl.is

SJÁLFSSÓKNARFLOKKURINN

Mörgum finnst sem pólitískar landamæralínur milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafi hreinlega horfið á síðustu árum. Þar segja menn engin greinanleg skil lengur.

Víða er á það bent að Framsókn hafi færst talsvert til hægri undir forustu Halldórs Ásgrímssonar og telja sumir að maddaman sé jafnvel farin að skáka Sjálfstæðisflokknum á ýmsum fornum kjörsviðum hans. Það sé því nokkuð hlálegt að hugsa til þess að flokkurinn sem forðum hafði á hraðbergi slagorðið “ Allt er betra en íhaldið “ skuli,  að margra dómi, vera kominn allt að því hægra megin við íhaldið í stóriðjumálum, frjálshyggju-sjónarmiðum, einkavæðingar-stefnu og hömlulausri Mammonsdýrkun.

Vilja sumir tala um Stóra Sjálfstæðisflokkinn og litla sjálfstæðisflokkinn í þessu sambandi. Þykir mörgum sem Framsókn hafi slitið öll tengsl sín við félagshyggjustefnu fyrri ára með blóðsáttmála sínum við íhaldið undanfarin ár. Segja þeir hinir sömu jafnframt að Framsóknarforustan sé þegar búin að slá öll forn met krata í undirgefni og þjónkun við íhaldið og er þá vissulega langt gengið.

Er það nú ætlun sumra að Framsóknarflokkurinn muni með tíð og tíma renna saman við Sjálfstæðisflokkinn, enda sé það tóm vitleysa af mönnum með sama hugsunarhátt að vera að halda úti tveim flokkum !

Allt er þetta umhugsunarvert því ljóst er að fáir líta á Framsóknarflokkinn sem vinstri flokk nú til dags, þó hann hafi óneitanlega í eina tíð viljað gangast við slíkri skilgreiningu.
En Framsókn hefur svo sem ýmsu tjaldað um dagana.

Um skeið var flokkurinn inn á því að skilgreina sig sem miðjuflokk og varaði þá við öfgum jafnt til hægri sem vinstri. En svo kom Steingrímur Hermannsson flokknum aftur í nokkurnveginn hefðbundið vinstra far en þó brá alltaf fyrir ýmsum maddömu-sveiflum til hægri og vinstri, sennilega  eftir því sem vindurinn blés. En svo segja menn að Halldór Ásgrímsson hafi sem formaður kippt flokknum snarlega upp úr Steingríms-farinu og dregið hann langleiðina inn í Sjálfstæðisflokkinn. Með þeim gjörningi hafi Halldór í raun lagt undirstöður að nýjum hægri flokki – Sjálfssóknarflokknum ! Flokki sem sækir allt fyrir sjálfan sig og sjálfan sig einan !

Mörgum fannst nú nóg að hafa einn slíkan flokk fyrir í landinu þó ekki bættist annar við !
Davíð Oddsson færði, svo sem flestum er kunnugt, Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra-embættið á samtryggðu silfurfati. Með þeim gjörningi hefur Davíð sennilega fyrst og fremst verið með það í huga, að þóknast Halldóri persónulega með því að gefa honum kost á vegtyllu sem sá síðarnefndi mun vafalaust all lengi  hafa haft augastað á.

Einhverjir maddömumenn munu samt sem áður hafa verið ósáttir við það, að formaður Framsóknarflokksins skuli hafa fengið forsætisráðherraembættið sem einhverskonar dúsu eða umbun frá Sjálfstæðisflokknum - eins og framlag fyrir veitta þjónustu....!

En skiptir það einhverju máli þegar Framsóknarmenn, að minnsta kosti margir hverjir, virðast  orðnir að gallhörðum Sjálfstæðismönnum í hjarta sínu ?

Víða í sveitum landsins sitja gegnheilir Framsóknarmenn af eldri kynslóðinni, sem hafa alltaf haft á hreinu hugsjónir félagshyggju og samvinnustefnu, en sem nú vita ekki sitt rjúkandi ráð. Þeir horfa sem eyðilagðir menn upp á flokksforustuna vinna í öfugum anda sem hjálparkokkur íhaldsins í því  að brjóta niður ölturu félagshyggjunnar í þessu landi. Ölturu sem Framsóknarmenn fyrri ára lögðu mikið í að byggja upp !

Vegna þessarar þjónkunar gerði íhaldið Halldór Ásgrímsson að forsætisráðherra. Það vissi að öllu var óhætt, þeirra maður sat hvort sem var og engu að síður í embættinu  !

Stóri Sjálfstæðisflokkurinn var þannig um tíma leiddur af  litla sjálfstæðis-flokknum. Stóri flokksformaðurinn gekk nefnilega út af sviðinu undir dynjandi lófataki dýrkenda sinna og skildi við flokkinn sinn í þeirri auðmýkjandi stöðu, að sitja undir forsæti litla flokksformannsins.
Það var nú lokasigurstaðan hjá þeim mikla manni !

Og litli flokksformaðurinn var sæll og glaður um tíma með sína vegtyllu, þó hann hefði leitt flokkinn sinn inn í pólitískt tómarúm sem hefur ef til vill lokað alfarið á alla afturkomu til félagslegra átthaga fyrri hugsjóna.

En svo ákveður hann allt í einu að hætta í stjórnmálum og hefði þó verið skynsamlegra af honum að sitja út kjörtímabilið, svo hans yrði ekki minnst eftirleiðis sem Framsóknarforsætisráðherrans, sem smeygt var í gustukaskyni inn á milli tveggja sjálfstæðismanna !

En hann er þó ekki meira hættur en það, að hann vill sjálfur ráða mestu um það hver tekur við af honum í Framsóknarflokknum og nú er hald sumra að Jón úr seðlabankanum eigi að vera arftakinn, eftir að Finni var fargað í beinni.

Sú var tíðin að afdankaðir ríkisstjórnargaurar urðu nánast sjálfkrafa blýantsnagarar í seðlabankanum og ekki síst formenn flokka, en nú er farið að snúa þeim málum heldur hressilega við, maður er sóttur í seðlabankann og gerður að ráðherra og hver veit, kannski flokksformanni innan tíðar !

Og Guðna varaformanni, sem nánast einn Framsóknarráðherranna hefur að einhverju leyti reynt að halda í þjóðlegar hefðir og félagsleg viðhorf, virðist alfarið hafnað af flokksforustunni sem framtíðarleiðtoga flokksins.

Hvað myndu þeir Tryggvi og Jónas annars segja, ef þeir gætu horft upp á flokkinn sinn í dag, miðað við þá afstöðu til mála sem þeir höfðu meðan þeir voru og hétu ? Skyldu þeir þekkja flokkinn sinn aftur, skyldu þeir kunna við þá græðgi sem hefur einkennt valdatíð hans síðustu árin eða kannski telja að fram væri komið eitthvað fyrirbæri sem væri verra en íhaldið ?

Rúnar Kristjánsson

(Ritað sumarið 2006.)

---

FRAMSÓKN – FYRR OG NÚ

Er Jónas og Tryggvi með talandi verkum
tímunum breyttu með vorhuga sterkum,
svo samvinnuhugsjónin lýsti upp landið
með lifandi hætti – var forustu treyst.
Gegn íhaldsins valdi þeir sigrana sóttu
og sérstakir foringjar alla tíð þóttu,
svo fjölmargir tóku á sig flokkslega bandið
og Framsóknarmerkið var þannig upp reist !

Þó upphafið væri með vænlegum hætti
sem víða úr meinlegum aðstæðum bætti,
þá sóttu nú að hinar sérlegu þarfir
og svo fór að lokum að mörgu var gleymt.
Því flokkslega hagstjórnin heimtaði mikið
og hanarnir settust þar fljótlega á prikið,
og breyttu þar áherslum öllum svo djarfir,
að enginn gat lengur hið glataða heimt !

Og þannig var spilað með hugsjónir háar,
að hagstjórnin gerði þær allar svo smáar,
og þynnti hvert gildi sem göfugt var talið
uns græðginnar andi þar húsunum reið.
Og pólitísk skurðgoð við tilbeiðslu tálsins
þá tálmuðu framgangi upprunamálsins,
og síðan var stöðugt á einsýni alið
og uppeldið miðað við flokkslegan seið !

Og þjónkun við öfuga sjálfstæðis siði
var saumuð við flokkinn með útlendu sniði.
Þótt hanarnir göluðu um íhaldið auma
þeir áttu í hjartanu samleið með því.
Svo fljótt stefndi allt fyrir ætternisstapa
því erfitt er löngum úr hugsjón að skapa
þann raunveruleika sem ræður við drauma
og ratar til framtíðar gæfuspor í !

Þó Jónas og Tryggvi með talandi verkum
tímunum breyttu með vorhuga sterkum,
fer nú í súginn til sjálfstæðismanna
hver sigur er forðum var unninn af þeim.
Svo nú er hún Framsókn að falla á tíma
því flokknum er liðin úr minni sú glíma
sem fyrrum var háð fyrir samvinnu sanna
með sækjandi krafti um íslenskan heim !

Rúnar Kristjánsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 43
  • Sl. sólarhring: 81
  • Sl. viku: 1318
  • Frá upphafi: 316237

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 1046
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 27

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband