Leita í fréttum mbl.is

Um traust á þingflokkum o. s. frv.

Mörgum þótti Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur takast það ófimlega fyrir nokkru að tyfta og aga þingflokkinn sinn. Sjálfsagt hafa margir hugsað með sér, að henni væri öllu nær að gæta að eigin stöðu og reyna að standa sig í henni. Fyrir kosningar munu kjósendur líklega helst velta því fyrir sér hvort þeir geti borið traust til flokksformannanna sjálfra, sem marka trúlega frekast þá stefnu flokka sinna sem farin verður.

Sú var tíðin í Samfylkingunni að Össur þótti ekki nógu frambærilegur sem formaður fyrir kosningar. Þá var gripið til þess ráðs að gera sjálft stjörnugoðið, umrædda Ingibjörgu Sólrúnu, að forsætisráðherraefni flokksins og átti það að verða til þess að kjósendur hlypu hver um annan þveran til að kjósa Samfylkinguna.

Slík ofurtrú ríkti þá innan flokksins á því trausti sem þjóðin átti að bera til Ingibjargar Sólrúnar. Þessi flétta fór þó að mestu leyti í vaskinn því það vantaði kjarnann í hana – þjóðin hafði einfaldlega ekki þetta ætlaða traust á Ingibjörgu og taldi hana sjáanlega ekkert stjörnugoð !

Og hvert varð svo framhaldið ? Jú, þingflokkurinn hélt áfram að hafa mikla trú á Ingibjörgu þrátt fyrir allt og brátt var hún gerð að formanni flokksins og þá átti nú aldeilis að birta yfir. En saga Samfylkingarinnar er enn ýmsum skuggum vafin og vandséð hvað hleypt getur birtu inn í þær pólitísku dimmuborgir.

Og svo kom að því sem fyrr segir, að Ingibjörg formaður sem á bersýnilega í vandræðum með að skýra gengisleysi flokksins undir eigin stjórn, greip til þess örþrifaráðs að gagnrýna sitt eigið ráðuneyti, sem hingað til hefur mænt upp á hana votum hundstryggðaraugum.

Skyldi ekki þingflokkurinn hér eftir fara að þvo af sér persónudýrkunarglýjuna og sjá hlutina í raunhæfara ljósi ? Það er þó ómótmælanlegt að innan þess hóps eru einstaklingar sem hafa staðið sig vel í sínu starfi og njóta trausts sem slíkir. Þeirra tími hlýtur að koma myndi margur segja.

Ingibjörg Sólrún hefur nú haldið a.m.k. tvær illa grundaðar ræður utan Reykjavíkur. Það er eins og hana skorti súrefni til heilans þegar hún fer í ræðustól utan borgarmarkanna. Haldi hún hugsanlega þriðju ræðuna með svipuðum hætti, gæti svo farið að þingflokkur Samfylkingarinnar færi að efast um hæfni hennar fyrir komandi kosningar og flokkurinn yrði aftur tvíhöfða fyrirbæri, forustulega séð. Össur yrði gerður að forsætisráðherraefni flokksins fyrir kosningarnar og hún yrði eins og hann áður - halaklipptur formaður.

Það yrðu vissulega stórslysaleg örlög fyrir margra ára stjörnugoð Samfylkingarinnar !

Margir hafa orðið til þess að undrast umsögn Ingibjargar varðandi eigin þingflokk, sumir hafa harmað þá uppákomu en pólitískir andstæðingar séð ríka ástæðu til að fagna af því tilefni.

Jafnvel Framsóknarmenn hafa þóst góðir yfir þessu axarskafti Ingibjargar og  haft málið í skympi, en þeir virðast ekki hafa hugsað út í það í hvílíku glerhúsi þeir sjálfir hafa staðið í hliðstæðum efnum.

Nýlega urðu formannsskipti hjá þeim og fráfarandi formaður gat ekki séð nokkurn möguleika á því að láta kjörinn varaformann taka við embættinu. Honum var sem sagt ekki treystandi til að halda á málum fyrir flokkinn. Ekki var þingflokkurinn beysnari að áliti guðföður kvótakerfisins, því enginn þar kom heldur til greina sem formannsefni. Slíkt var hæfnisleysið !

Reynt var að troða upp með viðskiptagúrú út í bæ sem formann en hann fékk ekki þann stuðning sem þurfti.

Þá brá fráfarandi formaður Framsóknar sér í öfugan snúning og sótti formannsefni í Seðlabankann sem síðan var karað formlega í embættið nokkrum vikum síðar. Við þá athöfn var svo sami varaformaður og hafði mætt fyrrgreindu vantrausti kosinn þrumukosningu á ný eins og ekkert hefði í skorist !

Steingrímur Hermannsson hefði sennilega hrist hausinn yfir svona vinnubrögðum og sagt mæðulega : “ Æ, ég verð nú bara að segja að ég hef áhyggjur af þessu ! “

En mæðudagar Framsóknar verða nú varla fylltir fyrr en þá í vor og sennilega hefði verið ráðlegast að stilla Kristni H. Gunnarssyni  upp sem formannsefni flokksins.

Segja má að hann einn þingmanna Framsóknar hafi verið svona nokkurnveginn frír við alla Halldórsvitleysuna sem hefur gengið yfir þennan fyrrverandi félagshyggjuflokk eins og farsótt á undanförnum árum og drepið hann í dróma íhaldsþjónkunar og sívaxandi aumingjadóms.

En þar sem Kristinn er farinn úr Framsókn og flokksmönnum þar var fyrirmunað að sjá í tíma að hann gæti hugsanlega bjargað þeim, er sú fléttan auðvitað farin.

Það er svo sem ekki nema von að þjóðin eigi erfitt með að gera upp hug sinn fyrir komandi kosningar þegar pólitískir valkostir eru að verða jafn snautlegir og raun ber vitni. Jafnvel menn sem hafa alla tíð haft sannfæringu fyrir ákveðnum valkosti sem hinum rétta, eru nú í fullkominni óvissu með hvað þeir koma til með að gera.

Sumir halda því líka blákalt fram að mannlegu atgervisstigi innan þingsins hafi verulega hrakað á seinni árum og líklega má færa þó nokkur rök fyrir því að svo sé. Ef það er í sannleika svo, er um lýðræðislega afturför að ræða sem hefur sín slæmu áhrif fyrir þjóðina alla. Þeim virðist stöðugt fjölga sem telja sig sjá dæmin um þetta.

Það er meira en dapurlegt þegar það virðist að öllum líkindum gildandi staðreynd, að alþingi sem slíkt hafi aldrei í sögu sinni notið minni virðingar meðal þjóðarinnar en einmitt núna. Það er meira en dapurlegt segi ég, því það er beinlínis hættulegt með tilliti til eðlilegrar lýðræðisþróunar í landinu.

Skyldi ekki mega halda því fram að þjóðhagsleg nauðsyn kalli á það að kannað verði hvernig á því stendur ?

Jan. 2007.
Rúnar Kristjánsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 48
  • Sl. sólarhring: 110
  • Sl. viku: 1477
  • Frá upphafi: 315647

Annað

  • Innlit í dag: 34
  • Innlit sl. viku: 1186
  • Gestir í dag: 31
  • IP-tölur í dag: 31

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband