Leita í fréttum mbl.is

Tyrkneski Trójuhesturinn !

Hin fornfræga borg Trója var staðsett í Litlu Asíu og rústir hennar eru því innan landamæra Tyrklands. Flestir vita hvernig Grikkjum tókst að vinna borgina eftir að hafa setið um hana – að sagt er – í tíu ár. Það var ekki hugrekki Grikkja sem réð úrslitum því Trójumenn voru þeim ekki síðri í þeim efnum, jafnvel hinn ósigranlegi Akkilles varð að lúta þar í gras. Nei, það var grísk slægð sem varð borginni að falli. Og slægðin er víða til staðar enn í dag og gerir mörgum grikk !

Sumir vilja nú veita Tyrkjum aðild að Evrópusambandinu, hleypa 80 milljón Tyrkjum þar inn. En margir gjalda varhug við því og jafnvel Giscard gamli d´Éstaigne, fyrrverandi forseti Frakklands, harðsoðinn Evrópusambandsmaður, hefur sagt að það myndi þýða endalok sambandsins. David Cameron forsætisráðherra Bretlands hefur hinsvegar gefið yfirlýsingar um að hann sjái ekkert athugavert við inngöngu Tyrkja í sambandið svo framarlega sem þeir uppfylli sett skilyrði !

Það er því ljóst að skoðanir eru skiptar meðal evrópskra ráðamanna varðandi þetta stóra mál og margir þeirra virðast hreint ekki átta sig á því að Tyrkir eru ekki Evrópuþjóð og verða það líklega seint. En Tyrkir eru slægir og pólitík þeirra í meira lagi lúmsk og þeir hafa spilað á ýmsa strengi í samskiptum sínum við ríki Evrópu til þessa og sumir átt erfitt með að sjá við bragðvísi þeirra.

En það þarf enginn að velkjast í vafa um það að Tyrkjum er vel í minni fyrri stórveldistíð og sagan segir okkur að full ástæða sé til þess fyrir ríki Evrópu að vera á verði gagnvart þeim. Það er ekki lengra síðan en 1683 sem 200.000 manna tyrkneskur her flæddi yfir ungversku sléttuna og réðist inn í Austurríki, hóf umsát um Vín, og munaði minnstu að borgin félli. Í heila tvo mánuði vörðust íbúar hennar herskörum soldánsins sem gerðu 16 sinnum áhlaup á lága borgarveggina. Hverja nótt blossuðu neyðar-raketturnar án afláts frá turni Stefáns-dómkirkjunnar og margt virtist benda til að Vín hlyti sömu örlög og Konstantinópel 1453, það er að segja að önnur Evrópuríki gerðu ekkert í málum og enginn kæmi til hjálpar !

En hættan af yfirgangi Tyrkja var þá orðin svo mikil, að Evrópuríkin áttuðu sig í tíma. Þau lögðu margskonar ágreiningsmál sín til hliðar og mynduðu öflugan her sem flýtti sér til hjálpar. Þann 12. september náði þessi evrópski varnarher fram og frelsaði Vínarborg með afgerandi sigri í stórorustunni við Kahlenberg. Hálfmáninn fjarlægðist sjóndeildarhringinn sem ógn við Evrópu og allir drógu andann léttar. En þegar orustur vinnast ekki, kemur slægðin oft til skjalanna og þá fellur kannski borg sem ekki vannst í orustu !

Á 18. og 19. öld urðu Tyrkir samt fyrir áframhaldandi bakslagi á fyrra veldi sínu og ýmis lönd sem þeir höfðu lagt undir sig náðu að verða sjálfstæð á ný. Balkanskaginn tapaðist þeim en þeir höfðu samt sett sitt mark á þjóðlíf manna þar. Albanska þjóðin til að mynda sneri baki við kristinni arfleifð þjóðhetjunnar Georgs Kastriota, sem Tyrkir kölluðu Iskender Bey eða Skanderbeg, og tók Múhameðstrú að mestu og hluti serbnesku þjóðarinnar afneitaði kristni og gerðist múslimsk til að geta lifað í náð tyrknesku drottnaranna !

Í 500 ár þoldu kristnir Serbar hinsvegar kúgun og þrælkun Tyrkja meðan samlöndum þeirra sem höfðu gerst múslimar var hyglað í bak og fyrir. Vestrænt fylgi við serbneska múslima í Bosníu og Herzegovinu í uppgjöri suðurslava fyrir síðustu aldamót, var þó lagt út sem mannréttindaskylda, en enginn studdi kristna Serba í 500 ára þolraun þeirra undir harðstjórnaroki Tyrkja. Í riti sínu Fjallakransinum lýsir Peter Negos þeirri baráttu sem þá var háð af þjóð, sem var gleymd af öðrum þjóðum Evrópu, baráttu sem stóð um aldir við ofurefli múslima sem studdust við serbneska þjóðsvikara og yfirlýsta trúníðinga !

Í lok 20. aldar var samúð vestur-evrópskra ríkja hinsvegar öll með afkomendum þessara serbnesku trúskiptinga og saga hins liðna söltuð í gleymsku með allri þeirri þjáningu sem hún býr þó yfir. Þessvegna var alltaf vísað til deiluaðila í öllum fréttaflutningi með þeim hætti sem gert var, talað um Serba og Króata og múslima ! Þriðji hópurinn fékk ekki þjóðlega tilvísun heldur trúarlega ! Skýringin var sú að hefði þar líka verið talað um Serba hefði það líklega kallað á réttar sögulegar upplýsingar og áróðursmálalið múslimavina í evrópskum fjölmiðlum, sem sumir eru jafnvel í eigu múslima, gerði sér ljóst að þær skýringar myndu ekki koma sér vel !

Þess má svo geta varðandi Georg Kastriota (Skanderbeg), að þann 27. október 2005 samþykkti þing Bandaríkjanna heiðursályktun vegna þess að 600 ár voru þá liðin frá fæðingu hans. Þar er Kastriota lýst sem stórbrotnum pólitískum leiðtoga og hernaðarlegum snillingi og honum þakkað fyrir hans hlutverk í því að bjarga Vestur Evrópu frá því að verða hernumin af tyrkneska stórveldinu !

Seint verður þó hægt að hrósa Bandaríkjunum fyrir að sinna hliðstæðu hlutverki nú á tímum, en þau hafa löngum sleikt sig upp við Tyrki. En allir hafa viljað nýta sér orðspor Skanderbegs. Þýskaland nazismans stofnaði árið 1944 sérstaka fjallaherdeild innan SS sem látin var bera nafn hans. Uppistaðan í þeirri herdeild voru 6491 Kosovo Albanir ! Þeir börðust þá með nazistum eins og til dæmis hin illræmda Ústasjahreyfing Króata !

Samúð manna virðist býsna oft hallast að röngum aðilum, ekki síst þegar ekki er mikill áhugi fyrir því að kynna sér sögu þá sem liggur að baki þeirri atburðarás sem á sér stað í nútímanum og skýrir hana oft að miklu leyti. En löngum vill það verða svo, að áróður á ekki mikla samleið með sannleikanum !

Þó að Tyrkir hafi farið að nútímavæðast eftir að soldánsdæmið var afnumið og Mustafa Kemal náði völdum, hafa þeir samt enn í dag aðra sýn á flest mál en þjóðir Evrópu. Stóraukinn hernaðarmáttur þeirra hefur hinsvegar valdið því að áhrif þeirra eru talsverð og ekki síst vegna þess að þeir eru aðildarþjóð að Nato. Evrópsk ríki og yfirstjórn Nato forðast að styggja þá !

En Tyrkir eru býsna tvöfaldir í roðinu sem fyrr segir og átökin í Sýrlandi hafa til dæmis sýnt fram á það að margra mati að tyrknesk yfirvöld hafi þar leikið tveim skjöldum og hreint ekki sýnt sig í neinum takti við vestræn sjónarmið. Hugsanlega geta líka verið ýmis tengsl milli islamska ríkisins og tyrkneskra yfirvalda þó leynt fari og seint munu Tyrkir veita Kúrdum liðsinni !

Það þarf því enginn að efast um að allt sem stækkar hlut Kúrda í átökunum þarna austurfrá er og verður eitur í beinum Tyrkja. Kúrdar hafa lengstum verið landlaus þjóð og þurft að berjast hart fyrir tilverurétti sínum og ekki síst gegn tyrkneska valdinu. Þeir hafa í mörgu borið hitann og þungann í stríðinu við hið svokallaða islamska ríki og verðskulda stuðning frá Vesturlöndum og Nato, en Tyrkir munu reyna allt sem þeir geta til að halda Kúrdum utan við allt.

Ef Tyrkland verður aðili að Evrópusambandinu mun það þýða að Trójuhestur hafi verið dreginn inn í Brussel-kastalann, sem líklegur er til að hafa sömu verkanir þar og fyrirrennari hans forðum hafði í Tróju. Tyrkland mun ekki efla Evrópusambandið – heldur þvert á móti auka misklíð og sundrungu innan þess og skýringin er ósköp einföld – Tyrkland á ekki og mun ekki eiga samleið með ríkjum Evrópu !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 339
  • Sl. sólarhring: 344
  • Sl. viku: 1435
  • Frá upphafi: 315340

Annað

  • Innlit í dag: 306
  • Innlit sl. viku: 1127
  • Gestir í dag: 293
  • IP-tölur í dag: 293

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband