Leita í fréttum mbl.is

Öll rétthugsunarkerfi vega að hugarfrelsi manna !

Það er býsna oft athyglisvert að upplifa það hvernig menn bregðast við andstæðum skoðunum. Ég heyri menn oft halda ýmsu fram sem mér þykir fjarstæða, en mér dettur ekki í hug að véfengja rétt þeirra til að hafa sínar skoðanir og tjá þær. Á seinni árum hefur mér hinsvegar fundist það færast í vöxt að menn ánetjist einhverjum menntunarbókuðum rétthugsunarkerfum sem þeir virðast telja að allir eigi og verði að fylgja, það virðist einkum gerast í gegnum menntunarferli, flokksstarf eða hliðstæða hluti – nánast allt sem þrengir að þankagangi og fær menn til að halda að þeir sjái víðáttur í gegnum skráargöt !

Þegar slíkt rétthugsunarferli skapast, byggt á viðhorfum manna sem telja sig vegna menntunar standa öðrum framar, hlýtur það að koma niður á öllu jafnræði og þar með lýðræðisrétti manna almennt. Þegar einhver segir í raun við annan : „ Ég geri kröfu til að hafa meiri mannréttindi en þú af því að ég er menntaðri en þú“, erum við komnir inn í nokkuð undarlegan hugsunargang og einkennilega sýn á mannréttindi sem eiga auðvitað að vera öllum jafnboðin. Hluti af mannréttindum er að fá að hafa sínar eigin skoðanir. Þegar einhver hrokafull mannlífseintök skilgreina skoðanir annarra sem fordóma er aðeins um að ræða ósvífna tilraun til yfirgangs í skjóli einhverrar viðvarandi rétthugsunar. Slíkum yfirgangi ber að mæta af fullri einurð og láta ekki kúga sig til þagnar.

Einstaklingar sem þjóðir hafa rétt til að ráða eigin örlögum og forræðishyggja vill oft verða helmingur spyrðubands á móti einræðishyggju. Það er ranglæti að vega gegn hugarfrelsi einstaklingsins því vilji mannsins er og á að vera hans himnaríki. Kúgun í nafni rétthugsunarmódela er á okkar tímum afar lúmsk leið yfirgangsafla til að þagga niður alla gagnrýni. Menn hafa rétt til að hafa skoðanir.

Í Svíþjóð gerðist það á sínum tíma að „hámenntuð menningarelíta“ fór að krefjast þess að fá að hafa umsjón með því sem væri þjóðinni fyrir bestu. Aðrir væru ekki færir um það. Þetta mjög svo menntaða lið var með augu sín út um alla veröld og sá þar undursamlega ævintýraflóru, en jafnan var horft af þess hálfu hátt yfir heimahagana og lítt hugað að málum þar. Þessi sænsku yfirvöld töldu víst að þau hefðu þegar unnið alla hugsanlega sigra heimafyrir og velferðarsamfélagið myndi reka sig sjálft að mestu leyti áfram því hið fullkomna módel lægi því til grundvallar.

En svo kom að því að sjálfumgleði Svía og værðarhyggja velferðarstjórnar þeirra fékk yfir sig efnahagslega brotlendingu og síðan hefur komið í ljós að ekkert er líklegra en að brotlendingarferli þeirra muni halda áfram á komandi árum. Vandamálin sem búin hafa verið til þarlendis af yfirvöldum sem sáu yfirleitt ekki eigið land og hagsmuni þess fyrir veruleikafirrtri draumsýn fjölmenningar, eru svo hrikaleg að þeim er vart lýsandi og þar ber náttúrulega innflytjendavandann hæst.

Á Íslandi hefur alltaf verið til hliðstæður menningarelítuhópur og í Svíþjóð, en sem betur fer hefur hann ekki fengið öll völd hérlendis. Þó hefur hann í allt of miklum mæli – að mínu mati - haft áhrif til hins verra með rétthugsunargeipi sínu og stöðugum ásökunum um fordóma annarra.

Ég hef ásamt öðrum bloggara notið þess vafasama heiðurs að vera nefndur síðastliðið vor í ritgerð til BA gráðu hjá nemanda á Bifröst, þar sem agnúast er út í það að við höfum ekki samþykkt það fyrir okkar parta að það liggi fyrir einhver þjóðarsamþykkt um að hér skuli vera fjölmenningarsamfélag. Virðist höfundur ritgerðarinnar velta því fyrir sér hvort þessi afstaða okkar stafi af þekkingarskorti eða hræðslu nema hvorttveggja sé, að minnsta kosti hljóti að vera fyrir hendi ákveðnir fordómar gagnvart fjölmenningarsamfélagi ?

Þarna eru notaðar enn sem fyrr hinar margþvældu aðferðir fjölmenningarsinna, að bregða þeim sem ekki hafa sömu skoðanir og þeir, um fordóma og þekkingarskort. Hræðsla er svo þarna nefnd líka - svona sem aukaálegg á sneiðina. Ég spyr nú bara: Er þetta inntak þeirrar menntunar sem fólk á að fá í framhaldsskólum hér, að tala niður til þeirra sem hafa andstæðar skoðanir, með hrokafullum hætti ?

Hvar er afstaðan til eðlilegs lýðræðis, hvar er sú meginregla að þjóð eigi að fá að kjósa um það hvert stefna beri ? Er það bara talið nóg, að einhver menningarelíta ákveði að þjóðfélag okkar skuli vera fjölmenningarþjóðfélag, þá sé gjörningurinn gildur ? Ég sem frjáls Íslendingur viðurkenni ekkert slíkt vald og mun aldrei líta á íslenskt samfélag sem fjölmenningarsamfélag nema þjóðin sjálf samþykki slíkt í frjálsum kosningum !

Þegar uppskólaðir fjölmenningarsinnar fjölyrða með þessum og viðlíka hætti um fordóma annarra, eru þeir í raun og veru bara að upplýsa fólk um eigin fordóma og vanhæfni til að viðurkenna rétt annarra til að hafa skoðanir. Þessi rétthugsunarplága sem merkt hefur menntafólk svo afgerandi á undanförnum árum er meinsemd sem hlýtur að skaða hvert samfélag sem vill kenna sig við lýðræði. Uppskrúfuð sérfræðiálit og svokallaðar faglegar umsagnir langskólagenginna einstaklinga um málefni samfélagsins geta aldrei og mega aldrei taka völdin án aðkomu þjóðarinnar. Þá erum við einfaldlega ekki lengur lýðræðislegt þjóðfélag og sú hætta getur hæglega skapast að örlög þjóðarinnar verði ákveðin af öflum sem eiga ekki að ákveða þau !

Raunhæf menntun er að sjálfsögðu góð og á að styrkja einstaklinga sem samfélög, en þegar menntun fer að hætta að vera raunhæf og er farin að snúast mestmegnis um upphafningu sjálfsins og kröfu um rétthugsun sem allir eigi að fylgja, er menntunarstig manna farið að breytast í andstæðu sína. Skoðanakúgun í krafti einhverra ætlaðra menntunarlegra yfirburða er eins og öll önnur kúgun og engu betri – hún er ill og andfélagsleg !

Íslenska þjóðin hefur ekki ákveðið það í frjálsum kosningum að hér skuli vera fjölmenningarsamfélag og meðan svo er hafa engin stjórnvöld hér rétt til þess að draga alla í þann dilk og nota almenningssjóði til að hygla hér fjölmenningarlegum viðhorfum í samráði við háværan – „menntaðan“ – menningarelítu –hóp !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 58
  • Sl. sólarhring: 115
  • Sl. viku: 1487
  • Frá upphafi: 315657

Annað

  • Innlit í dag: 39
  • Innlit sl. viku: 1191
  • Gestir í dag: 34
  • IP-tölur í dag: 34

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband